Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Þórshafnarhreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998

Þorsteinn Þorbergsson                                        10. júlí 1998                                                       98060067

Vesturvegi 5                                                                                                                                                 1022

680 Þórshöfn

 

 

 

 

             Þann 10. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með bréfi, dagsettu 19. júní 1998, kærði Þorsteinn Þorbergsson, Vesturvegi 5, Þórshöfn, til félagsmálaráðuneytisins úrskurð, dagsettan 11. júní 1998, sem nefnd skv. 1. málslið 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp um vanhæfi formanns yfirkjörstjórnar við ákvarðanatökur er vörðuðu framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Þórshafnarhreppi þann 23. maí 1998. Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Ráðuneytið óskaði eftir með bréfi, dagsettu 23. júní 1998, til sýslumannsins á Húsavík að afrit af öllum gögnum sem varða rannsókn framangreindrar nefndar á málinu yrðu send ráðuneytinu. Gögnin bárust ráðuneytinu þann 25. júní 1998.

 

I.          Málsatvik og málsástæður

 

             Með bréfi, dagsettu 29. maí 1998, kærði Þorsteinn Þorbergsson, Vesturvegi 5, Þórshöfn, tiltekin atriði í framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Þórshafnarhreppi þann 23. maí 1998. Efni kærunnar var eftirfarandi:

             “1) Við úrskurð um lögmæti framboðslista var formaður yfirskjörstjórnar, Brynhildur Halldórsdóttir, vanhæf þar sem sonur hennar, Guðmundur Vilhjálmsson, skipar 6. sæti annars framboðslistans, Þ-listans. Er hér um skýlaust brot á 16. gr. laganna að ræða.

             2) Vanhæfi formanns kjörstjórnar skv. 1. tölulið kann að hafa haft áhrif á þá niðurstöðu yfirkjörstjórnar að heimila tveimur frambjóðendum af hinum listanum, F-listanum, að draga sig af honum eftir að framboðsfrestur var úti, án þess að heimila að aðrir tækju sæti á listanum í þeirra stað. Umboðsmenn F-listans mótmæltu þessari niðurstöðu kjörstjórnar og gerðu áskilnað um að á hann yrði látið reyna. Ljóst er að niðurstaða kjörstjórnar veikti framboð F-listans og hafði þannig áhrif á niðurstöður kosninganna.

             3) Fundir kjörstjórnar, þar sem umrædd atriði voru afgreidd, fóru fram á heimili formanns kjörstjórnar sem jafnframt er heimili sonar hennar, sem skipar 6. sæti Þ-listans, og var hann viðstaddur fundina.“

 

             Kæran barst sýslumanninum á Húsavík þann 29. maí 1998. Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna skipaði sýslumaður þann sama dag nefnd til að úrskurða í málinu. Nefndin kvað upp úrskurð sinn þann 11. júní 1998 að fenginni umsögn yfirkjörstjórnar Þórshafnarhrepps, sbr. 2.mgr. 93. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Niðurstaða nefndarinnar var eftirfarandi: “Kröfum kæranda, Þorsteins Þorbergssonar kt. 200263-2519 um ógildingu og endurtekningu á sveitarstjórnarkosningum, sem fram fóru í Þórshafnarhreppi hinn 23. maí 1998, er hafnað.“

 

             Nefndin lýsti málavöxtum og rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

 

             “Í greinargerð yfirkjörstjórnarinnar kemur fram að tveir frambjóðendur á F-lista, þær Dagný Marinósdóttir og Bjarney S. Hermundardóttir, sögðu sig af listanum bréflega hinn 3. maí 1998, en þá var framboðsfrestur runninn út. Honum lauk á hádegi hinn 2. maí og höfðu þá komið fram tveir framboðslistar. Bréf frambjóðendanna tveggja liggja frammi í málinu.

             Samkvæmt greinargerð yfirkjörstjórnarinnar kom beiðni um að bæta öðrum frambjóðendum á listann í stað þessara tveggja aldrei fram skriflega, en hennar var getið í fundargerðabók yfirkjörstjórnar.

             Fram kemur að yfirkjörstjórnin leitaði ráða bæði hjá sýslumanninum á Húsavík og félagsmálaráðuneytinu um hvernig með skyldi fara. Niðurstaðan varð sú, að höfðu samráði við þessa aðila, að fólki væri frjálst að hætta við framboð en listinn væri löglegur eftir sem áður, en nöfn annarra frambjóðenda neðar á listanum færðust upp. Óheimilt væri að bæta nýjum nöfnum á listann í stað þeirra sem hættu.

             Í greinargerð yfirkjörstjórnarinnar er einnig rakið að formaður nefndarinnar, Brynhildur Halldórsdóttir, gerði tilraun til að víkja sæti áður en úrskurðað var um ofangreind atriði, en þar sem ekki tókst að fá varamann í tíma ákvað hún að klára málið, enda væri um að ræða mál sem snerti eingöngu F-listann en ekki Þ-listann þar sem Guðmundur Vilhjálmsson var í 6. sæti.

             Loks kemur fram í greinargerð yfirkjörstjórnar að hvorki Guðmundur Vilhjálmsson né kærandi Þorsteinn Þorbergsson hafi setið fundi þar sem um mál þessi var fjallað.

             Álit nefndarinnar:

             Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 5/1998 skal kjörstjórnarmaður víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar skyldmenni hans, þar á meðal börn. Í máli þessu liggur fyrir að 6. maður á Þ-lista er sonur formanns yfirkjörstjórnar Brynhildar Halldórsdóttur.

             Ákvarðanir þær sem kærðar eru í máli þessu snerta ekki Þ-listann heldur eingöngu hinn listann sem í framboði var, F-listann. Ekki er því sjálfgefið að skyldleikinn við Guðmund hafi valdið vanhæfi Brynhildar til að fjalla um mál þau sem hér um ræðir, enda vörðuðu þau Guðmund ekki nema þá með mjög óverulegum og óbeinum hætti.

             Að mati kæranda eru þó líkur til að skyldleiki Brynhildar og Guðmundar hafi haft áhrif á þá niðurstöðu yfirkjörstjórnar að heimila tveimur frambjóðendum að segja sig af F-listanum, en hafna því að aðrir mættu taka þar sæti í þeirra stað, eftir að framboðsfresti lauk.

             Á þessi rök kæranda verður ekki fallist.

             Samkvæmt 18. gr. laga nr. 5/1998 verður nafn manns ekki sett á framboðslista án skriflegs samþykkis hans og skv. 22. gr. skal skrifleg yfirlýsing frambjóðenda um samþykki þeirra fylgja listum. Enn fremur segir í 27. gr. að ef skriflegt leyfi frambjóðanda fylgir ekki með framboðslista, skuli yfirkjörstjórn nema nafn hans brott af listanum.

             Ljóst er því að enginn verður settur á framboðslista gegn vilja sínum og skv. almennum reglum hafa menn fulla heimild til að afturkalla slíkt samþykki. Samkvæmt 26. grein laganna er framboðslisti löglegur ef á honum eru minnst jafn mörg nöfn og aðalmenn eru sem kjósa skal. Í þessu tilviki eru aðalmenn í hreppsnefnd fimm. Þrátt fyrir brottfall tveggja af F-listanum voru eftir átta og listinn því löglegur.

             Samkvæmt 30. gr. laga nr. 5/1998 er heimilt að bæta mönnum á lista eftir að framboðsfresti lýkur í stað frambjóðanda sem deyr. Þetta er sérákvæði í lögunum og eingöngu bundið við andlát frambjóðanda. Verður því að gagnálykta á þann veg að óheimilt sé í öðrum tilvikum að bæta nýjum frambjóðendum á lista, eftir lok framboðsfrests.

             Ákvarðanir yfirkjörstjórnar Þórshafnarhrepps, sem kærðar eru í máli þessu voru ekki háðar mati, heldur algerlega bundnar af framangreindum lagaákvæðum. Ekki verður annað séð en kjörstjórnin hafi tekið þær ákvarðanir einar, sem henni bar að taka samkvæmt ákvæðum laganna, eins og málsatvikum er háttað.

             Telja verður að sú staða að formaður yfirkjörstjórnar sé móðir eins frambjóðanda sé mjög óheppileg, enda þótt hún valdi ekki sjálfkrafa vanhæfi til að fjalla um einstök mál, sem ekki snerta þann frambjóðanda.

             Eins og málum var háttað þykir ljóst að þessi tengsl höfðu ekki áhrif á þær ákvarðanir sem yfirkjörstjórn tók og því heldur engin áhrif á niðurstöður kosninganna. Verður því með vísan til 2. mgr. 16. gr., sbr. 94. gr. laga nr. 5/1998 að hafna öllum kröfum kæranda í máli þessu.“

 

             Eins og fram hefur komið kærði Þorsteinn Þorbergsson úrskurðinn til ráðuneytisins þann 19. júní 1998. Kærandi fer fram á að kosningaferlið allt fari fram að nýju, þ.m.t. að ákveðinn verði nýr framboðsfrestur. Um röksemdir er vísað til fyrri kæru hans til sýslumannsins á Húsavík.

 

II.         Niðurstaða ráðuneytis

 

             Um framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna í Þórshafnarhreppi þann 23. maí 1998 giltu lög um kosningar til sveitastjórna nr. 5/1998. Kosningarnar í sveitarfélaginu voru bundnar hlutfallskosningar, sbr. 20. og 21. gr. laganna.

 

             Í 24. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna segir m.a. svo: “Þegar frestur sá er liðinn, sem ákveðinn er um framboð, heldur yfirkjörstjórn fund næsta dag og skal umboðsmönnum framboðslista veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist þá gallar á framboðslista skal hlutaðeigandi umboðsmönnum gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa.“ Skýr fyrirmæli eru því í ákvæðinu um að yfirkjörstjórn kannar hvort framboðslistar uppfylli þau lagaskilyrði sem sett eru í lög um kosningar til sveitarstjórna til að þeir teljist gildir. Jafnframt kemur fram í 25. gr. laganna að yfirkjörstjórn úrskurðar um kjörgengi frambjóðenda. Um kjörgengi eru skýr fyrirmæli í 3. gr. laganna, en þar segir að kjörgengur í sveitarstjórn sé hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr. laganna og hefur ekki verið sviptur lögræði. Samkvæmt framangreindu var það því verkefni yfirkjörstjórnar Þórshafnarhrepps að úrskurða á grundvelli laga um kosningar til sveitarstjórna um gildi framboðslista sem bornir voru fram í sveitarfélaginu.

 

             Í gögnum málsins liggur fyrir að sonur formanns yfirkjörstjórnar var í 6. sæti annars listans sem borinn var fram. Í 2. mgr. 16. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna er svohljóðandi ákvæði: “Einnig skal kjörstjórnarmaður víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar maka hans eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum legg til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðinga.“ Ljóst er því að kjörstjórnarmaður er vanhæfur til að úrskurða um mál sem varðar sérstaklega barn hans. Ekki er þó sjálfgefið að viðkomandi kjörstjórnarmaður sé alltaf vanhæfur, þ.e. við ákvörðun allra mála sem tengjast framboðslistunum og kosningunum að öðru leyti. Verður ávallt að leggja sjálfstætt mat á hvort þeir hagsmunir sem hið einstaka mál snýst um eru það smávægilegir eða eðli málsins með þeim hætti að ekki sé talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á ákvörðun í málinu.

 

             Hvað varðar það mál sem hér er til úrlausnar, verður að telja að eðli þess sé með þeim hætti að reglur um ákvörðun um gildi framboðslista og kjörgengi einstakra frambjóðanda séu að öllu leyti bundnar í lögum um kosningar til sveitarstjórna og ekkert eða sáralítið mat sé eftirlátið yfirkjörstjórn. Þegar þetta er haft í huga ásamt því að ekki var ágreiningur um gildi framboðslista Þórshafnarlista Bæjarmálafélags Þórshafnar, þar sem sonur formanns yfirkjörstjórnar skipaði 6. sætið, verður formaður yfirkjörstjórnar Þórshafnarhrepps ekki talinn vanhæfur við töku ákvörðunar um gildi framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 23. maí 1998.

 

             Um þann þátt kærunnar er lýtur að ákvörðun yfirkjörstjórnar um að hafna að nýir aðilar tækju sæti á lista vinstri manna og félagshyggjufólks eftir að framboðsfrestur var útrunnin vísast til röksemda í hinum kærða úrskurði. Rétt er að taka auk þess sérstaklega fram að framboðslisti með átta nöfnum var löglegur, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 5/1998. Ráðuneytið telur að ekki hafi verið sýnt fram á að sú aðstaða að á öðrum listanum voru átta nöfn en á hinum tíu hafi getað haft áhrif á úrslit kosninganna.

 

             Með hliðsjón af greinargerð yfirkjörstjórnar Þórshafnarhrepps og gerðabók yfirkjörstjórnar þykir ósönnuð sú staðhæfing kæranda að Guðmundur Vilhjálmsson hafi verið viðstaddur fundi kjörstjórnarinnar. Ekki þykir ástæða til að gera athugasemd við fundarstað yfirkjörstjórnar.

 

             Með vísan alls framangreinds og röksemda að öðru leyti í hinum kærða úrskurði ber að staðfesta niðurstöðu hans.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Úrskurður nefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á Húsavík þann 29. maí 1998, dagsettur 11. júní 1998, er staðfestur.

 

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

Afrit:   Sýslumaðurinn á Húsavík

             Hreppsnefnd Þórshafnarhrepps

             Yfirkjörstjórn Þórshafnarhrepps

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta