Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Sveinsstaðahreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998

Gunnar Ellertsson 30. júní 1998 98060054

Bjarnastöðum, Sveinsstaðahreppi 1022

541 Blönduós

Þann 30. júní 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með bréfi, dagsettu 15. júní 1998, sem barst ráðuneytinu þann 16. sama mánaðar, hefur Gunnar Ellertsson, Bjarnastöðum, Sveinsstaðahreppi, skotið til ráðuneytisins úrskurði, dagsettum 10. júní 1998, sem nefnd skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp. Nefndin úrskurðaði á þann veg að úrskurður kjörstjórnar Sveinsstaðahrepps um að atkvæði greitt Gunnari Pálmasyni í sveitarstjórnarkosningum þann 23. maí 1998 skyldi talið greitt Gunnari Ellertssyni væri felldur úr gildi og að umrætt atkvæði skyldi vera ógilt. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

Með bréfi, dagsettu 16. júní 1998, til sýslumannsins á Blönduósi óskaði ráðuneytið eftir því að fá send þau gögn er nefndin byggði úrskurð sinn á. Gögnin bárust ráðuneytinu með bréfum, dagsettum 23. og 24. júní 1998.

I. Málavextir.

Með bréfi, dagsettu 26. maí 1998, kærði Birgir Ingþórsson, Uppsölum, Sveinsstaðahreppi, talningu atkvæða í sveitarstjórnarkosningum í Sveinsstaðahreppi sem fram fóru þann 23. maí 1998. Kæran barst sýslumanninum á Blönduósi þann 27. maí 1998. Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 skipaði sýslumaður þann 28. maí 1998 nefnd, sem þann 10. júní 1998 kvað upp úrskurð sinn að fenginni umsögn kjörstjórnar Sveinsstaðahrepps, sbr. áðurnefnda lagagrein. Niðurstaða nefndarinnar var sú að úrskurður kjörstjórnar Sveinsstaðahrepps um að atkvæði greitt Gunnari Pálmasyni skyldi talið greitt Gunnari Ellertssyni var felldur úr gildi og umrætt atkvæði var úrskurðað ógilt.

Nefndin rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

“Við óbundna kosningu eiga kjósendur að rita á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang þeirra sem þeir hyggjast kjósa sbr. 59. gr. laga nr. 5/1998. Í 79. gr. sömu laga segir að atkvæði skuli ekki meta ógilt, þó gallað sé, ef greinilegt sé hvernig það á að falla, t.d. að við óbundnar kosningar skuli ekki meta atkvæði ógilt þótt sleppt sé fornafni eða eftirnafni ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt. Kemur því hér til álita hvort atkvæðið hafi greinilega átt að falla til Gunnars Ellertssonar.

Í Sveinsstaðahreppi er enginn maður á kjörskrá - eins og áður segir - með nafninu Gunnar Pálmason. Í hreppnum eru tveir menn sem heita Gunnar, þ.e. Gunnar Ríkharðsson og Gunnar Ellertsson. Í hreppnum eru þrír menn sem eru Pálmasynir. Þessir menn eru allir kjósendur í Sveinsstaðahreppi og þar af leiðandi í kjöri sbr. 19. gr. laga nr. 5/1998.

Kjörnefnd telur ómögulegt að ákveða með vissu að atkvæði þetta hafi átt að falla til einhvers þessara manna öðrum fremur.

Þar sem ekki er augljóst við hvern kjósandinn átti þegar hann ritaði nafnið Gunnar Pálmason á kjörseðilinn verður að fella úrskurð kjörstjórnar - um að atkvæðið sé gilt og greitt Gunnari Ellertssyni - úr gildi og úrskurða atkvæðið ógilt.

Að því gefnu, að staðhæfing kæranda um atkvæðatölur sé rétt, en henni hefur ekki verið mótmælt, ber kjörstjórn að hluta milli hans og Gunnars Ellertssonar um sæti aðalmanns, sbr. 1. mgr. 87. gr. laga nr. 5/1998.“

Kærandi telur að fella beri úrskurð nefndarinnar úr gildi og færir fyrir því eftirfarandi rök:

“Það er ekki almenn málvenja í sveitarfélaginu að nefna menn bæði með fornafni og eftirnafni heldur með fornafni og bæjarnafni. Geri ég nú grein fyrir þeim sem bera nafnið Pálmason í eftirnafn: Jón Pálmason Hnausum, oftast nefndur Jón í Hnausum, tel ég óhugsandi að úr því verði “Gunnar Pálmason“ hjá kjósanda. Zophonías Pálmason Hnausum oftast nefndur Zophonías í Hnausum, tel ég óhugsandi að úr því verði “Gunnar Pálmason“ hjá kjósanda. Ellert Pálmason Bjarnastöðum oftast nefndur Ellert eða Elli á Bjarnastöðum, tel ég óhugsandi að úr því verði “Gunnar Pálmason“ hjá kjósanda.

Geri nú grein fyrir þeim sem bera nafnið Gunnar í fornafn. Gunnar Ríkharðsson á Þingeyrum oftast nefndur Gunnar á Þingeyrum, er mér ekki kunnugt um að nafnið Pálmi tengist honum, því er óhugsandi að úr því verði “Gunnar Pálmason“ hjá kjósanda. Nú ætla ég að gera nokkra grein fyrir mér sjálfum. Ég hef átt heima á Bjarnastöðum alla mína tíð ásamt Pálma bróður mínum sem er einu ári yngri en ég og erum við oft nefndir sem Gunnar og Pálmi á Bjarnastöðum eða Gunnar á Bjarnastöðum og Pálmi á Bjarnastöðum. Augljóst er því að úr þessu verður “Gunnar Pálmason“ hjá kjósanda og þar átt við Gunnar Ellertsson með vísan til 79. gr. laga númer 5 1998 þar sem segir í fyrstu málsgrein, Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla, er því ljóst að mér á að teljast þetta atkvæði.

Ég vísa í málvenju til að undirstrika að fólki er ekki tamt að segja Gunnar Ellertsson heldur Gunnar á Bjarnastöðum og er því meiri hætta á föðurnafnsruglingi. Ennfremur vil ég nefna það að föðurafi minn hét Pálmi og bjó hér á Bjarnastöðum frá því um 1920 til 1971, þannig að Pálma nafnið hefur verið tengt Bjarnastöðum nánast alla öldina.“

II. Niðurstaða ráðuneytisins.

Um framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Sveinsstaðahreppi þann 23. maí 1998 giltu lög kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Kosningarnar í sveitarfélaginu voru óbundnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um hvernig fara eigi með atkvæði sem greitt var Gunnari Pálmasyni, en ekkert heimilisfang var ritað við það nafn.

Í 59. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði:

“Atkvæðagreiðsla við óbundnar kosningar fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.

Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal hann rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.“

Gert er því ráð fyrir að kjósandi riti fullt nafn og heimilisfang þeirra einstaklinga sem hann kýs í óbundinni kosningu.

Í X. kafla laganna er fjallað um framkvæmd atkvæðatalningar og í 1. málslið 1. mgr. 79. gr. segir svo: “Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla, nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði.“ Að auki segir svo í 3. mgr. 79. gr.: “Við óbundnar kosningar skal ekki meta atkvæði ógilt þótt sleppt sé fornafni eða eftirnafni ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt.“

Ákvæði 59. gr. er þannig ekki ófrávíkjanlegt ef “greinilegt er“ hvert atkvæðið á að falla. Fer mat á því meðal annars eftir aðstæðum í hverju sveitarfélagi.

Ljóst er að enginn þeirra sem í kjöri voru í Sveinsstaðahreppi heitir Gunnar Pálmason, en þar voru hins vegar í kjöri Gunnar Ellertsson, Gunnar Ríkarðsson, Ellert Pálmason, Jón Pálmason og Zophonías Pálmason. Ráðuneytið telur að túlka beri ákvæði 79. gr. laganna á þann hátt að til að atkvæði teljist gilt eigi enginn vafi að geta leikið á því hvert atkvæðið á að falla. Í kæru sinni til ráðuneytisins færir kærandi rök fyrir því að fyrrgreint atkvæði beri að telja honum greitt, þ.e. Gunnari Ellertssyni. Þau rök kæranda þykja hins vegar ekki vera nægjanleg til að talið verði að öllum vafa hafi verið eytt og að uppfyllt hafi verið þar með skilyrði 79. gr. laganna um að “greinilegt“ hafi verið við hvern kjósandinn hafi átt.

Með vísan til framangreinds og röksemda að öðru leyti í hinum kærða úrskurði ber að staðfesta niðurstöðu hans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Úrskurður nefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á Blönduósi þann 28. maí 1998, dagsettur 10. júní 1998, er staðfestur.

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Afrit: Sýslumaðurinn á Blönduósi

Hreppsnefnd Sveinsstaðahrepps

Kjörstjórn Sveinsstaðahrepps

Birgir Ingþórsson, Uppsölum, Sveinsstaðahreppi.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta