Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Rangárþing ytra - Aðkoma sveitarfélags vegna landskipta skv. jarðalögum, úrskurðarvald ráðuneytisins

Lögfræðistofa Reykjavíkur ehf.
8. ágúst 2007
FEL07070001

Guðrún Finnborg Þórðardóttir, hdl.

Vegmúla 2, 4. hæð

108 Reykjavík

Vísað er til erindis yðar, dags. 28. júní sl., þar sem óskað eftir að ráðuneytið úrskurði um þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra að aðhafast ekkert frekar í máli umbjóðanda yðar í tengslum við landskipti.

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal félagsmálaráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Í þessu ákvæði felst heimild fyrir ráðuneytið til að staðfesta eða ógilda stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga sem undir það eru bornar. Af gögnum málsins má ráða er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar að aðhafast ekki frekar í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, er hlutverk sveitarstjórnar við ákvörðun um landskipti bundið við það að gefa umsögn um landskiptin. Ákvörðun um landskipti er síðan í höndum landbúnaðarráðherra samkvæmt sama lagaákvæði og verður því ekki litið svo á að sveitarfélagið hafi tekið stjórnvaldsákvörðun í málinu. Af þessum sökum hefur félagsmálaráðuneytið ekki heimild til að taka málið til úrskurðar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Rétt er jafnframt að vekja athygli á því að félagsmálaráðuneytið telst ekki vera æðra stjórnvald gagnvart sveitarfélögum í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og á kæruheimild samkvæmt 26. gr. sömu laga því ekki við í þessu tilviki.

Samkvæmt 102. gr. sveitarstjórnarlaga skal félagsmálaráðuneytið hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Á grundvelli ákvæðisins kemur til greina að ráðuneytið t.d. áminni sveitarfélög ef þau sinna ekki skyldum sínum.

Kemur þá til skoðunar hvort sveitarstjórn Rangárþings ytra hafi brotið gegn skyldum sínum skv. 13. gr. jarðalaga. Samkvæmt ákvæðinu skal beiðni til landbúnaðarráðherra um staðfestingu landskipta fylgja umsögn sveitarstjórnar. Ljóst er af gögnum málsins að sveitarstjórnin veitti slíka umsögn. Jafnframt er ljóst af orðalagi 13. gr. jarðalaga að umsögn sveitarstjórn er ekki bindandi fyrir landbúnaðarráðherra.

Í bréfi lögfræðisviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. apríl 2007, sem inniheldur minnispunkta er málið varða, kemur fram sú túlkun að draga megi þá ályktun að sveitarstjórn sé ekki skylt að kanna eða gera grein fyrir í umsögn sinni sjónarmið sem varða eignaraðild og önnur atriði sem ekki tengjast landbúnaði. Telur ráðuneytið að fallast megi á þessa lögskýringu og er því vandséð að sveitarstjórnin hafi brotið gegn skyldum sínum lögum samkvæmt með því að hafna því að aðhafast frekar að því er varðar deilu um eignarheimildir að umræddu landi. Slík deilumál verða ekki útkljáð með aðkomu félagsmálaráðuneytisins heldur fyrir dómstólum.

Fyrir hönd ráðherra

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Stefanía Traustadóttir (sign.)

8. ágúst 2007 - Rangárþing ytra - Aðkoma sveitarfélags vegna landskipta skv. jarðalögum, úrskurðarvald ráðuneytisins (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta