Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Akureyrarkaupstaður - Skylda til að birta reglur, samþykktir og tilkynningar bæjarstjórnar í B-deild Stjórnartíðinda

Akureyrarkaupstaður 9. ágúst 1999 99070027

Baldur Dýrfjörð, bæjarlögmaður 16-6000

Geislagötu 9

600 Akureyri

Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 8. júlí 1999, þar sem óskað er eftir túlkun ráðuneytisins á því hvort birting reglna, samþykkta og tilkynninga bæjarstjórnar eigi ætíð að fara fram í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda nr. 64/1943.

Um birtingu stjórnvaldsfyrirmæla í B-deild Stjórnartíðinda er ákvæði í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943. Í ákvæðinu kemur meðal annars fram að birta skuli í B-deild Stjórnartíðinda reglugerðir, erindisbréf, samþykktir og auglýsingar sem eru gefnar út eða staðfestar af ráðherra, umburðarbréf, ákvarðanir og úrlausnir ráðuneyta, sem hafa almenna þýðingu og reikninga sjóða, ef mælt er fyrir um það í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra. Í síðasta málslið sömu greinar kemur fram að einnig skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið að gefa út samkvæmt lögum.

Síðasta málslið 1. mgr. 2. gr. var bætt við greinina með lögum nr. 95/1994. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að framangreindum lögum segir svo:

„Frumvarp þetta er samið í dóms- og kkirkjumálaráðuneytinu. Er þvíætlað að gera þeim opinberu stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, sem er falið að gefa út reglur um tiltekin málefni samkvæmt ákvæðum í lögum, mögulegt að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur er þau setja. Eins og málum er nú háttað er einungis unnt að birta í B-deild Stjórnartíðinda reglugerðir og annars konar reglur sem gefnar eru út af ráðherra og ráðuneyti. Hafa opinber stjórnvöld og stofnanir því ekki átt þess kost að koma slíkum reglum eða uppplýsingum um þær á framfæri í Stjórnartíðindum. Það verður hins vegar að telja til hagræðis að unnt sé að leita slíkra reglna í sama riti og er að finna þær reglur sem útgefnar eru af ráðuneytum. Hefur því verið valinn sá kostur að leggja til að heimila þessum opinberu stjórnvöldum og stofnunum að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur sem þeim ber lögum samkvæmt að gefa út.

Með því að lögbinda á þennan hátt að birtar skuli í B-deild Stjórnartíðinda slíkar reglur er ljóst að fyrirmæli þau sem í þeim felast taka gildi og hafa bindandi verkanir á sama hátt og reglugerðir og auglýsingar sem gefnar eru út af ráðuneytum, sbr. 7. gr. laganna.“ (Undirstrikun ráðuneytisins.)

Í úrskurði ráðuneytisins frá 30. apríl 1998 varðandi vatnsgjald í Reykjavík, sem fylgir hér með í ljósriti til fróðleiks, kemur fram að síðasti málsliður 1. mgr. 2. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda nr. 64/1943 veiti opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, heimild til að birta reglur í B-deild Stjórnartíðinda, en leggi ekki skyldu á herðar þeirra þegar venja hefur verið að birta viðkomandi stjórnvaldsfyrirmæli með öðrum hætti.

Með hliðsjón af framangreindu, sérstaklega hinum tilvitnuðu athugasemdum með frumvarpinu, telur ráðuneytið að bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar sé heimilt að birta í B-deild Stjórnartíðinda þær reglur sem bæjarstjórninni er falið að gefa út lögum samkvæmt, en að síðasti málsliður 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, sbr. lög nr. 95/1994, feli ekki í sér skyldu fyrir bæjarstjórn að birta reglurnar í B-deild Stjórnartíðinda. Ákvörðunin um birtingarhátt er því í höndum bæjarstjórnar þegar lög kveða ekki á um annað.

Rétt er að taka það fram að séu reglur birtar í B-deild Stjórnartíðinda á þennan hátt, á 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 64/1943 við um gildistöku og skuldbindingargildi þeirra fyrirmæla sem felast í viðkomandi reglum.

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta