Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mosfellsbær - Breytingar á skipulagi heimanaksturs grunnskólanemenda úr dreifbýli, jafnræðisregla

B&B Lögmenn 10. desember 2002 FEL02070082/1001

Halldór H. Backman, hdl.

Lágmúla 7

108 REYKJAVÍK

Hinn 10. desember 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi, dagsettu 4. júlí 2002, kærði Halldór B. Backman hdl., f.h. A, þá ákvörðun bæjarráðs og skólayfirvalda í Mosfellsbæ, sem tilkynnt var með bréfi dags. 23. ágúst 2001, að hætta skólaakstri heim til kæranda, sem er búsett að bænum X í Mosfellsbæ, og gera henni að aka börnum sínum í veg fyrir skólabifreið gegn þóknun sem er einhliða ákveðin af sveitarfélaginu.

Krafa kæranda er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að sinna lögboðinni skyldu sinni og flytja börn kæranda til og frá grunnskóla í samræmi við ákvæði grunnskólalaga, nr. 66/1995, um heimanakstur frá og með upphafi skólaársins 2002–2003.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 2002, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Mosfellsbæjar um málið. Með bréfi dagsettu sama dag óskaði ráðuneytið einnig eftir sjónarmiðum kæranda um ástæður þess að kæra barst ráðuneytinu ekki fyrr en meira en tíu mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda og hvaða sjónarmið kærandi teldi að leitt gætu til þess að víkja bæri frá almennum kærufresti skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 28. gr. sömu laga. Umsögn Mosfellsbæjar barst með bréfi forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar, dags. 12. september 2002, og svar kæranda barst með bréfi, dags. 19. ágúst 2002.

Málavextir

Kærandi byggir einkum á því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins með því að henni var gert að aka börnum sínum að morgni í veg fyrir skólabifreið og að sækja þau síðdegis á sama stað, sem er í um 6 km fjarlægð frá heimili kæranda. Upphaflega buðust bæjaryfirvöld til að greiða kæranda 140.140 kr. fyrir þennan akstur en með bréfi, dags. 20. október 2001, var kæranda tilkynnt að greiðslan myndi nema alls 411.336 kr. á því skólaári. Kærandi telur að þrátt fyrir að hún hafi móttekið greiðslu fyrir aksturinn án fyrirvara hafi hún ekki fyrirgert rétti sínum til að krefjast skaðabóta vegna vinnutaps sem hún og eiginmaður hennar hafi orðið fyrir og telur kærandi að það geti numið hærri fjárhæð en sem nemur greiðslum frá Mosfellsbæ.

Þá liggur fyrir í málinu að hin kærða ákvörðun var tekin án þess að aflað væri umsagnar foreldraráðs Varmárskóla eins og skylt var skv. 16. gr. grunnskólalaga. Fram kemur í umsögn Mosfellsbæjar að fyrirhugaðar breytingar voru kynntar með góðum fyrirvara fyrir foreldrum þeirra barna er málið varðaði og einnig liggja frammi gögn um að gerð hafi verið viðhorfskönnun meðal foreldra í byrjun skólaársins 2000–2001 þar sem fram kom mikil andstaða við breytingarnar. Loks liggur fyrir að vegna andmæla kæranda var ákveðið að ákvörðun skólaskrifstofu um skipulag skólaaksturs skyldi lögð fyrir bæjarstjórn og hlaut hún staðfestingu á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 10. október 2001.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi beindi erindi sínu fyrst til menntamálaráðuneytisins með bréfi, dags. 30. ágúst 2001. Í svari ráðuneytisins, sem er dagsett 25. október 2001, segir eftirfarandi:

„Við umfjöllun á bréfi yðar er mikilvægt að hafa í huga að skv. 10. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 er allur rekstur almennra grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Af sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, sem tryggður er með 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, leiðir að sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum, eftir því sem lög ákveða. Hafa sveitarfélögin því sjálfstæða stöðu gagnvart öðrum stjórnvöldum. Þar sem ekki er fyrir að fara slíku stjórnsýslusambandi milli sveitarfélaga og ráðherra, sem er á milli æðra og lægra settra stjórnvalda ríkisins, teljast ákvarðanir sveitarstjórna almennt ekki kæranlegar til ráðherra, nema sérstaklega sé mælt svo fyrir um í lögum.

Þrátt fyrir að grunnskólalög kveði á um að menntamálaráðuneytið skuli fara með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taka til og hafa eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir við þau og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um, verður slík yfirstjórn eða eftirlit ekki talið taka til annarra atriða en þeirra sem tiltekin eru í grunnskólalögum.

Í grunnskólalögum er ekki að finna ákvæði sem fjallar sérstaklega um skyldu sveitarfélaga til að halda uppi skólaakstri. Í 4. gr. grunnskólalaga segir að í strjálbýli skuli miðað við heimanakstur nemenda þar sem því verður við komið en ekki heimavist. Í grunnskólalögum eða í greinargerð með þeim segir hins vegar ekkert um hvernig skipulagi skólaaksturs skuli háttað.

Skv. framansögðu er skipulag skólaaksturs alfarið á vegum sveitarstjórnar og í grunnskólalögum er ekki að finna sérstaka kæruheimild til menntamálaráðherra, vegna ákvarðana sveitarstjórna tengdum skólaakstri.

Ráðuneytið vill hins vegar benda á að skv. 12. gr. grunnskólalaga skal skólanefnd sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu. Í þessu felst að skólanefnd og sveitarstjórn gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru miðað við aðstæður á hverjum stað, til að skólaskyld börn geti sótt skóla. Með hliðsjón af 31. gr. grunnskólalaga verður að líta svo á að áætlanir um skólaakstur séu hluti af starfsemi skólans og skuli því fá umfjöllun í skólanefnd. Jafnframt starfar foreldraráð við hvern grunnskóla skv. 16. gr. grunnskólalaga. Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, og fylgist með að allar áætlanir séu kynntar foreldrum. Foreldraráð skal fá áætlanir um skólahald til umsagnar í tæka tíð til þess að hægt sé að taka athugasemdir þess til greina. Hér er átt við t.d. áform um skólabyggingar, viðhald og aðrar framkvæmdir, búnað skóla og skólaakstur. Með þessu geta foreldrar í vissum skilningi haft eftirlit með starfi skólans og þeim þáttum sem þeim finnst skipta máli varðandi framkvæmd skólahalds.“

Með erindi, dags. 15. apríl 2002, sendi kærandi kvörtun til umboðsmanns Alþingis en í svari umboðsmanns, dags. 7. maí 2002, kemur fram að sökum þess að kæruleið skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, hefði ekki verið tæmd gæti hann ekki tekið erindið til efnismeðferðar. Afréð kærandi þá að senda kæru til félagsmálaráðuneytisins, dags. 4. júlí 2002, og segir kærandi ástæðu þess hve seint kæran barst ráðuneytinu fyrst og fremst vera þá að menntamálaráðuneytið hafi ekki gætt nægilega að leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með því að vekja ekki athygli á þessari kæruleið. Telur kærandi óheimilt að vísa kærunni frá á þeim grundvelli að hún sé of seint fram komin.

Ráðuneytinu barst hinn 5. september 2002 rafpóstur frá forstöðumanni fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar, þar sem fram kemur að hin kærða ákvörðun hefur verið felld úr gildi og að börn frá bænum X njóta nú skólaakstursþjónustu í samræmi við óskir foreldra.

II. Niðurstaða ráðuneytisins

A. Almennt um ágreiningsefnið

Eins og rakið er í áðurnefndu bréfi menntamálaráðuneytisins frá 25. október 2001 eru ekki ákvæði í gildandi grunnskólalögum eða reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra sem kveða á um með hvaða hætti sveitarfélög skuli skipuleggja skólaakstur innan sveitarfélagsins. Þó er í 1. mgr. 4. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, kveðið á um að í strjálbýli skuli miðað við heimanakstur nemenda þar sem því verður við komið en ekki heimavist. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til grunnskólalaga kemur einungis fram að sveitarfélög kosta og bera ábyrgð á skipulagi skólaaksturs og að mikilvægt sé að nemendum sé ekki ofgert með löngum akstursleiðum eða löngum tíma í skólabíl. Í athugasemdum við samhljóða ákvæði eldri grunnskólalaga, nr. 49/1991, segir hins vegar eftirfarandi:

„Merking greinarinnar er nánast óbreytt frá gildandi lögum. Áfram er stefnt að heimanakstri í stað heimavistar. Sveitarstjórnum er heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins að koma á fót skólaseljum þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið. Frumkvæðið er hér fært frá ráðuneytinu til sveitarstjórna. Í greininni er mörkuð sú stefna að yngri börn en 10 ára dvelji ekki í heimavist nema í undantekningartilvikum. Skólasel, sem eru eins konar útibú frá aðalskóla, skulu því koma í stað heimavista fyrir umrædda aldurshópa. Sú stefna að miða við heimangöngu eða akstur í stað heimavista þýðir aukinn skólaakstur. Í gildandi reglugerð um skólaakstur er sú viðmiðun notuð að nemendur séu að jafnaði ekki lengur en 90 mínútur á dag í akstri milli heimilis og skóla eða 45 mínútur hvora leið. Deila má um hver viðmiðunin eigi að vera en margir skólamenn og foreldrar telja 45 mínútna akstur í byrjun og lok hvers skóladags of mikið álag á nemendur, einkum þá yngstu.“

Reglugerðin sem vitnað er til í athugasemdunum er nr. 213/1975, um rekstrarkostnað grunnskóla, en hún er fallin úr gildi án þess að menntamálaráðherra hafi sett reglugerð í hennar stað. Um skipulag skólaaksturs og skilyrði fyrir því að ríkissjóður endurgreiði hluta kostnaðar af akstrinum var fjallað í 22.–30. gr. reglugerðarinnar. Í 2. mgr. 24. gr. var skólanefnd heimilað að ráðstafa framlagi ríkissjóðs til:

a. Kostnaðar vegna skipulagðs skólaaksturs innan eða út fyrir skólahverfi.

b. Kostnaðar við að koma nemanda í vist í nágrenni skóla og/eða á eðlilegri skólaakstursleið.

c. Greiðslu til forráðamanna til þess að aka nemendum að skóla eða að akstursleið skólabifreiðar.

d. Kostnaðar við að koma nemanda að heimavistarskóla utan skólahverfis.

Í 3. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar sagði eftirfarandi:

„Skólanefndum í umboði sveitarstjórna er heimilt að bjóða foreldrum nemenda einn þeirra kosta, er taldir eru að framan undir lið b-d en er þó ekki skylt að skipuleggja akstur þeirra vegna, verði sá kostnaður meiri en kostnaður vegna einhvers valkostar b-d hér að framan, enda sé að dómi fræðslustjóra tryggt, að nemandi fái jafngóða námsaðstöðu við þann valkost.“

Rétt er að geta þess að í álitsgerð umboðsmanns barna frá 9. júlí 1998 eru gerðar alvarlegar athugasemdir við að ekki skuli hafa verið settar lágmarksreglur um tilhögun skólaaksturs hér á landi. Í ársskýrslum umboðsmanns fyrir árin 1999 og 2000 eru einnig rakin með ítarlegum hætti viðbrögð stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga við álitsgerðinni og bréfum umboðsmanns um málið og er ljóst að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir umboðsmanns barna hafa slíkar reglur ekki verið settar. Skal þess getið að í bréfi félagsmálaráðuneytis til umboðsmanns barna, dags. 9. apríl 2001, var tekið undir þau sjónarmið sem rakin eru í fyrrgreindri álitsgerð og lýsti ráðuneytið sig reiðubúið til að taka þátt í undirbúningi reglna um skólaakstur enda þótt það teldi sig ekki að óbreyttum lögum hafa lagaheimild til þess að hafa forgöngu um það verkefni.

B. Um kærufrest og hagsmuni kæranda af niðurstöðu málsins

Í bréfi ráðuneytisins til Mosfellsbæjar, dags. 14. ágúst 2002, voru rakin ákvæði stjórnsýslulaga um kærufrest ásamt ósk um að í umsögn bæjaryfirvalda kæmu fram sjónarmið um hvort rétt væri að víkja frá almennum kærufresti við meðferð þessa máls. Jafnframt var óskað eftir að fram kæmi í umsögninni hvenær hin kærða ákvörðun var tekin og af hvaða stjórnvaldi innan stjórnkerfis Mosfellsbæjar. Þá var óskað upplýsinga um hvort breytt fyrirkomulag skólaaksturs fékk umfjöllun í fræðslunefnd Mosfellsbæjar eða hjá foreldraráði Varmárskóla.

Í umsögn Mosfellsbæjar, sem dagsett er 12. september 2002, er ekki að finna umfjöllun um kærufrest og verður því að líta svo á að bæjaryfirvöld lýsi sig ekki andvíg því að vikið verði frá almennum kærufresti, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með vísan til þess að málið hefur áður verið til umfjöllunar í menntamálaráðuneyti og hjá umboðsmanni Alþingis og að kæranda var ekki gert ljóst fyrr en með bréfi umboðsmanns, dags. 7. maí 2002, að unnt væri að beina stjórnsýslukæru til félagsmálaráðuneytisins á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga er það mat ráðuneytisins að heimilt sé að taka erindi kæranda til afgreiðslu með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og áður er rakið hefur kærandi krafist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ að sinna lögboðinni skyldu sinni og flytja börn kæranda til og frá grunnskóla í samræmi við ákvæði grunnskólalaga, nr. 66/1995, um heimanakstur frá og með upphafi skólaársins 2002–2003. Ráðuneytið óskaði með bréfi, dags. 18. september 2002, eftir sjónarmiðum málsaðila um hvort kærandi hefði lögvarðra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins í ljósi þess að hin kærða ákvörðun hefur nú verið afturkölluð af bæjaryfirvöldum. Var þess óskað að kærandi reifaði stuttlega hvaða lögvarða hagsmuni hún hefði af niðurstöðu málsins ef hún krefðist þess enn að ráðuneytið úrskurðaði um ágreininginn.

Í svari lögmanns kæranda, dags. 28. október 2002, eru færð rök fyrir því að kærandi hafi hagsmuni af efnislegri niðurstöðu ráðuneytisins. Kærandi bendir á að fyrirliggjandi er talsverð réttaróvissa um skyldur sveitarfélaga í tengslum við skólaakstur og að hætta sé á að bæjaryfirvöld ákveði á ný að hætta skólaakstri að og frá heimili kæranda. Þá telur kærandi að ekki felist í ákvörðun Mosfellsbæjar að falla frá fyrri tilhögun skólaaksturs bein viðurkenning á kröfu kæranda eða önnur viðhlítandi trygging fyrir því að bæjaryfirvöld breyti ekki ákvörðun sinni á ný. Einnig telur kærandi ekki loku fyrir það skotið að krefjast skaðabóta vegna fjárhagslegs tjóns það skólaár sem skólaakstur lá niðri, enda hafi kærandi og eiginmaður hennar orðið fyrir talsverðu vinnutapi við það að aka börnum sínum í og úr skóla daglega. Þær greiðslur sem bárust frá Mosfellsbæ hafi ekki verið miðaðar við þetta heldur hafi þær byggst á einhliða ákvörðun bæjaryfirvalda. Efnisleg niðurstaða um kæruna sé nauðsynleg við töku ákvarðana um hugsanlegar bótakröfur. Loks bendir kærandi á að hún hafi orðið fyrir útgjöldum í formi lögmannskostnaðar sem hún hafi í hyggju að krefjast greiðslu á frá Mosfellsbæ.

Tekið skal fram að skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, hefur ráðuneytið hvorki vald til þess að úrskurða um skaðabótaskyldu í máli þessu né getur ráðuneytið fjallað um hvort greiðsla Mosfellsbæjar til kæranda vegna aksturs í veg fyrir skólabíl sé sanngjörn eða að hún hafi svarað þeim kostnaði sem kærandi kann að hafa orðið fyrir vegna breytts skipulags skólaaksturs. Kærandi hefur raunar ekki haft uppi fjárkröfur í málinu eða lagt fram gögn um meint fjártjón sitt og virðast framangreind rök kæranda um fjárhagslega hagsmuni ekki skipta máli við ákvörðun þess hvort vísa beri málinu frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Þrátt fyrir þetta fellst ráðuneytið á að kærandi kunni að eiga lögmæta hagsmuni af því að fá úrskurð um hvort slíkir gallar kunni að hafa verið á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði.

C. Niðurstaða um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar

Málsástæða kæranda um að í hinni kærðu ákvörðun felist brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga er fyrst og fremst reist á því að kærandi telur að vegna búsetu hennar hafi hún fengið minni þjónustu en aðrir íbúar sveitarfélagsins, sem margir hafi fengið heimanakstur fyrir börn sín án þess að greiða sérstaklega fyrir. Með því er kærandi að vísa til þess að samkvæmt reglum um skólaakstur í Mosfellsbæ getur skólaakstur farið fram með þrenns konar hætti, þ.e. með skólabílum, almenningsvögnum eða með sérstökum greiðslum til foreldra vegna eigin aksturs þegar um lengri vegalengdir er að ræða. Einnig telur kærandi að í orðinu „heimanakstur“ felist að barn er býr utan þéttbýlis skuli sótt og því skilað að heimili sínu, en ekki á stað sem er í sex kílómetra fjarlægð þar frá. Telur kærandi að í raun hafi Mosfellsbær verið að þvinga hana sem foreldri til að taka að sér lögboðna skyldu sveitarfélagsins, gegn endurgjaldi sem ekki er nægilegt til að sveitarfélagið hefði getað fengið fólksflutningarfyrirtæki til að annast þjónustuna. Bendir kærandi á að það megi telja algilda meginreglu að opinber þjónusta sem fjármögnuð er með skattheimtu skuli standa til boða öllum þeim sem uppfylla málefnaleg skilyrði.

Jafnframt hefur kærandi haldið fram þeirri málsástæðu að vafi geti leikið á að það standist jafnræðisreglu að allt aðrar reglur gildi um heimanakstur skólabarna frá einu sveitarfélagi til annars, miðað við það sjálfsagða og yfirlýsta markmið stjórnvalda að allir skuli njóta jafns aðgangs að námi.

Eins og rakið var að framan virðist sveitarstjórnum um langt skeið hafa verið heimilt að ákveða, meðal annars á grundvelli 24. gr. reglugerðar nr. 213/1975, um rekstrarkostnað grunnskóla, hvaða fyrirkomulag skólaaksturs hentaði best í þeirra sveitarfélagi. Þar sem gildandi grunnskólalög, nr. 66/1995, kveða ekki á um annað telur ráðuneytið ekki unnt að verða við þeirri kröfu að ráðuneytið úrskurði að Mosfellsbæ sé skylt að haga skólaakstri með ákveðnum hætti. Þá telur ráðuneytið að orðið „heimanakstur“, sbr. 1. mgr. 4. gr. þeirra laga, verði ekki túlkað á þann hátt að í því felist skylda fyrir sveitarfélög að aka grunnskólanemendum alla leið til og frá heimilum sínum. Ráðuneytið telur því ótvírætt að sú ákvörðun bæjaryfirvalda í Mosfellsbæ að greiða forráðamönnum nemenda þóknun fyrir að aka nemendum að akstursleið skólabifreiðar sé ekki andstæð ákvæðum grunnskólalaga.

Að því er varðar meint brot gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður að hafa í huga þá staðreynd að skólaakstur tekur, eðli máls samkvæmt, styttri tíma fyrir grunnskólanemendur sem búa í þéttbýli í nálægð við skóla. Almennt má ætla að hagkvæmast sé fyrir viðkomandi sveitarfélag að afhenda nemendum úr þéttbýli ókeypis miða með almenningsvögnum en aðstæður geta einnig réttlætt að skólaakstri sé hagað með fleiri en einum hætti innan viðkomandi sveitarfélags, líkt og á við um Mosfellsbæ. Loks telur ráðuneytið ekki unnt að fallast á þau rök kæranda, í ljósi þess að aðstæður eru ákaflega misjafnar í sveitarfélögum, að ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga geti falið það í sér að í öllum sveitarfélögum skuli gilda sambærilegar reglur um skólaakstur grunnskólanemenda. Ráðuneytið telur því ekki, með vísan til alls sem að framan er rakið, að í því felist brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þó börnum kæranda hafi skólaárið 2001–2002 ekki verið ekið alla leið að heimili sínu.

Þá er það mat ráðuneytisins að þrátt fyrir að rétt hefði verið að afla umsagnar foreldraráðs um málið áður en breytt skipulag kom til framkvæmda verði að taka undir það sjónarmið Mosfellsbæjar að málsmeðferð hafi að sumu leyti verið vandaðri en mælt er fyrir um í grunnskólalögum þar sem vilji allra foreldra sem málið varðaði var kannaður áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki hafi verið slíkir gallar á málsmeðferð varðandi breytt skipulag skólaaksturs að leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Afgreiðsla málsins hefur tekið lengri tíma en mælt er fyrir um í 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Skýrist sá dráttur meðal annars af sumarleyfum og miklu annríki í ráðuneytinu en einnig barst umsögn Mosfellsbæjar ekki innan þess frests sem veittur var og loks varð umtalsverður dráttur á því að svar bærist frá lögmanni kæranda við bréfi ráðuneytisins frá 18. september 2002.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu kæranda, A, um að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun skólaskrifstofu Mosfellsbæjar, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 23. ágúst 2001, að hætta skólaakstri heim til kæranda, sem er búsett á bænum X í Mosfellsbæ, og gera henni að aka börnum sínum í veg fyrir skólabifreið gegn þóknun sem er einhliða ákveðin af sveitarfélaginu, er hafnað.

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Mosfellsbær

Menntamálaráðuneytið

Umboðsmaður barna




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta