Úrskurður í máli nr. SRN18100069
Ár 2019, þann 29. nóvember, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. SRN18100069
Kæra X
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Þann 19. október 2018 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærandi), kt. 000000-0000, á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 27. september 2018 um að synja kæranda um útgáfu haffæriskírteinis fyrir skipið X. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á útgáfu haffæriskírteinis.
Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
II. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins
Málavextir eru þeir að í apríl 2018 sendi kærandi teikningar af skipinu X til SGS og óskaði eftir haffæri. Þann 1. júní 2018 var skipinu veitt haffæri í alls 15 daga. Sótti kærandi þá um framlengingu á haffæri til loka ágúst og þann 10. júlí 2018 var skipinu veitt haffæri til 1. september sama ár. Eftir það áttu sér stað nokkur samskipti milli kæranda og SGS vegna veitingar haffæris fyrir skipið. Þann 27. september 2018 tilkynnti SGS kæranda að ekki væri fallist á að veita skipinu haffæri. Eftir frekari samskipti kæranda við SGS var ákvörðun SGS kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kæranda mótteknu 19. október 2018. Með tölvubréfi kæranda 24. október 2018 var þess farið á leit að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar í ráðuneytinu. Þann sama dag sendi SGS tölvubréf á kæranda þar sem fram kom að synjað væri um útgáfu haffæriskírteinis.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 24. október 2018 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 16. nóvember 2018.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 22. nóvember 2018 var kæranda kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.
Með úrskurði ráðuneytisins þann 21. nóvember 2018 var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa synjað.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kemur fram að aðeins sé ágreiningur um það hvort lögbundið sé að setja fast slökkvikerfi í vélarkassa skipsins eða hvort handslökkvitæki um borð í skipinu dugi. Byggir kærandi á því að skipið X uppfylli allar kröfur laga um haffærni og athugasemdir SGS eigi ekki við rök að styðjast.
Kærandi vísar til þess að SGS geri athugasemdir við það að í umræddu skipi sé ekki fast slökkvikerfi og vísi stofnunin til gr. 5.1 í Norðurlandareglum því til stuðnings. Bendir kærandi á að sú grein kveði á um að bátar, með mesta lengd 8 metra og þar yfir, skuli búnir föstum slökkvibúnaði í vélarúmi. Nálgun SGS byggist á því að umræddur bátur sé búinn sérstöku vélarúmi en það sé ekki rétt. Staðreyndin sé sú að í skipinu sé ekkert vélarúm heldur vélakassi. Geri reglurnar mun á vélarúmi/rými annars vegar og vélakassa hins vegar. Ef vélarúm og vélakassi væri einn og sami hluturinn væri ekki vísað til hvors tveggja heldur sama heitið notað um bæði. Við úrlausn málsins sé jafnframt til þess að líta að SGS geri ekki kröfu um að rýmið utan um vélina sé vatnsþétt nema upp að hleðsluvatnslínu. Þá geri SGS ekki kröfu um lokun loftrása líkt og gert er í lokuðum bátum með vélarými. Þetta þýði að ef slökkvikerfi er sett í vélakassa og hann er opinn ofan við hleðsluvatnslínu þá sé tilgangslaust að sprauta kolsýru út í loftið. Sé það beinlínis hættulegt þeim sem um borð eru. Telur kærandi þannig að nálgun SGS standist ekki, enda megi ljóst vera að boðuð fyrirmæli um fast slökkvikerfi muni aldrei ná settu markmiði um að vera í eðli sínu slökkvikerfi.
Varðandi teikningu nr. 75-1400-2 bendir kærandi á SGS hafi gert athugasemdir við hana þann 9. október 2018. Hafi teikningin áður verið samþykkt árið 2010. Hafi engar skýringar borist frá SGS um ástæður athugasemdarinnar og hvað valdi því að teikningin sé tekin upp nú, átta árum eftir að hún var samþykkt. Telur kærandi að aðferðafræði SGS hvað þennan þátt málsins varðar standist ekki. Ekkert í lögum heimili stjórnvöldum líkt og SGS að fella áður veitt samþykki úr gildi án gildra röksemda. Umrædd teikning hafi á engu stigi verið til umræðu. Sé teikningin óbreytt frá því sem hún var árið 2010. Kannist kærandi ekki við að breytingar hafi orðið á reglum sem geti skýrt hina óvæntu stefnubreytingu SGS hvað teikninguna varðar. Verði ekki séð að þessi málsmeðferð samrýmist ákvæðum stjórnsýslulaga um afturköllun á samþykki teikningarinnar. Þá telur kærandi að málsmeðferðin sem slík fari gegn stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttar, enda eigi kærandi ekki að þurfa að sæta því að SGS þvæli umsókn hans fram og aftur og beri á borð nýjar athugasemdir eftir því sem henti hverju sinni, og að mati kæranda í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir haffæri skipsins. Sé málsmeðferð SGS í engu samræmi við eðlilega stjórnsýsluhætti. Telur kærandi að ekki standi rök til þess að synja skipinu um haffæri.
IV. Ákvörðun og umsögn SGS
Af hálfu SGS er vísað til þess að samkvæmt ákvæðum laga nr. 119/2012 fari SGS með stjórnsýslu í samgöngumálum, þ.á.m. eftirlit með skipum. Samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003 sé nýsmíði skipa háð eftirliti SGS í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur. Um smíði vinnubáta undir 15 metrum gildi reglur um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum nr. 592/1994, svo nefndar Norðurlandareglur. Reglurnar geri að einhverju leyti mismunandi kröfur eftir lengd báta. Þannig sé t.d. gerð krafa um fast slökkvitæki í vélarúmi fyrir báta yfir átta metrum. Þá bendir SGS á að þann 16. apríl 2018 hafi teikning nr. 00-0000-0 verið send stofnuninni til samþykktar vegna lengingar á bátnum upp fyrir átta metra og hafi hún verið samþykkt með athugasemdum. Sams konar teikning hafi verið yfirfarin þegar báturinn var smíðaður árið 2010 með sams konar athugasemdum varðandi þéttingu á vélarúmi. Áréttar SGS að frestur sá sem kæranda var veittur í júní 2018 hafi verið til að gefa kæranda færi á að senda inn teikningar og fá þær samþykktar með tilliti til krafna um slökkvikerfi. Hafi síðar orðið ljóst að kærandi hygðist ekki verða við kröfu um fast slökkvikerfi í vélarúmi.
SGS tekur fram að stofnunin geti ekki fallist á það sjónarmið kæranda að Norðurlandareglurnar geri ekki ráð fyrir slökkvikerfi í vélakassa heldur aðeins vélarúmi. Að mati SGS nái hugtakið vélarúm til allra rýma sem geyma vél. Þar geti t.d. verið um að ræða vélakassa eða annars konar rými sem hýsi vél. Reyndar komi hugtakið vélakassi ekki oft fyrir í reglunum en minnst sé á það í reglu 3.1, kafla V-4, þar sem sé að finna fyrirmæli um lúgur á vélarúmi eða vélakössum. Í enskri útgáfu reglnanna sé í þessu samhengi aðeins talað um „machinery space“. Í reglu 5.1, kafla V-14, sé að finna reglur um brunavarnir fyrir alla báta yfir 8 metrum. Þar komi fram krafa um fastan slökkvibúnað í vélarúmi. Gangi reglurnar út frá að í öllum bátum sem falla undir reglurnar sé að finna vélarúm, hvernig svo sem það er úr garði gert, enda sé í reglunni ekki sett fram sérregla vegna vélakassa. Til frekari áréttingar megi einnig líta til annarra ákvæða reglnanna um vélarúm. Líta megi til reglu 2.3 í kafla V-14 sem mæli fyrir um að gaslagnir megi ekki leggja í vélarúm. Í reglu 1, kafla V-6/1.1, komi fram að í opnum bátum skuli vélarúm vera aðskilið vatnsþétt frá öðru rými bátsins frá botni og upp að hleðsluvatnslínu eða plittum, hvort heldur sem er hærra. Ef fallast ætti á málflutning kæranda væri leyfilegt að leggja gaslagnir í vélakassa og engin þörf væri á að kassinn væri vatnsþéttur. Telur SGS að slík túlkun væri harla langsótt. Þá bendir SGS á að í kæru komi fram að stofnunin geri ekki kröfu um að rýmið utan um vélina sé vatnsþétt nema upp að hleðsluvatnslínu. Þar sem um sé að ræða opinn bát sé þessi krafa í samræmi við reglur um vatnsþétt vélarúm, sbr. reglu 1.1, kafla V-6. Þá geri SGS ekki kröfu um lokun loftrása líkt og gert sé í lokuðum bátum með vélarými. Áréttar SGS að um sé að ræða opinn bát. Hvað varðar fullyrðingar kæranda um að téð fyrirkomulag valdi því að kolsýra sprautist út í loftið ef slökkvikerfið fer í gang, áréttar SGS að reglan sé skýr auk þess sem að sú staðreynd að ekki sé gerð krafa um lokun loftrása rýri ekki notagildi slökkvimiðilsins að því marki sem kærandi heldur fram. Varðandi afgreiðslu teikninga áréttar SGS að um sé að ræða athugasemdir sem gerðar hafi verið vegna samþykktar teikningarinnar árið 2010. Hafi báturinn verið lengdur yfir átta metra og þar komi inn krafa um fast slökkvikerfi í vélarúmi líkt og rakið hafi verið. Sé þannig um að ræða áréttingu á athugasemdum sem gerðar hafi verið árið 2010 sem og að krafa um fast slökkvikerfi gildi þegar báturinn hefur verið lengdur yfir átta metra. Þá kemur fram í tölvubréfi SGS til kæranda, dags. 24. október 2018, að athugasemd sé á skipinu með dæmingu 3 á fast slökkvikerfi fyrir vélarúm. Frestur hafi verið veittur til að setja slökkvikerfið um borð til 1. september 2018. Þar sem slökkvikerfið sé ekki í bátnum sé ekki heimild til útgáfu haffærisskírteinis, enda sé um að ræða dæmingu 3 á skoðunaratriði.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Til umfjöllunar er ákvörðun SGS frá 27. september 2018 um að synja kæranda um útgáfu haffæriskírteinis fyrir skipið X. Var framangreind synjun áréttuð með tölvubréfi SGS til kæranda dags. 24. október 2018.
Um eftirlit með skipum gilda lög með því sama nafni nr. 47/2003. Um útgáfu haffærisskírteina er fjallað í 16. gr. laganna og 21. gr. reglugerðar um skoðanir á skipum og búnaði þeirra nr. 1017/2003. Í 1. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að skoðunargerð er lokið úrskurði SGS hvort fullnægt er ákvæðum laga og reglna um smíði, búnað og örugga starfsemi skips og hvort útgáfa skírteina, áritun eða endurnýjun þeirra eigi sér stað. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. getur SGS ef í ljós kemur að skip, búnaður, eða örugg starfsemi er ekki í samræmi við lögin, reglur eða önnur fyrirmæli fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests. Þá kemur fram í 1. tl. 17. gr. laganna að skip skuli telja óhaffært ef það hefur ekki gilt viðeigandi skírteini eða haffærisskírteini samkvæmt reglum settum samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykkta og/eða samnings um Evrópska efnahagssvæðið.
Ráðuneytið tekur fram að hin kærða ákvörðun lýtur að því að synja beiðni kæranda um útgáfu haffæriskírteinis fyrir skipið X. Liggur fyrir að skipinu hafði áður verið veitt tímabundið haffæri í tvígang til að gefa kæranda færi á að bregðast við athugasemdum. Í seinna skiptið var skipinu veitt haffæri til 1. september 2018.
Um smíði vinnubáta undir 15 metrum gilda reglur nr. 592/1994 um smíði og búnað báta með mestu lengd allt að 15 metrum, svo nefndar Norðurlandareglur. Samkvæmt reglunum eru að einhverju leyti gerðar mismunandi kröfur eftir lengd báta. Liggur fyrir að samkvæmt reglunum er gerð krafa um fast slökkvikerfi í vélarúmi báta yfir átta metrum.
Ráðuneytið telur að fallast beri á þann skilning SGS að hugtakið vélarúm nái yfir öll rými sem geyma vél, hvort sem um er að ræða vélakassa eða annars konar rými þar sem vél er hýst. Í reglu 5.1, kafla V-14, er að finna reglur um brunavarnir fyrir báta yfir átta metrum. Er þar gerð krafa um fastan slökkvibúnað í vélarúmi. Ganga reglurnar út frá því að í öllum bátum sem falla undir reglurnar sé að finna vélarúm, hvernig svo sem það er úr garði gert. Er tilgreind regla um fastan slökkvibúnað án undantekninga. Í því ljósi er það mat ráðuneytisins að SGS hafi verið rétt að synja kæranda um útgáfu haffæriskírteinis þar sem slíkt slökkvikerfi hafi ekki verið í skipinu.
Hvað varðar afgreiðslu teikninga tekur ráðuneytið fram að frá því að teikningar voru upphaflega samþykktar hefur báturinn verið lengdur yfir átta metra. Við þá breytingu kemur inn krafa um fast slökkvikerfi í vélarúmi sem fjallað hefur verið um hér að framan. Í því ljósi telur ráðuneytið ekki tilefni til að gera athugasemdir við þennan þátt málsins.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 27. september sl. um að synja X. um útgáfu haffæriskírteinis fyrir skipið X.