Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Akureyrarkaupstaður - Gerð samnings um nýtingu námuréttinda, útboðsskylda, ákvörðun einkaréttarlegs eðlis

G.V. Gröfur ehf.
28. júlí 2004
FEL04050007/1001

Guðmundur Gunnarsson

Óseyri 2

603 AKUREYRI

Með bréfi, dags. 5. maí 2004, framsendi Samkeppnisstofnun erindi sem þér höfðuð sent stofnuninni þann

19. febrúar 2004, varðandi samningsgerð Akureyrarkaupstaðar við fyrirtækið G. Hjálmarsson hf. um

nýtingu námuréttinda í landi Glerár, skammt ofan Akureyrar. Í bréfi Samkeppnisstofnunar kemur fram að

við athugun stofnunarinnar á erindinu hafi niðurstaðan orðið sú að ákvæði samkeppnislaga, nr. 8/1993,

með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 5. gr., 14. gr., 1. mgr. 17. gr. og 19. gr. laganna, ættu ekki við í

málinu.

Jafnframt segir í bréfinu að umkvörtunarefni yðar snúi, að mati Samkeppnisstofnunar, að ákvörðunum og

málsmeðferð Akureyrarkaupstaðar og að stofnuninni virðist sem um sé að ræða mál sem sé kæranlegt til

félagsmálaráðuneytisins. Í framhaldi af móttöku bréfsins, en með því fylgdu öll gögn málsins, hefur

ráðuneytið tekið til athugunar hvort erindið sé kæranlegt til ráðuneytisins á grundvelli 103. gr.

sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Vegna mikils annríkis í ráðuneytinu að

undanförnu hefur dregist að taka afstöðu til þess hvort málið sé tækt til efnismeðferðar og er hér með

beðist velvirðingar á þeim drætti.

Í erindi yðar til Samkeppnisstofnunar er á því byggt að við gerð framangreinds samnings um nýtingu

námuréttinda á landareign úr jörðinni Glerá, sem Akureyrarkaupstaður eignaðist með því að neyta

forkaupsréttar, hafi þess ekki verið gætt að þeir aðilar sem sýnt höfðu áhuga á að nýta námuna nytu

jafnræðis. Er í erindinu bent á að þegar yður var gefinn kostur á að semja um nýtingu námunnar hafi ekki

legið fyrir fullnægjandi upplýsingar um nýtingarmöguleika hennar.

Í erindi yðar er einnig lýst efasemdum um réttmæti þess að gera slíkan samning án útboðs. Kemur þar

fram að þótt því sé ekki haldið fram að um útboðsskyldu hafi verið að ræða teljið þér að eðlilegra hefði

verið að fara útboðsleiðina, enda geti samningur við einn aðila án útboðs skekkt samkeppnisaðstöðu á

verktakamarkaði í nágrenninu.

Eins og fram kemur í áðurnefndu bréfi Samkeppnisstofnunar hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu

að ekki sé tilefni til þess að grípa til ráðstafana sem samkeppnisyfirvöldum eru heimilar á grundvelli

samkeppnislaga gagnvart opinberum aðilum. Er ljóst að ráðuneytið hefur ekki vald til að endurskoða þá

afstöðu stofnunarinnar.

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, úrskurðar ráðuneytið um ýmis vafaatriði sem upp

kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerðir þó ekki rétt aðila til þess að höfða

mál fyrir dómstólum. Ákvæðið hefur verið túlkað á þann veg að ráðuneytið fjalli eingöngu um mál er

varða stjórnsýsluákvarðanir, þ.e. ákvarðanir sem hafa áhrif á réttindi eða skyldur manna. Ákvarðanir

sveitarstjórna sem eru eingöngu einkaréttarlegs eðlis falla því almennt utan valdsviðs ráðuneytisins, nema

unnt sé að benda á brot gegn meginreglum sveitarstjórnarlaga. Sem dæmi um slíkt má nefna að

hlutaðeigandi stjórnvald hafi ekki vald til að taka ákvörðun eða einstakir sveitarstjórnarmenn séu

vanhæfir til að koma að afgreiðslu tiltekins máls.

Gerð samninga um nýtingu lands eða hlunninda er ekki á meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga og

byggist slík samningsgerð á einkaréttarlegum og frjálsum samningum. Gerð slíkra samninga sætir ekki

kæru til ráðuneytisins á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nema að því leyti er að framan greinir. Ekki

verður séð af gögnum málsins að því sé haldið fram að við gerð samnings milli Akureyrarkaupstaðar og

G. Hjálmarssonar hf. um nýtingu malarnámu hafi verið brotið gegn meginreglum sveitarstjórnarlaga á

þann hátt að málið sæ ti kæ ru til ráðuneytisins. Þá verður ekki heldur séð að málið gefi tilefni til þess að

ráðuneytið taki það til frekari skoðunar á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga og telur ráðuneytið því

ekki tilefni til frekari afskipta af þessu máli.

Tekið skal fram að framangreind niðurstaða skerðir á engan hátt rétt yðar til að leita til dómstóla eða

umboðsmanns Alþingis.

Þetta tilkynnist yður hér með.

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

G. Dýrleif Kristjánsdóttir (sign.)

28. júlí 2004 - Akureyrarkaupstaður - Gerð samnings um nýtingu námuréttinda, útboðsskylda, ákvörðun einkaréttarlegs eðlis. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta