Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavíkurborg - Kosningar til sveitarstjórna 2006

Rúnar Þór Þórarinsson

Mávahlíð 12

105 Reykjavík

Reykjavík 4. júlí 2006

Tilv.: FEL06060045/1022

Hinn 4. júlí 2006 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

úrskurður:

Með erindi, dags. 23. júní 2006, hefur Rúnar Þór Þórarinsson skotið til ráðuneytisins úrskurði, dags.

15. júní 2006, sem kveðinn var upp af nefnd sem skipuð var af sýslumanninum í Reykjavík til að

fjalla um framkvæmd sveitarstjórnarkosninga sem fram fóru í Reykjavík þann 27. maí 2006, sbr. 93.

gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.

Kærandi krefst þess að úrskurður kjörnefndar verði felldur úr gildi og að sveitarstjórnarkosningar

sem fram fóru í Reykjavík þann 27. maí 2006 verði ógiltar.

I. Úrskurður kjörnefndar.

 

„Hinn 15. júní 2006 kvað nefnd samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998, um kosningar til

sveitarstjórnar, upp svohljóðandi úrskurð:

I.

 

Með bréfi til sýslumannsins í Reykjavík kærði Rúnar Þór Þórarinsson framkvæmd kosninga við

sveitarstjórnarkosningar í Reykjavíkurborg laugardaginn 27. maí 2006. Kæran var móttekin af

sýslumanninum í Reykjavík þann 2. júní 2006 ásamt greinargerð. Í samræmi við 2. mgr. 93. gr.

laga nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna, skipaði sýslumaðurinn í Reykjavík þann 6. júní

2006 þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið. Í nefndina voru skipaðir Þorsteinn

Einarsson, hrl., formaður, Kristinn Bjarnason, hrl. og Viðar Lúðvíksson, hrl. Þann 8. júní 2006

vék Viðar Lúðvíksson, hrl. sæti og var Kristín Benediktsdóttir, lögfræðingur, skipuð sama dag í

hans stað.

II.

 

Í kæru eru ekki settar fram kröfur með beinum hætti. Í kærunni kemur fram að kærandi telji að

ekki sé í samræmi við landslög að tjöld fyrir kjörklefum séu í bláum lit þar sem hann telji að um

sé að ræða einkennisliti Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins.

Af hálfu kjörnefndar er litið svo á að með kæru sinni sé kærandi að krefjast ógildingar

sveitarstjórnarkosninga í Reykjavíkurborg er fram fóru þann 27. maí 2006 á þeim grundvelli sem

rakið er í kærunni.

III.

 

Með bréfi kjörnefndar dags. 6. júní 2006 til yfirkjörstjórnar Reykjavíkur gerði kjörnefnd

yfirkjörstjórn grein fyrir fram kominni kæru og óskaði eftir umsögn yfirkjörstjórnar um kæruna,

sbr. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998. Með bréfinu fylgdu afrit gagna málsins.

Í bréfi yfirkjörstjórnar Reykjavíkur, dags. 8. júní 2006, kemur fram að mörg þeirra tjalda sem

notuð hafa verið í kjördeildum við kosningar í Reykjavík séu blá að lit og svo hafi verið um

árabil. Í bréfinu kemur jafnframt fram að yfirkjörstjórn hafi ekki talið að litur umræddra tjalda

svo og annarra tjalda sem notuð hafi verið, sé varhugaverður eða að unnt sé að líta svo á að

notkun tjalda með tilteknum lit brjóti gegn lagaákvæðum um framkvæmd kosninga. Í niðurlagi

bréfsins kemur fram að yfirkjörstjórn telji rétt að ábending kæranda verði tekin til skoðunar fyrir

næstu kosningar.

Með bréfi kjörnefndar 9. júní 2006 var kæranda sent afrit af umsögn yfirkjörstjórnar Reykjavíkur

og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma á framfæri frekari röksemdum.

Með greinargerð dags. 13. júní 2006 gerði kærandi nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum. Var

þar ítarlega gerð grein fyrir röksemdum kæranda fyrir því að umrædd atvik hafi falið í sér brot

gegn b. lið 92. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna.

IV.

 

Samkvæmt 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 skal viðkomandi sýslumaður skipa þriggja manna

nefnd til að úrskurða um kæruefnið þegar honum hefur borist kæra þess sem vill kæra

sveitarstjórnarkosningu. Ákvæðið kom fyrst inn í 2. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en

með þeim lögum var horfið frá því fyrirkomulagi, að nýkjörin sveitarstjórn úrskurðaði um

lögmæti kosninga, þar sem ótryggt þótti, að hún fengi litið óhlutdrægt á málavexti. Í

athugasemdum með þessari grein í frumvarpi til laga nr. 8/1986 kom fram að þessa skipan skyldi

viðhafa „einungis í þeim tilvikum, þegar gildi kosninga er dregið í efa.“

Í máli þessu er til úrlausnar hvort óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll felist í því að

notuð hafi verið blá tjöld til að loka af kjörklefa við sveitarstjórnarkosningar í Reykjavíkurborg.

Samkvæmt b. lið 92. gr. laga nr. 5/1998 telst vera óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll

ef reynt er að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða

skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka,

merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða

annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni.

Verður ekki talið að tiltekinn litur án frekari merkinga geti talist merki stjórnmálasamtaka, merki

lista eða önnur slík auðkenni í skilningi tilgreinds ákvæðis.

Samkvæmt því verður ekki talið að litur umræddra tjalda feli í sér óleyfilegan kosningaáróður og

kosningaspjöll í skilningi 92. gr. laga nr. 5/1998 og ber því að hafna kröfu kæranda.

Úrskurðarorð:

 

Kröfum kæranda, Rúnars Þórs Þórarinssonar, um ógildingu sveitarstjórnarkosninga í

Reykjavíkurborg sem fram fóru laugardaginn 27. maí 2006 er hafnað.“

II. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Kröfu sína byggir kærandi á því að í því felist brot á lögum um kosningar til sveitarstjórna að blá

tjöld voru fyrir kjörklefum við sveitarstjórnarkosningar er fram fóru í Reykjavík þann 27. maí 2006. Í

þessu sambandi vísar kærandi til b-liðar 92. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, en

ákvæðið er svohljóðandi:

Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll telst:

b. að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða

skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka,

merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða

annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni .“

Niðurstaða í máli þessu veltur á því hvort litur tjalda í kjörklefum geti talist merki stjórnmálasamtaka,

merki lista eða önnur slík auðkenni. Ráðuneytið fellst á það með kæranda að merki

stjórnmálaflokkanna eru almennt í ákveðnum litum. Það leiðir hins vegar ekki sjálfkrafa til þeirrar

niðurstöðu að tjöld í tilteknum lit teljist vera auðkenni ákveðins eða ákveðinna stjórnmálaflokka eða

að þau séu af þeirri ástæðu líkleg til að hafa áhrif á úrslit kosninga. Er hér um lögskýringaratriði að

ræða en kærandi byggir á mjög rúmri túlkun á ákvæði b-liðar 92. gr. laga um kosningar til

sveitarstjórna, nr. 5/1998.

Ljóst er að tjöld fyrir kjörklefum á kjörstað þjóna ákveðnum tilgangi við framkvæmd kosninga. Hið

sama má segja um ýmsa aðra hluti og húsgögn sem finna má á staðnum, svo sem borð, stóla, skriffæri

og jafnvel fatnað starfsmanna á svæðinu. Illframkvæmanlegt er að koma algerlega í veg fyrir að slíkir

hversdagslegir hlutir á kjörstöðum eða í nánasta umhverfi þeirra séu í tilteknum lit sem tengst getur

ákveðnum stjórnmálaflokki eða framboði. Ekki skiptir höfuðmáli í þessu sambandi hvort kjörstjórnir

hafi eða hafi ekki í gegnum árin fjarlægt tiltekna hluti á kjörstað vegna litar þeirra, enda er

framkvæmd misjöfn og ekki hægt að vísa í fordæmi eða réttarvenju í því sambandi.

Í kæru sinni til ráðuneytisins vísar kærandi til þess að niðurstaða kjörnefndar sé í ósamræmi við

ákvæði annarra gildandi laga til dæmis um lit kjörseðla. Verður að skilja þessa röksemd svo að hér sé

vísað til ákvæðis 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, en ákvæðið

hljóðar svo:

Skipta skal um lit kjörseðla við hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Ákvæðið hefur ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins þar sem það er einskorðað við lit kjörseðla og

þjónar þeim tilgangi að koma í veg fyrir að kjörseðlar frá fyrri kosningum komist í umferð fyrir

misgáning. Að mati ráðuneytisins eru ekki rök til að skýra ákvæðið rýmra en samkvæmt orðanna

hljóðan eða draga af því ályktun um hverjir megi vera litir tjalda í kjörklefum við

sveitarstjórnarkosningar.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða er kröfu kæranda, um að ráðuneytið ógildi

sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru í Reykjavík þann 27. maí 2006, hafnað og er úrskurður

kjörnefndar staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Úrskurður kjörnefndar frá 15. júní 2006 um gildi sveitarstjórnarkosninga sem fram fóru í Reykjavík

þann 27. maí 2006 skal standa óhaggaður.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason Þorgerður Benediktsdóttir

 

4. júli 2006 - Reykjavíkurborg - Kosningar til sveitarstjórna 2006 (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta