Reykjavíkurborg - Úrskurður um sveitarstjórnarkosningar 25. maí 2002, lög um persónuvernd og verndun persónuupplýsinga, frávísun
Bleikjukvísl 1
110 REYKJAVÍK
Hinn 14. ágúst 2002 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svofelldur
úrskurður:
Með erindi, dags. 5. júlí 2002 og mótteknu sama dag, hefur Tómas Gunnarsson skotið til ráðuneytisins úrskurði, dagsettum 20. júní 2002, sem kveðinn var upp af nefnd sem sýslumaðurinn í Reykjavík skipaði til að fjalla um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík sem fram fóru 25. maí 2002, sbr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
Kröfur kæranda eru þær að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og lagt verði fyrir nefndina að kveða upp nýjan, löglegan úrskurð um kæruefnið að lokinni ítarlegri könnun á kæruatriðum, það er eðli, umfangi og lögmæti söfnunar persónuupplýsinga um kjósendur í kjördeildum Reykjavíkur hinn 25. maí 2002 og meðferð þeirra og vinnslu innan og utan kjördeildanna og hvort ætla megi að þessar aðgerðir eins framboðanna, Sjálfstæðisflokksins, hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Til vara er þess krafist að félagsmálaráðuneytið sjálft kanni kæruatriði og fjalli efnislega um þau í samræmi við ákvæði laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna og kveði upp rökstuddan úrskurð um kæruefnið.
Kærandi hefur bent á að hann telji félagsmálaráðherra, Pál Pétursson, vanhæfan til að fjalla um kæruna. Ráðherra sitji í núverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hafi staðið fyrir söfnun persónuupplýsinganna í kjördeildum Reykjavíkur sem hér er kærð. Þá er af hálfu kæranda talið líklegt að Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, sem á um þriggja áratuga langan þingmennskuferil að baki, hafi sjálfur staðið að og/eða látið óátalda söfnun persónuupplýsinga stjórnmálaflokka í kjördeildum í Norðurlandskjördæmi vestra í kosningum til Alþingis á liðnum árum.
Í erindi kæranda kemur fram að ábyrgðarbréf með staðfestu eintaki úrskurðarins og tveggja fundargerða nefndarinnar var póstlagt til kæranda hinn 20. júní 2002 en hinn 4. júlí hafði kæranda ekki enn borist tilkynning um sendinguna. Samkvæmt gögnum sem kærandi hefur aflað frá Íslandspósti var ábyrgðarbréfið borið á heimili kæranda að kvöldi 21. júní en þá hafi enginn verið heima og var því skilin eftir tilkynning um ábyrgðarbréfið. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum Íslandspósts hafi átt að senda ítrekun til kæranda hinn 4. júlí 2002 en þann dag fékk kærandi afhent eintak af úrskurðinum á skrifstofu formanns nefndarinnar.
Að mati kæranda eru fjölþættar verkskyldur eins starfsmanns Íslandspósts hf. að sendingu mikilsverðs ábyrgðarbréfs án aðkomu nokkurra annarra starfsmanna Íslandspóst hf. að sendingunni frá kveldi 21. júní. til 4. júlí 2002 ekki í samræmi við mikilvægi erindisins og fyrri framkvæmd ábyrgðasendinga eða hraðábyrgðasendinga, sem í gildi voru við setningu laga nr. 5/1998, þegar ríkisstofnunin, Póstur og sími, annaðist þessi mál. Óvarlegt sé að krefjast ekki staðfestingar á útburði og kvittun fyrir úrskurði nefndar samkv. 93. gr. laga nr. 5/1998 og miða upphaf kærufrests við kvittunartíma, en leggja það í vald og samviskusemi eins starfsmanns póstsendingarfyrirtækis, hvort kæranda nýtist lögmæltur kærufrestur hans. Væntanlega hafi það líka verið markmið nefndarinnar að útburður og kvittun fyrir móttöku ábyrgðarbréfsins skiluðu sér fyrir lok kærufrests.
Niðurstaða ráðuneytisins
Samkvæmt 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 er unnt að skjóta úrskurði nefndar sem sýslumaður skipar skv. 2. mgr. sama ákvæðis til félagsmálaráðuneytisins og skal tilkynning um kæruna komin til ráðuneytisins innan viku og skjöl þau, er kærunni kunna að fylgja, sett í póst innan sama tíma. Samkvæmt frásögn kæranda, sem ráðuneytið telur ekki ástæðu til að draga í efa, barst úrskurður nefndarinnar ekki kæranda í hendur fyrr en réttum tveimur vikum eftir að formaður nefndarinnar lét senda úrskurðinn í ábyrgðarpósti. Virðist sem tilkynning um ábyrgðarsendingu hafi misfarist, en samkvæmt gögnum málsins var hún borin á heimili kæranda að kvöldi 21. júní.
Kærandi hefur gagnrýnt framangreindan sendingarmáta og telur hann að formanni nefndarinnar hefði borið að krefjast staðfestingar á útburði og kvittun fyrir móttöku úrskurðarins og að upphaf kærufrests beri að miða við kvittunartíma. Má vissulega á það fallast að þegar kærufrestur er jafn skammur verði að gæta þess sérstaklega að úrskurður sé sendur viðtakanda með tryggilegum hætti. Að mati ráðuneytisins hefur ábyrgðarsending þó um langan tíma verið álitinn einn tryggasti sendingarmáti sem völ er á. Samkvæmt gögnum málsins virðist réttum formreglum hafa verið fylgt varðandi umrædda sendingu en ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því hvers vegna tilkynning póstburðarmanns um sendinguna barst ekki kæranda í hendur.
Í 3. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 er ekki kveðið á um hvenær kærufrestur skuli hefjast. Er í því sambandi unnt að miða við úrskurðardag, móttöku tilkynningar um úrskurð eða þann dag er kærandi fær úrskurð sannanlega í hendur. Ef miðað er við tvo fyrrnefndu skýringarkostina er ljóst að kæra til ráðuneytisins er of seint fram komin en ef síðasti skýringarkosturinn er valinn er viðmiðunardagur 4. júlí og barst kæran ráðuneytinu degi síðar. Samkvæmt dómvenju á sviði samninga- og kröfuréttar er upphaf tímafrests almennt miðað við það tímamark þegar tilkynning, t.d. um uppsögn samnings, er komin til viðtakanda. Er ekki gerð krafa um að efni tilkynningar sé jafnframt komin til vitundar viðtakanda. Getur þetta tímamark eftir atvikum miðast við þann tíma þegar tilkynning póstburðarmanns um ábyrgðarsendingu hefur verið sett í póstkassa viðkomandi.
Eins og áður sagði verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að réttum formreglum hafi verið fylgt varðandi ábyrgðarsendingu formanns nefndar skv. 93. gr. laga nr. 5/1998. Öll meðferð ábyrgðarbréfs er skráð og liggur fyrir að tilkynning var skilin eftir á heimili kæranda kl. 21.53 að kvöldi hins 21. júní 2002. Telur ráðuneytið að upphaf kærufrests beri að miða við þann tíma og er kæra til ráðuneytisins því of seint fram komin.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu telur ráðuneytið rétt að fjalla stuttlega um efnisþætti málsins. Tekið skal fram að erindi frá kæranda er einnig til meðferðar hjá Persónuvernd, sem er falið það hlutverk að annast eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Hefur stofnunin víðtækar heimildir í eftirlitsstörfum sínum, samanber einkum 38., 40. og 41. gr. laganna. Samkvæmt VII. kafla laganna úrskurðar stofnunin í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga og getur hún meðal annars mælt fyrir um stöðvun vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal söfnunar, skráningar eða miðlunar. Einnig getur stofnunin mælt fyrir um að skrám verði eytt eða bannað frekari notkun persónuupplýsinga.
Ráðuneytið telur að í ljósi framangreinds hlutverks Persónuverndar hljóti úrskurðarvald ráðuneytisins og nefndar skv. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 við meðferð kærumála um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga að takmarkast við ákvæði kosningalaga. Málsástæðum kæranda er varða ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga beri því að vísa frá nema í þeirri háttsemi sem þar er lýst felist einnig brot gegn ákvæðum laga nr. 5/1998, sbr. einkum XIII. og XVIII kafla.
Tekið skal fram að í áliti félagsmálaráðuneytisins frá 23. maí 2002, sem veitt var að beiðni yfirkjörstjórnarinnar í Kópavogi, var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði 23. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna veiti umboðsmönnum framboðslista heimild til að vera í kjörfundarstofu á meðan kosning stendur yfir. Af öðrum ákvæðum laganna, svo sem 2. mgr. 49. gr., 53. gr, 1. mgr. 67. gr. og 74. gr., má ráða að umboðsmenn hafa víðtækan rétt til þess að fylgjast með framkvæmd kosningarinnar og gera athugasemdir ef þeir telja að kjörstjórn eða kjósendur hegði sér ekki lögum samkvæmt við kosningarathöfnina. Í því felst meðal annars að umboðsmenn eiga rétt á að gæta þess að einungis þeir sem eru á kjörskrá greiði atkvæði og að enginn greiði atkvæði oftar en einu sinni. Ráðuneytið komst að sömu niðurstöðu í áliti sínu frá 29. júní 1994 (ÚFS 1994:97).
Þá skal þess getið að í bréfi yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík til kæranda, dags. 17. maí 2002, er lýst þeirri afstöðu, með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga nr. 5/1998, að umboðsmenn eigi rétt á að hafa hjá sér eintak af kjörskrá til þess að merkja jafnóðum við þá sem greitt hafa atkvæði í kjördeildinni. Þessi afstaða er ítrekuð í bréfi yfirkjörstjórnar til Persónuverndar, dags. 24. maí 2002, sem er á meðal framlagðra gagna í máli þessu.
Í erindi kæranda til sýslumannsins í Reykjavík, dags. 23. maí 2002, er eingöngu að finna tilvísanir til ákvæða laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og er engin tilraun gerð til þess í erindinu að sýna fram á á hvern hátt upplýsingasöfnun Sjálfstæðisflokksins í kjördeildum í Reykjavík og úrvinnsla þeirra upplýsinga sé andstæð ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna. Sama máli gegnir um erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 5. júlí 2002.
Er það niðurstaða ráðuneytisins að nefnd sem skipuð var af sýslumanninum í Reykjavík hafi af þessari ástæðu verið rétt að vísa erindi kæranda frá, í stað þess að fjalla um erindið á grundvelli laga nr. 77/2000, en eins og áður er fram komið hefur löggjafinn falið Persónuvernd að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra laga og úrskurða í ágreiningsmálum.
|
Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands bera ráðherrar ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ekki verður ráðið af ákvæðum stjórnarskrárinnar eða annarra laga að hugsanlegt vanhæfi forsætisráðherra geti valdið því að aðrir ráðherrar í ríkisstjórn hans verði jafnframt vanhæfir. Þá verður ekki talið að fyrir hendi séu önnur atvik sem leitt geti til þess að félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, sé vanhæfur til að úrskurða í máli þessu, eins og kærandi hefur haldið fram.
Beðist er velvirðingar á að uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna sumarleyfa.
ÚRSKURÐARORÐ
Kæru Tómasar Gunnarssonar, dagsettri 5. júlí 2002, um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík 25. maí 2002, er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.
F. h. r.
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)
Afrit:
Yfirkjörstjórnin í Reykjavík
Persónuvernd
Ólafur Jóhannes Einarsson hdl.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið
Sýslumaðurinn í Reykjavík
Borgarstjórinn í Reykjavík