Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Kópavogsbær - Skilyrði þess að um stjórnsýsluákvörðun sé að ræða, framsal valds til embættismanna sveitarfélaga, málshraði, frávísun frá ráðuneyti

Einar S. Hálfdánarson hrl.                             21. september 2001             FEL01070014/121

Stórhöfða 23

110 REYKJAVÍK

 

Hinn 21. september 2001 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

úrskurður

 

Með erindi, dags. 28. júní 2001, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Einars S. Hálfdánarsonar hrl., f.h. Smáratorgs ehf., á hendur Kópavogsbæ. Kærð er sú ákvörðun Kópavogsbæjar að hafna beiðni kæranda um að hvorki verði lagt vatnsgjald eða holræsagjald á opin bílastæði í kjallara Smáratorgs 1 í Kópavogi, samanber bréf bæjarlögmanns, dags. 23. maí sl.

 

Með bréfi, dags. 7. júlí sl., óskaði ráðuneytið eftir umsögn Kópavogsbæjar um erindi kæranda. Umsögn barst með bréfi, dags. 2. ágúst sl. Var hún send kæranda til kynningar með bréfi ráðuneytisins dags. 7. ágúst sl. þar sem honum var gefinn frestur til 16. ágúst til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust í bréfi kæranda, dags. 10. ágúst 2001.

 

I. Málavextir og málsrök aðila.

Í erindi sínu vísar kærandi til 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, og 87. gr. vatnalaga, nr. 15/1923. Telur hann að umrædd ákvæði veiti Kópavogsbæ ekki heimild til að innheimta vatnsgjald eða holræsagjald af bílageymslu kæranda. Ekki sé um að ræða vatnsnotkun til annars en slökkvistarfs og einnig komi ekkert skólp né regnvatn úr slíkri bílageymslu.

 

Myndi slík innheimta leiði til mismununar milli þeirra sem fullnægja bílastæðaþörf með bílaplani og hinna sem það gera með opnu bílskýli, líkt og kærandi. Við byggingu atvinnuhúsnæðis, einkum verslunarhúsnæðis, geti verið mjög hentugt að nota rými, svo sem kjallara sem annars yrði fyllt upp, til að sinna bílastæðaþörf. Telur kærandi að orðalag reglugerðar um holræsagjald í Kópavogsbæ nái naumast til bílageymslu af því tagi sem um er deilt í málinu.

 

Það hafi áreiðanlega ekki verið meining löggjafans að slíkar fasteignir, sem geta eðli máls samkvæmt ekki leitt til meiri tekjumyndunar en venjuleg bílastæði, verði tilefni til mismununar gjaldenda. Tekur kærandi fram að hann telur að ekki sé hætta á að venjulegum lokuðum bílskúrum verði ruglað saman við almenn opin bílahús. Reynsla sé fyrir hendi af álagningu gatnagerðargjalda í þessu sambandi. Einnig séu greidd byggingarleyfisgjöld af innbyggðum bílskúrum en útibílageymslur eru undanþegnar slíkum gjöldum.

 

Í umsögn Kópavogsbæjar er framangreindum sjónarmiðum kæranda mótmælt. Bent er á að í bílageymslu kæranda er sprinklerkerfi til brunavarna. Þótt slík kerfi séu eðli málsins samkvæmt sjaldan notuð sé engu að síður um vatnsnotkun að ræða. Brunavarnir útheimti í vissum tilvikum sverari stofnlagnir vatnsveitu en almennt neysluvatn í viðkomandi byggingum og þar með meiri stofn- og viðhaldskostnað dreifikerfis vatnsveitu. Þetta gildi einkum um stórar byggingar þar sem tiltölulega lítil notkun er á almennu neysluvatni. Sama gildi þar sem mikið er af stóru atvinnuhúsnæði á sama svæði. Í Smáranum í Kópavogi, þar sem aðallega er að finna verslunar- og þjónustuhúsnæði, sé gert ráð fyrir vatnsþörf upp á 40 lítra/sek.

 

Varðandi aðra vatnsnotkun en til brunavarna bendir Kópavogsbær á að væntanlega þurfi að þrífa bílageymsluna og að niðurföll séu í gólfi sem geta tekið við þvottavatni. Þessi niðurföll tengist holræsakerfi bæjarins. Telur Kópavogsbær því að álagning vatns- og holræsagjalds eigi að vera með sama hætti og gildir um bílskúra almennt.

 

II. Niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu er deilt um svör Kópavogsbæjar við beiðni kæranda um að ekki verði lagt á vatnsgjald eða holræsagjald vegna opinna bílastæði í kjallara húsnæðis kæranda að Smáratorgi 1 í Kópavogi. Um er að ræða húsnæði sem er í notkun og hafa umrædd gjöld því verið lögð á með formlegum hætti. Kærandi hefur engu að síður kosið þá leið að óska eftir undanþágu frá álagningu vatnsgjalds og holræsagjalds í stað þess að reyna að fá álagningunni hnekkt með málskoti.

 

Ráðuneytið leitaði upplýsinga frá aðilum um hvort bæjarstjórn eða bæjarráð hefðu tekið formlega afstöðu til beiðni kæranda um undanþágu. Kom í ljós að svo var ekki og telur ráðuneytið að svarbréf bæjarlögmanns til kæranda, dags. 23. maí 2001 geti ekki falið í sér stjórnsýsluákvörðun sem unnt er að kæra til ráðuneytisins. Ber af þeim sökum að vísa kærunni frá ráðuneytinu.

 

Ráðuneytið telur ástæðu til að gagnrýna harðlega málshraða og skort á formlegri afgreiðslu málsins af hálfu Kópavogsbæjar. Erindi kæranda er dagsett 30. október 2000 og samþykkti bæjarráð á fundi 3. nóvember sama ár að óska eftir umsögn bæjarlögmanns um málið. Er ekki að finna í gögnum málsins skýringar á því hvers vegna erindinu var ekki svarað fyrr en u.þ.b. hálfu ári síðar. Einnig telur ráðuneytið ljóst að svarbréf bæjarlögmanns bar að leggja fyrir bæjarráð til staðfestingar til að um formlega stjórnsýsluákvörðun gæti verið að ræða. Er hér með lagt fyrir Kópavogsbæ að taka erindi kæranda til formlegrar meðferðar án frekari tafa, óski kærandi eftir því.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu Smáratorgs ehf. um að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Kópavogsbæjar um að hafna beiðni kæranda um að hvorki verði lagt vatnsgjald eða holræsagjald á opin bílastæði í kjallara Smáratorgs 1 í Kópavogi, er vísað frá ráðuneytinu.

 

F. h. r.

Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

Afrit:Kópavogsbær




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta