Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Kelduneshreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998

Kjörstjórn Kelduneshrepps                                  3. júlí 1998                                                         98060047

Björn Guðmundsson                                                                                                                                  1022

Lóni

671 Kópasker

 

 

 

 

 

             Þann 2. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 14. júní 1998, sem barst ráðuneytinu þann 16. sama mánaðar, hefur Björn Guðmundsson, fyrir hönd kjörstjórnar Kelduneshrepps, skotið til ráðuneytisins úrskurði, dagsettum 9. júní 1998, sem nefnd skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp um gildi talningar atkvæða varamanna sem greidd voru í sveitarstjórnarkosningum í Kelduneshreppi þann 23. maí 1998. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Með bréfi, dagsettu 16. júní 1998, til sýslumannsins á Húsavík óskaði ráðuneytið eftir að fá send þau gögn er nefndin byggði úrskurð sinn á. Einnig óskaði ráðuneytið eftir við kjörstjórn Kelduneshrepps að kjörseðlar yrðu sendir ráðuneytinu. Gögnin bárust ráðuneytinu þann 23. og 25. júní 1998.

 

I.                Málavextir og málsástæður.

 

             Með bréfi, dagsettu 27. maí 1998, kærði Þórarinn Þórarinsson, Vogum, Kelduneshreppi, talningu atkvæða varamanna í sveitarstjórn Kelduneshrepps við sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru þann 23. maí 1998. Kæran barst sýslumanninum á Húsavík þann 28. maí 1998. Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 skipaði sýslumaður þann 28. maí 1998 nefnd, sem þann 9. júní 1998 kvað upp úrskurð sinn að fenginni umsögn kjörstjórnar Kelduneshrepps, sbr. áðurnefnda lagagrein. Niðurstaða nefndarinnar var eftirfarandi: “Niðurstaða kjörstjórnar Kelduneshrepps frá 23. maí 1998 um kosningu í 2.-5. sæti varamanna í hreppsnefnd á að vera ógild. Skal hún gefa út kjörbréf til Björns Guðmundssonar, Lóni, sem 2. varamanns í hreppsnefnd Kelduneshrepps, en ákvarða á ný um kosningu í 3.-5. sæti varamanna, að undangenginni talningu atkvæða í þau sæti.“

 

             Nefndin lýsti málavöxtum og rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

 

             “Kosning í sveitarfélaginu var óhlutbundin. Er atkvæði aðalmanna höfðu verið talin kom að talningu atkvæða þeirra sem komu til greina í sæti varamanna. Ævar Ísak Sigurgeirsson, Ásbyrgi, hlaut 15 atkvæði í sæti aðalmanns og 23 atkvæði í sæti 1. varamanns, eða samtals 38 atkvæði. Ágreiningslaust er að honum bæri sæti 1. varamanns í hreppsnefnd.

             Björn Guðmundsson, Lóni, hlaut 25 atkvæði sem aðalmaður í hreppsnefnd, en ekkert atkvæði sem 1. varamaður og ekkert sem 2. varamaður. Guðmundur Héðinsson, Fjöllum, hlaut 9 atkvæði í sæti aðalmanns, 3 í sæti 1. varamanns og 6 í sæti 2. varamanns, samtals 18 atkvæði. Var hann talinn kjörinn 2. varamaður og atkvæði hans ekki talin lengra. Björn í Lóni, sem hlaut 2 atkvæði í sæti 3. varamanns, var talinn kjörinn 3. varamaður med 27 atkvæðum og atkvæði hans ekki talin lengra.

             Rétt er að taka fram að enginn þeirra sem kosningu hlaut er nafngreindur í kærunni og sama er að segja um athugasemdir kjörstjórnar. Nöfn eru hér tilgreind samkvæmt gerðabók kjörstjórnar, sem kjörnefnd hefur undir höndum, sbr. hér að framan.

             Kærandi kveðst með engu móti geta fallist á að hér hafi verið rétt að staðið. Telur hann að Björn Guðmundsson eigi að taka sæti 2. varamanns og að telja þurfi atkvæði Guðmundar Héðinssonar í 3. sætið, til að unnt sé að ákveða með vissu hvort hann eigi rétt á því sæti. Fyrir liggur að ónefndur maður (H í kæru) fékk 1 atkvæði sem aðalmaður, 5 í sæti 1. varamanns, 9 í sæti 2. varamanns og 9 í sæti 3. varamanns, eða samtals 24 atkvæði, en engin atkvæði í sæti 4. eða 5. varamanns. Var Ólafur Jónsson, Fjöllum, talinn kjörinn 4. varamaður med 22 atkvæði og Hlynur Bragason, Heiðarbrún, 5. varamaður með 21 atkvæði. Tekur kærandi fram að ljúka þurfi talningu atkvæða allra varamanna til þess að unnt sé að úthluta þeim réttum sætum.

             Kjörstjórn Kelduneshrepps ritaði umsögn um kæruna hinn 1. júní sl. sem kjörnefnd móttók 3. júní, ásamt talningarblöðum og gerðabók. Segir kjörstjórn það einróma skilning sinn, að til að fá tiltekið sæti sem varamaður þurfi viðkomandi að fá atkvæði í það sæti og þá fyrst verði atkvæði hans úr kosningu aðal- og varamanna á undan virk. Hafi Björn Guðmundsson (A) ekki verið úrskurðaður 2. varamaður, þar sem hann hafi ekkert atkvæði fengið í sæti 2. varamanns og H hafi hvorki náð 4. né 5. varamannssæti, þrátt fyrir að hann væri samtals með 24 atkvæði í sæti aðalmanns og 1.-3. varamanns, þar sem hann hafi ekkert atkvæði fengið í 4. og 5. sæti. Bendir kjörstjórnin á að kærandi geri ekki ágreining um 1. varamann og dregur af því þá ályktun að hann virðist þar með sammála þeim skilningi hennar að til þess að hljóta tiltekið sæti í röð varamanna þurfi viðkomandi að fá atkvæði í það sæti.

             Samkvæmt 2. mgr. 87. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna skulu varamenn, þar sem kosning er óbundin, vera jafn margir og aðalmenn. Varamenn eru þeir sem hljóta atkvæðamagn þannig: 1. varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns. 2. varamaður er kosinn sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna. Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í.

             Kjörstjórn Kelduneshrepps bar eftir þessari reglu að leggja þau 25 atkvæði, sem Björn í Lóni hlaut í sæti aðalmanns, við þau atkvæði sem hann hlaut í sæti 1. varamanns og í sæti 2. varamanns, er þar var komið í talningunni að finna hver hefði náð kjöri í sæti 2. varamanns. Björn fékk hvorki atkvæði í 1. né 2. sæti varamanns, eins og áður segir. 25 atkvæði í sæti aðalmanns að engu viðbættu eru 25 atkvæði og átti honum að reiknast það atkvæðamagn samtals í sæti 2. varamanns. Guðmundur Héðinsson hlaut 9 atkvæði sem aðalmaður, 3 sem 1. varamaður og 6 sem 2. varamaður. Samtals eru það 18 atkvæði og tapaði hann því kosningu í sæti 2. varamanns fyrir Birni með 7 atkvæða mun. Samkvæmt þessu átti Björn að ákvarðast kosinn 2. varamaður. Ekki liggur fyrir á talningarblöðum hversu mörg atkvæði Guðmundur Héðinsson hlaut í 3. til 5. sæti á lista yfir varamenn. Er kjörnefnd sammála kæranda - eins og hér stendur á - að ekki er hægt að sjá hverjum beri með réttu sæti 3., 4. og 5. varamanns, fyrr en að undangenginni frekari talningu.

             Af framansögðu leiðir að ógilda verður niðurstöðu kjörstjórnar Kelduneshrepps um kosningu í 2.-5. sæti varamanna í hreppsnefnd. Til samræmis við það ber að leggja fyrir kjörstjórnina að gefa út kjörbréf til Björns Guðmundssonar, Lóni, sem 2. varamanns í hreppsnefnd og ákvarða á ný, að undangenginni talningu atkvæða og í samræmi við ofangreinda reglu 2. mgr. 87. gr. sveitarstjórnarkosningalaga, hverjir hafi hlotið kosningu í 3., 4. og 5. sæti varamanns.“

 

             Kærandi telur að fella beri úrskurð nefndarinnar úr gildi, en færir ekki fyrir því frekari rök en fram koma í öðrum gögnum málsins, meðal annars í umsögn kjörstjórnar til fyrrgreindrar nefndar.

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Kelduneshreppi þann 23. maí 1998 giltu lög kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Kosningarnar í sveitarfélaginu voru óbundnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna.

 

             Í máli þessu er deilt um aðferð við ákvörðun á röð varamanna í sveitarstjórn þegar kosningar eru óbundnar.

 

             Í 2. mgr. 87. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði:

             “Varamenn, þar sem kosning er óbundin, skulu vera jafnmargir og aðalmenn. Varamenn eru þeir sem hljóta atkvæðamagn þannig: 1. varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti á lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns. 2. varamaður er kosinn sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna. Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í. Nú fá tveir menn jafnmörg atkvæði samanlagt í sæti varamanns og skal þá hlutkesti ráða hvor hlýtur sætið. Sá sem ekki hlýtur sætið tekur sæti næsta varamanns og færast þá þeir varamenn sem á eftir koma um set.“

 

             Framangreind regla kom fyrst í sveitarstjórnarlög með lögum nr. 19/1978 um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 58/1961. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra breytingarlaga, sem lagt var fram á 99. löggjafarþingi 1977-78, segir svo m.a.: “Sú leið, sem lagt er til í frv. að farin verði, ætti að gera kleift að kjósa aðalmenn og varamenn á sama kjörfundi og tryggja að ekki verði aðrir kosnir aðalmenn en þeir, sem til þess hafa kjörfylgi, en þeim nýtist atkvæðin til kjörs varamanna, sem fá atkv. á lista aðalmanna, nái þeir ekki kjöri sem slíkir.“

 

             Með vísan til þessara ummæla telur ráðuneytið að túlka beri ákvæði 2. mgr. 87. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna á þá leið að við ákvörðun á því hver telst kjörinn varamaður beri að leggja saman þau atkvæði sem viðkomandi fær í sæti aðalmanns, og í viðkomandi sæti varamanns, auk atkvæða sem hann fær í sæti varamanna á undan því sæti sem um ræðir ef við á. Samtala þeirra atkvæða ræður burtséð frá því hvort viðkomandi einstaklingur fær eitthvert atkvæði í það sæti varamanns sem úthluta á eða ekki. Með þessum hætti nýtast þau atkvæði sem viðkomandi fær sem aðalmaður að fullu við úthlutun á sætum varamanna.

 

             Með vísan til þessa og röksemda að öðru leyti í hinum kærða úrskurði ber að staðfesta niðurstöðu hans.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Úrskurður nefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á Húsavík þann 28. maí 1998, dagsettur 9. júní 1998, er staðfestur.

 

F. h. r.

 

Sturlaugur Tómasson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

 

 

Afrit:   Sýslumaðurinn á Húsavík

             Hreppsnefnd Kelduneshrepps

             Þórarinn Þórarinsson, Vogum, Kelduneshreppi

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta