Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavíkurborg - Tónlistarfræðsla, aldursmörk fyrir nemendur sett af sveitarstjórn

Lögfræðistofa Reykjavíkur ehf.
12. maí 2006
FEL06020046

Guðrún Finnborg Þórðardóttir, lögfr.

Vegmúla 2, 4. hæð

108 Reykjavík

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2006, sendi Guðrún Finnborg Þórðardóttir, lögfræðingur, f.h. Félags

tónlistarnema, stjórnsýslukæru annars vegar vegna ákvörðunar menntaráðs Reykjavíkurborgar á

fundi þann 19. maí 2005, að samþykkja reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við

tónlistarskóla, og hins vegar vegna ályktunar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á

höfuðborgarsvæðinu frá 6. júní 2005 um greiðslu kennslukostnaðar nemenda sem stunda

tónlistarnám utan lögheimilissveitarfélaga.

Með bréfi ráðuneytisins til lögmanns málshefjanda, dags. 27. febrúar 2006, var upplýst að

ráðuneytið hefði einungis heimild til að endurskoða ákvarðanir einstakra sveitarstjórna en ekki

ályktanir landshlutasamtaka þeirra. Erindið takmarkaðist því við ákvörðun menntaráðs

Reykjavíkurborgar frá 19. maí 2005 sem staðfest var í borgarráði 2. júní 2005.

Erindið var sent Reykjavíkurborg til umsagnar með bréfi, dags. 24. febrúar 2006. Umsögn barst

með bréfi, dags 5. apríl 2006, og var málshefjanda send umsögnin með bréfi, dags. 7. apríl sl.

Athugasemdir málshefjanda við umsögnina eru dagsettar 12. apríl 2006.

Nánar tiltekið er kvartað undan því að í reglum um þjónustusamning sem borgarráð

Reykjavíkurborgar staðfesti þann 2. júní 2005 komi fram í 6. lið 7. gr. að þjónustukaup

Reykjavíkurborgar miðist við aldur nemenda þannig að nemendur við tónlistarskólana verði á

aldrinum 4–25 ára, en söngnemendur allt að 27 ára. Fyrir þá sem stunda tónlistarnám skólaárið

2004–2005 taka aldursviðmiðanirnar gildi haustið 2007.

I. Málavextir

Þann 19. maí 2005 samþykkti menntaráð Reykjavíkurborgar reglur um þjónustusamninga

Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Ákvörðunin var staðfest í borgarráði 2. júní 2005. Í 6. lið

7. gr. reglnanna segir að þjónustukaup Reykjavíkurborgar miðist við að nemendur séu á

aldrinum 4–25 ára, en söngnemendur allt að 27 ára. Þar kemur einnig fram að ákvæðið taki ekki

gildi gagnvart nemendum sem stunduðu tónlistarnám skólaárið 2004–2005 fyrr en haustið 2007.

Jafnframt segir í 7. lið 7. gr. reglnanna að menntaráð geti veitt undanþágu frá aldursmörkunum

við sérstakar aðstæður að undangengnu áliti fagnefndar.

II. Sjónarmið málshefjanda.

Málshefjandi telur að með ákvörðun Reykjavíkurborgar um að samþykkja framangreindar reglur

hafi borgin brotið gegn lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985,

jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Einnig brjóti ákvörðunin gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga sem segir að stjórnvald

skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki

náð með öðru og vægara móti.

Málshefjandi bendir á að í 10. gr. laga nr. 75/1985 komi fram að tónlistarskólar sem ekki eru

reknir af sveitarfélögum skulu fá greiddan úr sveitarsjóði launakostnað kennara og skólastjóra.

Ekki komi fram í lögunum neinar reglur um ákvörðun slíks launakostnaðar að öðru leyti en að

greiðsla fari fram mánaðarlega samkvæmt nánara samkomulagi milli skólastjórnar og

sveitarstjórnar. Greiðslur þessar hafi verið í samræmi við kjarasamninga sveitarfélaganna og

Kennarasambands Íslands. Stjórnvöldum sé því eftirlátið mat á því hversu háar greiðslurnar

skulu vera. Mat stjórnvalda á því á hvaða sjónarmiðum skuli byggt við ákvörðun um greiðslur er

þó ekki frjálst að öllu leyti heldur eru stjórnvöld bundin af jafnræðisreglunni og

meðalhófsreglunni. Sjónarmiðin þurfi þar af leiðandi að vera málefnaleg.

Þá tekur málshefjandi fram að ákvörðun Reykjavíkurborgar í máli þessu hafi það í för með sér

að þeir nemendur sem innritist í tónlistarnám í Reykjavík á árinu 2005 og síðar muni þurfa að

greiða allan kostnað við tónlistarnám sitt sjálfir eftir að aldursmörkunum er náð. Sama eigi við

um þá nemendur sem þegar stundi nám við tónlistarskóla í Reykjavík, þ.e. þeir þurfi að greiða

fyrir allt sitt nám eftir haustið 2007 þegar aldursmörkunum er náð. Afleiðingar af þessum reglum

er að nemendur þurfi hreinlega að hverfa frá námi. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 75/1985 skulu

tónlistarskólar innheimta skólagjöld, en skólagjöldunum sé hins vegar ætlað að standa undir

öðrum kostnaði en launakostnaði. Þetta þýði að tónlistarskólum sé meinað að innheimta

skólagjöld til að standa undir launakostnaði. Það þýði að tónlistarskólarnir neyðist til að vísa

þeim nemendum frá námi sem komnir eru yfir aldursmörkin nema kennarar séu tilbúnir til þess

að gefa vinnu sína eða tónlistarskólinn beri kostnaðinn sjálfur. Ákvörðun Reykjavíkurborgar

komi því í raun í veg fyrir að þeir einstaklingar sem búsettir eru í Reykjavík og náð hafa 25 ára

aldri geti lært á hljóðfæri og þeir sem náð hafi 27 ára aldri geti lært söng við tónlistarskóla

landsins. Þessi ákvörðun brjóti því gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr.

stjórnarskrárinnar.

Málshefjandi rekur síðan efni 11. gr. stjórnsýslulaga um að ekki megi mismuna aðilum við

úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða um kynferði, þjóðerni, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða af

öðrum sambærilegum ástæðum. Mismunun á grundvelli aldurs falli þarna undir sem sambærileg

ástæða. Ákvæði 65. gr. stjórnarskrár byggi á sömu sjónarmiðum.

Málshefjandi vísar síðan í aðalnámskrá tónlistarskóla sem gefin var út af

menntamálaráðuneytinu árið 2000, en tónlistarskólar skuli kenna samkvæmt henni, sbr. 3. tölul.

1. gr. laga nr. 75/1985. Í aðalnámskránni er hlutverk tónlistarskóla skilgreint svo að veita skuli

öllum, sem þess æskja, færi á að kynnast tónlistarnámi af eigin raun. Jafnframt skuli það vera

markmið tónlistarskóla að stuðla að aukinni þátttöku áhugafólks í tónlistarlífi.

Þá telur málshefjandi að ákvörðun Reykjavíkurborgar um að setja aldursmörk á þjónustukaup

borgarinnar sé að sama skapi ekki málefnaleg. Ef tilgangurinn sé sá að spara borginni útgjöld þá

verði því takmarki ekki náð með framangreindri ákvörðun því tónlistarskólarnir muni, þrátt fyrir

aldursmörkin, taka inn jafnmarga nemendur og áður. Það sem breytist nú er að skólarnir geti

einungis tekið inn þá nemendur sem séu undir aldursmörkunum. Það þýði að ákvörðun

Reykjavíkurborgar hafi gert tónlistarskólum ókleift að fylgja áðurnefndri aðalnámskrá.

Málshefjandi tekur fram að það sé ámælisvert að Reykjavíkurborg taki ákvörðunarvaldið í sínar

hendur um það hvaða einstaklingar fái skólagöngu í tónlistarskólum borgarinnar. Telja verði að

það sé tónlistarskólanna sjálfra að velja þá nemendur sem efnilegastir séu. Það vald hafi nú verið

tekið úr höndum þeirra og því neyðist tónlistarskólarnir til að synja efnilegum nemendum um

skólagöngu ef þeir eru komnir yfir aldursmörkin.

Málshefjandi bendir á að þau rök hafi fengist hjá Reykjavíkurborg að ekki sé eðlilegt að borgin

standi undir kostnaði hjá fullorðnu fólki sem er í tónlistarnámi í frístundum. Málshefjandi tekur

fram í því sambandi að það komi málinu ekkert við. Lögin kveði á um að allir sem stundi nám í

tónlistarskóla eigi rétt á niðurgreiðslu frá sveitarfélagi og ekki sé um neinar takmarkanir að ræða

í þeim efnum.

Að lokum tekur málshefjandi fram, hvað aldursmörkin varðar, að ákvörðun Reykjavíkurborgar

um að mismuna nemendum eftir aldri brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár

og meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna, auk þess að brjóta gegn lögum um fjárhagslegan stuðning

við tónlistarskóla, nr. 75/1985.

Í athugasemdum málshefjanda frá 12. apríl 2006 við umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að

þótt tónlistarfræðsla sé ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga hvíli sú skylda á sveitarfélögum

að greiða launakostnað kennara og skólastjóra, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1985. Samkvæmt

8. gr. laganna skuli tónlistarskólar senda áætlun um kennslu á næsta fjárhagsári til viðkomandi

sveitarstjórnar. Það sé sveitarstjórnarinnar að greiða í samræmi við þær áætlanir

tónlistarskólanna. Hvergi í lögunum sé að finna heimild fyrir sveitarfélög að setja takmörk upp á

sitt einsdæmi á greiðslum til tónlistarskólanna, heldur komi fram í 2. mgr. 8. gr. laganna að

sveitarstjórn skuli taka afstöðu til áætlunar skólans og gera samkomulag við skólastjórn um

kennslu og starfsmannahald. Það brjóti því gegn lögum nr. 75/1985 að sveitarfélögin geti upp á

sitt einsdæmi bundið hendur tónlistarskólanna með því að ákveða hvaða nemendum þeir hleypi

inn í skólana. Félag tónlistarnema telji það ósanngjarnt og beinlínis brot á stjórnarskrá að

sveitarfélögin setji aldursmörk um það hverjir fái styrk frá sveitarfélaginu annars vegar og að

styrkirnir séu bundnir við búsetu hins vegar. Reglur Reykjavíkurborgar útiloki þá sem ekki falli

undir skilyrðin að stunda nám í tónlistarskóla að eigin vali því skv. 11. gr. laganna sé

sveitarfélögum óheimilt að innheimta skólagjöld fyrir launakostnaði. Það sé því ítrekað að það sé

val tónlistarskólanna sjálfra hvernig nemendur séu valdir inn í skólana.

Að lokum tekur lögmaður málshefjanda fram að það sjónarmið sveitarfélaga að tónlistarmenntun

á framhalds- og háskólastigi eigi að heyra undir ríkið með sama hætti og önnur menntun fyrir þá

hópa, og ágreiningur milli ríkis og sveitarfélaga um það efni, komi Félagi tónlistarnema ekki á

nokkurn hátt við. Eins og lögin séu nú sé tónlistarnám á ábyrgð sveitarfélaga og þau verði að

standa undir þeirri ábyrgð, en brjóti lög ella.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg bendir á að kveðið sé á um opinberan fjárstuðning við tónlistarskóla í lögum

um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, með síðari breytingum. Þar sé mælt

fyrir um að sveitarfélög skuli greiða laun skólastjóra og kennara í tónlistarskólum sem reknir eru

samkvæmt lögunum hvort sem þeir eru reknir af sveitarfélagi eða öðrum aðila, sbr. 7. gr.

laganna. Eftir að þær lagabreytingar urðu með lögum nr. 87/1989 sé rekstur tónlistarskóla alfarið

á herðum sveitarfélaga. Í 8. gr. laga nr. 75/1985 komi síðan fram að tónlistarskólar sem ekki eru

reknir af sveitarfélögum skulu senda áætlun um kennslu næsta fjárhagsárs til viðkomandi

sveitarstjórnar eigi síðar en 1. maí ár hvert. Sveitarstjórn skal þá taka afstöðu til áætlunar skólans

og gera samkomulag við skólastjóra um kennslu og starfsmannahald fyrir 1. júlí ár hvert.

Þá bendir Reykjavíkurborg á að skv. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga, nr.

97/1995, sbr. og 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, ráði sveitarfélög sjálf málefnum sínum og

sjálfsforræði á eigin tekjustofnum. Sjálfsstjórn sveitarfélaga birtist í lögákveðnum verkefnum

sem heimild þeirra til að ákveða nánar hvernig úrlausn verkefna verði háttað. Hvorki í lögum um

fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, né í aðalnámskrá tónlistarskóla, sbr.

auglýsingu menntamálaráðuneytisins frá 31. maí 2000, er lögð skylda á sveitarfélög að bjóða

upp á tónlistarnám og sé því ljóst að tónlistarfræðsla er ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga.

Jafnframt bendir Reykjavíkurborg á að í 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga sé að finna almennt

ákvæði um að sveitarfélög skuli annast þau verkefni sem þeim eru falin að lögum. Í 2. mgr. 7. gr.

sé á hinn bóginn kveðið á um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga til að sinna ólögmæltum

verkefnum og sé mat á forgangsröðun slíkra verkefna alfarið í höndum viðkomandi

sveitarstjórnar. Skylda sveitarfélaga til að veita fjárhagslegan stuðning til tónlistarskóla, sem

reknir eru samkvæmt lögunum, sé í samræmi við 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, en heimild

sveitarfélaga til að binda fjárhagslegan stuðning við ákveðinn aldur nemenda sé í samræmi við 2.

mgr. 7. gr. laganna, sbr. úrskurð félagsmálaráðuneytis frá 3. febrúar 2006.

Þá vísar Reykjavíkurborg til 61. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem fram komi að sveitarfélög þurfi

að gera ráð fyrir útgjöldum sínum í fjárhagsáætlunum. Með hliðsjón af því sé ljóst að með öllu

sé ótækt að sveitarfélög hafi ekkert um það að segja hver kostnaður þeirra verður af

tónlistarkennslu. Greiðsla sveitarfélaga til tónlistarskóla markist af rekstraráætlun, þ.e. áætluðu

kennslumagni, og greiðist mánaðarlega samkvæmt reglum um þjónustusamninga og úthlutun

fjármuna Reykjavíkurborgar til tónlistarskóla, sbr. lög nr. 75/1985 og aðalnámskrá

tónlistarskóla. Þannig ráðstafi Reykjavíkurborg um 800 m.kr. árið 2006 til tónlistarskóla (og

skólahljómsveita) og greiddur sé styrkur með rúmlega 2.500 nemendum í einkareknum

tónlistarskólum, en um 1.000 nemendur séu á biðlista. Það liggi því fyrir að ekki komist allir

sem vilji í tónlistarskóla, a.m.k. ekki með fullum styrk frá sveitarfélaginu. Með því að setja

aldurshámark sé Reykjavíkurborg ekki að fækka nemendum sem eigi kost á að stunda

tónlistarnám heldur sé verið að forgangsraða þeim takmörkuðu fjármunum sem ætlaðir séu í

þennan málaflokk. Reykjavíkurborg mótmælir því að tilgangur aldursmarkanna sé að spara

útgjöld heldur sé einfaldlega verið að forgangsstýra út frá þeim fjármunum sem til staðar séu.

Jafnframt stuðli reglur þessar að því að fleiri komist að en ella þar sem fyrirkomulagið gefi fleira

ungu fólki tækifæri til að læra í tónlistarskólum.

Varðandi þá málsástæðu málshefjanda að Reykjavíkurborg hafi ekki gætt jafnræðissjónarmiða

og meðalhófs við ákvörðun sína um aldursmörk tekur Reykjavíkurborg fram að sveitarfélög hafi

innan marka laga fullt sjálfstæði til ráðstöfunar tekna sinna og fulla heimild til að setja almenn

og málefnaleg skilyrði fyrir því hvernig þau hagi styrkveitingu til tónlistarskóla.

Reykjavíkurborg hafi því verið fyllilega heimilt að setja reglur um aldur nemenda, sérstaklega

þegar þess er gætt að þeim nemendum, sem þegar hafa hafið nám og eru yfir aldursmörkunum,

hafi verið gert mögulegt að ljúka námi. Áskilnað í 6. tölul. 7. gr. reglnanna um aldursmörkin 4–

25 ár megi telja fullkomlega málefnalegan enda hlyti það að baka sveitarfélaginu óhæfilega

mikil útgjöld ef sú skylda hvíldi á sveitarfélögum að veita þjónustu af þessu tagi til allra

aldurshópa. Að öðrum kosti yrði að skera styrki niður svo að bitnaði á starfsemi skólanna sem án

vafa yrði raunin á ef reglurnar væru ekki til staðar. Reykjavíkurborg telur að sú viðmiðun að

heildarfjármagn málaflokksins ráði því hverjir fái aðgang geti ekki talist andstæð

jafnræðisreglunni.

Þá skýrir Reykjavíkurborg frá því að markmið reglna um þjónustusamninga við tónlistarskóla sé

að gefa sem flestum á skólaaldri tækifæri til að stunda tónlistarnám og gefa þeim sem hafi

sérstaka köllun til að helga sig tónlist tækifæri til þess. Við setningu reglnanna hafi þeim

nemendum sem þegar séu í tónlistarnámi og eru yfir aldursmörkunum verið sýnd aðgæsla þar

sem þeim sé gert kleift að ljúka sínu námi. Með því móti hafi verið tekið tillit til hagsmuna og

réttinda þeirra nemenda sem „athöfn“ sveitarfélagsins um þetta efni beinist að. Jafnframt bendir

Reykjavíkurborg á að menntaráð geti veitt undanþágu frá aldursmörkunum við sérstakar

aðstæður einstakra nemenda að undangengnu áliti fagnefndar. Þessu undanþáguákvæði sé ætlað

að tryggja að nemendur með framúrskarandi hæfileika þurfi ekki að hætta námi vegna

aldursákvæðisins.

Loks telur Reykjavíkurborg rétt að geta þess að borgin hafi rýmstu reglur um þetta efni

samanborið við önnur sveitarfélög þar sem hún borgi með nemendum upp að 25 ára aldri í

hljóðfæranámi og til 27 ára aldurs í söngnámi á meðan nágrannasveitarfélög greiði til 25 ára

aldurs hvort sem er í hljóðfæra- eða söngnámi.

Með hliðsjón af öllu framangreindu tekur Reykjavíkurborg fram að með engu móti megi sjá að

hún hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 75/1985, jafnræðisreglu stjórnsýslulaga eða 65. gr.

stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995. Einnig sé því mótmælt að

meðalhófs hafi ekki verið gætt við töku ákvörðunarinnar.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

Í erindi málshefjanda, Félags tónlistarnema, til ráðuneytisins kemur fram að um stjórnsýslukæru

sé að ræða, en í þeim tilvikum úrskurðar ráðuneytið um kæruefnið skv. 103. gr.

sveitarstjórnarlaga. Fyrir liggur í gögnum málsins að allir tónlistarnemar geta átt aðild að

félaginu, sbr. 6. gr. samþykkta félagsins, dags. 15. janúar 2006.

Mál þetta er hins vegar tekið fyrir á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga um eftirlitsskyldu

ráðuneytisins með sveitarfélögum og veitt um það álit. Rök fyrir þeirri málsmeðferð eru þau að

erindið beinist að samþykkt Reykjavíkurborgar á reglum um þjónustusamning, en snýst ekki um

ákvörðun Reykjavíkurborgar um réttindi og skyldur aðila í tilteknu máli.

Athugun ráðuneytisins beinist að því hvort Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að samþykkja

reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla sem samþykktar voru í

menntaráði 18. maí 2005 og staðfestar í borgarráði 2. júní sama ár

Lögmæti reglna Reykjavíkurborgar.

Lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, sbr. lög nr. 87/1989, leggja ekki

skyldu á sveitarfélög að bjóða upp á tónlistarfræðslu. Hið sama gildir um aðalnámskrá

tónlistarskóla, sbr. auglýsingu menntamálaráðuneytis frá 31. maí 2000. Það er því ljóst að

tónlistarfræðsla er ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga.

Ef tónlistarskóli er á hinn bóginn rekinn í sveitarfélagi, og hefur hlotið samþykki

menntamálaráðuneytis, er sveitarfélagi skylt að greiða launakostnað kennara og skólastjóra í

samræmi við rekstraráætlun, sbr. 7. og 10. gr. laga nr. 75/1985, óháð því hvort skólinn er rekinn

af sveitarfélaginu sjálfu eða öðrum aðila. Sveitarfélög skulu greiða laun skólastjóra og kennara í

tónlistarskólum sem reknir eru samkvæmt lögunum, sbr. 7. og 10. gr. laganna. Jafnframt skulu

innheimt skólagjöld. Lög nr. 75/1985 taka eingöngu til þess náms sem fram fer samkvæmt

námskrá fyrir tónlistarskóla, sbr. 3. tölul. 1. mgr. laganna.

Í aðalnámskrá tónlistarskóla, sbr. auglýsingu nr. 529/2000, er fjallað um markmið, inntak og

skipulag náms á tilteknum námssviðum. Hlutverk aðalnámskrár er einkum að samræma helstu

þætti tónlistarnáms, bæði milli skóla og innan einstakra skóla. Í aðalnámskránni er ekki kveðið á

um hversu langt nám skuli vera í boði.

Eins og vikið er að hér að framan fella lög um tónlistarskóla ekki skyldu á sveitarfélög að bjóða

upp á tónlistarfræðslu. Sú staðreynd er meginatriði máls þessa. Fjármunir sem veittir eru í

málaflokkinn byggjast á fjárheimildum sem ákveðnir eru í fjárhagsáætlun hvers árs í samræmi

við þá stefnu og forgangsröðun sem sveitarfélag hefur sett um tónlistarfræðsluna. Heimild

sveitarfélags til að takmarka þá fjármuni sem veittir eru til greiðslu launakostnaðar kennara og

skólastjóra í sveitarfélaginu skýrir síðan hvers vegna sveitarfélaginu verður að vera heimilt að

setja vissar takmarkanir við því hversu margir nemendur njóti stuðnings til tónlistarfræðslu í

sveitarfélaginu. Málsástæða málshefjanda um að sveitarfélögum sé óheimilt að setja takmarkanir

um inngöngu í tónlistarskólana á því ekki við lagaleg rök að styðjast, enda takmarka sveitarfélög

ekki aðgang nemenda að skólunum sem slíkum. Sveitarfélög geta eingöngu sett sér stefnu um

tónlistarfræðslu, svo sem til hvaða aldurshóps tónlistarfræðsla í sveitarfélaginu skuli ná. Að

sama skapi á sú málsástæða málshefjanda ekki við að vald tónlistarskólanna til að velja efnilega

nemendur hafi verið tekið úr höndum þeirra. Vald sveitarfélagsins á þessu sviði tekur ekki til

þess að velja nemendur í tónlistarskóla, heldur einungis til þess að ákveða að beina afmörkuðum

fjármunum til tónlistarfræðslu að tilteknum aldurshópi í sveitarfélaginu.

Í 6. lið 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar og

tónlistarskóla segir að þjónustukaup borgarinnar af tónlistarskólum miðist við að nemendur séu á

aldrinum 4–25 ára, en söngnemendur upp að 27 ára aldri. Í ákvörðuninni felst annars vegar sú

stefna Reykjavíkurborgar að styðja sérstaklega börn og ungt fólk til tónlistarnáms jafnframt því

að beina takmörkuðum fjármunum til málaflokksins í einn farveg, til barna og ungs fólks, í stað

þess að dreifa þeim fjármunum til tónlistarnáms fólks á öllum aldri sem myndi að líkindum þýða

minna nám fyrir alla viðkomandi. Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að gefa börnum og ungu fólki

á skólaaldri tækifæri til tónlistarnáms getur bæði byggst á faglegum og fjárhagslegum

forsendum. Bæði þau sjónarmið eru málefnaleg í þessu sambandi að mati ráðuneytisins.

Jafnframt telst það málefnaleg ákvörðun af sveitarfélagi að forgangsraða þjónustu af

fjárhagslegum ástæðum enda sé ekki um það að ræða að lögskyld þjónusta skerðist við það.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun Reykjavíkurborgar,

sem fram kemur í 6. lið 7. gr. reglnanna, um 4–25 ára aldursmörk nemenda í tónlistarnámi og

söngnema til 27 ára aldurs, er í samræmi við lög nr. 75/1985 og meginreglur stjórnsýsluréttar.

Reglur Reykjavíkurborgar um það efni teljast því lögmætar.

Skil milli eldri viðmiðunarreglna og hinna nýju reglna.

Samkvæmt því fyrirkomulagi um tónlistarfræðslu í Reykjavíkurborg, sem var við lýði þar til

reglur þær sem mál þetta snýst um tóku gildi vorið 2005, voru engin ákvæði um aldursmörk

nemenda í tónlistarskólum. Tekið er á skilum eldri reglna og yngri hvað aldursmörkin varðar í

niðurlagi í 6. lið 7. gr. hinna nýju reglna Reykjavíkurborgar. Þar segir að ákvæðið um

aldursmörk taki ekki gildi gagnvart nemendum sem stundi tónlistarnám skólaárið 2004–2005

fyrr en haustið 2007.

Málshefjandi tekur fram að þeir nemendur sem þegar stundi nám við tónlistarskóla í Reykjavík

þurfi að greiða fyrir allt sitt nám eftir haustið 2007 þegar aldursmörkunum er náð. Nemendur

þurfi þá hreinlega að hverfa frá námi, en skv. 11. gr. laga nr. 75/1985 sé tónlistarskólunum

óheimilt að láta nemanda greiða launakostnað.

Reykjavíkurborg bendir hins vegar á að við setningu reglnanna hafi þeim nemendum, sem þegar

eru í tónlistarnámi og eru yfir aldursmörkunum, verið sýnd aðgæsla þar sem þeim er gert kleift

að ljúka sínu námi. Hafi þannig verið tekið tillit til hagsmuna og réttinda þeirra aðila sem athöfn

sveitarfélagsins beinist að.

Ráðuneytið telur mikilvægt að við ákvörðun á aldursmörkum, sem ekki voru til staðar

samkvæmt eldra fyrirkomulagi, sé tekið sanngjarnt tillit til þeirra nemenda sem hófu nám í

tónlistarskóla samkvæmt eldra fyrirkomulagi í þeirri trú að þeir gætu lokið því óháð aldri. Í

hinum nýju reglum kemur fram að þeir sem þá stundi tónlistarnám í tónlistarskólum

Reykjavíkurborgar hafi tvö ár til stefnu til að ljúka námi sínu, óháð aldursmörkunum. Í 7. lið 7.

gr. reglnanna kemur síðan fram að menntaráð geti veitt undanþágu frá aldursmörkunum við

sérstakar aðstæður vegna einstakra nemenda að undangengnu áliti fagnefndar. Ráðuneytið telur

að með þessu móti hafi Reykjavíkurborg komið verulega til móts við hagsmuni þeirra nemenda

sem hófu nám eftir eldra fyrirkomulagi í góðri trú um að geta lokið námi sínu óháð aldri.

Fólk yfir aldursmörkum vill hefja tónlistarnám.

Málshefjandi bendir á að í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar sé fólki, sem komið er yfir

aldursmörkin en kýs að stunda tónlistarnám, meinaður aðgangur að tónlistarskólum. Það eigi

jafnvel við þótt fólk sé reiðubúið að greiða fullt gjald fyrir, þ.e. greiða kennslukostnað sem

sveitarfélögum er skylt að greiða ef á annað borð er rekinn tónlistarskóli í sveitarfélaginu. Þessi

ályktun málshefjanda er út af fyrir sig rétt og í samræmi við það sem áður hefur fram komið að

sveitarfélögum sé heimilt að forgangsraða þjónustu af fjárhagslegum ástæðum og beina

afmörkuðum fjármunum til tónlistarfræðslu að tilteknum aldurshópi. Þeir sem ekki eiga kost á að

hefja tónlistarskólanám í tónlistarskóla, aldursins vegna, verða því við núverandi aðstæður að

snúa sér til einkakennara.

Niðurstaða.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaðan sú að Reykjavíkurborg hafi verið heimilt að

samþykkja reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, sem staðfestar

voru í borgarráði 2. júní 2005, og að það sé í samræmi við lög um fjárhagslegan stuðning við

tónlistarskóla, nr. 75/1985, meginreglur stjórnsýsluréttar um málefnaleg sjónarmið og jafnræði

að Reykjavíkurborg hafi þá stefnu um tónlistarfræðslu að tónlistarnám það sem hún styrkir

samkvæmt lögum nr. 75/1985 sé ætlað börnum og ungu fólki. Er því ekki gerð athugasemd við

samþykkt Reykjavíkurborgar á framangreindum reglum um þjónustusamninga

Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

12. maí 2006 - Reykjavíkurborg - Tónlistarfræðsla, aldursmörk fyrir nemendur sett af sveitarstjórn (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta