Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Sveitarfélagið Skagafjörður - Erindum ekki svarað

Trausti Sveinsson                                             9. ágúst 2001                                   FEL01070012/16-5200

Bjarnargili

570 FLJÓT

 

Með erindi, dags. 26. júní 2001, barst félagsmálaráðuneytinu stjórnsýslukæra frá Trausta Sveinssyni, Bjarnargili í Fljótum, Skagafirði, þar sem kærð eru fjögur atriði í málsmeðferð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vegna erinda til þess frá kæranda.  Annað erindi, dags. 1. júlí sl., hefur borist frá kæranda þar sem kærð eru tvö atriði til viðbótar í málsmeðferð sveitarfélagsins vegna erinda til þess frá honum. Frá varnaraðila, Sveitarfélaginu Skagafirði, hefur borist umsögn, dags. 24. júlí sl.

 

Þau atriði sem erindi kæranda beinast að eru sem hér greinir:

 

a.       Að erindi til sveitarstjórnarinnar, dags. 28. janúar 1999, hafi ekki verið svarað. Í erindinu biður kærandi um að sveitarstjórnin taki afstöðu til svonefndrar Fljótaleiðar, sem er einn kosta í vegtengingu með jarðgangagerð á utanverðum Tröllaskaga, og um að hún meti hagsmuni sveitarfélagsins af þeirri leið í samanburði við svonefnda Héðinsfjarðarleið. Þá biður hann um að sveitarstjórnin taki ýmis gögn, sem fylgja erindinu, „til ítarlegrar skoðunar og efnislegrar afgreiðslu,“ sem og að niðurstöður umræðunnar „verði kynntar opinberlega sem fyrst að þeim loknum.“

b.      Að erindi til sveitarstjórnarinnar, dags. 1. mars 2000, hafi ekki verið svarað. Í erindinu biður kærandi um að byggðarráð og sveitarstjórn „beiti sér fyrir því við samgöngunefnd Alþingis og Samgönguráðuneytið að lagt verði fram fjármagn til kaupa á hlutlausri sérfræðiþjónustu við gerð samanburðarskýrslu um arðsemi tveggja jarðgangnaleiða á norðanverðum Tröllaskaga,“ þ.e. Héðinsfjarðarleiðar og Fljótaleiðar.

c.       Að erindi til sveitarstjórnarinnar, dags. 7. febrúar 2001, hafi ekki verið svarað. Í erindinu óskar kærandi „eftir upplýsingum um minningarsjóð Jóns Halldórssonar frá Bjarnargili, sem var í vörslu Fljótahrepps fyrir sameiningu sveitarfélaganna,“ en fyrrum Fljótahreppur er nú hluti af Sveitarfélaginu Skagafirði.

d.      Að afrit af bréfi til samgönguráðherra, dags. 4. apríl 2001, sem samtímis var sent sveitarstjórn Skagafjarðar, hafi ekki verið tekið til skoðunar af sveitarstjórninni.

e.       Meðferð á erindi hans til sveitarstjórnarinnar, dags. 20. júní sl., þar sem hann biður um að sveitarstjórnin hafi milligöngu um að teknar verði upp viðræður við hann „um að hann fái greidd laun og ýmsan kostnað frá síðustu áramótum fyrir sína vinnu við að ná fram þýðingarmiklum og sanngjörnum breytingum á fyrirhuguðum vegtengingum með jarðgöngum á utanverðum Tröllaskaga.“ Kærandi telur erindið hafa verið rangtúlkað sem styrkbeiðni.

f.        Meðferð á erindi hans til sveitarstjórnarinnar, dags. 25. júní sl., þar sem hann biður um að sveitarstjórnin taki til umfjöllunar og afgreiðslu tvö bréf til samgönguráðherra, dags. 4. apríl og 23. júní sl., og að umfjöllunin um bæði bréfin verði sameiginleg og lokaafgreiðslan samræmd ályktun. Kæran lýtur að því að fyrrihluti erindisins hafi ekki verið tekinn til umræðu, þ.e. bréfið frá 4. apríl.

 

Álit ráðuneytisins

Telja verður að fram hafi komið fullnægjandi skýringar á kæruefnunum í liðum a, b og c í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Kemur fram að kærandi hafi verið upplýstur um gang mála eins og góðir stjórnsýsluhættir áskilja. Voru þær skýringar eingöngu munnlegar í því tilviki sem greint er frá í lið a en skriflegar í því tilviki sem greint er frá í lið b, þ.e. tilkynning um afgreiðslu málsins hjá sveitarstjórn. Í tilvikinu sem greint er frá í lið c var kærandi upplýstur um gang mála bæði munnlega og skriflega. Verður að telja að með bréfi, dags. 23. júlí 2001, hafi kæranda verið veittar fullnægjandi upplýsingar um þann lið kærunnar. Þar sem ekki verður séð að sveitarstjórnin hafi brotið skyldur sínar, hvað þessi kæruefni varðar, er ekki ástæða til þess að fjalla um þau frekar. Verður nú hins vegar vikið að kæruefnunum í liðum d, e og f.

 

Kæruefnin í liðum d og f lúta að því, eins og áður hefur komið fram, að afrit af bréfi til samgönguráðherra, dags. 4. apríl sl., sem einnig var sent sveitarstjórninni, hafi ekki verið tekið til umræðu í sveitarstjórn. Með bréfi, dags. 25. júní sl., ítrekaði kærandi að bréfið til samgönguráðherra skyldi tekið til umfjöllunar og afgreiðslu. Varnaraðili heldur því fram að afritið hafi í raun ekki verið sent til sveitarstjórnarinnar heldur aðeins til forseta sveitarstjórnar og formanns byggðarráðs án sérstakra tilmæla um að mælt yrði með erindinu til samgönguráðherra.

 

Ráðuneytið telur rétt að taka fram að einstakir sveitarstjórnarmenn hafa ekki stjórnsýsluvald heldur sveitarstjórnin sem heild. Sveitarstjórnarmenn þurfa því ekki að fara eftir þeim reglum, sem gilda um stjórnvöld, við afgreiðslu á bréfum sem þeir fá persónulega. Í fylgiskjali með afriti af fyrrgreindu bréfi kæranda til samgönguráðherra kom hins vegar fram að bréfið hefði verið sent sveitarstjórn Skagafjarðar. Ráðuneytið telur því að forseti sveitarstjórnar og formaður byggðarráðs hefðu ekki átt að líta svo á að einungis væri um sendingar til sín persónulega að ræða heldur hefði verið eðlilegast að leggja í þær þann skilning að þær væru til sveitarstjórnarinnar. Þar af leiðandi hefði átt að leggja þær fyrir hana. Góðir stjórnsýsluhættir fela það í sér að bréf til stjórnvalda séu tekin til athugunar og þeim svarað.

 

Kæruefnið í lið e lýtur að því, eins og fyrr segir, að sveitarstjórnin hafi rangtúlkað sem styrkbeiðni þá beiðni kæranda að hún hefði milligöngu um að teknar yrðu upp viðræður við hann um laun og aðrar greiðslur fyrir vinnu í tengslum við jarðgöng á Tröllaskaga.


 

Byggðarráð tók erindið fyrir á fundi hinn 27. júní 2001 og segir í fundargerðinni: „Lagt fram bréf frá Trausta Sveinssyni, dagsett 20. júní 2001, varðandi styrkbeiðni.“ Ekki verður því betur séð en að erindið hafi verið rangtúlkað, enda varðar það beiðni um að höfð yrði milliganga um greiðslu launa fyrir óbeðinn erindisrekstur. Þetta hefur verið viðurkennt í umsögn sveitarstjórnarinnar þar sem mistökin eru hörmuð.

 

Niðurstaða

Ekki getur komið til þess að kveðinn verði upp úrskurður í máli þessu á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er það ákvæði túlkað svo að einungis beri að kveða upp úrskurði í málum sem varða stjórnvaldsákvarðanir, en það eru ákvarðanir sem hafa bindandi áhrif á réttarstöðu manna, þ.e. ákvarðanir um réttindi og skyldur manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Erindi kæranda varða ekki að neinu leyti slíkar ákvarðanir.

 

Ráðuneytið telur þrátt fyrir þetta rétt að taka afstöðu til þess hvort erindi kæranda gefi tilefni til þess að ráðuneytið áminni sveitarstjórn um að gegna skyldum sínum eða beiti öðrum viðurlögum á grundvelli eftirlitshlutverks ráðuneytisins, sbr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Tekið skal fram að ráðuneytið telur einungis heimilt að áminna sveitarstjórn ef um er að ræða stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða brot sem framin eru af ásetningi.

 

Meginefni erinda kæranda snýr að því hvaða stefnu sveitarstjórnin skuli taka varðandi jarðgangagerð á Tröllaskaga. Þá biður kærandi um að tiltekin málefni og gögn verði tekin til umræðu á sveitarstjórnarfundum. Um þetta má vísa til liða a, b, d og f. Hafa verður í huga að ákvarðanir um hvaða mál skuli tekin til umræðu og hvaða stefna skuli tekin í málum eru í höndum sveitarstjórnar nema lög ákveði annað. Er ekki skylt að fara að tilmælum einstakra íbúa í því efni.

 

Einnig verður að líta til þess að erindi kæranda varða ekki að neinu leyti lögbundin verkefni sveitarfélagsins. Má sem dæmi um það nefna beiðni kæranda um að sveitarfélagið hafi milligöngu um að teknar verði upp viðræður við hann um laun og aðrar greiðslur, þ.e. kæruefnið í lið e, en slík beiðni er fjarri því að varða lögbundin verkefni sveitarfélags sem stjórnvalds.

 

Engu að síður telur ráðuneytið að meðferð sveitarstjórnarinnar á erindum kæranda hafi ekki verið fyllilega í samræmi við góða stjórnsýsluhætti, þar sem erindum kæranda var ekki ávallt svarað með fullnægjandi hætti. Hér er þó ekki um slíka annmarka að ræða að tilefni gefist til aðgerða af hálfu ráðuneytisins.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta