Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Djúpavogshreppur - Kosningar til sveitarstjórna 2006

Reykjavík 4. júlí 2006

Tilv.: FEL06060031/1022

Þann 4. júlí 2006 var í félagsmálaráðuneyti kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með bréfi, dags. 19. júní 2006, hafa Andrés Skúlason og Albert Jensson, fyrir hönd N-lista

við sveitarstjórnarkosningar í Djúpavogshreppi, 2006, skotið til félagsmálaráðuneytisins

úrskurði, dags. 14. júní 2006, sem kveðinn var upp af nefnd sem skipuð var af

sýslumanninum á Eskifirði skv. 1. málsl. 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna,

nr. 5/1998, til að fjalla um gildi sveitarstjórnarkosninga í Djúpavogshreppi sem fram fóru 27.

maí 2006 (hér eftir nefnd kjörnefnd). Úrskurðinum er skotið til ráðuneytisins með heimild í 3.

mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998.

Kærandi gerir eftirfarandi kröfur í erindinu til ráðuneytisins:

Í fyrsta lagi er gerð krafa um það að úrskurðað verði að kæra L-listans til kjörnefndar verði

úrskurðuð of seint fram komin og kosningaúrslitin látin standa eins og kjörstjórn úrskurðaði

endanlega. Tekið er fram að í raun sé verið að krefjast frávísunar málsins vegna þess að kæra

hafi ekki borist innan kærufrests.

Í öðru lagi er þess krafist að viðurkennt verði að engin vafaatkvæði hafi verið fyrir hendi og

því óheimilt að úrskurða um slík atkvæði og kosningaúrslitin látin standa eins og kjörstjórn

úrskurðaði endanlega.

Í þriðja lagi er þess krafist að ef ekki verði fallist á ofannefndar kröfur verði framkvæmd

alger endurtalning á öllum atkvæðum í Djúpavogshreppi, bæði gildum og ógildum.

Þann 21. júní 2006 hafði ráðuneytið símasamband við formann kjörnefndar og óskaði gagna

um það hvenær kæran var póstsend. Umbeðið gagn barst samdægurs frá Íslandspósti hf., sbr.

skjalið „Staðsetning bókfærðra sendinga“, dags. 21. júní 2006.

2

Þann 26. júní 2006 bárust ráðuneytinu athugasemdir við kæruna, dagsettar sama dag, frá

Guðmundi Val Gunnarssyni kæranda kosninganna til kjörnefndar f.h. L-lista. Athugasemdir

Guðmundar Vals voru sendar kærendum N-listans með bréfi ráðuneytisins, dags. 27. júní

2006, og veittur frestur til athugasemda til 3. júlí. Athugasemdir Andrésar Skúlasonar, f.h.

N-lista, dags. 29. júní 2006, bárust ráðuneytinu samdægurs.

I. Úrskurður kjörnefndar.

 

„Ár 2006, miðvikudaginn 14. júní, kveður kjörnefnd sem í sitja Gísli M. Auðbergsson

lögmaður og formaður yfirkjörstjórnar Fjarðabyggðar, Björn Þór Rögnvaldsson

löglærður fulltrúi Sýslumannsins á Eskifirði og Stefán Pálmason fulltrúi í yfirkjörstjórn

Fjarðabyggðar upp eftirfarandi

Ú R S K U R Ð:

 

Mál þetta hófst með kæru Guðmundar Vals Gunnarssonar, kt. 240157-2259,

Lindarbrekku, Djúpavogshreppi, til Sýslumannsins á Eskifirði. Kæruefnið eru

sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fóru í Djúpavogshreppi þann 27. maí 2006.

Með bréfi Sýslumannsins á Eskifirði, dags. 7. júní 2006, voru ofangreindir skipaðir í

kjörnefnd til að úrskurða um hina fram komnu kæru.

Kjörnefnd barst þann 8. júní 2006 umsögn kjörstjórnar Djúpavogshrepps um kæruna.

Sama dag átti kjörnefnd fund með kjörstjórninni, þar sem kjörstjórn skýrði málið fyrir

kjörnefnd og afhenti kjörnefnd auk þess alla kjörseðla og önnur kjörgögn sem notuð

voru við kosningarnar.

Jafnframt átti kjörnefnd sama dag fund með kæranda, sem er efsti maður á L-lista. Og

sömuleiðis með Andrési Skúlasyni efsta manni á N-listans þar sem honum var gefinn

kostur á að gæta hagsmuna þess framboðs við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar.

Kjörnefnd hefur yfirfarið og rannsakað kjörseðla þá sem notaðir voru við kosningarnar.

II.

 

Í kæru finnur kærandi í fyrsta lagi að því að kjörstjórn hafi úrskurðað ógilda

atkvæðaseðla sem kærandinn telur að hefðu átt að teljast gildir. Í annan stað er fundið að

því að í kjörklefa hafi ekki verið leiðbeiningar um hvernig atkvæðagreiðsla fari fram.

Og í þriðja lagi að þeim vinnubrögðum kjörstjórnar að ljúka talningu, slíta fundi og

kalla síðan saman fund síðar um kvöldið til að fara aftur yfir málin. Á fundi kæranda

með kjörnefnd nefndi hann fjórða aðfinnsluatriðið, sem er að kjörkassi sem notaður var

til varðveislu kjörseðla og annarra kjörgagna hafi ekki verði innsiglaður.

Um þessi verður fjallað sérstaklega hvert um sig í köflum IV–VII hér á eftir.

III.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum á Eskifirði var kæran sett fram með þeim

hætti að innan kærufrests hafði kærandi símasamband við embættið tilkynnti að hann

vildi kæra. Sendi hann síðan embættinu kæruna í tölvupósti þann 2. júní 2006, sem er

innan kærufrests. Undirritað frumrit kærunnar barst embættinu hins vegar ekki fyrr en

þann 6. júní 2006, þ.e. eftir að kærufresti lauk.

Lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5 frá 1998 geyma engin formskilyrði fyrir

kosningakærum. Eini gallinn á því að gera slíkt með tölvupósti er sá að ekki unnt að sjá

frá hverjum bréfið stafar með jafn tryggum hætti og ef um væri að ræða undirritað bréf.

Þar sem um kosningakærur gildir reglan actio popularis, (hver á sök sem vill) kemur

3

þetta hins vegar ekki að sök í þessu tilviki. Að þessu virtu telur kjörnefnd kæruna því

hafa verið setta fram með fullnægjandi hætti og að rétt sé að taka hana til efnislegrar

meðferðar.

IV.

 

Í kærubréfinu segir „í kjörklefa voru engar leiðbeiningar um kosningar eða nokkur

leiðarvísir um hvernig skyldi merkja við á seðlunum“.

Um þetta er fjallað í 46. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna, þar sem segir; „Í

kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, skal á áberandi stað festa upp

tilkynningu um framboðslista í sveitarfélaginu, þegar um bundna hlutfallskosningu er

að ræða, þar sem fram koma heiti stjórnmálasamtaka, listabókstafir og nöfn

frambjóðenda í sömu röð og á kjörseðli. Á sama hátt skal festa þar upp

kosningaleiðbeiningar er félagsmálaráðuneytið gefur út í því skyni.“

 

Kjörstjórn segir í umsögn sinni að leiðbeiningar frá Félagsmálaráðuneytinu og ljósrit

kjörseðils hafi verið hengd upp á vegg. Ljósrit kjörseðilsins hefur þá þjónað hlutverki

þess sem lagaákvæðið kallar tilkynningu um framboðslista. Á fundi sínum með

kjörnefnd lýsti kjörstjórn því svo að þetta hafi verið fest upp á áberandi stöðum, annars

vegar í anddyrinu við hliðina á hurð inn í kjörfundarstofuna. Og hins vegar inni í

kjörfundarstofunni, sem er L-laga gangur í skólahúsi, á vegg sem er beint á móti þeim

sem kemur inn úr anddyrinu. Þar sé sá staður þar sem dyravörðurinn haldi sig og

kjósendur bíði ef biðröð myndast. Gerði kjörstjórn uppdrátt af þessum aðstæðum og

lagði fram.

Unnþór Snæbjörnsson sem var dyravörður á kjörstað, hefur í símtali við kjörnefnd

staðfest lýsingu kjörstjórnar á því hvar leiðbeiningar og ljósrit kjörseðils hafi hangið

uppi, og segir að þetta vera tiltölulega áberandi stað.

Það er álit kjörnefndar að til fyrirmyndar hefði verið ef leiðbeiningarnar og tilkynningin

hefðu hangið uppi bæði inni í kjörklefanum sjálfum og á áberandi stað/stöðum öðrum á

kjörstaðnum. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er hins vegar ekki gerð krafa um að þetta

hangi uppi í kjörklefanum sjálfum, heldur talað um kjörfundarstofuna og annan áberandi

stað.

Kjörnefnd telur að leggja beri til grundvallar að kjörstjórnin hafi fullnægt þessu

lagaskilyrði, enda hefur ekki verið sýnt fram á annað.

Auk þess má benda á, að samkvæmt úrskurði Félagsmálaráðuneytisins frá 27. júní 2002

í máli er varðaði sveitarstjórnarkosningar í Eyja- og Miklaholtshreppi, veldur það eitt og

sér ekki ógildi kosninga þó vanrækt sé að hengja upp leiðbeiningar á kjörstað.

V.

 

Kærandi finnur að því hvernig vinnubrögð kjörstjórnar voru eftir að kjörfundi lauk.

Kjörnefnd hefur fengið greinargóðar lýsingar á þessum atburðum í umsögn kjörstjórnar

og viðtölum við kæranda, kjörstjórn og efsta mann N-listans.

Atvik virðast hafa verið með þeim hætti, að eftir að talningu lauk á hefðbundinn hátt

hafi niðurstaðan verið sú að L-listi fengi 82 atkvæði og N-listi 164 atkvæði. Vegna

mistaka hafi kjörstjórn álitið að þetta þýddi að L-listinn fengi tvo fulltrúa í hreppsnefnd

og N-listi þrjá, og slitið talningarfundinum við svo búið. Strax eftir að heim var komið

hafi formaður kjörstjórnar þó áttað sig á mistökunum, og hafi þá strax verið kallað til

fundar með kjörstjórn og efstu mönnum listanna. Á þeim fundi hafi þessi mistök verið

kynnt, dregið milli 2. fulltrúa L-listans og 4. fulltrúa N-listans. Auk þess hafi

kjörkassinn verið opnaður, seðlarnir skoðaðir, en ekki tekin ný afstaða til vafaatkvæða.

Hér reynir á hvort kjörstjórn geti leiðrétt mistök sín með þessum hætti eða hvort hún sé

4

bundin af fyrri niðurstöðu sinni um hver úrslitin voru. Mikilvægt er að veita því athygli

að ekki er um breytingu á ákvörðun að ræða heldur leiðréttingu á mistökum við

útreikninga. Kjörnefnd lítur svo á skv. 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37 frá 1993 hafi

kjörstjórn verið heimilt að framkvæma þessa leiðréttingu, og í raun beinlínis skylt m.t.t.

meginsjónarmiða um lýðræði.

Ekki er ástæða til að gera athugasemd við hvernig kjörstjórn stóð að þessari leiðréttingu,

að öðru leyti en hvað varðar meðferð kjörgagna, en fjallað verður sérstaklega um það

atriði í kafla VII hér á eftir. Vakin er athygli á að kjörstjórn gætti að því að boða til

fundarins þá aðila sem verið höfðu fulltrúar framboðslistanna við talninguna, þ.e.a.s.

efstu menn þeirra.

VI.

 

Alls greiddu 267 manns atkvæði í sveitarstjórnarkosningunum í Djúpavogshreppi 2006.

Af þeim voru 7 seðlar auðir og 14 seðlar metnir ógildir. L-listi, Framtíðarlistans, fékk 82

atkvæði (10 utankjörfundaratkvæði og 72 greidd á kjörfundi) og N-listi, Nýlistans fékk

164 atkvæði (24 utankjörfundaratkvæði og 140 greidd á kjörfundi). Kosið var um sæti 5

hreppsnefndarfulltrúa. Miðað við þessi úrslit voru jafn mörg atkvæði að baki 2. fulltrúa

L-lista og 4. fulltrúa N-lista, og þurfti að varpa hlutkesti milli þeirra. Var það gert og

vann N-listinn hlutkestið.

Í kæru er lýst þremur vafaatkvæðum sem metin voru ógild, og þess krafist að þau verði

metin gild.

Í ljósi þess að hvert atkvæði gat skipt máli um skiptingu hreppsnefndarfulltrúa milli

listanna og í ljósi rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaganna nr. 37 frá 1993 um að

stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því,

hefur kjörnefnd skoðað alla 267 atkvæðaseðlana sem notaðir voru í kosningunum. Í ljós

kom að allir seðlarnir sem kjörstjórn mat gilda, reyndust réttilega metnir. Sjö seðlar

reyndust auðir.

Ógildu seðlarnir 14 voru útfylltir sem hér segir (Tólf hinir fyrstgreindu eru

kjörfundarseðlar en tveir síðastnefndu eru utankjörfundaratkvæði):

1. Krossað er framan við nafn 7. manns á L-lista, og ekki aðrar merkingar.

2. Krossað er framan við nafn 1. manns á N-lista, og ekki aðrar merkingar.

3. Stór kross er yfir allan ramma L-listans (báða ramma þess framboðs þ.e. efri

rammann þar sem í er listbókstafurinn og nafn framboðsins og neðri rammann þar

sem í eru nöfn frambjóðendanna).

4. Krossað er yfir öll nöfnin á N-lista og hringur dreginn utan um öll nöfnin á

L-listanum.

5. Strikað yfir nafn 1. manns á L-lista.

6. Merkt með krossi við L-lista og strikaðir út 1. menn á báðum listum.

7. Krossað við N-listann og framan við 1. mann þar, og tölurnar 2, 3, 4 við aðra

menn þess lista og strikað yfir nöfn 7. og 10. manns L-listans.

8. Krossað við L, og strikaðir út 1. maður á L-lista og 1. og 3. maður á N-lista.

9. Strikað yfir nafn 1. manns L-lista og 1. og 3. manns á N-lista.

10. Krossað við L, og strikað yfir nöfn 1. manns þess lista og 1. og 3. manns N-lista.

11. Strikað yfir nafn 1. manns á L-lista.

12. Hringur dreginn um númerin framan við nöfn 1., 2., 3., 8. og 9. manns á L-lista og

1., 2., 3., 4. og 8. manns á N-lista.

13. Utankjörfundaratkvæði merkt „B“.

14. Utankjörfundaratkvæði merkt stafnum „S“ (stimplað).

Þeir atkvæðaseðlar sem getið er í kæruskjali eru atkvæðaseðlar nr. 1, 2 og 3.

5

Með engu móti er unnt að ímynda sér hvorn listann viðkomandi kjósendur hafa viljað

velja af atkvæðum nr. 9, 12, 13 og 14, og þau því ógild skv. b-lið 78. gr. laga nr. 5 frá

1998 um kosningar til sveitarstjórna.

Varðandi atkvæði nr. 6, 7, 8 og 10 þá eru þau þannig að krossað er við listabókstaf eins

lista (í þremur tilvikum L-lista og einu tilviki N-lista) og auk þess strikað yfir nöfn

frambjóðenda á hinum listunum. Þetta er í andstöðu við fyrirmæli 61. gr.

sveitarstjórnarkosningalaganna. Þrátt fyrir að í 61. gr. komi ekki fram hverju það varði

þegar hreyft er við þeim öðrum lista en þeim sem kjósandi krossar við, þá er orðin rík

hefð að meta slík atkvæði ógild. Samkvæmt c-lið 78. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna

varðar það ógildi atkvæðis ef kjósandi tölumerkir annan lista en þann sem hann vill

kjósa. Eðlilegt er að sama gildi um atkvæði þar sem útstrikunum er beitt á öðrum listum.

Kjörnefnd gerir því ekki athugasemd við úrskurð kjörstjórnar á atkvæðum nr. 6, 7, 8 og

10.

Atkvæðaseðill nr. 4 er kjörnefnd sammála kjörstjórn um að teljist ógildur. Hefur þá

verið horft annars vegar til þeirrar meginreglu að ekki megi hreyfa við nema einum

framboðslista og hins vegar reglu 58. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna um að til að

velja framboðslista skuli nota táknið kross, þannig að útilokað er að greina hver vilji

viðkomandi kjósanda hefur verið.

Varðandi atkvæði nr. 1 og 2 þá eru einu merkingarnar á þeim kross fyrir framan nafn

frambjóðanda. Hér ber að líta til 2. mgr. 79. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna þar sem

segir „lista telst greitt atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf ef nafn eða

nöfn á honum eru tölusett eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á“. Bar

kjörstjórn því að meta þessi tvö atkvæði gild.

Varðandi atkvæði nr. 5 og 11 þá mæla öll sömu rök með því að telja þau gild og eru að

baki því að meta atkvæði nr. 1 og 2 gild. Framsetning 79. gr. er þannig að ætla verður að

tilvik þau sem þar eru tiltekin séu nefnd í dæmaskyni, og að sama regla eigi við um

önnur samskonar tilvik. Ekki eru forsendur til að gagnálykta um að andstæð regla eigi

við. Kjörnefnd telur samkvæmt þessu að atkvæði nr. 5 og 11 eigi að teljast gild og

greidd L-listanum.

Hvað varðar atkvæði nr. 3, þá er í 79. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna lýst þeirri

meginreglu, að atkvæði skuli ekki meta ógilt ef greinilegt er hvernig það á að falla.

Tilgangur kosninga er að gefa kjósendum kost á að velja framboðslista og til þess ber

skv. 58. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna að nota táknið kross. Í samræmi við það, og

með vísan til fordæmis í úrskurði Félagsmálaráðuneytisins frá 10. ágúst 1990 í kærumáli

vegna sveitarstjórnarkosninga í Keflavík, er það niðurstaða kjörnefndar að þessi

atkvæðaseðill sé gildur og greiddur L-listanum.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kjörnefndar að meta eigi atkvæði nr. 1, 2, 3,

5 og 11 gild. L-listinn hafi þá hlotið 86 atkvæði og N-listinn 165. Að baki 2. manni

L-listans séu því 43 atkvæði og að baki 4. manni N-listans séu 41,25 atkvæði. Sá

fyrrnefndi ætti því að vera fimmti fulltrúinn í sveitarstjórninni.

Sérstaklega skal það tekið fram að til að komast að þessari niðurstöðu er í raun nægilegt

að taka afstöðu til atkvæða nr. 1 og 2. Því að sama er hvaða önnur útgáfa þessara seðla

yrði metin gild, atkvæðin að baki 2. fulltrúa L-listans yrðu alltaf fleiri en að baki 4.

fulltrúa N-listans.

VII.

 

Í framburðarskýrslu sem kærandi gaf kjörnefnd, fann hann að því að kjörkassinn hafi

ekki verið innsiglaður þegar kjörstjórn kom með hann til fundarins með oddvitum lista

að kvöldi kjördags. Á sama hátt var kjörkassinn óinnsiglaður þegar kjörstjórn mætti með

6

hann til fundar við kjörnefnd þann 8. júní sl. Kjörstjórn lýsti þá þeim vinnubrögðum

sínum að læsa kassanum og fela einum kjörstjórnarmanni að varðveita lyklana og öðrum

að varðveita kassann.

Í samtali kjörnefndarmanna við kjörstjórn kom fram að um væri að ræða kjörkassa sem

notaður hefði verið í Djúpavogshreppi í nokkrum undanförnum kosningum. Kassinn er

ekki boraður fyrir innsiglisþráð og ekki er að sjá utan á honum ummerki eftir nein

innsigli.

Ljóst er að kjörstjórn hefur ekki gætt að reglu 83. gr. sveitarstjórnarkosningalaganna um

að eftir talningu skuli varðveita kjörseðla í innsigluðum umbúðum.

Hins vegar hefur ekkert komið fram um annað en að varðveislan hafi verið trygg. Voru

þau í vörslu eins kjörstjórnarmanns í læstum kjörkassa, og lykillinn í vörslu annars

kjörstjórnarmanns. Yfirkjörstjórn Fjarðabyggðar á sjö kjörkassa með eins læsingum og

kassi Djúpavogsmanna. Kjörnefnd reyndi að opna Djúpavogskassann með lyklum

Fjarðabyggðarmanna og reyndist það ekki hægt. Verður því að ætla að læsingin verði

ekki opnuð nema með hinum réttu lyklum.

Kjörnefnd sýndi kjörstjórn og oddvitum framboðslistana þá kjörseðla sem úrskurðaðir

voru ógildir, og þessir aðilar þekktu þá sem sömu seðla og komu fram við talninguna.

Með vísan til framansagðs verður ekki talið að þessi vinnubrögð leiði til þess að ógilda

beri kosningarnar, en engu að síður eru þau mjög aðfinnsluverð.

VIII.

 

Þá skal tekið til skoðunar hverjar afleiðingar það hefur að úrskurður vafaatkvæða var

rangur og úrslit hefðu átt að verða önnur en þau sem kynnt voru.

Ákvæði sveitarstjórnarlaganna um valdheimildir kjörnefndar eru býsna fátækleg. Ekki

er þar lýst öðrum niðurstöðum en þeim að lýsa kosningu gilda eða ógilda. En það

skilyrði þó sett í 94. gr. „að gallar á framboði eða kosningu leiða ekki til ógildingar

kosninga, nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna “.

Í ritinu „Stjórnskipunarréttur“ útg. 1997 eftir Gunnar G. Schram er á bls. 230-1 fjallað

um tilvik sem þetta í alþingiskosningum, og þar segir: „Ef ágreiningsatkvæði getur engu

ráðið um kosningaúrslit á ekki að ónýta kosningu þótt það hafi ranglega verið metið

ógilt. Öðru máli gegnir ef atkvæði frambjóðanda eru jöfn, að hinu ógilda atkvæði

slepptu. Þar hefði það einmitt ráðið úrslitum og ætti því að ógilda kosninguna ef rangt

var að meta þann atkvæðaseðil ógildan.“

Kjörnefnd telur að hér beri að líta svo á að hið meira feli í sér hið minna, þannig að fyrst

hún hafi vald til að ógilda kosningu hljóti hún að hafa vald til að gera leiðréttingar á

niðurstöðum kosninga.

Ákvæði 94. gr. laganna um kosningar til sveitarstjórna var áður að finna í 36. gr.

sveitarstjórnarlaga nr. 8 frá 1986, og í athugasemdum með frumvarpi að þeim lögum

segir: „Það leiðir þó væntanlega af eðli máls, að ekki ber að ógilda kosningar að öllu

leyti, ef hægt er að bæta úr því sem áfátt er með ógildingu að hluta eða öðrum

úrræðum.

Kjörnefnd telur að með vísan til athugasemdanna og til meðalhófsreglu 12. gr.

stjórnsýslulaga nr. 37 frá 1993 sé rétt og skylt að beita vægasta mögulegu úrræði sem

nær markmiðinu, og því beri að leiðrétta úrslit kosninganna án þess að ógilda þær í heild

sinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun kjörstjórnar Djúpavogshrepps um úrslit sveitarstjórnarkosninganna þann 27.

7

maí 2006 er felld úr gildi. Úrslitin skulu vera þau að L- listi hlaut 86 atkvæði og 2 menn

kjörna, og N-listi hlaut 165 atkvæði og 3 menn kjörna.“

II. Kæra til ráðuneytisins.

 

Eins og fyrr segir var úrskurður kjörnefndar kærður til félagsmálaráðuneytis með bréfi, dags.

19. júní 2006. Í erindi kæranda til ráðuneytisins eru eftirfarandi kröfur gerðar:

Í fyrsta lagi er gerð krafa um að úrskurðað verði að kæra L-listans til kjörnefndar verði

úrskurðuð of seint fram komin og kosningaúrslitin látin standa eins og kjörstjórn úrskurðaði

endanlega. Tekið er fram að í raun sé verið að krefjast frávísunar málsins vegna þess að kæra

hafi ekki borist innan kærufrests. Í öðru lagi er þess krafist að viðurkennt verði að engin

vafaatkvæði hafi verið fyrir hendi og því óheimilt að úrskurða um slík atkvæði og

kosningaúrslitin látin standa eins og kjörstjórn úrskurðaði endanlega. Í þriðja lagi er þess

krafist að ef ekki verði fallist á ofannefndar kröfur verði framkvæmd alger endurtalning á

öllum atkvæðum í Djúpavogshreppi, bæði gildum og ógildum.

Um málavexti er vísað til úrskurðar kjörnefndar, dags. 14. júní 2006.

Kærandi rökstyður kröfur sínar til ráðuneytisins með eftirfarandi hætti:

1. „Kærandi telur að sú niðurstaða kjörnefndar að kæra L-listans hafi komið nægilega

snemma fram sé röng. Nefndin byggir á því að símtal og tölvupóstur sé nægilega

formleg kæra. Skv. 93. gr. laga 5/1998 ber að „afhenda“ sýslumanni kæru innan sjö

daga frá því að úrslitum kosninga var lýst. Skv. venjum um tilkynningar sem þessa,

virðist póstfaxsending, á undirritaðri kæru, sem send er innan frestsins og frumrit

kærunnar og fylgigagna þá jafnframt afhent til póstsendingar innan sama tíma, vera

venjubundin leið, og sú aðferð sem gera á kröfu um. Enginn getur vitað frá hverjum

tölvupóstsending kemur í raun og svo er í þessu tilfelli. Kærandi f.h. L-listans getur

haldið því fram að kæran sé frá honum komin en um það getur í raun enginn vitað.

Símtal getur alls ekki uppfyllt þetta skilyrði og sama er að segja um tölvupóstsendingu.

Nokkra leiðbeiningu má fá í 2. mgr. nefndrar 93. gr. laganna, varðandi kæru til

félagsmálaráðuneytisins, þar sem gerð er krafa um tilkynningu um kæruna innan frests

og jafnframt að skjöl þau sem kærunni fylgja verði sett í póst innan sama tíma. Gera

verður þá ráð fyrir því að jafnframt sé frumrit kærunnar póstað með fylgigögnunum, því

annars væri engin kæra komin fram, heldur einungis tilkynning um kæru og fylgigögn. Í

máli því sem hér er kært, liggur fyrir að sýslumaður móttók kæru L-listans þann 6. júní,

en ekkert liggur fyrir um það hvenær gögnin voru sett í póst. Sönnunarbyrði fyrir því

hvenær gögnin voru sett í póst hlýtur að liggja hjá L-listanum, kærandanum í málinu.

Þar sem þetta liggur ekki fyrir telur kærandi að eðlilegt sé að líta svo á að kæran sé of

seint fram komin. Jafnvel þó fallist yrði á að tölvupóstur til sýslumanns um kæru bærist

innan frests, hlýtur að verða að gera sömu kröfur og í kæru til ráðuneytisins, þ.e. að

gögn séu þá jafnframt póstlögð innan frestsins, sem ekki virðist hafa verið gert í þessu

máli.“

2. „Rök fyrir þessari kröfu eru þau að enginn ágreiningur hafi verið uppi í kjörstjórn, né

hjá umboðsmönnum lista um nokkurt atkvæði. Öll atkvæði hafi verið metin strax annað

hvort gild eða ógild og því gildi regla 81. gr. laganna um að ef yfirkjörstjórn og

umboðsmönnum lista kemur saman um að einhver kjörseðill sé ógildur þá skuli hann

ógildan telja. Þetta er fortakslaus regla, og á sér hliðstæðu í 103. gr. laga um kosningar

8

til Alþingis nr. 24/2000. Það voru engir ágreiningsseðlar sem þurfti að úrskurða um í

samræmi við 81. gr. laganna og setja í sérstök umslög eins og nánar greinir í lögunum.

Ekkert var bókað eða rætt um ágreiningsseðla á vettvangi kjörstjórnarinnar af því að

ekki var um neinn ágreining að ræða. Ekkert var heldur bókað né nokkrar athugasemdir

gerðar af hálfu umboðsmanna lista. Þetta mun hafa komið skýrt fram í vitnisburði

kjörnefndarmanna og umboðsmanns N-listans í viðtölum þeirra við kjörnefndina. Sá

eini sem segir eitthvað annað er umboðsmaður L-listans, sem segir eftirá að hann hafi

gert allskyns athugasemdir, sem enginn annar kannast við og sem eru augljóslega

uppspuni frá rótum og að engu hafandi og settar fram til að hafa með óheiðarlegum

hætti áhrif á kosningaúrslit sem hann var ósáttur við. Þetta kemur í raun einnig fram í

kæru L-listans, þar sem segir að.. „þrjú atkvæði gátu talist vafaatkvæði og voru talin

ógild ásamt fleiri atkvæðum....“ Það var e.t.v. hægt að meðhöndla þessi atkvæði sem

vafaatkvæði, eins og segir í kærunni, en það var ekki gert og því of seint að grafa það

upp eftir talningu, og úrskurð kjörstjórnar um kosningaúrslit. Krafa um endurskoðun á

ágreiningsatkvæðum á því ekki rétt á sér, þar sem engin ágreiningsatkvæði voru til

staðar. Er gerð krafa um það að ráðuneytið skoði sjálfstætt hvað kjörstjórnarmenn og

umboðsmenn lista hafa að segja um það sem fram fór á kjörfundi ef minnsti vafi er um

það í þeirra huga hvað raunverulega fór fram.“

3. „Ef niðurstaðan er sú að rétt sé að taka einstök atkvæði til nánari skoðunar þá er gerð

sú krafa að öll atkvæði verði þá talin og skoðuð upp á nýtt hvert fyrir sig, bæði þau sem

metin voru gild og ógild. Engin sérstök rök eru fyrir því að skoða einungis örfá atkvæði

og því eðlilegra að þau séu öll skoðuð algerlega upp á nýtt.“

III. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Um kosningakærur er fjallað í XIV. kafla laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Er

þar að finna fyrirmæli um hvert kærum skal beint, kærufresti, hvaða aðilar skuli kveða upp

úrskurð og innan hvaða tímamarka. Að auki er fjallað um hvaða sveitarstjórn skuli starfa ef

kosning er úrskurðuð ógild og að lokum er gert ráð fyrir að gallar á framboði eða kosningu

leiði ekki til ógildingar kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Aðrar reglur um málsmeðferð í kosningakærumálum er ekki að finna í lögum nr. 5/1998 og

ekki er sérstaklega vísað til annarra laga um málsmeðferð.

Í ljósi þess að ekki eru frekari málsmeðferðarreglur í lögum nr. 5/1998 svo og þess að

úrskurði kjörnefndar skv. 2. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998 verður skotið til

félagsmálaráðuneytisins, sbr. 3. mgr. sömu greinar, telur ráðuneytið ljóst að

málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gildi um meðferð kjörnefndar og

ráðuneytisins á kosningakærum eftir því sem við getur átt.

Í máli þessu er kærður úrskurður kjörnefndar, dags. 14. júní 2006, og barst kæran ráðuneytinu

þann 19. júní sl., en fylgiskjölin voru póstlögð voru þann 20. júní og bárust ráðuneytinu þann

23. júní. Kæran er því fram komin innan tilskilins kærufrests, sbr. 3. mgr. 93. gr. laga nr.

5/1998.

Um fyrstu kröfu kærenda.

 

Aðalkrafa kærenda byggist á því sjónarmiði að kjörnefnd hafi átt að vísa málinu frá vegna

þess að kæran hafi verið of seint fram komin og krefjast því ógildingar á úrskurðinum af þeim

sökum. Er þar fyrst og fremst byggt á því að símtal og tölvupóstur sé ekki nægilega formleg

kæra þar sem skv. 93. gr. laga nr. 5/1998 beri að „afhenda“ kæru innan sjö daga frá því

9

úrslitum kosninga var lýst.

Um kærufrest segir svo í 1. mgr. 93. gr. laga nr. 5/1998:

„Sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu skal afhenda kæru sína hlutaðeigandi

sýslumanni innan sjö daga frá því lýst var úrslitum kosninga.“

Í lögunum er þannig ekki að finna formleg skilyrði fyrir því með hverjum hætti kæra telst vera

afhent í skilningi 1. mgr. 93. gr. laganna. Til samanburðar má benda á að í 3. mgr. 93. gr. þar

sem kveðið er á um málskot á úrskurði kjörnefndar til félagsmálaráðuneytis segir að

tilkynning um kæruna skuli komin til ráðuneytisins innan viku og skjöl þau sem kærunni

kunna að fylgja sett í póst innan sama tíma.

 

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram 27. maí 2006 og rann því sjö daga kærufrestur út um

miðnætti þann 3. júní. Við meðferð málsins hjá ráðuneytinu var aflað staðfestingar

Íslandspósts hf. um póstsendingu kærunnar. Samkvæmt útskrift Íslandspósts frá 21. júní 2006

fór póstlagningin fram í ábyrgðarpósti til sýslumannsins á Eskifirði þann 2. júní 2006 kl.

14.31. Sendandi er Ragnheiður Margrét Eiðsdóttir, Djúpavogi, (eiginkona kæranda og annar

umboðsmaður L-lista). Samkvæmt útskriftinni var sendingin síðan skönnuð til afhendingar

hjá sýslumanni þann 6. júní 2006 kl. 10.46.

Fram kemur í úrskurði kjörnefndar að kærandi hefði haft símasamband við

sýslumannsembættið þar sem hann tilkynnti að kæran yrði send 2. júní. Þá liggur jafnframt

fyrir tölvupóstur frá kæranda til sýslumannsembættisins, dags. 1. júní 2006, þar sem kærandi

tilkynnir að kæra vegna sveitastjórnarkosninga í Djúpavogshreppi 27. maí sl. verði póstlögð

að morgni 2. júní.

Að mati ráðuneytisins hefur símtal ekkert sönnunargildi í þessum efnum. Tölvupóstur hefur

eitthvert gildi þótt sá máti verði ekki talinn öruggur. Meginatriðið er sending til sýslumanns

með ábyrgðarpósti 2. júní 2006 kl. 14.31 sem staðfest er af Íslandspósti hf. Í því sambandi má

benda á að kærandi mátti ætla að póstsending á Djúpavogi þann 2. júní kl. 14.31 væri

nægjanleg til að kæra bærist sýslumannsembættinu fyrir lok kærufrests, þ.e. fyrir lokun þann

3. júní. Svo fór þó ekki heldur barst kæran embættinu fyrst þann 6. júní eins og áður kom

fram. Töf á afhendingu sendingarinnar til sýslumannsembættisins verður ekki talin vera á

ábyrgð kæranda.

Telja verður að sending á frumriti kærunnar ásamt fylgigögnum í ábyrgðarpósti þann 2. júní

sl. sé í samræmi við þær kröfur sem venja er að gera á þessu sviði. Þá má, auk 1. mgr. 93. gr.,

einnig líta til 3. mgr. 93. gr. varðandi kæru til félagsmálaráðuneytis þar sem segir að

tilkynning um kæruna skuli komin innan viku og skjöl þau, sem kærunni kunna að fylgja, sett

í póst á sama tíma.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að með póstlagningu kærunnar ásamt

fylgigögnum innan kærufrestsins, svo og með tölvupóstsendingu frá 1. júní, þótt ósönnuð sé í

strangasta skilningi, sé hægt að líta svo á að kærandi hafi fullnægt skilyrði 1. mgr. 93. gr. laga

nr. 5/1998 um afhendingu á kæru til nefndar sýslumanns innan kærufrestsins.

Um aðra kröfu kæranda.

 

Kærendur krefjast þess að viðurkennt verði að engin vafaatkvæði hafi verið fyrir hendi. Því sé

óheimilt að úrskurða um slík atkvæði og því verði kosningaúrslitin látin standa eins og

10

kjörstjórn úrskurðaði endanlega. Rökin eru þau að enginn ágreiningur hafi verið uppi í

kjörstjórn né hjá umboðsmönnum lista um nokkurt atkvæði. Öll atkvæði hafi verið metin

strax annaðhvort gild eða ógild og því gildi regla 81. gr. laganna um kosningar til

sveitarstjórna um að ef yfirkjörstjórn og umboðsmönnum lista kemur saman um að einhver

kjörseðill sé ógildur þá skuli hann ógildan telja. Þetta sé fortakslaus regla sem á sér hliðstæðu

í 103. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, eins og segir orðrétt í kæru.

Í umsögn kjörstjórnar til kjörnefndar, dags. 7. júní 2006, er atburðarrás við talningu atkvæða

lýst svo:

„Talning fór fram eftir að kjörfundi lauk í Grunnskóla Djúpavogs að viðstöddu fólki af

báðum listum.

Oddvitar beggja lista, Guðmundur V Gunnarsson af L-lista, Andres Skúlason af N-lista

og umboðsmaður N-lista skoðuðu alla kjörseðla jafn óðum og þeir voru taldir. Tók

undirritaður fram í tvígang á meðan á talningu stóð að ef einhverjar athugasemdir væru

við úrskurð kjörstjórnar á kjörseðlum þá þyrfti það að gerast jafnhliða talningu og

útskýrði hvers vegna það væri nauðsynlegt.

Fór talning fram án athugasemda.

Einn kjörseðill sem merktur var með litlum krossi við 7. mann L-lista kom fram

snemma í talningu. Var það atkvæði úrskurðað vafaatkvæði og tekið til hliðar um stund.

Haldið var áfram talningu og kom þá fram seðill þar sem merkt var við 1. mann N-lista

með krossi.

Kom þá fram tillaga um að bæði atkvæðin yrðu tekin frá og talin með ógildum seðlum

og var það samþykkt samhljóða. Var síðan lokið við talningu.

Vegna rangra útreikninga kjörstjórnar á kjörnum fulltrúum voru allir þeir sem viðstaddir

voru talningu, oddvitar og umboðsmenn, boðaðir strax aftur á talningarstað þar sem

útreikningur kjörmanna var endurtekinn.

Þegar kom síðan í ljós að jafnt var á tölum við 5. mann í sveitarstjórn fór Guðmundur

Valur fram á endurskoðun á ógildum seðlum. Voru þeir skoðaðir en lyktir urðu þær að

kjörstjórn stóð við sinn úrskurð.

Dregið var um 5. sætið með þeim hætti að teknar voru 2 samskonar bækur og sett í þær

blöð með sinn hvorum listabókstafnum. Tekið var fram að sá listabókstafur sem kæmi

upp í útdrættinum þýddi 5. sveitarstjórnarmanninn.

Tveir kjörstjórnarmenn fóru afsíðis og útbjuggu miðana og settu í bækurnar. Þegar þeir

komu aftur í talningarherbergið dró, með samþykki viðstaddra, þriðji

kjörstjórnarmaðurinn um röðina og dreginn var tölustafurinn N og hlaut N-listinn þar

með 5. mann í sveitarstjórn.

Eflaust má deila um vafaatkvæði en í þessu tilfelli var ekki deilt um nein atkvæði á

meðan úrskurðað var. Kjörstjórn lét úrskurð sinn standa en eins og segir í 81. grein

kosningalaga, að komi kjörstjórn og umboðsmenn sér saman um að kjörseðill sé ógildur

skuli hann ógildur teljast.“

Ákvæði 81. gr. laga um sveitarstjórnarkosningar er svohljóðandi:

„Nú kemur yfirkjörstjórn og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill

sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur meðal kjörstjórnar um gildi

kjörseðils skal afl atkvæða ráða úrslitum. Úrskurða skal ágreiningsseðla jafnóðum og

þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.

Nú verður ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort

kjörseðill sé gildur eða ógildur og skal þá leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað

þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað

11

ógilda.

Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna færir

yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabókina og kunngerir hana þeim sem

viðstaddir eru. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem

atkvæði hafa greitt samtals í sveitarfélaginu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að

allt komi heim við samtölu afgangsseðla.“

Ákvæði 81. gr. laganna kveður á um með hverjum hætti kjörstjórn og umboðsmenn flokka

taka afstöðu til gildi kjörseðla þegar í kjölfar kosninga. Komi hins vegar til þess að kosningar

eru kærðar gilda ákvæði 93. og 94. gr. laganna um meðferð á kosningakærum bæði hvað

kjörnefnd og félagsmálaráðuneyti varðar. Telja verður ljóst að 81. gr. laganna bindur ekki

hendur þeirra stjórnvalda sem með lögum hafa það hlutverk að skera úr um kosningakæru.

Þegar kosning er kærð hafa kjörstjórn og umboðsmenn viðkomandi lista ekki lengur forræði

máls, heldur ber viðkomandi stjórnvaldi, kjörnefnd og félagsmálaráðuneyti, að rannsaka

málið og sjá til þess að það sé nægilega upplýst. Þetta þýðir að ákvæði 81. gr. laganna verður

að skoðast með hliðsjón af 93. og 94. gr. laganna ef til kæru kemur.

Þegar um er að ræða málsatvik sem hafa augljóslega þýðingu við úrlausn tiltekins máls verður

ávallt að rannsaka þau nánar af hinu æðra stjórnvaldi svo hægt verði að komast að efnislega

réttri niðurstöðu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“

Samkvæmt úrskurði kjörnefndar greiddu alls 267 manns atkvæði í

sveitarstjórnarkosningunum. Af þeim voru 7 seðlar auðir og 14 seðlar metnir ógildir. Þar sem

hvert atkvæði gat skipt máli skoðaði kjörnefnd alla 267 atkvæðaseðlana sem notaðir voru í

kosningunum. Þá kom í ljós að allir seðlarnir sem kjörstjórn mat gilda reyndust réttilega

metnir. Sjö reyndust auðir. Af þeim 14 kjörseðlum sem kjörstjórn hins vegar mat ógilda, voru

fimm gildir samkvæmt úrskurði kjörnefndar. Sú niðurstaða kjörnefndar breytti úrslitum

kosninganna samkvæmt úrskurði kjörnefndar eins og áður hefur komið fram.

Við framangreindar aðstæður er ljóst að ráðuneytinu er skylt í samræmi við rannsóknarskyldu

sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga að skoða framangreinda 14 kjörseðla og endurmeta þá

niðurstöðu kjörnefndar sem telur fimm af hinum 14 seðlum hafa verið gilda.

Á hinn bóginn er ekki nauðsynlegt að skoða alla kjörseðlana sem notaðir voru í kosningunum.

Kjörnefnd skoðaði alla 267 kjörseðlana og komst að þeirri niðurstöðu að allir kjörseðlarnir

sem kjörstjórn mat gilda væru réttilega metnir. Þar af leiðandi telur ráðuneytið óþarft að skoða

alla kjörseðlana á nýjan leik. Það eru áðurnefndir 14 kjörseðlar sem kjörstjórn mat ógilda, en

kjörnefnd úrskurðaði fimm þeirra gilda, sem fela í sér frávik sem ráðuneytinu er skylt að

rannsaka, eins og áður sagði, enda hafa þau atkvæði úrslitaáhrif á niðurstöðu kosninganna.

Í 78. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 er kveðið á um hvenær atkvæði skal

metið ógilt. Ákvæðið hljóðar svo:

„Atkvæði skal meta ógilt:

a. ef kjörseðill er auður,

b. ef ekki verður séð við hvern lista er merkt eða ef ekki verður séð með vissu hvort

það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri

eru,

c. ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn eða tölumerkt nöfn á fleiri listum en einum

12

eða skrifaður fleiri en einn listabókstafur á utankjörfundarseðil,

d. ef áletrun er á kjörseðli fram yfir það sem fyrir er mælt eða annarleg merki sem ætla

má að sett séu af ásettu ráði til að gera seðilinn auðkennilegan,

e. ef kjörseðill er annar en kjörstjórn eða kjörstjóri hefur löglega afhent,

f. ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill.

Þá er í 79. gr. laganna kveðið á um hvaða atkvæði skal metið gilt þó gallað sé. Þar segir svo:

„Atkvæði skal ekki meta ógilt þó að gallað sé ef greinilegt er hvernig það á að falla,

nema augljóslega komi í bága við framangreind ákvæði. Þannig skal taka gilt atkvæði

þó að ekki sé merkt framan við listabókstafinn, en t.d. aftan við hann, þó að kross sé

ólögulegur, þó að á utankjörfundarseðli fylgi orðið listi listabókstaf að óþörfu, þó að í

stað listabókstafs standi heiti stjórnmálasamtaka o.s.frv.

Lista telst greitt atkvæði þó að láðst hafi að merkja við listabókstaf ef nafn eða nöfn á

honum eru tölusett eða krossað við nafn, enda séu ekki aðrir gallar á.

Við óbundnar kosningar skal ekki meta atkvæði ógilt þótt sleppt sé fornafni eða

eftirnafni ef greinilegt er eftir sem áður við hvern er átt.“

Ráðuneytið hefur fengið send frá formanni kjörnefndar ljósrit þeirra 14 kjörseðla sem

kjörstjórn úrskurðaði ógilda. Af þeim úrskurðaði kjörnefnd gild atkvæði á seðlum nr. 1, 2, 3,

5 og 11, en önnur atkvæði ógild.

Um er að ræða eftirfarandi kjörseðla:

Kjörseðill 1 þar sem krossað er við nafn 7. manns á L-lista, en ekki aðrar merkingar.

Kjörseðill 2 þar sem krossað er við nafn 1. manns N-lista, en ekki aðrar merkingar.

Kjörseðill 3 þar sem settur er kross yfir allan ramma L-lista (báða ramma þess

framboðs, þ.e. efri rammann þar sem í er listabókstafurinn og nafn framboðsins og neðri

rammann þar sem í eru nöfn frambjóðendanna).

Kjörseðill 4 þar sem krossað er yfir öll nöfn á N-lista og hringur dreginn utan um öll

nöfnin á L-lista.

Kjörseðill 5 þar sem strikað er yfir nafn 1. manns á L-lista.

Kjörseðill 6 þar sem merkt er með krossi við L-lista og strikaðir út 1. menn á báðum

listum.

Kjörseðill 7 þar sem krossað er við N-listann og framan við 1. mann þar og tölurnar 2,

3, 4 við aðra menn þess lista og strikað yfir nöfn 7. og 10. manns L-lista.

Kjörseðill 8 þar sem krossað er við L og strikaðir út 1. maður á L-lista og 1. og 3. maður

á N-lista.

Kjörseðill 9 þar sem strikað er yfir nafn 1. manns L-lista og 1. og 3. manns á N-lista

Kjörseðill 10 þar sem krossað er við L og strikað yfir nafn 1. manns þess lista og nöfn 1.

og 3. manns N-lista.

Kjörseðill 11 þar sem strikað er yfir nafn 1. manns á L-lista.

Kjörseðill 12 þar sem hringur er um númerin framan við nöfn 1., 2., 3., 8. og 9. manns á

L-lista og 1., 2., 3., 4. og 8. manns á N-lista.

Kjörseðill 13. Utankjörfundaratkvæði merkt B.

Kjörseðill 14. Utankjörfundaratkvæði merkt S.

Eftir athugun á þessum seðlum og með vísun í röksemdir kjörnefndar fellst ráðuneytið á

niðurstöðu kjörnefndar í máli þessu um að atkvæði 1, 2, 3, 5 og 11 séu gild. Þannig fellur

atkvæði á kjörseðli 1 til L-lista, á kjörseðli 2 til N-lista, á kjörseðli 3 til L-lista, á kjörseðli 5

til L-lista og á kjörseðli 11 til L-lista.

13

Kjörseðill 3 krafðist ítarlegrar athugunar. Í úrskurði félagsmálaráðuneytis frá 10. ágúst 1990

segir svo um kjörseðil „þar sem markaður er kross yfir framboðið í heild. „ ... vilji kjósandi

hafna einhverjum frambjóðanda eða frambjóðendum ber honum, í samræmi við ákvæði 3.

mgr. 84. gr. laga nr. 80/1987 (þágildandi lög um kosningar til Alþingis, innskot ráðuneytis),

að strika yfir nafn hans eða nöfn sérstaklega. Krossi hann hins vegar yfir nafn eða nöfn

frambjóðanda á einum lista ber að jafnaði að líta á slíkan kjörseðil sem atkvæði greitt þeim

lista.“ Ákvæði 3. mgr. 84. laga nr. 80/1987 er efnislega það sama og í 3. mgr. 58. gr. laga nr.

5/1998, en það hljóðar svo: „Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs

strikar hann yfir nafn hans.“ Með hliðsjón af framangreindu fellst ráðuneytið á úrskurð

kjörnefndar um að kjörseðill nr. 3, þar sem settur er kross yfir allan ramma listans, sé gildur.

Um nánari rökstuðning varðandi kjörseðla 1, 2, 5 og 11 vísast til úrskurðar kjörnefndar.

Samkvæmt framangreindri niðurstöðu breytast atkvæðatölur svo frá því sem fram kom við

talningu kjörstjórnar að við L-listann bætast fjögur gild atkvæði og við N-lista bætist eitt gilt

atkvæði. L-listi fær því 86 atkvæði og N-listi 165 atkvæði.

Um þriðju kröfu kæranda.

 

Kærendur taka fram að verði niðurstaða ráðuneytisins sú að rétt sé að taka einstök atkvæði til

skoðunar þá sé gerð sú krafa að öll atkvæði verði þá talin og skoðuð upp á nýtt hvert fyrir sig,

bæði þau sem metin voru gild og ógild.

Um þessa málsástæðu vísast til rökstuðnings undir liðnum Um aðra kröfu kæranda hér að

framan þar sem fram kemur að óþarft verði að teljast að skoða alla atkvæðaseðla kosninganna

upp á nýtt, enda bar kjörstjórn og kjörnefnd saman um alla atkvæðaseðlana utan þeirra 14

kjörseðla sem fólu í sér frávik og ráðuneytinu er skylt að rannsaka.

Um valdsvið kjörnefndar.

 

Samkvæmt 4. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, getur kjörnefnd

úrskurðað kosningu ógilda. Í 94. gr. laganna segir að gallar á kosningu leiði ekki til ógildingar

kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Eins og bent er á í

úrskurði kjörnefndar er ákvæði 94. gr. laganna samhljóða ákvæði 36. gr. þágildandi

sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þeim lögum

segir: „Það leiðir þó væntanlega af eðli máls að ekki ber að ógilda kosningar að öllu leyti ef

hægt er að bæta úr því sem áfátt er með ógildingu að hluta eða öðrum úrræðum.“ Kjörnefnd

telur að með vísun í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sé henni rétt og skylt

að beita vægasta mögulega úrræði sem nær markmiðinu og því beri kjörnefnd að leiðrétta

úrslit kosninga án þess að ógilda þær í heild sinni. Var svo gert í máli þessu úrskurðaði

kjörnefnd um það hver úrslit sveitarstjórnarkosninganna á Djúpavogshreppi þann 27. maí

2006 skyldu vera.

Ákvæði laga um sveitarstjórnarkosningar eru fáorð um valdsvið kjörnefndar. Ráðuneytið telur

þó að túlka verði lagaákvæðin um valdsvið nefndarinnar eftir markmiði sínu, þ.e. að

kjörnefnd úrskurði um hvort kosning sé gild eða ógild, og þar sé komið að endimörkum á

valdbærni nefndarinnar. Slíkt úrskurðarvald leiðir ekki til þess að nefndin hafi vald til að

kveða upp úr um úrslit kosninga. Það vald er í höndum kjörstjórnar sem stýrir kosningunum,

sbr. 7. mgr. 14. gr. laga nr. 5/1998.

14

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er niðurstaða ráðuneytisins sú að vald kjörnefndar

sem skipuð er skv. 93. gr. laga nr. 5/1998 taki til þess að kveða upp úr um gildi eða ógildingu

einstakra atkvæða eða kosninganna í heild sinni. Það er á hinn bóginn einungis kjörstjórn sem

getur kveðið upp úr endanleg úrslit kosninganna.

Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Að öllu því virtu sem að framan er rakið staðfestir ráðuneytið niðurstöðu kjörnefndar að efni

til, þ.e. að atkvæði á kjörseðlum 1, 2, 3, 5, og 11 séu gild. Rétt úrslit kosninganna eru því þau

að L-listi hlaut 86 atkvæði og 2 menn kjörna og N-listi 165 atkvæði og 3 menn kjörna. Níu

atkvæði reyndust ógild.

Ráðuneytið beinir því til kjörstjórnar Djúpavogshrepps að hún komi saman, eins fljótt og

auðið er, tilkynni sveitarstjórn um úrslit kosninganna og gefi út kjörbréf í samræmi við

framangreinda niðurstöðu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Fallist er á niðurstöðu kjörnefndar frá 14. júní 2006 um að fimm atkvæði sem kjörstjórn í

Djúpavogshreppi úrskurðaði ógild skuli vera gild.

Kjörstjórn Djúpavogshrepps skal koma saman eins fljótt og auðið er og tilkynni sveitarstjórn

um úrslit kosninganna í samræmi við úrskurð þennan.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason Þorgerður Benediktsdóttir

Ljósrit: Djúpapvogshreppur

4. júli 2006 - Djúpavogshreppur - Kosningar til sveitarstjórna 2006 (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta