Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11110215

 


Ár 2013, þann 25. janúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR 11110215

 

Sigurður Oddur Friðriksson

gegn

Vestmannaeyjabæ

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 15. nóvember 2011, kærði Sigurður Oddur Friðriksson, kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefndur SOF), ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um ráðningu í starf húsvarðar við Grunnskóla Vestmannaeyja. Er gerð sú krafa í málinu að hin kærða ákvörðun verði ógild og að Vestmannaeyjabæ verði gert að auglýsa starfið að nýju.

Kæran er borin fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og er kæran framkomin innan lögmælts þriggja mánaða kærufrests sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Þann 29. september 2011 auglýsti Vestmannaeyjabær laust til umsóknar starf húsvarðar við Grunnskóla Vestamanneyja í bæjarblaðinu Fréttir. Var umsóknarfrestur til 17. október 2011 og bárust alls 8 umsóknir um starfið. 

Úrvinnsla umsókna var í höndum þriggja aðila: Fanneyjar Ásgeirsdóttur, skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyja (hér eftir nefnd FÁ), Sigurlásar Þorleifssonar, aðstoðarskólastjóra í Hamarshúsi, og Guðmundar Þ.B. Ólafssonar, rekstrarstjóra Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyja. Var það niðurstaða þeirra að leggja til við framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að Sigurjón Eðvarðsson yrði ráðinn í starfið sem og var gert. Ekki kemur fram með nákvæmum hætti í gögnum málsins hvenær hin kærða ákvörðun var tekin en ljóst er að SOF var tilkynnt um hana með bréfi, dags. 21. október 2011.

Með bréfi, dags. 11. nóvember 2011, kærði SOF framangreinda ákvörðun til ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um kæru SOF sem og afrits af öllum gögnum málsins. Bárust umbeðin gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 20. desember 2011. Með bréfi, dags. 3. janúar 2012, gaf ráðuneytið SOF færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar sveitarfélagsins. Kaus SOF að nýta sér ekki þann rétt sinn.

Með bréfum, dags. 26. apríl og 26. júní 2012, óskaði ráðuneytið eftir afstöðu Vestmannaeyjabæjar til nánar tiltekinna atriða. Bárust svör sveitarfélagsins þar að lútandi ráðuneytinu með bréfi, dags. 17. júlí 2012. Taldi ráðuneytið ekki nauðsynlegt að leita frekari afstöðu SOF til þess er þar kemur fram. 

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök SOF

Í kæru sinni til ráðuneytisins rekur SOF að þann 29. september 2011 hafi verið birt í bæjarblöðum auglýsing um laust starf húsvarðar við Grunnskóla Vestmannaeyja. Í auglýsingu hafi komið fram að gerð væri krafa um að viðkomandi væri metnaðarfullur og áhugasamur, gæti séð um viðgerðir og viðhald á húsnæði og sýnt lipurð í samskiptum. Þá hafi komið fram í auglýsingu að iðnmenntun og/eða reynsla af viðhaldi fasteigna væri æskileg. Þann 21. október 2011 hafi SOF verið tilkynnt bréflega um að ráðið hefði verið í starfið en alls hefðu 8 umsóknir borist.

SOF tekur fram að hann geri athugasemd við að umsækjendur hafi aldrei verið boðaðir í viðtal eða haft samband við þá að fyrra bragði. Tekur SOF fram að hann leyfi sér að fullyrða að ferilskrár umsækjenda hafi aldrei verið skoðaðar. Samkvæmt rökstuðningi Vestmannaeyjabæjar hafi allir umsækjendur uppfyllt það skilyrði að geta sinnt viðhaldi en samdóma álit þeirra sem komið hafi að valinu hafi verið að sá sem ráðinn var væri gæddur drifkrafti, samskiptalipurð og þjónustulund í ríkum mæli og væri dýrmæt viðbót við skólasamfélagið. Spyr SOF hvernig forsvarsmenn sveitarfélagsins geti dæmt um þjónustulund, drifkraft og samskiptalipurð án þess að ræða við umsækjendur eða ræða við umsagnaraðila?

SOF tekur fram að eiginmaður aðstoðarskólastjóra grunnskólans hafi verið ráðinn. Það að hann hafi verið á meðal umsækjenda gerði að mati SOF Fanneyju Ásgeirsdóttur, skólastjóra Grunnskóla Vestmannaeyjabæjar, vanhæfa til að koma að ráðningunni, enda hafi hún ekki getað talist hlutlaus aðili. Í rökstuðningi fyrir ráðningu komi fram að fleiri en hún hafi komið að ráðningunni án þess þó að nefnt sé hverjir þeir hafi verið. Samkvæmt tölvubréfi framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmanneyjabæjar til SOF hafi FÁ séð um ráðninguna. Eftir standi þó ávallt sú spurning hvernig viðkomandi aðilar hafi getað metið umsækjendur á þann hátt sem gert var og út frá hvaða forsendum?

Telur SOF rökstuðning þann sem hann fékk fyrir ráðningunni einungis vera yfirklór til að hylma yfir vinavæðingu og spillingu sem þrífist í miklum mæli hjá Vestmannaeyjabæ. Eftir að umsóknarfrestur hafi verið liðinn og svarbréf vegna ráðningar borist honum hafi framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðsluráðs engu viljað svara til um hver hefði verið ráðinn  eða hverjir aðrir hefðu sótt um starfið. Þá hafi hann ekki viljað svara umræddum spurningum á fundi í ráðhúsi Vestmannaeyjabæjar. Hafi hann alveg vísað á FÁ í þeim efnum. Á sama tíma hafi hún hins vegar verið stödd erlendis á vegum skólans með aðstoðarskólastjóra og eiginmanni aðstoðarskólastjóra, hinum nýráðna húsverði.

Tekur SOF að lokum fram að sá sem ráðinn hafi verið sé ekki iðnmenntaður eins og a.m.k. 6 aðrir umsækjendur. Umsækjendur hafi ekki verið boðaðir í viðtal til að unnt væri að meta samskiptahæfni þeirra og ekki hafi verið haft samband við umsagnaraðila sem umsækjendur hafi gefið upp. Tekur SOF fram að lágmark sé að allir sitji við sama borð á tímum sem þessum þar sem störf séu ekki á hverju strái og í raun sé ótrúlegt að skólayfirvöld láti hanka sig á svo slælegum vinnubrögðum.

IV.    Málsástæður og rök Vestmannaeyjabæjar

Í umsögn Vestamanneyjabæjar um kæru SOF, dags. 20. desember 2011, kemur m.a. fram að sveitarfélagið hafi auglýst eftir húsverði í fullt starf við Grunnskóla Vestmannaeyja með auglýsingu í bæjarblaðinu Fréttum þann 29. september 2011. Hafi FÁ, skólastjóri grunnskólans, séð um ráðninguna þar sem hún eða staðgengill hennar sjái um daglega verkstjórn umrædds starfsmanns og eigi þar mest undir að velja til starfans hæfan samstarfsaðila. FÁ hafi haft eftirlitsmann fasteigna með í ráðum en hann sé yfirmaður húsvarðar grunnskólans. Framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs hafi verið falið að senda svarbréf til þeirra umsækjenda sem ekki hafi verið ráðnir. Er tekið fram af hálfu sveitarfélagsins að skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja hafi borið ábyrgð á ráðningarferlinu. Þar sem allir umsækjendur hafi verið taldir hæfir hafi skólastjóri ákveðið að byggja val sitt á þeim umsækjanda sem þrír aðilar hefðu kosið sem hæfasta umsækjandann. Rætt hafi verið við þann umsækjanda og hann orðið fyrir valinu.

Meðfylgjandi umsögn sveitarfélagsins var greinargerð frá FÁ um ráðningarferli í stöðu húsvarðar. Þar kemur m.a. fram að að mati á umsóknum hafi komið, auk hennar, aðstoðarskólastjóri í Hamarsskólahúsi, þar sem húsvörðurinn muni hafa sína aðalstarfsstöð, og rekstrarstjóri Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyja. Eins og fram hafi komið í auglýsingu hafi verið leitað að einstaklingi sem léti sér annt um skólann, gæti séð um minniháttar viðgerðir og viðhald á húsnæði bæjarins sem hann bæri ábyrgð á, og væri lipur í mannlegum samskiptum. Þá tekur FÁ fram að eftir að farið hefði verið yfir umsóknir hefði það verið mat þeirra sem það önnuðust að allir umsækjendur uppfylltu þær kröfur að geta séð um minniháttar viðgerðir og viðhald umræddra húseigna. Því hafi verið lögð áhersla á að meta umsækjendur m.t.t. til þátta á borð við samskiptalipurð, drifkraft og þjónustulund. Aðilar matsteymisins hafi farið hver fyrir sig í gegnum lista umsækjenda, valið úr þá þrjá sem þeir töldu best fallna til starfans, m.t.t. áðurnefndra þátta, og svo raðað þeim innbyrðis. Þegar meðlimir teymisins hafi svo borið saman bækur sínar hafi komið í ljós að niðurstöður þeirra voru algjörlega samhljóða. Sömu þrír einstaklingarnir hafi alls staðar verið tilteknir sem æskilegustu starfskraftarnir og einn þeirra ávallt talinn fremstur meðal jafninga. Það hafi því orðið niðurstaðan að byrja á því að boða hann í viðtal. Niðurstöður viðtalsins hafi verið í samræmi við þær væntingar sem gerðar hafi verið til viðkomandi og því ákveðið að leita ekki lengra heldur gera tillögu til framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs um ráðningu hans.

Þá leitaði ráðuneytið afstöðu Vestmanneyjarbæjar til nánar tiltekinna atriða, þar á meðal til hæfis FÁ til að koma að umræddri ráðningu. Í svarbréfi Vestmanneyjabæjar, dags. 17. júlí 2012, kemur fram að sveitarfélagið telji að FÁ hafi verið hæf til að koma að ráðningu í umrætt starf. Þess hafi verið gætt sérstaklega að halda viðkomandi aðstoðarskólastjóra frá ráðningunni vegna tengsla. Reynt hafi verið eftir fremsta megni að gæta jafnræðis og hafi fleiri komið að ráðningunni en reglur kveði á um. Þá hafi FÁ leitað ráða hjá óháðum aðilum.

Þá kemur fram í greinargerð frá FÁ sem fylgdi með bréfi sveitarfélagsins að lögð hafi verið áhersla á að meta umsækjendur m.t.t. samskiptalipurðar, drifkrafts og þjónustulundar þar sem allir umsækjendur hefðu uppfyllt þær kröfur að geta sinnt minniháttar viðgerðum og viðhaldi. Í litlum sveitarfélögum á stærð við Vestmannaeyjabæ þar sem nándin sé mikil þekkist fólk af verkum sínum og orðspor þeirra sem hafi ríka færni í mannlegum samskiptum beri þess einnig greinileg merki. Matsteymið hafi því talið sig hafa nægilegar upplýsingar um umsækjendur til þess að forgangsraða þeim. Eins og fram hafi komið, hafi verið byrjað á því að boða í viðtal þann einstakling sem vænlegastur hafi verið talinn. Niðurstöður þess viðtals hafi verið í samræmi við þær væntingar sem gerðar hafi verið og því hafi verið ákveðið að leita ekki lengra heldur gera tillögu um ráðningu viðkomandi starfsmanns.

V.      Niðurstaða ráðuneytisins

1.         Fjallað var um ráðningar starfsfólks sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 en þar sagði í 1. mgr. 56. gr. að sveitarstjórn réði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veitti þeim lausn frá starfi. Í 2. mgr. 56. gr. sagði svo að um ráðningar annarra starfsmanna færi eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Væru þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gæfi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skyldi að ráðningu starfsmanna. Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga var svo tekið fram að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga færi eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ráðningarsamningum. Rétt er að taka fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 gilda ekki um starfsmenn sveitarfélaga.

Í samþykkt um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar sem staðfest var af samgönguráðuneytinu þann 11. júlí 2008 kemur fram í 67. gr. að bæjarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður s.s. framkvæmdastjóra fagsviða og yfirmenn stofnana og veiti þeim lausn frá störfum nema á annan veg sé mælt í lögum og reglum. Í 68. gr. samþykktarinnar segir svo að bæjarstjóri ráði aðra starfsmenn nema á annan veg sé mælt í lögum og reglugerðum eða eftir reglum sem bæjarstjórn setur. Nánari ákvæði um ráðningar í störf hjá Vestmanneyjabæ er svo að finna í reglum sveitarfélagsins þar að lútandi en þar kemur m.a. fram að framkvæmdastjóri sé ábyrgur fyrir ráðningu starfsmanna í umboði bæjarstjóra og eigi það við hvort sem ráðið sé í nýtt starf eða í starf sem losnar hjá bænum.

Í máli þessu var þremur aðilum falið að fara yfir umsóknir og meta umsækjendur um starf húsvarðar við Grunnskóla Vestmanneyja og gerðu þeir tillögu um ráðninguna til framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, sem m.a. fer með málefni er tengjast grunnskóla sveitarfélagsins. Telur ráðuneytið ljóst að í samræmi við framangreind ákvæði hafi ákvörðunarvald um hver ráðinn yrði stöðuna verið í höndum framkvæmdastjóra sviðsins.

2.         Telur ráðuneytið rétt að víkja næst að þeirri málsástæðu SOF að FÁ, skólastjóri Grunnskóla Vestmanneyja, hafi verið vanhæf til þess að koma að ráðningunni þar sem eiginmaður aðstoðarskólastjóra skólans hafi verið meðal umsækjenda. Um hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra er starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga var fjallað í 1. mgr. 19. gr sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en þar segir:

Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.

Í ákvæðinu fólst að sérhver sveitarstjórnarmaður eða starfsmaður sveitarfélags væri vanhæfur við meðferð og afgreiðslu máls svo framarlega sem vanhæfisásæður eru fyrir hendi. Við túlkun og beitingu hæfisreglna sveitarstjórnarlaga þarf að hafa í huga þann tilgang sem hæfisreglum er ætlað í stjórnsýslunni. Markmið hæfisreglna er fyrst og fremst það að stuðla að málefnalegri stjórnsýslu og skapa traust á milli stjórnsýslunnar og borgaranna þannig að þeir sem hlut eiga að máli og almenningur allur geti treyst því að stjórnvöld leysi úr málum á hlutlægan hátt. Þannig hefur verið talið að í hæfisreglum felist annars vegar svokölluð öryggisregla, þ.e. að ákvörðun verði bæði rétt og lögmæt, og traustregla hins vegar, sem felur í sér að almenningur og aðrir sem hlut eiga að máli hafi ekki ástæðu til að draga í efa að ákvörðun byggist á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum.

Samkvæmt hinni matskenndu hæfisreglu í 1. mgr. 19. gr. bar sveitarstjórnarmanni eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðaði hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt mætti ætla að viljaafstaða hans mótaðist að einhverju leyti þar af. Til þess að starfsmaður teljist vanhæfur á grundvelli fyrrgreindrar reglu hefur verið talið að hann yrði að hafa einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins auk þess sem eðli og vægi hagsmunanna yrði að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðunina. Þannig þyrfti að meta hversu verulegir hagsmunirnir væru og hversu náið þeir tengdust viðkomandi og úrlausnarefni málsins og hvort þátttaka hans í afgreiðslu máls geti valdið efasemdum út á við. Þá taldi ráðuneytið rétt við skýringu 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 rétt að hafa hliðsjón af hæfisreglum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem stjórnsýslulög hafa að geyma strangari hæfisreglur en sveitarstjórnarlög má almennt ganga út frá því að teljist einstaklingur ekki vanhæfur samkvæmt stjórnsýslulögum teljist hann það ekki heldur samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Í 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að starfsmaður teljist vanhæfur til meðferðar máls ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta, venslamenn hans skv. 2. tölul. eða sjálfseignarstofnun eða fyrirtæki í einkaeigu sem hann er í fyrirsvari fyrir. Sama á við ef næstu yfirmenn hans hjá hlutaðeigandi stjórnvaldi eiga sjálfir sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Í ákvæðinu segir svo að verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls verða næstu yfirmenn hans aftur á móti ekki vanhæfir til meðferðar þess af þeirri ástæðu einni. Í máli þessu háttaði svo til að eiginmaður aðstoðarskólastjóra var meðal umsækjenda um starf húsvarðar og að skólastjóri tók þátt í að meta umsækjendur og gera tillögu um ráðningu. Það leiðir hins vegar af framangreindu ákvæði að FÁ, skólastjóri Grunnskóla Vestmanneyja, taldist ekki vanhæf til meðferðar málsins þá þegar af þeirri ástæðu jafnvel þó svo að aðstoðarskólastjóri, undirmaður hennar, væri það. Til þess að skólastjóri teldist vanhæfur þyrfti að vera sýnt fram á að um nána vináttu væri að ræða á milli skólastjóra og aðstoðarskólastjóra og/eða eiginmanns aðstoðarskólastjóra. Hefði þá komið til skoðunar hvort að FÁ teldist vanhæf á grundvelli 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 skýrðri með hliðsjón af 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Ráðuneytið telur hins vegar ekki að sýnt sé fram á í máli þessu að um slíka nána vináttu sé að ræða og fellst því ekki á það með SOF að FÁ hafi verið vanhæf til meðferðar þess máls sem hér um ræðir.

3.         Það hefur verið talin meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að við veitingu opinberra starfa skuli leitast við að velja hæfasta umsækjandann um starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Þegar ekki er að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum leiðbeiningar um hvaða hæfniskröfur umsækjandi um starf skuli uppfylla er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun. Slík sjónarmið þurfa þó sem endranær að vera málefnaleg og lögmæt svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta (sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 382/1991, nr. 2701/1999, nr. 2793/1999, nr. 2862/1999). Þegar ekki er mælt fyrir um tiltekin hæfnisskilyrði í lögum eða öðrum reglum sem veitingarvaldshafi er bundinn af hefur hann því meira svigrúm en ella til að ákveða á hvaða sjónarmiðum ákvörðun verður byggð og hvert innbyrðis vægi þeirra skuli vera.

Ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um hæfnisskilyrði þeirra sem sinna starfi eins og því sem um ræðir í máli þessu. Ljóst er hins vegar að þeir sem mátu umsækjendur töldu að þeir allir uppfylltu það skilyrði að geta sinnt viðhaldi og viðgerðum fasteigna. Var því ákveðið að leggja sérstaka áherslu á aðra þætti s.s. samskiptalipurð, drifkraft og þjónustulund og leggja þá til grundvallar vali á umsækjanda. SOF telur hins vegar að ófært hafi verið að leggja mat á umrædda þætti án þess að ræða við umsækjendur eða umsagnaraðila þeirra. 

Eins og áður segir er meginreglan sú að stjórnvald ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðun um ráðningu sé ekki að finna leiðbeiningar um slíkt í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Verður enda að telja að viðkomandi ráðningarvaldshafi sé alla jafna í bestu aðstöðunni til þess að meta hvaða eiginleikum mikilvægast er að tilvonandi starfsmaður búi yfir og er það ekki hlutverk ráðuneytisins að endurskoða slíkt mat stjórnvalds, hvaða vægi tilteknum þáttum er veitt eða hvaða ályktanir stjórnvald dregur um hæfni umsækjanda. Hefur stjórnvald því allnokkurt svigrúm við slíkt mat svo lengi sem það telst málefnalegt og byggist á lögmætum sjónarmiðum. Að mati ráðuneytisins verður að telja það málefnalegt sjónarmið út af fyrir sig að velja umsækjanda eftir heildstætt mat og eftir atvikum að leggja áherslu á tiltekna persónulega þætti, s.s. hæfni í mannlegum samskiptum, sem að mati ráðningarvaldshafa hentar viðkomandi starfi best, á þann hátt sem gert var í því tilviki sem hér um ræðir. Á hinn bóginn verður að líta svo á að við ráðningu í starf beri stjórnvaldi skylda til að tryggja að öll málsmeðferð og undirbúningur sé framkvæmdur á forsvaranlegan hátt enda verður ekki talið að öðruvísi verði raunverulega upplýst um hver teljist hæfasti umsækjandinn að virtum þeim sjónarmiðum sem ákveðið er að leggja til grundvallar við ráðningu.

4.         Ljóst er í máli þessu að Vestmanneyjabær ákvað að byggja hina kærðu ákvörðun um ráðningu í starf húsvarðar við Grunnskóla Vestmanneyja á því hvaða umsækjandi byggi yfir mestri hæfni í mannlegum samskiptum, sérstaklega samskiptalipurð, drifkrafti og þjónustulund. Jafnframt er ljóst að einungis sá umsækjandi sem ráðinn var var boðaður í starfsviðtal og að ekki var rætt við aðra umsækjendur eða umsagnaraðila þeirra. Þegar kemur að mati á huglægum þáttum, s.s. þeim sem að framan greinir, er hins vegar vandséð að mati ráðuneytisins hvernig unnt er að meta þá án þess að leita umsagna eða taka viðtöl við umsækjendur og gera með því raunverulegan samanburð á umsækjendum. Er það mat ráðuneytisins að Vestmanneyjabær hafi ekki fylgt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð þess máls sem hér um ræðir enda hafi sveitarfélagið ekki aflað nægilegra gagna til þess að getað tekið afstöðu til þess á forsvaranlegan hátt hvaða umsækjandi teldist hæfastur með tilliti til þeirra þátta sem ákveðið var að byggja hina kærðu ákvörðun á.  

Í því ljósi er það niðurstaða ráðuneytisins að óhjákvæmilegt sé að telja hina kærðu ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um ráðningu í starf húsvarðar við Grunnskóla Vestmanneyjabæjar ólögmæta enda getur stjórnvald sem veitir opinbert starf almennt ekki fullyrt að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn nema ákvörðun um ráðningu hafi verið undirbúin á forsvaranlegan hátt þannig að hún uppfylli skilyrði laga um undirbúning ákvörðunar. Með tilliti til hagsmuna þess er starfið hlaut verður hin kærða ákvörðun þó ekki felld úr gildi.  

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist nokkuð í máli þessu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar um ráðningu í starf húsvarðar við Grunnskóla Vestmannaeyja, er ólögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

 

 

Bryndís Helgadóttir                                                                      Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta