Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vesturbyggð - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 23. maí 1998.

Sigríður Pálsdóttir                                                 22. júlí 1998                                                       98060071

Sigtúni 45                                                                                                                                                     1022

450 Patreksfirði

 

 

             Þann 22. júlí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með símskeyti, dagsettu 22. júní 1998, kærði Sigríður Pálsdóttir, Sigtúni 45, Patreksfirði, til ráðuneytisins úrskurð sem nefnd skv. 1. málslið 1. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 kvað upp þann 15. júní 1998 um gildi sveitarstjórnarkosninga í Vesturbyggð þann 23. maí 1998. Úrskurðurinn er kærður til ráðuneytisins með heimild í 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Ráðuneytinu barst ennfremur þann 25. júní 1998 bréf frá Sigríði Pálsdóttur, dagsett 22. júní 1998, þar sem gerð er nánari grein fyrir kærunni.

 

             Með bréfi, dagsettu 23. júní 1998, til sýslumannsins á Patreksfirði óskaði ráðuneytið eftir að afrit af gögnum sem varða rannsókn framangreindrar nefndar á málinu yrðu send ráðuneytinu. Gögnin bárust ráðuneytinu þann 1. júlí 1998 frá settum sýslumanni.

 

I.          Málsatvik og málsástæður.

 

             Með bréfi, dagsettu 28. maí 1998, kærði Sigríður Pálsdóttir til sýslumannsins á Patreksfirði kosningu til bæjarstjórnar Vesturbyggðar sem fram fór þann 23. maí 1998.

 

             Niðurstaða kosninganna var sú að D listi Sjálfstæðisflokks hlaut 266 atkvæði og fékk fjóra menn kjörna, K listi Broslista bjartsýnna bæjarbúa hlaut 47 atkvæði og engan mann kjörinn, S listi Samstöðu hlaut 284 atkvæði og fjóra menn kjörna og V listi Framfarasinna, Vesturbyggðarlistinn hlaut 127 atkvæði og einn mann kjörinn. Auðir og ógildir seðlar voru 17.

 

             Kæran barst sýslumanninum á Patreksfirði þann 29. maí 1998. Þar sem kæran lýtur að störfum sýslumannsins á Patreksfirði vék hann þegar sæti sem sýslumaður. Með bréfi, dagsettu 29. maí 1998, fór sýslumaðurinn þess á leit við dómsmálaráðuneytið að settur yrði sérstakur sýslumaður til þess að skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Með bréfi, dagsettu 2. júní 1998, setti dómsmálaráðuneytið Hervöru Þorvaldsdóttur, héraðsdómara, til að gegna embætti sýslumanns á Patreksfirði til að fara með kæru Sigríðar Pálsdóttur. Settur sýslumaður skipaði þann 3. júní 1998 nefnd, sem kvað upp úrskurð sinn þann 15. júní 1998, að fenginni munnlegri umsögn kæranda og Þórólfs Halldórssonar, sýslumanns á Patreksfirði, sem auk þess lagði fram skriflegar athugasemdir. Þá kom einnig fyrir nefndina Jón B. G. Jónsson, yfirlæknir Sjúkrahúss Patreksfjarðar. Ennfremur barst umsögn kjörstjórnar nefndinni þann 9. júní 1998.

 

             Niðurstaða nefndarinnar var eftirfarandi: “Niðurstaða kosninga til sveitarstjórnar í Vesturbyggð sem fram fóru þann 23. maí 1998 skal óbreytt standa.“

 

             Nefndin lýsti málavöxtum með eftirfarandi hætti:

 

             “Að sýslumaður sem jafnframt er kjörstjóri við utankjörfundaratkvæðagreiðslu sé varaformaður Sjálfstæðisfélagsins Skjaldar á Patreksfirði og að hann sé varamaður í uppstillingarnefnd félagsins. Hún [Sigríður Pálsdóttir] telur að hann hafi haft óeðlileg áhrif á úrslit kosninganna með því að sjá um utankjörstaðakosningu vegna augljósra tengsla við eitt framboðið. Hún telur að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hafi verið þverbrotin, með því að hann hafi séð um utankjörfundaratkvæðagreiðsluna og að hann geti ekki talist óhlutdrægur í þessum kosningum. Hún kveður Vesturbyggðarlistann hafa verið með tvo menn inni í bæjarstjórn þar til að talningu utankjörfundaratkvæða hafi komið, en þá hafi fjórði maður af lista Sjálfstæðisflokksins komist inn í bæjarstjórn á kostnað annars manns af Vesturbyggðarlistanum.“

 

             Ennfremur segir í úrskurðinum að kærandi byggi á því að “sýslumaður hafi ekki farið rétt að við kosningar í heimahúsum og á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar. Hún kveður að sýslumaður hafi þann 21. maí farið á heimili Guðbjartar Þórðarsonar að Aðalstræti 126A og látið hann kjósa. Hún kveðst ekki telja að Guðbjartur hafi sótt um með vikufyrirvara eins og 63. gr. laga um alþingiskosningar kveði á um. Þá lýsir hún einnig í kærunni að sýslumaður hafi í fyrstu aðeins afhent Guðbjarti einn stimpil merktan D listanum, en síðar hafi sýslumaður afhent honum alla stimplana eftir að Guðbjartur hafi beiðst þess. Þá kveður hún að sýslumaður hafi séð á kjörseðilinn vegna þess að Guðbjartur hafi ekki verið búinn að setja kjörseðilinn í umslagið þegar sýslumaður kom aftur inn til hans.

             Þá kveður hún að Þuríður Ingimundardóttir sem hún kveður vera í fyrsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins og jafnframt er starfsmaður bæjarfélagsins, hafi haft áhrif á það að Kristín Finnbogadóttir kaus heima en fór ekki á kjörstað. Hún telur Kristínu ekki hafa sótt um með vikufyrirvara í samræmi við 63. gr. laga um alþingiskosningar. Þá bendir hún á að atkvæði Kristínar hafi verið skráð sem atkvæði frá sjúkrahúsi.

             Kærandi kveður sýslumann ekki hafa farið rétt að við sjúkrahúskosningar þar sem sýslumaður hafi fyrst farið á sjúkrahúsið að kvöldi föstudagsins 22. maí og innt hjúkrunarfræðing eftir því hvort hann mætti fara inn á stofur og láta fólk kjósa. Þar sem sjúklingar hafi verið gengnir til náða hafi honum verið meinað að fara inn á stofur og hafi hann þá spurt hvort hann mætti koma morguninn eftir kl. 10.30. Hann hafi gert það og hafi vakthafandi læknir, Orri, farið með honum inn á stofur. Þeir sem hafi kosið, hafi verið Ólafur Sveinsson, Þorbjörg Jóhannsdóttir og Sigurmundur Jörundsson, sem þurfti á hjálp að halda við kosninguna. Hún kveður bæði lækninn Orra og sýslumann hafa verið viðstadda er hann greiddi atkvæði sitt og hafi sú atkvæðagreiðsla því farið í bága við 66. gr. laga um alþingiskosningar.

             Kærandi kveður sýslumann ekki hafa staðið rétt að utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna þessara fimm einstaklinga og hafi verið miklar líkur á að hann hafi getað haft þau áhrif að fjórði maður á lista Sjálfstæðisflokksins hefði komist inn, en ekki annar maður af lista Vesturbyggðarlista. Hún kveður þessi fimm atkvæði hafa skipt máli um úrslit kosninganna. Því fer hún fram á að kosningin verði endurtekin og sýslumaður víttur fyrir vinnubrögð sín og honum meinað að koma nálægt utankjörfundaratkvæðagreiðslu á meðan hann gegni trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“

 

             Sýslumaður lagði fram skriflegar athugasemdir en um þær segir meðal annars í úrskurðinum: “[Hann] kveður það ekki skilyrði fyrir embættisgengi sýslumanna, að þeir séu ekki flokksbundnir í Sjálfstæðisflokknum eða öðrum stjórnmálaflokkum. Hann kveður það jafnframt rangt að hann sé varaformaður Sjálfstæðisfélagsins Skjaldar. Hann kveður Ólaf Steingrímsson, Urðargötu 22, Patreksfirði, vera varaformann.“

 

             Jafnframt segir að sýslumaður telji “atvikalýsingu kæranda um kosningu í heimahúsum alla úr lagi færða og mótmælir hann henni í heild sem rangri. Hann kveður hins vegar rétt, að umsóknir þeirra um að fá að kjósa heima hafi ekki borist skriflega með vikufyrirvara til kjörstjóra. Hann kveðst hins vegar líta svo á, að sá vikufrestur sé settur til hagræðis fyrir kjörstjóra og þar sem kjörstjóri hafi auðveldlega getað orðið við óskum þessara kjósenda um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi hafi hann ekki séð ástæðu til annars en að verða við þeim.“

 

             Varðandi atkvæðagreiðslu á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar kemur fram að “sýslumaður [telji] hana hafa farið fram samkvæmt ákörðun kjörstjóra, að höfðu samráði við vakthafandi hjúkrunarfræðing og hefði aðstaða til atkvæðagreiðslu verið útbúin í herbergi inn af setustofu sjúklinga. Varðandi kosningu Sigurmundar Jörundssonar kveður sýslumaður það rétt að kjörstjóri hefði aðstoðað hann við kosninguna og að Orri Ingþórsson læknir hefði verið viðstaddur atkvæðagreiðsluna.

             Sýslumaður mótmælir harðlega sem rakalausum ósannindum að kjörstjóri hafi á nokkurn hátt reynt að hafa áhrif á hvernig umræddir kjósendur ráðstöfuðu atkvæðum sínum.“

 

             Nefndin rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:

 

             “Skilja verður kröfugerð kæranda á þá leið að hún krefjist ógildingar á kosningum þeim sem fram fóru til sveitarstjórnar í Vesturbyggð þann 23. maí sl.

             Varðandi fyrri lið í kæru er óumdeilt að sýslumaður er ekki í kjöri til sveitarstjórnar og er það mat nefndarinnar að þau tilvik sem kærandi tilgreinir í kæru sinni og sýslumaður hefur mótmælt, varði hvorki við kosningalög nr. 5/1998 né feli í sér brot á jafnræðisreglu.

             Síðari kæruliður lýtur annars vegar að kosningu í sjúkrahúsi og hins vegar kosningu í heimahúsi. Verður fyrst vikið að kosningu í heimahúsi.

             1. Kosning í heimahúsi.

             Samkvæmt þeim gögnum sem sýslumaður hefur lagt fyrir nefndina, er ljóst að ekki var farið að ákvæðum 3. mgr. 63. gr. laga um alþingiskosningar, en ákvæði laga þeirra eiga við um utankjörfundaratkvæðagreiðslu í sveitarstjórnarkosningum, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 5/1998, varðandi tímamörk þau, sem þar eru greind.

             Við túlkun þessa ákvæðis verður þó að hafa í huga, að tilgangur þess hefur vart verið sá að takmarka kosningarrétt einstakra manna, heldur fremur þeir hagsmunir kjörstjóra að vita með nokkrum fyrirvara um fjölda þeirra, sem hugsanlega þyrftu að notfæra sér þessa þjónustu til að neyta kosningaréttar síns.

             Með skírskotun til þeirra gundvallarréttinda, sem kosningaréttur er, verður því að telja að sá háttur sem hafður var á við atkvæðagreiðslu þessa hafi eins og á stóð, verið réttlætanlegur.

             Með vísan til andmæla kjörstjóra á fundi kjörnefndar er og ósönnuð sú staðhæfing kæranda að kjörstjóri hafi séð á kjörseðil Guðbjarts Þórðarsonar, Aðalstræti 126A.

             Vegna staðhæfingar kæranda um að atkvæði Kristínar Finnbogadóttur hafi verið skráð sem atkvæði frá sjúkrahúsi skoðaði kjörnefndin utankjörfundarbók og kom þá í ljós að atkvæði það var skráð þannig: “3. mgr. 63. gr. kosnl.“, þ.e. sem atkvæði greitt í heimahúsi.

             2. Kosning á sjúkrahúsi.

             Samkvæmt því sem fram kom á fundi nefndarinnar þann 11. júní sl. með viðtölum við kæranda, kjörstjóra og yfirlækni sjúkrahússins voru þeir þrír sjúklingar sem neyttu kosningarréttar síns á sjúkrahúsinu einu sjúklingarnir sem um það voru færir af heilsufarsástæðum.

             Þrátt fyrir að kjörstjóri færi ekki að 63. gr. laga um alþingiskosningar, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 5/1998, sbr. og 3. gr. leiðbeininga um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl. nr. 120/1991, um birtingu auglýsingar, er það álit nefndarinnar að þessi háttur á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar hafi verið réttlætanlegur, enda neyttu allir sjúklingar á sjúkrahúsinu kosningaréttar síns sem á annað borð voru um það færir.

             Í skriflegum athugasemdum kjörstjóra til nefndarinnar kemur fram, að einn þeirra sem kusu utankjörfundar, Sigurmundur Jörundsson hafi óskað eftir aðstoð kjörstjóra við að kjósa og að læknirinn Orri Ingþórsson hafi fylgt honum inn í herbergi það sem kosning fór fram í. Þessi framkvæmd á atkvæðagreiðslu brýtur í bága við 3. mgr. 66. gr. laga um alþingiskosningar, sbr. og 4. mgr. 43. gr. laga nr. 5/1998, þar sem kveðið er á um að aðstoð kjörstjóra við kjósanda fari fram í einrúmi.

             Í I. kafla úrskurðar þessa eru rakin úrslit kosninganna, en samkvæmt þeim hefðu fjögur atkvæði Sjálfstæðisflokks þurft að falla til Vesturbyggðarlista til þess að listarnir hefðu getað orðið jafnir, en þá hefði hlutkesti ráðið, sbr. 4. tl. 85. gr. laga nr. 5/1998

             Samkvæmt þessu og því áliti kjörnefndar að aðrir ágallar en þeir sem voru á kosningu Sigurmundar Jörundssonar hafi verið réttlætanlegar eins og á stóð, er ljóst að gallar á atkvæðagreiðslu hans geta ekki leitt til ógildingar á kosningunum enda gat atkvæðið hans ekki haft áhrif á úrslit kosninganna, sbr. 94. gr. laga nr. 5/1998.“

 

             Eins og fram hefur komið kærði Sigríður Pálsdóttir úrskurðinn til ráðuneytisins þann 22. júní 1998. Með bréfi, dagsettu 22. júní 1998, til ráðuneytisins leggur hún áherslu á að hún telji framkvæmd sýslumannsins á Patreksfirði á utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna þessara fimm einstaklinga vera ámælisverða, þar sem formreglna hafi meðal annars ekki verið gætt. Telur hún að þessi fimm atkvæði hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

 

             Kærandi óskar eftir því að kosningarnar verði endurteknar vegna þessara galla og einnig að ráðuneytið veiti Þórólfi Halldórssyni sýslumanni ávítur fyrir vinnubrögð sín í þessum kosningum.

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Vesturbyggð þann 23. maí 1998 giltu

lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

 

Um hæfi sýslumanns sem kjörstjóri við utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

 

             Samkvæmt 4. mgr. 43. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna gilda lög um kosingar til Alþingis nr. 80/1987 um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eftir því sem við á. Í a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um kosningar til Alþingis kemur fram að kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar séu sýslumenn. Í 2. mgr. sömu greinar segir m.a.: “Ef kjörstjórar eru í framboði, skulu þeir víkja sæti og varamenn gegna störfum þeirra.“ Orðalag ákvæðisins er skýrt og kveður á um við hvaða aðstæður kjörstjórar teljast almennt vanhæfir.

 

             Af gögnum málsins verður ráðið að Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði, var ekki á framboðslistum þeim sem bornir voru fram í sveitarstjórnarkosningum í Vesturbyggð þann 23. maí 1998. Var hann því ekki vanhæfur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um kosningar til Alþingis, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna.

 

             Í ákvæðum IV. kafla laga um kosningar til Alþingis er ekki að finna fyrirmæli um að almenn stjórnmálaþátttaka, umfram það sem greinir í 2. mgr. 13. gr. laga um kosningar til Alþingis, valdi vanhæfi kjörstjóra utan kjörfundar. Sú staða að kjörstjóri utan kjörfundar (hér sýslumaður) sé virkur í stjórnmálastarfi á viðkomandi stað og sjái sjálfur um t.d. utankjörfundaratkvæðagreiðslu í heimahúsi og á sjúkrahúsi getur verið óheppileg. Þegar litið er til gagna málsins og að ekki hefur verið sýnt fram á að sýslumaðurinn hafi í krafti stöðu sinnar haft áhrif á úrslit kosninganna er það niðustaða ráðuneytisins að málsatvik þessi geti ekki leitt til ógildis sveitarstjórnarkosninganna í Vesturbyggð sem fram fóru 23. maí 1998.

 

Kosningar í heimahúsum og á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar.

 

             Ljóst er af gögnum málsins að ekki var fylgt formreglum laga um kosningar til Alþingis nr. 80/1987 við framkvæmd sýslumannsins á Patreksfirði á utankjörfundaratkvæðagreiðslu í heimahúsi og á sjúkrahúsi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Vesturbyggð. Eru slík vinnubrögð ámælisverð, en með vísan til röksemda í hinum kærða úrskurði verður, eins og á stendur í máli þessu, ekki talið að sýnt hafi verið fram á að þeir ágallar hafi haft áhrif á úrslit kosninganna, sbr. 94. gr. lag um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

 

             Með vísan til alls framangreinds og röksemda að öðru leyti í hinum kærða úrskurði ber að staðfesta niðurstöðu hans.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Úrskurður nefndar, sem skipuð var af settum sýslumanni á Patreksfirði þann

3. júní 1998, dagsettur 15. júní 1998, er staðfestur.

 

Páll Pétursson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Afrit:   Sýslumaðurinn á Patreksfirði

             Settur sýslumaður, Hervör Þorvaldsdóttir

             Bæjarstjórn Vesturbyggðar

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta