Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 17/2003

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, var í samgönguráðuneytinu tekin til úrskurðar stjórnsýslukæra í máli nr. 17/2003;

A

vegna

ákvörðunar Vegagerðarinnar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

I. Kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 16. október 2003, kærði B, formaður A (kæranda), ákvörðun Vegagerðarinnar um að gefa út bráðabirgðaatvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Óskað var eftir því að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar .

II. Málsatvik

Málsatvik eru þau að þann 19. september 2003 veitti Vegagerðin C bráðabirgðaatvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar með því skilyrði að sækja næsta námskeið sem halda átti í nóvember 2003. Ákvörðun þessa kærði A til samgönguráðuneytisins og óskaði eftir því að atvinnuleyfið yrði fellt úr gildi. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Vegagerðarinnar og veitti að henni fenginni A rétt til athugasemda við henni. Athugasemdir beggja aðila hafa borist ráðuneytinu.

III. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi fer fram á að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar um veitingu skilyrts bráðabirgðaatvinnuleyfis til C. Kærandi vísar til 1. tl. 5. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001, þar sem eitt af skilyrðum laganna til þess að öðlast atvinnuleyfi er að viðkomandi umsækjandi hafi fullnægjandi starfshæfni. Þá vísar kærandi í 3. gr. reglugerðar um leigubifreiðar nr. 397/2003 þar sem kveðið er á um námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi, sem halda skuli þegar þörf er talin á. A telur að útgáfa Vegagerðarinnar á bráðabirgðaleyfinu til C sé brot á tilvitnaðri 5. gr. laganna þar sem hann hafi ekki lokið námskeiði skv. 3. gr. reglugerðarinnar. Því sé ákvörðun Vegagerðarinnar kærð og þess krafist að atvinnuleyfið verði fellt úr gildi. Kærandi gerði frekari athugasemdir við umsögn Vegagerðarinnar vegna málsins. Í síðara bréfi kæranda, dags. 20. nóvember sl., mótmælir kærandi að C hafi ekki átt þess kost að sækja námskeið fyrr en í nóvember þar sem A hafi fengið staðfest frá Ökuskólanum í Mjódd, sem heldur umrædd námskeið, að haldið hafi verið námskeið í mars á þessu ári. Þá segir að engin lagaheimild sé fyrir því að víkja frá skilyrðum 5. gr. laga nr. 134/2001 og sérstaklega 1. tl. 5. gr. Því sé engin lagaheimild fyrir útgáfu skilyrts bráðabirgðaatvinnuleyfis eins og Vegagerðin veitti C og því beri að fella það úr gildi. Kærandi mótmælir því að Vegagerðinni sé heimilt að bera fyrir sig undanþágur sem er að finna í reglugerð nr. 983/2001 um vöru- og efnisflutninga á landi og reglugerð nr. 528/2001 um fólksflutninga á landi. Slíka undanþágu sé ekki að finna í reglugerð sem gildir um úthlutun atvinnuleyfa til bifreiðastjóra. Kærandi tekur undir það með Vegagerðinni að tryggja beri jafnræði og samræmi við úrlausn mála sem þessara en slíku markmiði verið ekki náð nema að framkvæmd mála sé í fullu samræmi við lög og reglur sem um málefnið gildir.

IV. Málsástæður og rök Vegagerðarinnar

Ráðuneytið óskaði umsagnar Vegagerðarinnar um erindi kæranda. Í henni kemur fram að Vegagerðinni hafi farið yfir fjölda leyfa á takmörkunarsvæðum í október og gefið út ný atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiða. Úthlutað hafi verið einu leyfi í Reykjanesbæ til C. Úthlutunin hafi byggt á reynslu við akstur leigubifreiðar. Þar sem viðkomandi hafi ekki átt þess kost að sækja námskeið skv. 3. gr. reglugerðar um leigubifreiðar nr. 397/2003 fyrr en í nóvember, stuttu eftir úthlutun, hafi verið gefið út skilyrt bráðabirgðaleyfi. Ef skilyrði leyfis um námskeið yrði ekki uppfyllt yrði leyfið úr gildi fellt. Þá segir að reglur um úthlutun atvinnuleyfa sé að finna í 6. gr. reglugerðar nr. 397/2003 um leigubifreiðar sem sett er með stoð í 13. gr. laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar. Þar komi fram sú meginregla að leyfi skuli veitt á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar. Ef miðað væri við starfsreynslu hafi verið rétt að veita C atvinnuleyfi. Hins vegar hafi legið fyrir að hann uppfyllti ekki skilyrði um námskeið á þeim tíma sem úthlutun fór fram. Ekki sé nánar tekið á því í reglugerðinni hvernig fara eigi með við úthlutun þegar svo háttar. Annars vegar sé sá kostur að synja alfarið um leyfi og úthluta öðrum umsækjanda leyfinu í staðinn. Hins vegar sé sá kostur að veita leyfi með fyrirvara um að skilyrði um námskeið verði uppfyllt. Síðari kosturinn hafi verið valinn með hliðsjón af framangreindri meginreglu um starfsreynslu og með hliðsjón af því að námskeið séu að jafnaði aðeins haldin einu sinni á ári og að um íþyngjandi skilyrði atvinnuleyfis sé að ræða sem beita beri eins vægt og kostur er, sbr. meginreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur hafi verið tekið mið af tilhögun sem viðhöfð hafi verið við úthlutun leyfa til fólks-, vöru- og efnisflutninga, þ.e. að gefa leyfishafa kost á að uppfylla skilyrði um námskeið næst þegar það sé mögulegt. Að mati Vegagerðarinnar hafi verið eðlilega staðið að úthlutun atvinnuleyfis í umrætt sinn og því ekki tilefni til þess að fella hana úr gildi eins og kærandi fari fram á. Telji ráðuneytið hins vegar að standa eigi með öðrum hætti að úthlutun sé óskað nánari leiðbeininga þess þar að lútandi, eftir atvikum í formi setningar nánari ákvæði í reglugerð um úthlutun leyfa. Með vísan til þessa telur Vegagerðin að hafna eigi kröfu kæranda í málinu.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Kæruefnið lýtur fyrst og fremst að því hvort Vegagerðinni hafi verið heimilt, lögum samkvæmt, að gefa út skilyrt bráðabirgðaatvinnuleyfi til handa einum tilgreindum aðila. Kærandi ákvörðunar Vegagerðarinnar í málinu er A. Meginröksemd kæranda er sú að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til útgáfu slíkra leyfa. Ráðuneytið hefur nú farið yfir gögn, málsástæður og röksemdir beggja aðila. Í lögum nr. 134/2001 um leigubifreiðar eru skýr ákvæði um skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfa. Í 5. gr. laganna segir að sá sem fullnægi öllum eftirtöldum skilyrðum geti fengið atvinnuleyfi samkvæmt lögunum og í 1. tl. 5. gr. laganna er tilgreint að viðkomandi þurfi að hafa fullnægjandi starfshæfni, þ.m.t. fullnægjandi ökuréttindi og tilskilin námskeið sem nánar sé fjallað um í reglugerð. Ekki er að finna í lögunum heimildir til undanþága frá þeim skilyrðum sem upp eru talin í 5. gr. þeirra. Af þeim sökum getur ráðuneytið ekki fallist á það að lagaheimild sé fyrir því að Vegagerðin geti í einhverjum tilvikum gefið út skilyrt bráðabirgðaatvinnuleyfi til handa einstaka umsækjendum um atvinnuleyfi leigubifreiðastjóra. Með vísan til þess sem að framan er ritað er fallist á kröfu kæranda.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Vegagerðarinnar, dags. 19. september 2003 er úr gildi felld.

F.h.r.

Unnur Gunnarsdóttir Kristín Helga Markúsdóttir

Afrit sent Vegagerð Íslands




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta