Reykjavík - Rannsóknarreglan
Málflutningsskrifstofa 11. ágúst 1997 96090078
Hr. Haraldur Blöndal hrl. 1001
Pósthólf 36
121 Reykjavík.
Hinn 11. ágúst 1997 er í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r:
Með bréfi dags. 11. september 1996, sem barst ráðuneytinu 26. september 1996, kærði Hvalur hf. afgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkur frá 1996 varðandi sölu á sprengiefnageymslu í Hólmsheiði.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 2. október 1996 var óskað eftir umsögn Reykjavíkurborgar um kæruna. Réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar var frestað með bréfi ráðuneytisins dags. 4. október 1996 þar til efnisúrskurður yrði kveðinn upp. Umsögn borgarinnar barst með bréfi dags. 2. desember 1996.
Í bréfi kæranda frá 11. september 1996 var þess krafist að félagsmálaráðherra, Páll Pétursson, viki sæti við meðferð málsins þar sem eiginkona hans, Sigrún Magnúsdóttir, borgarfulltrúi, hefði tekið þátt í afgreiðslu málsins, bæði í borgarráði og borgarstjórn. Með bréfi forsætisráðuneytisins dags. 2. janúar 1997 var tilkynnt að félagsmálaráðherra hefði ákveðið að víkja sæti og að Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hefði verið settur félagsmálaráðherra til að fara með mál þetta og úrskurða í því. Með bréfi dags. 10. janúar 1997 fól settur félagsmálaráðherra ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins að annast undirbúning úrskurðar. Kærandi mótmælti því með bréfi dags. 21. janúar 1997 að fastir starfsmenn félagsmálaráðuneytisins yrðu látnir undirbúa úrskurð í máli þessu. Settur félagsmálaráðherra ákvað með hliðsjón af því að setja Helga Ágústsson, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, sem starfsmann félagsmálaráðuneytisins ásamt lögfræðingunum Tómasi H. Heiðar og Einari Gunnarssyni, til þess að vinna að úrskurði í málinu. Framangreindum aðilum var tilkynnt um setninguna með bréfum dags. 24. febrúar 1997. Kæranda var tilkynnt um þetta með bréfi ráðuneytisins dags. 10. mars 1997 jafnframt því sem honum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum við umsögn Reykjavíkurborgar um málið.
Með bréfi dags. 20. apríl 1997, sem barst ráðuneytinu 6. maí 1997, kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum við umsögn Reykjavíkurborgar. Kærandi lagði einnig fram dagskrá borgarstjórnarfundar 4. júlí 1996 ásamt útskrift af umræðum undir 2. dagskrárlið sem snertu 40. lið í fundargerð borgarráðs frá 25. júní 1996.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 10. júní 1997 var óskað nánari upplýsinga frá Reykjavíkurborg um afgreiðslu málsins í borgarráði og borgarstjórn og um samskipti borgarinnar og kaupanda sprengiefnageymslunnar. Reykjavíkurborg var einnig gefinn kostur á að gera athugasemdir við bréf kæranda frá 20. apríl 1997. Með bréfi borgarinnar dags. 24. júní 1997, sem barst ráðuneytinu 9. júlí 1997, kom hún á framfæri athugasemdum sínum svo og hluta umbeðinna upplýsinga. Þar sem enn skorti nákvæmar upplýsingar um hvenær og með hvaða hætti kaupsamningur hefði komist á óskaði ráðuneytið eftir þeim með bréfi dags. 17. júlí 1997. Bárust þær upplýsingar ráðuneytinu með bréfi borgarinnar dags. 18. júlí 1997 sem móttekið var 22. júlí 1997.
I. Málavextir.
Í júní 1989 tók Hvalur hf. á leigu af Reykjavíkurborg sprengiefnageymslu í Hólmsheiði. Leigusamningurinn var ótímabundinn og með gagnkvæmum 3 mánaða uppsagnarfresti. Leigufjárhæðin var kr. 6.000.- á mánuði miðað við byggingarvísitölu í júnímánuði 1989 og var innheimt með reikningum útgefnum af Reykjavíkurborg með óreglulegu millibili. Fyrstu árin var leigan innheimt tvisvar á ári. Reikningur var gefinn út 15. febrúar 1994 fyrir tímabilið júlí til desember 1993 og er reikningurinn kvittaður um greiðslu sama dag. Reikningar voru næst gefnir út 12. mars 1996 fyrir tímabilið janúar 1994 til desember 1995 og eru þeir áritaðir um greiðslu 2. apríl 1996. Ársleiga fyrir árið 1995 nam kr. 103.348.-. Með bréfi dags. 28. júní 1996 var leigusamningi Hvals hf. sagt upp með 3 mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót.
Hinn 25. mars 1996 lagði borgarlögmaður til við borgarráð að sprengiefnageymslan yrði seld Kemis ehf. sem hafði gert tilboð í eignina. Söluverð var kr. 350.000.-, en áður hafði fasteignasalan Eignamiðlunin hf. verðmetið geymsluna á kr. 300.000.-. Í tillögu borgarlögmanns segir m.a.: “Geymslan hefur ekki verið notuð undanfarin ár og ekki stendur til að nýta hana á næstunni ...”. Tillagan var samþykkt samhljóða á fundi borgarráðs 26. mars 1996. Í kjölfarið var Kemis ehf. tilkynnt símleiðis um samþykki borgarráðs.
Hinn 2. apríl 1996 ritaði Hvalur hf. borgarráði Reykjavíkur bréf og upplýsti að daginn áður, þ.e. 1. apríl 1996, hefði Elías Kristjánsson f.h. Kemis ehf. tilkynnt símleiðis að félagið hefði keypt geymsluna af Reykjavíkurborg. Jafnframt kemur fram í bréfinu að Hvalur hf. telji að samþykkt borgarráðs hafi byggst á röngum forsendum og að fyrirtækið óski eftir því að borgarráð afturkalli ákvörðun sína um sölu umræddrar eignar og gefi Hval hf. tækifæri til að ræða við borgina um kaup á henni.
Á fundi borgarstjórnar 18. apríl 1996 var lögð fram fundargerð borgarráðs frá 26. mars 1996. Samþykkt var tillaga borgarstjóra um að vísa 20. lið fundargerðarinnar, sem fjallar um sölu sprengiefnageymslunnar, aftur til borgarráðs. Á fundi borgarráðs 18. júní 1996 var lögð fram umsögn borgarlögmanns um 20. lið fundargerðarinnar. Í umsögninni kemur fram sú skoðun borgarlögmanns að borgarráð verði að standa við ákvörðun sína frá 26. mars 1996. Á fundi borgarráðs 25. júní 1996 var umsögn borgarlögmanns samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2 og er það fært til bókar sem 40. liður fundargerðarinnar.
Með bréfi Hvals hf. til borgarstjórans í Reykjavík dags. 3. júlí 1996 var mótmælt afgreiðslu borgarráðs frá 25. júní 1996. Bréfið var sent borgarfulltrúum fyrir fund borgarstjórnar hinn 4. júlí 1996. Eftir nokkrar umræður um málið á fundi borgarstjórnar var 40. liður fundargerðar borgarráðs frá 25. júní 1996 samþykktur með 8 atkvæðum gegn 7.
Hinn 19. júlí 1996 var gerður skriflegur kaupsamningur og afsal milli Reykjavíkurborgar og Kemis ehf. vegna sprengiefnageymslunnar í Hólmsheiði.
Í svarbréfi borgarritara til Hvals hf. dags. 6. ágúst 1996 var því hafnað að þeir lögformlegu ágallar væru á meðferð málsins sem Hvalur hf. hafði haldið fram.
Hinn 26. september 1996 barst félagsmálaráðuneytinu kæra Hvals hf. dags. 11. september 1996 á afgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkur varðandi söluna á sprengiefnageymslunni í Hólmsheiði.
II. Málsástæður kæranda.
Kærandi Hvalur hf. gerir þá kröfu að meðferð borgarstjórnar á málinu verði ómerkt og lagt fyrir borgarstjórn að bjóða honum forkaupsrétt að sprengiefnageymslunni eða bjóða hana opinberlega til sölu.
Í bréfi lögmanns kæranda frá 11. september eru raktir málavextir eins og þeir horfa við umbjóðanda hans. Þar kemur fram að þegar eftir að umbjóðanda hans hafi orðið kunnugt um söluna hafi hann haft uppi athugasemdir við borgina. Síðan segir:
“Urðu þær athugasemdir til þess, að borgarstjórn ákvað á fundi sínum næstum á eftir borgarráðsfundinum að senda erindið aftur til borgarráðs. Var það gert að tillögu borgarstjóra og í samræmi við stjórnsýslulög.
Þegar málið kom aftur til borgarráðs var það sent til umsagnar borgarlögmanns, þrátt fyrir að hann væri vanhæfur til að fjalla um erindið sbr. 4. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá fékk umbj. minn ekki heldur tækifæri til þess að tjá sig um erindið, þótt það sé lögskylt.”
Lögmaður kæranda vísar því næst til yfirlýsingar borgarritara í bréfi dags. 6. ágúst 1996 þess efnis að ef borgarráði hefði verið kunnugt um leigusamninginn við Hval hf. þegar ákvörðun var tekin um sölu hefði Hval hf. væntanlega verið gefinn kostur á að bjóða í eignina. Lögmaðurinn telur þetta kjarna málsins og að ef réttum stjórnsýsluaðferðum hefði verið beitt hefði ekki verið brotinn réttur á umbjóðanda hans. Þá segir í bréfi lögmannsins:
“Því er haldið fram, að öll meðferð borgarstjórnar Reykjavíkur á málinu hafi leitt til þess, að brotin hafi verið stjórnsýslulög. Umbj. minn á ekki að missa rétt vegna þess, að “þeir sem málið fóru (sic) af hálfu borgarinnar höfðu enga vitneskju um að sprengiefnageymslan var í útleigu”, eins og segir í bréfi borgarritara. Hér gildir reglan “að vita eða mega vita” og var leyndarmálið ekki meira en svo, að borgin var nýbúin að senda út reikning fyrir leigu. Þá var og er sprengiefni og skotfæri umb. m. (sic) í geymslunni, og gat það ekki farið framhjá þeim borgarstarfsmanni, sem í óleyfi fór í geymsluna með kaupanda.
Þá er röng sú kenning borgarritara, að umrædd sala lúti ekki reglum stjórnsýslunnar. Það er löngu viðurkennd regla, að ákvörðun og aðferð við sölu á einstökum eignum opinberra aðila lúti reglum stjórnsýslu, en efni samninga um einstakar sölur lúti reglum einkaréttarlegs eðlis.
Af bréfi borgarlögmanns er ljóst, að umbjóðanda mínum hefði verið gefinn kostur á að kaupa nefnda sprengjuefnageymslu (sic), ef borgarráð hefði vitað um leigusamning hans, þegar málið kom þar til umræðu. Af þessu leiðir, að umbj. m. er aðili máls í merkingu stjórnsýslulaga.
Ljóst er, að borgarráð fékk ekki réttar upplýsingar af ástæðum, sem umb. m. (sic) hafði ekki vald á, en upplýsingarnar voru viðkomandi embættismönnum handhægar, og þeir vissu eða áttu að vita um (sic).
Ljóst er, að kaupandi geymslunnar vissi, að umbj. m. var leigutaki hennar, en gætti þess að láta þess hvergi getið. (Raunar hefur umbj. m. ekki séð nein skrifleg gögn frá kaupanda, þau, er lögð hafi verið fyrir borgaryfirvöld.) Er hann því mala fide aðili að þessu máli.
Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga eiga hér því við, og á umb. m. (sic) rétt til að málið verið (sic) tekið upp aftur á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga og honum gefin (sic) kostur á að kaupa eignina, eins og siðvenja er hjá Reykjavíkurborg í hliðstæðum málum.”
Enn fremur er rétt að tilgreina eftirfarandi kafla úr bréfi Hvals hf. til borgarstjórnar dags. 3. júlí 1996 þar sem fjallað er um umsögn borgarlögmanns frá 18. júní 1996 um 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 1996:
“Hvalur h/f mótmælir því, að hægt hafi verið að leita aftur til borgarlögmanns um þetta erindi. Bréf Hvals h/f dags. 2. apríl 1996 var stjórnsýslukæra, og var borgarlögmaður því vanhæfur sbr. 4. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga til að taka þátt í málinu, eftir að kæran barst, þar sem kæra (sic) fjallar m.a. um atriði, er varða hann. Þá er því ennfremur haldið fram, að við meðferð málsins hafi 10. gr. stjórnsýslulaga verið brotin, en sú regla kveður á um, að stjórnvald skuli sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst, áður en ákvörðun er tekin í því. Þá er ekki vafamál, að jafnræðisreglan sbr. 11. gr. laganna hafi verið brotin, en ljóst er, að Reykjavíkurborg hefur ætíð gefið leigjendum einstakra eigna kost á að kaupa þær, þegar svo stendur á eins og í þessu máli. Þá er því ennfremur haldið fram, að brotin hafi verið 13. gr. stjórnsýslulaga, þegar forráðamönnum Hvals h/f var ekki gefinn kostur á að svara bréfi borgarlögmanns, áður en borgarráð tók síðari ákvörðun sína, enda atriði í því bréfi, sem þurfa leiðréttingar við.
Borgarlögmaður segir í upphafi, að honum og gatnamálastjóra hafi ekki verið kunnugt um leigusamning Hvals h/f og Reykjavíkurborgar. Breytir það engu um gildi samningsins. Ljóst er, að Elíasi Kristjánssyni var kunnugt um samninginn, og að hann leyndi borgarlögmann vitneskju sinni. Er ljóst, að upphafleg tillaga borgarlögmanns er m.a. tilkomin vegna ókunnugleika hans. Ákvörðun borgarráðs mun hafa verið tilkynnt Elíasi, en áður en fundargerð borgarráðs var endanlega samþykkt í borgarstjórn, en ákvörðun borgarráðs hefur ekki formlegt gildi, fyrr en borgarstjórn hefur samþykkt fundargerðina. Vaknar því spurning um, hvort tilkynning um slíka ákvörðun borgarráðs geti skoðast sem staðfesting á ákvörðun, sem ekki hefur sjálf verið staðfest, þ.e. hvort ekki þurfi að bíða endanlegrar niðurstöðu, áður en ákvörðun er tilkynnt. Er því eðlilegast að líta svo á, að engin formleg tilkynning hafi verið send. Eiga þá við ákvæði 23. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir, að stjórnvald geti breytt ákvörðun sinni, þar til hún hafi verið tilkynnt aðila máls, þe. (sic) formlega. Vitneskja aðila skiptir hér ekki máli. En þótt hún hafi verið formlega tilkynnt, á aðili máls rétt á því, sbr. 24. gr., að mál sé tekið til meðferðar á ný ef “ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.” Borgarstjórn hefur með samþykkt sinni um að vísa þessu máli aftur til borgarráðs fallist á, að 23. eða 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við um mál þetta.”
Kærandi telur að gögn málsins sýni að honum hefði verið gefinn kostur á að kaupa nefnda sprengiefnageymslu ef borgarráð hefði vitað um leigusamning hans við meðferð málsins og af því leiði að hann eigi aðild að málinu í merkingu stjórnsýslulaga.
Kærandi telur að sökum þess að borgarráð fékk ekki réttar upplýsingar af ástæðum sem ekki voru á hans valdi eigi ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga við og að hann eigi rétt á að málið verði tekið upp aftur á grundvelli þess og að honum verði gefinn kostur á að kaupa eignina eins og siðvenja sé hjá borginni í hliðstæðum málum.
Jafnframt óskaði kærandi þess að ráðuneytið ákvæði á grundvelli 29. gr. stjórnsýslulaga að uppsögn á geymslunni frestaðist þar til ákvörðun þess lægi fyrir.
Í bréfi kæranda dags. 20. apríl 1997 er sérstaklega óskað eftir vettvangskönnun.
III. Málsástæður Reykjavíkurborgar.
Í umsögn borgarlögmanns til borgarráðs dags. 21. október 1996, sem fylgdi bréfi borgarinnar til ráðuneytisins dags. 2. desember 1996, er gerð sú krafa að kveðinn verði upp úrskurður um að Reykjavíkurborg hafi selt umrædda sprengiefnageymslu með lögmætum hætti og að kæranda beri tafarlaust að rýma það húsnæði sem hann hafði áður á leigu og greiða leigu vegna afnota hans á árinu 1996.
Með bréfi borgarritara dags. 6. ágúst 1996 var athugasemdum kæranda frá 3. júlí 1996 svarað og segir þar um formhlið málsins:
“Í 26. gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkur segir: “Borgarráð tekur, skv. heimild 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, fullnaðarákvörðun um þau mál, sem til þess koma, nema um veruleg fjárhagsatriði sé að ræða eða málefni, þar sem ákvörðun borgarstjórnar er sérstaklega áskilin að lögum, enda sé eigi ágreiningur í borgarráði né við borgarstjóra um slíkar ákvarðanir.” Með þessum hætti hefur borgarstjórn falið þeim hluta borgarfulltrúa, sem sæti eiga í borgarráði, umboð til þess að annast fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála og eru ákvarðanir borgarráðs bindandi gagnvart viðsemjendum borgarinnar. Því aðeins að um sé að ræða veruleg fjárhagsleg atriði eða ágreiningur hafi orðið í borgarráði eða við borgarstjóra, getur borgarstjórn tekið slík mál til endurákvörðunar.
Í þessu máli var samningur, sem þar til bærir embættismenn Reykjavíkurborgar höfðu gert við þriðja aðila um sölu sprengiefnageymslu á Hólmsheiði, háður þeim fyrirvara einum að hann hlyti samþykki borgarráðs. Að fengnu samþykki borgarráðs á fundi hinn 25. mars s.l. var því kominn á bindandi löggerningur, sem Reykjavíkurborg var skuldbundin til þess að standa við, enda hefur ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að ógildingarástæður III. kafla samningalaga nr. 7/1936 eigi þar við. Viðsemjandinn gerði þá kröfu til þess að Reykjavíkurborg stæði við samninginn samkvæmt efni hans, og var henni skylt að verða við því.
Varðandi tilvísun í stjórnsýslulög nr. 37/1993 er rétt að benda á, að samkvæmt 1. gr. þeirra laga taka þau til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en ekki til þeirra ákvarðana stjórnvalda sem teljast einkaréttar eðlis. Því eiga ákvæði þeirra laga ekki við í þessu máli. Jafnvel þótt svo væri, má benda á, að stjórnsýslukæra er réttarúrræði, sem aðili máls getur beitt, til þess að fá æðra stjórnvald til þess að endurskoða ákvörðun lægra setts stjórnvalds. Í þessu tilviki eru borgarstjórn og borgarráð sama stjórnvald.”
Efnislega lagði borgarritari m.a. áherslu á að það væri stefna borgarinnar að selja eignir sem hún hefði ekki þörf fyrir og að salan hefði farið fram eftir faglega og hlutlæga skoðun málsins. Enn fremur byggði borgarritari á því að Hvalur hf. ætti þá lögvörðu hagsmuni að leigusamningur væri uppfylltur. Síðan segir:
“Í ljósi framanritaðs er ekki fallist á, að þeir lögformlegu ágallar séu á meðferð málsins, sem getið er í bréfi yðar. Þó er ástæða til þess að biðjast velvirðingar á því að farið var inn í sprengiefnageymsluna án þess að afla heimildar leigutaka. Ástæðan er sú, að þeir sem með málið fóru af hálfu borgarinnar höfðu enga vitneskju um að sprengiefnageymslan var í útleigu. Rétt er enn fremur að geta þess, að hefði borgarráði verið kunnugt um leigusamninginn við Hval hf (sic), þegar ákvörðun var tekin um sölu, hefði Hval hf (sic) væntanlega verið gefinn kostur á að bjóða í eignina. Þær upplýsingar lágu hins vegar ekki fyrir, og það var mat lögmanna borgarinnar, að bindandi samningur hafi verið kominn á við kaupanda sprengiefnageymslunnar, þegar í ljós kom að hún var í útleigu. Að þeirra dómi var þegar af þeirri ástæðu tómt mál að tala um að gefa fleiri (sic) kost á að bjóða í eignina.”
Til viðbótar þessu er á því byggt í áðurnefndri umsögn borgarlögmanns frá 21. október 1996 að leigusala hafi verið sagt upp afnotum af geymslunni með lögmætum hætti og að hann eigi hvorki rétt á áframhaldandi leigu hennar né að kaupsamningi Reykjavíkurborgar og Kemis ehf. verði rift. Enn fremur er á því byggt að riftunarheimild sé ekki til staðar þar sem kaupandi hafi að öllu leyti staðið við skuldbindingar sínar. Kærandi verði sem leigutaki að hlíta því að húseigandi selji eign sína enda séu réttindi hans samkvæmt leigusamningi virt.
IV. Niðurstaða.
Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að sveitarfélögin skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Samkvæmt 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 skal félagsmálaráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en þetta úrskurðarvald skerðir þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Kæra sú sem hér er til meðferðar lýtur að framkvæmd sveitarstjórnarmálefna og er réttilega fram komin.
Ákvörðun borgarráðs frá 26. mars 1996 um sölu á sprengiefnageymslu í Hólmsheiði var einkaréttarlegs eðlis. Að undanskildum ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaganna gilda lögin ekki um undirbúning og töku ákvarðana einkaréttarlegs eðlis. Hins vegar eru ýmis ákvæði stjórnsýslulaganna byggð á óskráðum meginreglum sem hafa víðtækara gildissvið en lögin sjálf og verður að meta meðferð Reykjavíkurborgar á sölu sprengiefnageymslunnar með hliðsjón af því.
Samkvæmt 26. gr. samþykkta um stjórn Reykjavíkurborgar tekur borgarráð, samkvæmt heimild í 56. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1996, fullnaðarákvörðun um þau mál sem til þess koma, nema um veruleg fjárhagsatriði sé að ræða eða málefni þar sem ákvörðun borgarstjórnar er sérstaklega áskilin að lögum, enda sé eigi ágreiningur í borgarráði né við borgarstjóra um slíkar ákvarðanir. Ekki verður talið að sala á hluta lóðarréttindalauss óupphitaðs geymsluhúsnæðis fyrir kr. 350.000.- geti talist verulegt fjárhagsatriði og því verður að fallast á það með borginni að samhljóða ákvörðun borgarráðs 26. mars 1996 um samþykki á sölu á sprengiefnageymslunni hafi verið fullnaðarákvörðun af hálfu borgaryfirvalda um söluna. Því hafi fullgildur einkaréttarlegur samningur komist á í seinasta lagi þegar þessi ákvörðun komst til vitundar tilboðsgjafa, Kemis ehf. Skýrt kemur fram í bréfi kæranda til Reykjavíkurborgar dags. 2. apríl 1996 að þá þegar var ákvörðun borgarinnar komin til vitundar Kemis ehf. Það er meginregla samningaréttar að samningar eru óformbundnir og var því gildur samningur kominn á áður en kærandi beindi fyrstu athugasemdum sÌnum til borgarinnar þrátt fyrir að skriflegur kaupsamningur og afsal hafi ekki verið gerð fyrr en 19. júlí 1996.
Í ljósi yfirlýsinga borgaryfirvalda um að þeim hafi ekki verið kunnugt um útleigu geymslunnar við undirbúning þessarar ákvörðunar verður hins vegar að telja að þau hafi ekki rannsakað málið nægilega áður en ákvörðun var tekin enda verður að telja að hér eigi við hin ólögfesta rannsóknarregla stjórnsysluréttarins sem er sama efnis og 10. gr. stjórnsýslulaganna. Fram kemur hjá borgaryfirvöldum að þau hafi án árangurs leitað eftir því við kaupanda að losna undan kaupunum og jafnframt að þau hafi ekki talið riftunarheimild vera fyrir hendi. Með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum sjálfstjórnarrétti sveitarfélaganna verður ekki talið að endurskoðun mats borgaryfirvalda á hugsanlegum riftunarrétti heyri undir ráðuneytið.
Útleiga Reykjavíkurborgar á sprengiefnageymslunni var á engan hátt tengd lög- og eða venjubundnum verkefnum borgarinnar. Með hliðsjón af því þykir ekki skipta máli hvort venja hafi skapast í hliðstæðum tilvikum að bjóða leigutökum annaðhvort forkaupsrétt eða almennan rétt til að bjóða í eign við fyrirhugaða sölu. Réttarsamband leigutaka og leigusala er hér að öllu leyti einkaréttarlegs eðlis og skipar samningur aðila því til hlítar þannig að ekki kemur til álita að frávik frá slíkri venju geti brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.
Reykjavíkurborg er einn aðili samkvæmt stjórnsýslurétti og er því ekki hægt að líta á erindi kæranda til borgarinnar frá 2. apríl og 3. júlí 1996 sem stjórnsýslukærur. Af sömu ástæðu kemur vanhæfi borgarlögmanns heldur ekki til álita. Hins vegar felast í erindunum tilmæli til borgarinnar um að hún taki tiltekna ákvörðun sína til endurskoðunar og veiti Hval hf. ákveðin réttindi í framhaldi af því. Sú staðreynd að borgaryfirvöld hafi kannað möguleika til endurskoðunar verður ekki metin svo að fyrri ákvörðun hafi verið felld úr gildi. Í samræmi við fram komin sjónarmið um gildi ákvörðunar borgarráðs frá 26. mars 1996 gerir ráðuneytið því ekki athugasemdir við niðurstöðu Reykjavíkurborgar eins og hún er sett fram í bréfi borgarinnar til kæranda í bréfi dags. 6. ágúst 1996.
Ekki er ágreiningur milli aðila um aðstæður í og við sprengiefnageymsluna sem geta haft áhrif á niðurstöðu málsins og sér ráðuneytið því ekki ástæðu til að verða við ósk kæranda um vettvangskönnun.
Með efnisúrskurði þessum er fallin niður ákvörðun ráðuneytisins frá 4. október 1996 um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Mat á einkaréttarlegum kröfum borgarinnar um skyldu kæranda til að rýma hina seldu eign svo og til leigugreiðslna á hins vegar ekki undir ráðuneytið.
Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist nokkuð vegna umfangs málsins og sökum anna starfsmanna sem settir voru til að vinna að gerð úrskurðarins á vormánuðum 1997.
Ú R S KU R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu um að félagsmálaráðuneytið ómerki meðferð borgarstjórnar Reykjavíkur á sölu á sprengiefnageymslu í Hólmsheiði og leggi fyrir borgarstjórn að bjóða kæranda, Hval hf., forkaupsrétt að geymslunni, eða að bjóða hana opinberlega til sölu.
F. r.
Helgi Ágústsson (sign.)
Einar Gunnarsson (sign.)
Ljósrit: Borgarstjórn Reykjavíkurborgar.