Eyja- og Miklaholtshreppur - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 25. maí 2002
Holti, Eyja- og Miklaholtshreppi
311 BORGARNES
Hinn 27. júní 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi
úrskurður:
Með erindi, dags. 12. júní 2002, hefur Ingunn Hrefna Albertsdóttir, Holti, Eyja- og Miklaholtshreppi, skotið til ráðuneytisins úrskurði, dags. 6. júní 2002, sem kveðinn var upp af nefnd sem skipuð var af sýslumanni til að fjalla um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Eyja- og Miklaholtshreppi, sbr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
Kærandi rekur í bréfi sínu til ráðuneytisins að hún telji að það hafi haft áhrif á kosninguna að leiðbeiningar frá félagsmálaráðuneyti voru ekki festar upp í kjörfundarstofu eins og lög kveða á um. Einnig telur kærandi að kjörstjórn hafi ekki verið heimilt að fara með kjörkassa og kjörgögn af kjörstað án þess að utanaðkomandi aðili, svo sem lögregla, fylgdist með og tryggði rétta meðferð kjörkassa og gagna. Óskar kærandi eftir að brýnt verði fyrir kjörstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps að fara að lögum við framkvæmd kosninga.
Eftir að hafa rætt símleiðis við kæranda telur ráðuneytið að skilja verði kröfugerð kæranda á þann veg að hún krefjist þess að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og að kosning fari fram að nýju. Kæruheimild byggist á 3. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998.
I. Málavextir
Með bréfi, dags. 27. maí 2002, barst sýslumanninum í Stykkishólmi kæra Ingunnar Hrefnu Albertsdóttur vegna sveitarstjórnarkosninga í Eyja- og Miklaholtshreppi sem fram fóru 25. maí 2002. Með bréfi, dags. 28. maí 2002, skipaði sýslumaður nefnd til að úrskurða um kæruna. Í nefndina voru skipaðir héraðsdómslögmennirnir Ingi Tryggvason, Pétur Kristinsson og Tryggvi Bjarnason. Nefndin úrskurðaði á þann veg að úrslit kosninganna skuli standa óbreytt. Nefndin lýsti málavöxtum og rökstuddi niðurstöðu sína með eftirfarandi hætti:
„Hinn 25. maí 2002 var kosið til sveitarstjórnar í Eyja- og Miklaholtshreppi og var kosningin óhlutbundin. Með bréfi dags. 27. sama mánaðar kærir Ingunn Hrefna Albertsdóttir framkvæmd kosninganna til sýslumannsins í Stykkishólmi.
Í kæru segir ekki að krafist sé ógildingar á kosningunni, en kjörnefnd telur óhjákvæmilegt að skilja kæruna þannig að kærandi telji að svo miklir annmarkar hafi verið á framkvæmd kosninganna að það beri að ógilda þær.
Kæran hljóðar þannig orðrétt:
,,Á kosningadag 25.05.2002. kl. 19.20 hringdi lögreglan í mig Ingunni Hrefnu Albertsdóttur húsvörð í Félagsheimilinu Breiðablik, vegna þess að húsið stóð opið en mannlaust.
Þar sem kosningar voru í húsinu varð ég mjög undrandi yfir þessu. Ég kom strax á staðinn, en kjörnefnd og kjörkassi voru ekki í húsinu. Kosningu lauk kl. 18. en talning átti að byrja kl. 21.
Þegar ég var búin að fara um húsið og fullvissa mig um að þar væri enginn inni læsti ég húsinu fór heim og reyndi að hringja í formann kjörnefndar Halldór Jónsson en þar var á tali, ég hringdi í Ólaf Guðmundsson meðlim kjörnefndar hann svaraði að þeir í kjörnefnd hafi alltaf farið með kjörkassa af kjörstað. Halldór hringdi síðan í mig og spurði mig hvort ég hefði læst Breiðablik og hvort ég vildi opna fyrir þeim kl. 20.30. Ég spurði hann hvar kjörkassinn væri og hann svaraði að hann væri líklega úti í bíl. Ég bað hann þá að gefa mér upp síma hjá einhverjum aðila sem hefði yfirstjórn með þessum kosningum og gerði hann það.
Lögfræðingur Félagsmálaráðuneytisins sagði mér að ég ætti að bóka í kosningabók, við upphaf talningar, mótmæli við kæruleysislega meðferð kjörkassa, síðan á mánu-dag þegar Sýslumaður opnar að kæra til hans. Og gerði ég það, þar sem ég sætti mig ekki við svör þeirra, þegar þeir lýstu því yfir að, kjörkassi, innsigli og lykill að kjörkassa væru ekki á sama stað t.d. þegar ég kem að Breiðabliki, þá eru Halldór og Ólafur saman í einum bíl þannig að þar var innsigli og kjörkassi saman. Högni Gunnarsson kom seinna í Breiðablik kl. 20.50. hann sagðist vera með lyklana tók þá upp úr vasanum einhverja lykla, en ég veit ekki hvort þeir eru af kjörkassanum eða einhverju allt öðru. Ég undirrituð Ingunn H. Albertsdóttir ákæri kjörnefnd Eyja og Miklaholtshrepps fyrir eftir talin atriði:
1. Ég kæri fyrir að fara með kjörkassa af kjörstað.
2. Ég kæri fyrir gáleysislega meðferð kjörgagna, það að formaður kjörnefndar svari að kassinn sé líklega út í bíl.
3. Ég kæri þessar kosningar sem ég tel ekki lögmætar vegna þessarar kæruleysislegar
meðferðar kjörgagna og kjörkassa.
4. Ég óska eftir því að kjörseðlar verði rannsakaðir athugað hvort þeir eru allir, bæði
þeir sem skrifað var á og þeir sem eru aukalega.
5. Ég kæri að engar leiðbeiningar um kosningu voru uppi á kjörstað, þ.e. hvetja fólk
til að skrifa með prentstöfum og að við kosninguna eru notaðir venjulegir blýantar
þar sem auðvelt er að stroka út það sem skrifað var.”
Með kærunni fylgdi einnig ljósrit úr gerðarbók kjörstjórnar þar sem kærandi hafði bókað mótmæli sín á kjördag.
Kjörnefnd leitaði umsagnar kjörstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps við kærunni, sbr. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 og hitti auk þess Halldór Jónsson formann kjörstjórnar og Högna Gunnarsson fulltrúa í kjörstjórn. Samkvæmt upplýsingum frá þeim auglýsti oddviti fráfarandi sveitarstjórnar kjörfund og hvenær talning atkvæða færi fram. Þeir sögðu kjörstjórn ekki hafa fengið kosningaleiðbeiningar frá félagsmálaráðuneytinu til að hengja upp á kjörstað, þ.á m. í kjörfundarstofu eins og mælt er fyrir um í 46. gr. laga nr. 5/1998.
Kjörnefnd skoðaði kjörseðla og taldi þá, bæði afgangsseðla og notaða kjörseðla. Niðurstaða úr talningu kjörnefndar var sú sama og kjörstjórnar að loknum kjörfundi þannig að ekkert misræmi kom í ljós.
Þá fékk kjörnefnd ljósrit úr gerðarbók kjörstjórnar varðandi framkvæmd kosningar og talningu atkvæða á kjördegi.
Í gerðarbók kjörstjórnar 25. maí sl. segir að kjörfundi hafi lokið kl. 18:30. Síðan segir orðrétt: ,,Að kjörfundi loknum varðveitti Ólafur Guðmundsson innsiglaðan kjörkassann. Högni Gunnarsson varðveitti signet og lykil og Halldór Jónsson varðveitti kjörgögn og innsiglislakk. Kjörstjórn mætti síðan kl. 20:30 að Breiðabliki til talningu.”
Í umsögn kjörstjórnar um kæruna segir að talning hafi verið auglýst kl. 21:00 en að loknum frágangi kjörgagna við lok kosningar hafi kjörstjórn skipt með sér varðveislu kjörgagna þar til að talning hófst eins og fyrr er lýst. Frá lokum kjörfundar og þar til talning hófst hafi kjörstjórnarmenn farið hver til síns heima. Kjörstjórn tekur fram að hún telji ekki óheimilt að fara með kjörkassa af kjörstað að lokinni kosningu. Þá telur kjörstjórn að ekki hafi verið farið gáleysislega með kjörgögn frá því að kosningu lauk og þar til talning hófst. Enn fremur kemur fram í umsögn kjörstjórnar að við óhlutbundnar sveitarstjórnarkosningar hafi ekki tíðkast að gefa út leiðbeiningar en kjörstjórn veitir munnlegar upplýsingar eftir fremsta megni. Þá tekur kjörstjórn fram að samkvæmt 57. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna eigi kjörstjórn að leggja til ritblý í kjörklefa og það hafi verið gert.
Niðurstaða:
Í 1.-3. tölulið kæru er í raun fjallað um sama atriði eða meðferð kjörgagna og kjörkassa. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. laga nr. 5/1998 er ekki skylt að talning atkvæða fari fram í beinu framhaldi af kjörfundi. Sé það ekki gert verður kjörstjórn að varðveita kjörgögn á tryggilegan hátt. Eins og fram er komið lauk kjörfundi kl. 18:30 og að honum loknum varðveitti einn kjörstjórnarmaður innsiglaðan kjörkassann, annar varðveitti innsigli og lykil að kjörkassa og sá þriðji varðveitti kjörgögn og innsiglislakk. Talning atkvæða hófst síðan kl. 21:00. Með vísan til þessa og gagna málsins verður ekki annað ráðið en kjörstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps hafi varðveitt kjörgögn á tryggilegan hátt frá lokum kjörfundar og þar til talning atkvæða hófst og í því sambandi ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 5/1998 né venjum.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 5/1998 skal í kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, á áberandi stað festa upp kosningaleiðbeiningar er félagsmálaráðuneytið gefur út í því skyni. Samkvæmt upplýsingum frá kjörstjórn Eyja- og Miklaholts-hrepps voru leiðbeiningar ekki hengdar upp á kjörstað í sveitarfélaginu 25. maí sl., enda hafi kjörstjórn ekki fengið slíkar leiðbeiningar sendar frá félagsmálaráðuneytinu. Kjörstjórn segir að ekki hafi tíðkast í sveitarfélaginu þar sem kosningar hafi ávallt verið óhlutbundnar að hengja upp leiðbeiningar á kjörstað heldur gefi kjörstjórn ,,munnlegar upplýsingar eftir fremsta megni.”
Eins og fyrr greinir er skylt að hengja upp leiðbeiningar um kosningu í kjörfundarstofu og annars staðar á kjörstað. Þar er ekki gerður greinarmunur á því hvort kosning sé hlutbundin eða óhlutbundin. Kjörstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps bar því að hengja upp slíkar leiðbeiningar og hefði verið rétt hjá henni að leita eftir þeim hjá félagsmálaráðuneyti þar sem kjörstjórn segist ekki hafa fengið slíkar leiðbeiningar sendar. Hins vegar hefur ekki verið leitt í ljós að ætla megi að þessi galli á framkvæmd kosninganna hafi haft áhrif á úrslit þeirra og verða þær því ekki úrskurðaðar ógildar, sbr. 94 .gr. laga nr. 5/1998.
Eins og fyrr greinir taldi kjörnefnd kjörseðla og samræmi var á milli þeirrar talningar og niðurstöðu kjörstjórnar.
Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga nr. 5/1998 skulu vera ekki færri en tvö venjuleg dökk ritblý á borði í kjörklefa er kjörstjórn lætur í té. Ekki er annað fram komið en þetta hafi verið með venjubundnum hætti og lögum samkvæmt við kosningu í Eyja- og Miklaholtshreppi 25. maí sl.
Samkvæmt öllu framansögðu er ekkert það fram komið sem bendir til þess að slíkir gallar hafi verið á framkvæmd kosninga til sveitarstjórnar í Eyja- og Miklaholtshreppi 25. maí 2002 að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Skulu úrslit kosninganna eins og kjörstjórn hefur skráð þau því standa óbreytt.“
II. Niðurstaða ráðuneytisins
Um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Eyja- og Miklaholtshreppi giltu lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Kosningarnar voru óbundnar þar sem engir framboðslistar bárust fyrir lok framboðsfrests, sbr. 2. mgr. 20. gr. laganna.
Í 46. gr. laganna er kveðið á um að á áberandi stað í kjörfundarstofu skuli festa upp kosningaleiðbeiningar er félagsmálaráðuneytið gefur út í því skyni. Ráðuneytið sendi öllum sveitarfélögum slíkar leiðbeiningar í tæka tíð fyrir kjördag en fram kemur í úrskurði kjörnefndar að þær hafi ekki borist kjörstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps. Kjörnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði ekki verið leitt í ljós að ætla megi að þessi galli á framkvæmd kosninganna hafi haft áhrif á úrslit þeirra og yrðu kosningarnar því ekki úrskurðaðar ógildar af þeim sökum með vísan til 94. gr. laganna.
Ljóst er að tilgangur þess að festa upp leiðbeiningar á kjörstað er að auðvelda kjósendum að greiða atkvæði á gildan hátt. Fram kemur í gögnum málsins að þrír atkvæðaseðlar voru auðir en enginn seðill var úrskurðaður ógildur. Telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á að skortur á leiðbeiningum á kjörstað hafi haft áhrif á úrslit kosninganna í Eyja- og Miklaholtshreppi og verður því að staðfesta þá niðurstöðu kjörnefndar að umræddur ágalli geti ekki valdið ógildingu kosninganna.
Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að kjörkassi hafi verið innsiglaður með þeim hætti sem kveðið er á um í 71. gr. laganna og að frá þeim tíma hafi hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar ekki verið í vörslu sama kjörstjórnarmanns, sbr. 3. mgr. 71. gr. Að auki voru lyklar að kjörkassa í vörslu þriðja kjörstjórnarmanns. Í úrskurði kjörnefndar kemur fram að nefndin hafi talið bæði afgangsseðla og notaða seðla og að ekkert misræmi hafi komið í ljós við þá talningu. Verður því ekki talið að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna við meðferð kjörgagna. Er enginn áskilnaður um það í þeim lögum að utanaðkomandi aðili, svo sem lögregla, skuli varðveita kjörkassa þar til talning atkvæða hefur farið fram. Þá hefur ekkert komið fram sem bent gæti til þess að kjörkassi hafi ekki verið geymdur á tryggilegan hátt þar til talning atkvæða fór fram.
Með vísan til alls framangreinds ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Úrskurður nefndar sem skipuð var af sýslumanninum í Stykkishólmi 28. maí 2002 til að fjalla um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Eyja- og Miklaholtshreppi, sem fram fóru 25. maí 2002, er staðfestur.
F. h. r.
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)
Afrit sent:
Hreppsnefnd Eyja- og Miklaholtshrepps
Sýslumaðurinn í Stykkishólmi
Halldór Jónsson, form. kjörstjórnar
Ingi Tryggvason hdl, form. kjörnefndar