Úrskurður í máli nr. SRN19110025
Ár 2020, þann 4. júní, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. SRN19110025
Kæra X
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Þann 26. nóvember 2019 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærandi), kt. 000000-0000, á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 14. nóvember 2019 um að synja umsókn hennar um forskráningu bifreiðar af gerðinni Ford Eco Sport. Af kæru verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
II. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins
Málavextir eru þeir að með umsókn til SGS dags. 26. ágúst 2019 óskaði kærandi eftir forskráningu ökutækis af gerðinni Ford Eco Sport. Var þeirri umsókn synjað með ákvörðun SGS þann 14. nóvember 2019 þar sem með umsókn hefði ekki fylgt staðfesting frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu þess efnis að mengunarstaðall væri uppfylltur. Þar sem fullnægjandi gögn hefðu ekki fylgt umsókn um forskráningu væri henni hafnað.
Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu 26. nóvember 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 26. nóvember 2019 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 17. desember 2019.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 27. desember 2019 var kæranda kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi kæranda mótteknu 28. desember 2019.
III. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi hafi komið hingað til lands frá Dubai sumarið 2019. Kveðst kærandi hafa leitað eftir því hvort hún gæti flutt með sér hingað til lands þriggja ára gamlan Ford Eco Sport en hafi fengið misvísandi upplýsingar þess efnis að slíkt væri ekkert vandamál. Kveðst kærandi m.a. hafa leitað upplýsinga á heimasíðu SGS og þar hafi ekki verið að sjá að vandkvæði ættu að vera á skráningu bifreiðarinnar. Kveðst kærandi hafa leitað eftir að fá bifreiðina skráða en verið synjað af hálfu SGS þar sem bifreiðin væri ekki talin uppfylla mengunarstaðla. Telur kærandi þetta á misskilningi byggt þar sem munurinn á útblæstri nái aðeins yfir diesel bifreiðar en ekki bensín bifreiðar. Bendir kærandi á að mismunur á útblæstri samkvæmt Euro 5 staðli og Euro 6 staðli sé enginn varðandi bensínvélar. Aðeins sé munur varðandi diesel vélar. Þá bendir kærandi á að bifreiðin hafi áður verið skráð í UAE og því sé þetta ekki fyrsta skráning hennar. Einnig bendir kærandi á að fjöldi bifreiða með meiri útblástursmengun sé skráður á Íslandi. Þá hafði kærandi áður en formleg kæra barst sent ráðuneytinu tölvubréf þann 8. nóvember 2019. Koma þar fram sömu sjónarmið og í kæru.
Í andmælum kæranda áréttar hún sjónarmið um að enginn munur sé á útblæstri samkvæmt mengunarstöðlum 5 og 6 vegna bensínvéla. Því ætti að vera vandalaust að forskrá bifreiðina. Einnig bendir kærandi á að bifreiðar sem uppfylli ekki mengunarstaðla hafi verið innfluttar frá Bandaríkjunum og fengist forskráðar. Þá hafi hvorki SGS né Tollstjóri upplýst kæranda um að vandamál gætu verið við forskráningu ökutækisins, enda hefði kærandi ekki flutt bifreiðina hingað til lands ef hún hefði vitað að forskráning fengist ekki.
IV. Ákvörðun og umsögn SGS
Í ákvörðun SGS segir að í ákvæði 03.05(4) um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 sé kveðið á um þau gögn sem skulu fylgja umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja. Í 13. tl. b-liðar sama ákvæðis sé kveðið á um að umsókn skuli fylgja gögn sem sýni útblástursmengun (mengunarstaðal) ökutækis. Í ákvæði 18.10 (15) reglugerðarinnar komi fram að ökutæki teljist uppfylla kröfur um útblástursmengun ef það uppfyllir þann staðal sem í gildi er fyrir það á hverjum tíma. Í reglugerð EB nr. 692/2008 segi að síðasta dagsetning sem unnt var að skrá ökutæki með Euro 5 mengunarstaðal hafi verið 31. ágúst 2015 en eftir þann dag hafi Euro 6 mengunarstaðallinn alfarið tekið við. Með umsókn kæranda hafi ekki fylgt staðfesting frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu þess efnis að mengunarstaðall væri uppfylltur, sbr. ákvæði 03.05 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja. Í ljósi þess að fullnægjandi gögn hafi ekki fylgt umsókn hafi SGS tekið ákvörðun um að hafna umsókn um forskráningu. Getur SGS þess að höfnunin sé ekki endanleg í þeim skilningi að hún komi ekki í veg fyrir forskráningu ökutækisins síðar ef þeim gögnum sem gerð er krafa um verður framvísað.
Í umsögn SGS bendir stofnunin á að í hinni kærðu ákvörðun hafi verið misritun. Þar sem fjallað sé um Euro 5 mengunarstaðal og að unnt hafi verið að skrá ökutæki með Euro 5 mengunarstaðal til 31. ágúst 2016, hafi átt að standa 31. ágúst 2015. Framangreind misritun hafi þó ekki áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar.
SGS vísar til þess að í ákvæði 03.05 (4) reglugerðar nr. 822/2004 sé kveðið á um þau gögn sem fylgja skuli umsókn um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja. Í 13. tl. b-liðar sama ákvæðis segi að umsókn skuli fylgja gögn sem sýni fram á útblástursmengun (mengunarstaðal) ökutækis. Í ákvæði 18.10 (15) segi að ökutæki teljist uppfylla kröfur um útblástursmengun ef það uppfylli þann staðal sem í gildi er fyrir það á hverjum tíma. Þá komi fram í reglugerð EB nr. 692/2008 að síðasta dagsetning sem unnt var að skrá fólksbifreið með Euro 5 mengunarstaðal hafi verið 31. ágúst 2015, en eftir það hafi Euro 6 mengunarstaðallinn tekið við. Með umsókn kæranda hafi fylgt gögn sem sýni fyrstu skráningu ökutækisins þann 3. júlí 2016 og að ökutækið sé með Emission – Stage 5, sem bendi til að ökutækið uppfylli Euro 5 mengunarstaðal, en hafi ekki verið skráð innan þeirra marka sem heimilt var að skrá ökutæki með Euro 5 mengunarstaðal, þ.e. fyrir 31. ágúst 2015. Með umsókn um forskráningu hafi ekki fylgt staðfesting frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu á því að mengunarstaðall væri fullnægjandi, sbr. ákvæði 03.05 (4) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Líkt og fram kemur í ákvörðun SGS var það niðurstaða stofnunarinnar að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu kæranda að umrædd bifreið af gerðinni Ford Eco Sport uppfyllti mengunarstaðla samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Hafa sjónarmið SGS og kæranda verið rakin hér að framan.
Um gerð og búnað ökutækja gildir reglugerð með því sama nafni nr. 822/2004. Er reglugerðin sett með heimild í þar til greindum ákvæðum umferðarlaga sbr. 26. gr. reglugerðarinnar. Í inngangi reglugerðarinnar kemur fram að markmiðið með henni sé að tryggja umferðaröryggis- og umhverfisjónarmið. Kveði reglugerðin m.a. á um tæknilegar kröfur þegar ökutæki er skráð á Íslandi, ásamt kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætluð eru í ökutæki. Hún setji samræmd viðmið til þess að auðvelda skráningu, sölu og notkun ökutækja á EES svæðinu, ásamt því að kveða á um kröfur um tæknilegt ástand ökutækja í notkun.
Um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja er fjallað í ákvæði 03.05 reglugerðarinnar. Í ákvæði 03.05 (4) reglugerðarinnar er kveðið á um þau gögn sem fylgja skulu umsókn um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja. Í 13. tl. b-liðar ákvæðisins er kveðið á um að umsókn skuli fylgja gögn sem sýna útblástursmengun, þ.e. mengunarstaðla, ökutækis. Í ákvæði 18.10 (5) segir síðan að ökutæki teljist uppfylla kröfur um útblástursmengun ef það uppfyllir þann staðal sem í gildi er á hverjum tíma. Í reglugerð EB nr. 692/2008 er loks kveðið á um að síðasta dagsetning sem unnt var að skrá fólksbifreið með Euro 5 mengunarstaðal hafi verið 31. ágúst 2015, en eftir það hafi Euro 6 mengunarstaðallinn tekið við.
Fyrir liggur að fyrsta skráning ökutækisins var þann 3. júlí 2016 sem og að ökutækið sé skráð með Emission – Stage 5. Tekur ráðuneytið undir það með SGS að ekki verði þannig annað séð en að ökutækið uppfylli aðeins Euro 5 mengunarstaðal. Líkt og rakið var hér að framan var síðasta dagsetning sem unnt var að skrá Euro 5 mengunarstaðal þann 31. ágúst 2015 en eftir það tók Euro 6 mengunarstaðall við. Liggur þannig fyrir að ökutækið hafi ekki verið skráð innan þeirra marka sem heimilt var að skrá ökutæki með Euro 5 mengunarstaðal. Þá liggja ekki fyrir gögn sem sýna fram á staðfestingu frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu þess efnis að mengunarstaðall sé uppfylltur, sbr. ákvæði 03.05 (4) í reglugerð um gerð og búnað ökutækja. Tekur ráðuneytið þannig undir það með SGS að ekki liggi fyrir fullnægjandi gögn þess efnis að mengunarstaðall sé uppfylltur fyrir ökutækið. Í því ljósi er það mat ráðuneytisins að ekki sé tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu SGS og verður hin kærða ákvörðun því staðfest. Hins vegar kann forskráning ökutækisins eftir sem áður að vera möguleg berist SGS síðar meir fullnægjandi gögn samkvæmt framansögðu.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu frá 14. nóvember 2019 um að synja umsókn X um forskráningu bifreiðar af gerðinni Ford Eco Sport.