Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Kópavogskaupstaður - Málsmeðferð og afgreiðsla verksamninga

Helga Sigurjónsdóttir 1. júlí 1996 96020013

Hrauntungu 97 1001

200 Kópavogur

Vísað er til fyrri bréfaskrifa varðandi veðleyfi og verksamninga hjá Kópavogskaupstað. Í samtali þann 9. maí 1996 óskuðuð þér eftir áliti ráðuneytisins varðandi hver teljist vera eðlileg málsmeðferð á verksamningum hjá sveitarfélagi, m.a. um hvort afgreiða skuli þá í bæjarráði eða bæjarstjórn.

Um hlutverk bæjarstjórnar Kópavogskaupstaðar er fjallað í 3. gr. samþykktar um stjórn Kópavogskaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 262/1990, en þar segir svo:

“Bæjarstjórn fer með stjórn Kópavogskaupstaðar skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga og annarra laga. Jafnframt fer bæjarstjórn með yfirstjórn stofnana og fyrirtækja á vegum bæjarins, að svo miklu leyti sem bæjarstjórn hefur ekki falið öðrum slíka yfirstjórn.”

Í 53. gr. samþykktarinnar eru ennfremur ákvæði um hlutverk bæjarráðs og segir þar svo:

“Bæjarráð fer ásamt bæjarstjóra með framkvæmdastjórn bæjarins og fjármálastjórn að því leyti sem slík stjórn er ekki öðrum falin. Bæjarráð hefur umsjón með stjórnsýslu bæjarins, undirbúningi árlegrar fjárhagsáætlunar, semur drög að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og bæjarfyrirtækja að fengnum tillögum hlutaðeigandi stjórna og leggur þau fyrir bæjarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þá sér bæjarráð um, að ársreikningar bæjarsjóðs séu samdir og þeir ásamt ársreikningum bæjarstofnana lagðir fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu, svo sem sveitarstjórnarlög mæla fyrir um.

Bæjarráð gerir tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála, sem það fær til meðferðar. Bæjarráði er þó heimil fullnaðarafgreiðsla mála, sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur um afgreiðslu málsins í bæjarráði eða við bæjarstjóra. Verði ágreiningur um afgreiðslu mála í bæjarráði fer málið til afgreiðslu í bæjarstjórn og ber forseta að taka það þar til sérstakrar afgreiðslu. Bæjarráð ákveður skiptingu og ráðstöfun fjár, sem ætlað er til einstakra málaflokka skv. fjárhagsáætlun, s.s. til gatnagerðar, nýbygginga og óvissra útgjalda.

Þá getur bæjarstjórn falið bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg.”

Um hlutverk bæjarstjóra eru síðan ákvæði í 65. gr. samþykktarinnar og í 1. mgr. segir m.a. svo: “Bæjarstjóri hefur á hendi framkvæmd ákvarðana bæjarstjórnar og bæjarmálefna að svo miklu leyti sem bæjarstjórn hefur ekki ákveðið annað.”

Samkvæmt ofangreindum ákvæðum er það fyrst og fremst hlutverk bæjarstjórnar að samþykkja verksamninga vegna framkvæmda á vegum sveitarfélagsins. Bæjarráði er þó heimilt að taka slíkar ákvarðanir ef ekki er ágreiningur innan bæjarráðs eða við bæjarstjóra um málið og málið varðar jafnframt ekki verulega fjárhag bæjarsjóðs eða stofnana hans. Bæjarstjóra er heimilt að ganga frá slíkum samningum ef fyrir liggur heimild til þess frá bæjarráði eða bæjarstjórn, enda er hans hlutverk fyrst og fremst að framkvæma ákvarðanir bæjarráðs og bæjarstjórnar.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta