Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 1/2003

Ár 2003, þriðjudaginn 8. júlí, var í samgönguráðuneytinu tekið til afgreiðslu erindi A., varðandi veitingu sérleyfa á tilgreindum sérleyfisleiðum. Í tilefni af kærunni er kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

I. Kröfur

Ráðuneytinu barst erindi frá B hdl. fyrir hönd A ehf. (Kærandi), dags. 19. febrúar 2003, þar sem kærð er veiting sérleyfa á sérleyfisleiðunum Ísafjörður - Hólmavík - Ísafjörður og Ísafjörður - Patreksfjörður - Ísafjörður. Gerð er krafa um að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til þess hvort það sjái ástæðu til að gera athugasemdir við veitingu sérleyfanna og hvernig staðið var að veitingu leyfanna.

II. Málsatvik

Málsatvik eru þau að kærandi lagði, þann 30. ágúst 2002, inn umsókn hjá Vegagerðinni um sérleyfi til reglubundinna fólksflutninga á sérleyfisleiðunum Ísafjörður - Hólmavík - Ísafjörður og Ísafjörður - Patreksfjörður - Ísafjörður. Fram kemur í kærunni að kærandi hafi fengið þau svör fyrr um sumarið 2002 að Vegagerðin hefði samþykkt fyrir sitt leyti að sérleyfið yrði af hálfu Allrahanda ehf. framselt til Stjörnubíla ehf. fram til 31. ágúst sama ár, en eftir það yrði sérleyfunum úthlutað að nýju og því hafi kærandi verið hvattur til að sækja um sérleyfin fyrir lok ágústmánaðar. Vegagerðin svaraði kæranda þann 19. desember 2002 og hafnaði umsókn kæranda. Kærandi sendi Vegagerðinni erindi þann 30. desember 2002 þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum um veitingu sérleyfisins. Vegagerðin svaraði kæranda þann 21. janúar 2003. Þann 19. febrúar 2003 barst samgönguráðuneytinu erindi þar sem ráðuneytið er innt eftir afstöðu til þess hvort ástæða sé til þess að gera athugasemdir við veitingu sérleyfanna. Ráðuneytið óskaði umsagnar Vegagerðarinnar um erindið og barst hún þann 7. mars sl. Umsögn Vegagerðarinnar var send lögmanni kæranda til skoðunar. Ekki bárust frekari athugasemdir.

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi fer fram á það að ráðuneytið úrskurði um það hvort ástæða sé til þess að gera athugasemdir við veitingu sérleyfanna og þá hvernig var staðið að veitingu þeirra. Fram kemur í kærunni að kærandi hafi fengið þau svör fyrr um sumarið 2002 að Vegagerðin hefði samþykkt fyrir sitt leyti að sérleyfið yrði af hálfu Allrahanda ehf. framselt til Stjörnubíla ehf. fram til 31. ágúst sama ár, en eftir það yrði sérleyfunum úthlutað að nýju og því hafi kærandi verið hvattur til að sækja um sérleyfin fyrir lok ágústmánaðar. Kærandi telur sig mjög vel í stakk búinn til að sinna þessu verkefni, þar sem fyrirtæki hafi nú til umráða 12 nýlegar fólksflutningabifreiðar af mismunandi stærð. Allar uppfylli þær gæða- og tæknikröfur Vegagerðarinnar. A ehf. hafi verið stofnuð í maí 2002 og félagið sé nokkurs konar samnefnari fyrir fjóra aðila á svæðinu sem hafi með fólksflutninga að gera.

Kærandi kveður að Vegagerðin hafi svarað sér þann 19. desember 2002 og í því bréfi hafi komið fram að Stjörnubílar ehf. hafi haft sérleyfi á viðkomandi leiðum síðastliðið sumar og þar sem félagið hafi óskað eftir því að halda sérleyfunum yrði ekki hjá því komist að veita þeim sérleyfin fram til 31. júlí 2005 að öllum skilyrðum uppfylltum. Var í því sambandi vísað til bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 73/2001. Af bréfinu mætti ráða að umsókn kæranda hafi verið hafnað. Kærandi sendi Vegagerðinni erindi þann 30. desember 2002, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig staðið hafi verið að veitingu sérleyfanna til Stjörnubíla ehf. og þá hvort sérleyfin hafi verið framseld með samþykki Vegagerðarinnar. Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvers vegna kærandi hafi fengið þau svör Vegagerðarinnar að Stjörnubílar ehf. hefðu sérleyfin einungis til 1. september 2002 og kærandi jafnframt hvattur til þess að sækja um sérleyfin. Í svarbréfi Vegagerðarinnar frá 21. janúar 2003 komi fram að Vegagerðin hafi samþykkt framsal Allrahanda ehf. á sérleyfunum til Stjörnubíla ehf. með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 73/2001. Kærandi kveðst vera afskaplega ósáttur við afgreiðslu Vegagerðarinnar við veitingu þessara sérleyfa eftir 1. september 2002, þar sem tekið var fram þegar framsal sérleyfanna var samþykkt að gildistími þeirra væri aðeins til 31. ágúst 2002. Í bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 73/2001 sé tekið fram að handhafar sérleyfa samkvæmt eldri lögum skuli að jafnaði sitja fyrir við endurúthlutun fram til ársins 2005. Skilja beri þetta ákvæði þannig að faglegt mat verði að fara fram á þeim umsóknum sem berast, þar sem tekið er fram að handhafar leyfanna skuli að jafnaði sitja fyrir við endurúthlutun, en ákvæðið útiloki á engan hátt aðkomu annarra að sérleyfunum. Kærendur óski eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort ráðuneytið sjái ástæðu til að gera athugasemdir við veitingu sérleyfanna og þá hvernig staðið var að veitingu þeirra.

IV. Málsástæður og rök Vegagerðarinnar

Ráðuneytið óskaði umsagnar Vegagerðarinnar um erindið. Umsögnin barst ráðuneytinu þann 7. mars 2003. Í henni kemur fram að samkvæmt lögum nr. 73/2001 um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi fari VG með framkvæmd þeirra laga og stjórnvaldsreglna settum samkvæmt þeim. VG vísar til efnis 2. mgr. 6. gr. laga nr. 73/2001 en þar segir:

"Vegagerðin getur takmarkað fjölda aðila í reglubundnum fólksflutningum á einstökum leiðum með því að veita sérleyfi á þeim leiðum. Öðrum en sérleyfishafa er óheimilt að stunda reglubundna fólksflutninga á sérleyfisleið. Við veitingu sérleyfis skal gerður sérstakur þjónustusamningur þar sem þau skilyrði koma fram sem Vegagerðin setur, svo sem um ferðatíðni, ferðaleiðir, viðkomustaði, leyfilegar bifreiðar, umhverfisstuðla, gildistíma, uppsögn og greiðslu. Nánari útfærsla á þjónustusamningi skal tilgreind í reglugerð. Takist ekki slíkur samningur á milli aðila skal Vegagerðin efna til útboðs eftir atvikum í samstarfi við aðra aðila sem stunda fólksflutninga, svo sem skólaakstur. Vegagerðin getur, séu fyrir því veigamikil rök, efnt til útboðs án undangenginnar tilraunar til þjónustusamnings fyrir 1. ágúst 2005".

Í 3. mgr. 6. gr. sömu laga segir:

"Óheimilt er að framselja sérleyfi nema með samþykki Vegagerðarinnar".

Þá segir í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sömu laga:

"Handhafar sérleyfa samkvæmt eldri lögum skulu að jafnaði sitja fyrir um endurúthlutun sérleyfa á viðkomandi sérleyfisleið fram til ársins 2005. Endurúthlutuð leyfi skulu ekki gilda lengur en til 1. ágúst 2005 og skal þá efnt til útboðs á öllum sérleyfum".

Þá segir að á árinu 2000 hafi Vegagerðin hafist handa við gerð þjónustusamninga við sérleyfishafa. Gerðir hafi verið þjónustusamningar við 13 sérleyfishafa, flestir með gildistíma frá 1. janúar 2001 til 31. ágúst 2002, en öll sérleyfi hafi þá fallið úr gildi. Með netbréfi dags. 26. febrúar 2002 hafi fyrirtækið (Allrahanda) Ísferðir ehf. greint Vegagerðinni frá því að samkomulag hefði orðið um að Stjörnubílar ehf. tæki yfir rekstur (Allrahanda) Ísferða ehf., þar með talið rekstur á sérleyfum og að fyrirvari væri í samkomulaginu um að Vegagerðin samþykkti yfirtöku Stjörnubíla ehf. á sérleyfunum. Jafnframt hafi verið spurt um hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að fyrirtækið Stjörnubílar ehf. yfirtækju sérleyfin sem (Allrahanda) Ísferðir ehf. hefðu haft ásamt meðfylgjandi réttindum og skyldum. Vegagerðin samþykkti framangreint með bréfi 28. febrúar 2002 þannig að Stjörnubílar ehf. fengu útgefið sérleyfi frá 19. apríl 2002. Ekki hafi verið gerður þjónustusamningur við Stjörnubíla ehf, fyrir þetta tímabil en styrkur greiddur til þeirra samkvæmt eldri reglum þar um. Á sl. ári hafi verið unnið að gerð þjónustusamninga um sérleyfisleiðir fyrir tímabilið 1. september 2002 til 31. júlí 2005. Það hafi ríkt óvissa um það fram eftir ári 2002 hvort sérleyfi yrðu veitt á tilteknum leiðum á Vestfjörðum eftir 31. ágúst 2002, en um mitt árið hafi verið ákveðið að veita sérleyfi og styrkja akstur á leiðunum Hólmavík - Ísafjörður og Ísafjörður - Patreksfjörður á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst ár hvert til og með 2005. Stjörnubílar fengu sérleyfið og óku samkvæmt því sumarið 2002. Áður hefðu (Allrahanda) Ísferðir ehf. haft þetta leyfi um nokkurra ára skeið, áður en leyfið var framselt Stjörnubílum með samþykki Vegagerðarinnar. Því þótti ekki annað fært en að fara eftir bráðabirgðaákvæði laga nr. 73/2001 og því var gerður þjónustusamningur við Stjörnubíla ehf. 28. janúar 2003, með samningstíma frá 1. september 2002 til og með 31. júlí 2005.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ráðuneytið hefur farið yfir erindi kæranda og umsagnir aðila. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi er það í höndum Vegagerðarinnar að fjalla um meðferð sérleyfa og gefa út slík leyfi í samræmi við ákvæði laganna. Ekki verður annað séð en að Vegagerðin hafi fylgt ákvæðum þeirra laga en hins vegar má benda á það að VG hefði mátt ígrunda betur þau munnlegu svör sem hún gaf kærendum á þeim tíma sem sérleyfi Stjörnubíla var að renna sitt skeið. Þá má taka undir það með kæranda að það hafi verið bagalegt að fá upplýsingar sem gáfu vonir um hugsanlegan framtíðar rekstur sérleyfa á tilgreindum sérleyfum að sérleyfistíma Stjörnubíla loknum. Hins vegar liggur fyrir, sbr. tilvísun til viðeigandi lagaákvæða í umsögn Vegagerðarinnar, að ákvörðun Vegagerðarinnar um veitingu sérleyfa á sérleyfisleiðunum Ísafjörður - Hólmavík - Ísafjörður og Ísafjörður - Patreksfjörður - Ísafjörður er í samræmi við lög og reglur sem um slíkar ákvarðanir gilda. Með vísan til þess sem að framan er ritað telur ráðuneytið ekki ástæðu til athugasemda vegna ákvörðunar Vegagerðarinnar.

Úrskurðarorð

Ráðuneytið telur ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við efnislega afgreiðslu Vegagerðarinnar við veitingu leyfanna.

F.h.r.

Unnur Gunnarsdóttir Kristín Helga Markúsdóttir

Afrit sent Vegagerðinni




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta