Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 3/2004,

Ár 2004, mánudaginn 24. maí er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 3/2004,

A ehf. gegn Siglingastofnun Íslands

I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, dags 3. mars 2004, kærðu Lögmenn Skólavörðustíg 12, f.hA, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Siglingastofnunar Íslands, (hér eftir nefnd kærða), frá 26. febrúar 2004 þar sem hafnað er umsókn kæranda um að skrá skipið B, sem eign C ehf. á íslenska skipaskrá.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1) Stjórnsýslukæra dags.3. mars 2004.

2) Bréf Siglingastofnunar Íslands dags. 26. febrúar 2004.

3) Bréf Siglingastofnunar Íslands dags. 24. mars 2004.

4) Kaupsamningur um sölu skipsins B, dags. 7. desember 2001.

5) Vottorð úr þinglýsingabókum Sýslumannsins á Snæfellsnesi, dags. 18. febrúar 2003.

6) Beiðni um skráningu skips á aðalskipaskrá, dags. 14. janúar 2002.

7) Greiðslukvittun frá Sýslumanninum á Húsavík, dags. 13. ágúst 2002.

8) Bréf til fjármálaráðuneytisins frá Lögmönnum Skólavörðustíg 12, dags. 20. febrúar 2003.

9) Bréf Sýslumannsins á Húsavík til fjármálaráðuneytisins, dags. 2. júní 2003.

10) Bréf til Lögmanna Skólavörðustíg 12 frá fjármálaráðuneyti, dags. 23. júní 2003.

11) Bréf fjármálaráðuneytisins til Ríkisbókhalds, dags. 24. júní 1994.

12) Bréf Lögmanna Skólavörðustíg 12 til fjármálaráðuneytisins, dags. 25. júní 2003.

13) Bréf fjármálaráðuneytisins til Lögmanna Skólavörðustíg 12, dags. 11. júlí 2003.

14) Bréf Lögmanna Skólavörðustíg 12 til Siglingastofnunar Íslands, dags. 20. febrúar 2003.

15) Bréf Lögmanna Skólavörðustíg 12 til Siglingastofnunar Íslands, dags. 1. desember 2003.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kærandi fái skipið B skráð á aðalskipaskrá sem eign C ehf. með tilheyrandi réttindum og skyldum að lögum.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð.

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og uppfyllir skilyrði 26. gr. sömu laga um stjórnvaldsákvörðun sem tæk er til kæru til æðra stjórnvalds.

III. Málsatvik.

Málsatvik eru þau, að með kaupsamningi dags. 6. desember 2001 seldi kærandi B, til C ehf., og var kaupsamningnum þinglýst 14. desember s. á. hjá sýslumanninum á Snæfellsnesi. Þann 14. janúar 2002 sendi C ehf., kaupandi skipsins B, erindi til kærðu þar sem óskað er umskráningar skipsins á aðalskipaskrá. Með bréfi 26. febrúar hafnaði kærða beiðni kæranda um umskráningu skipsins á aðalskipaskrá með þeim rökum að ekki hefði verið gefið út afsal fyrir skipinu.

Í ágúst 2002 skuldajafnaði sýslumaðurinn á Húsavík inneign kæranda á virðisaukaskatti við meinta skipagjaldaskuld kaupanda skipsins. Kærandi krafði fjármálaráðuneytið um endurgreiðslu á virðisaukaskattinum þar sem hann taldi skv. framansögðu að kaupandi bæri ábyrgð á skipagjaldi vegna B. Fjármálaráðuneytið hafnaði kröfu kærandi í bréfi dags. 11. júlí 2003 með vísan til laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum sbr. reglugerð nr. 587/2002 um gjöld fyrir skoðun, skráningu, mælingu skipa o.fl.

Með bréfi dags. 20. febrúar 2003 til kærðu, fór kærandi fram á leiðréttingu á umskráningu skipsins í skipaskrá með vísan til hins þinglýsta kaupsamnings. Kærandi ítrekaði kröfu sína með bréfi til stofnunarinnar dags. 1. desember 2003. Í bréfi kærðu til kæranda dags. 26. febrúar 2004 hafnar kærða kröfunni og bendir á að stofnunin hafi í fjölda ára notað afsöl og einungis afsöl sem næga heimild um eigendaskipti til umskráningar skipa á aðalskipaskrá. Þann 3. mars 2004 kærði kærandi þessa ákvörðun kærðu til samgönguráðuneytisins. Hefur stjórnsýslukæran hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda.

Kærandi byggir mál sitt fyrst og fremst á því að eigendaskipti hafi orðið á skipinu B við undirskrift kaupsamnings á milli kæranda og kaupanda skipsins, þann 7. desember 2001 og að það sé sú eignarheimild sem taka skuli mið af þegar ákvörðun er tekin um umskráningu skipsins á skipaskrá.

Máli sínu til stuðnings bendir kærandi á að í 12. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa sé ekkert sem gefi tilefni til þess að afsal skuli liggja fyrir við umskráningu skipa á aðalskipaskrá og þar af leiðandi liggi engin lagarök til þess að vikið sé frá hinum almennu reglum eignaréttar um það hvenær eigendaskipti fari fram. Kærandi hafnar, sem efnislega röngum, þeim málflutningi kærðu að starfsregla geti verið grundvöllur venju sem gangi framar almennum reglum eignaréttar um að eignayfirfærsla verði við kaupsaming. Bendir kærandi á dóm Hæstaréttar frá 1988 á bls. 1475, í þessu sambandi og þá sérstaklega setninguna : ?Með kaupsamningnum varð sóknaraðili eigandi eignarhlutans að Rangárseli 8, Reykjavík og hafði því þinglýsta eignarheimild að honum ......"

Kærandi rekur þau lagaákvæði sem koma við sögu við umskráningu skips. Hann tiltekur sérstaklega lög nr. 35/1993, nú lög 43/2004, um eftirlit með skipum, lög nr. 115/1985 um skráningu skipa og reglugerð nr. 587/2002 um gjöld fyrir skoðun, skráningu, mælingu skipa o.fl. Hann bendir á að í 12. gr. laga nr. 115/1985 er kveðið á um, að þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta lætur þinglýsa eignarheimild sinni, skal hann í viðurvist þinglýsingarstjóra birta beiðni um skráningu á viðeigandi eyðublað, sbr. 17. sömu laga. Þinglýsingarstjóri skal innan þriggja virkra daga senda Siglingastofnun skráningarbeiðnina ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild. Kærandi tiltekur sérstaklega 3. mgr. 12. gr. þar sem segir að þegar eigendaskipti verða samkvæmt framanskráðu ber hinn fyrri eigandi ábyrgð á skoðunargjöldum vegna skipsins þar til umskráning hefur farið fram. Bendir hann á að skv. 1. mgr. 1. gr. reglug. nr. 587/2002 eigi hið sama við um ábyrgð á greiðslu skipagjalds eins og um ræðir í máli þessu.

Kærandi tiltekur máli sínu til stuðnings 40. gr. l. nr. 39/1978 um þinglýsingar, en þar segir að um stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu skipi, sem er 5 rúmlestir eða stærra, eða hluta slíks skips, gildi reglur um fasteignir eftir því sem við verður komið. Hann bendir auk þess á 17. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Þar er kveðið á um að þegar kaupandi hefur greitt kaupverðið eða hluta þess öðlast hann veðrétt í fasteign til tryggingar kröfu um endurgreiðslu þess sem hann hefur innt af hendi. Í greinargerð með nefndri grein er tekið fram að tilgangur lagasetningarinnar sé að eyða nokkurri réttaróvissu sem ríkt hefur á þessu sviði og að lögfest sé regla um tryggingarrétt kaupanda í fasteign.

Að lokum bendir kærandi á úrskurð samgönguráðuneytisins frá 15. janúar 2001 í máli D ehf. en það mál varðaði eignarheimild skv. smíðasamningi en ekki kaupsamningi. Telur kærandi að hægt sé að hafa niðurstöðu ráðuneytisins til hliðsjónar í þessu máli.

Kærandi telur að öllum skilyrðum laga og reglna hafi verið fullnægt til að kærða tæki umsókn um umskráningu skipsins B til meðferðar. Hann bendir á að ákvörðun kærðu um að synja umskráningu skipsins hafi valdið honum fjárhagslegu tjóni þar sem ábyrgð á greiðslu skipagjalds vegna B hafi áfram hvílt á honum þrátt fyrir að eigendaskipti hafi orðið að skipinu.

Kærandi telur engum vafa undirorpið að eigendaskipti skv. almennum reglum eignaréttar eigi sér stað við kaupsamning en ekki við afsal og gerir því kröfu um að ákvörðun kærðu frá 26. febrúar 2004 um synjun umskráningar á skipinu B verði felld úr gildi.

V. Málsástæður og rök kærðu.

Í máli kærðu kemur fram að hún hafnar alfarið þeirri túlkun kæranda að eigendaskipti að skipi verði við undirskrift kaupsamnings. Kærða bendir á að í 12. gr. laga 115/1985 segir að Siglingastofnun skrái nýjan eiganda í skipaskrá þegar stofnunin hefur fengið þinglýsta eignarheimild og skráningarbeiðni. Hún tiltekur jafnframt að í fjölda ára hafi verið stuðst við afsöl og eingöngu afsöl sem viðhlítandi eignarheimild í þessu samhengi. Kærða telur afsal einhlíta skriflega yfirlýsingu þess efnis að eignarrétti sé afsalað frá útgefanda skjalsins til annars aðila, kaupsamningur sé aftur á móti gerningur þar sem stefnt sé að því að yfirfæra eignarrétt frá seljanda til kaupanda gegn greiðslu.

Kærða telur skilning kæranda á dómi Hæstaréttar frá 1988, bls. 1475 rangan og túlkun hans á dómnum of rúma. Bendir hún á rit Þorgeirs Örlygssonar ?Þinglýsingar", útg. í Reykjavík 1993, þessu til stuðnings. Á bls. 102 í þeirri bók segir Þorgeir um nefndan dóm: ?Af dómi þessum verður á hinn bóginn ekki dregin sú ályktun, að kaupandi geti á sama tímabili, þ.e. frá þinglýsingu kaupsamnings og fram að útgáfu afsals, selt eða veðsett umrædda eign án samþykkis seljanda." Kærða telur það viðtekna skoðun í lögfræði sem gangi þvert á túlkun kæranda að þrátt fyrir, að kaupandi öðlist tiltekna vernd við þinglýsingu kaupsamnings, þá er kaupandi ekki þar með orðinn óskilyrtur eigandi að fasteigninni, um sé að ræða skilyrtan eignarrétt sem ætlað sé að vernda hagsmuni kaupanda gagnvart skuldheimtumönnum seljanda.

Kærða bendir á máli sínu til frekari stuðnings, að í lagalegu tilliti sé talsverður munur á afsali og kaupsamingi. Afsal sé skrifleg yfirlýsing þess efnis að eignarrétti að tiltekinni fasteign eða skipi sé afsalað frá útgefanda skjalsins. Kaupsamningur er að jafnaði undanfari afsals, en samkæmt slíkum samningi þá lofar seljandi að selja kaupanda tiltekna eign og kaupandi skuldbindur sig til þess að greiða kaupverðið.

Kærða gerir að lokum grein fyrir hvert sé eðli skipaskrárinnar sem henni er falið lögum samkvæmt að halda og hver sé tilgangur hennar. Hún bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um skráningu skipa nr. 53/1970, kemur fram að tvær meginforsendur eru fyrir því að löggjafinn telji nauðsyn á að halda opinbera skipaskrá. Kærða tiltekur sérstaklega að um sé að ræða gæslu opinberra hagsmuna svo sem að ákveðið sé með öruggri vissu hvaða skip skuli teljast íslensk. Margs konar réttindi og skyldur fylgi því að sigla skipi undir íslenskum fána, meðal annars atvinnuréttindi, skylda til að halda skipinu haffæru á meðan það er í notkun, tilteknar gjaldskyldur o.s.frv. Einnig er sérstök þörf fyrir, að ekki leiki vafi á, til hvaða skipa reglur íslenskra laga um eftirlit og öryggi skipa nái. Þá sé nauðsynlegt að skip geti ávallt innan lands sem utan, gert grein fyrir þjóðerni sínu og sannað á sér deili. Kærða telur að vegna þessa sérstaka eðlis hinnar opinberu skipaskrár hafi sú túlkun viðgengist um áraraðir að eigendaskipti séu ekki skráð í skipaskrá nema fyrir liggi ótvíræð eignarheimild, þ.e. afsal, en ekki skilyrt eignarheimild eins og t.d. kaupsamningur.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytis.

.

Álitaefnið sem hér um ræðir er hvað sé viðhlítandi eignarheimild í skilningi í 12. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa svo umskráning geti orðið á aðalskipaskrá.

Kærandi tiltók í málsástæðum sínum að líta mætti til úrskurðar samgönguráðuneytisins frá 11. október 2000 við lausn á álitaefni því sem hér um ræðir. Ráðuneytið getur ekki fallist á þá skoðun kæranda. Í þeim úrskurði var viðhlítandi eignarheimild samkvæmt 6. gr. l. 115/1985 fyrir hendi. Ágreiningurinn snerist aftur á móti um það hver væri réttur eigandi að bát sem seldur hafði verið tveimur kaupendum. Niðurstaða málsins var sú að hin almenna regla kauparéttarins um að sá sem keypti fyrr var talinn réttur handahafi eignarheimildar samkvæmt lögum nr. 115/1985. Úrskurðurinn hefur ekki fordæmisgildi í máli þessu, þar sem ágreiningsefnið er allt annað.

Siglingastofnun Íslands er falið samkvæmt 4. gr. laga nr. 115/1985 að halda aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráningarskyld eru á Íslandi. Í 12. gr. sömu laga er kveðið á um með hvaða hætti skrá skuli eigendaskipti að skipi : ? Þegar nýr eigandi að skráðu skipi eða skipshluta lætur þinglýsa eignarheimild sinni skal hann í viðurvist þinglýsingarstjóra birta beiðni um skráningu á viðeigandi eyðublaði, sbr. 17. gr. Þinglýsingarstjóri skal innan þriggja virkra daga senda Siglingstofnun skráningarbeiðnina ásamt endurriti af hinni þinglesnu eignarheimild." Það er óumdeilt í máli þessu að kærandi þinglýsti kaupsamningi um skipið B hjá sýslumanninum í Stykkishólmi og fyllt var út viðeigandi beiðni til Siglingastofnunar um umskráningu skipsins á aðalskipaskrá. Kærða hafnaði beiðninni um umskráningu skipsins með þeim rökum, að með eignarheimild í 12. gr. l. nr. 115/1985, sé átt við útgefið afsal fyrir skipi en hvorki þinglýstan kaupsamning né aðra eignarheimild.

Allt frá útgáfu tilskipunar þann 25. júní 1869 þegar opinber skipaskráning hófst hér á landi, hefur löggjafinn gefið nákvæm fyrirmæli um það hvernig staðið skuli að umskráningu við eigendaskipti skipa. Í tilskipunum sem fjölluðu um þetta efni og síðar í lögum er ávallt vitnað til viðeigandi eignarheimilda. Þar er hins vegar ekki að finna bein lagafyrirmæli um hvað sé viðhlítandi eignarheimild um, hvenær eigendaskipti skuli talin hafa orðið að skipi svo umskrá megi það á aðalskipaskrá.

Í 40. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar, er kveðið á um að stofnun og vernd eignarréttar og eignarhafta á skrásettu skipi, sem er 5 rúmlestir eða stærra, eða hluta slíks skips, skuli lúta reglum um fasteignir, eftir því sem við verður komið. Í 2. kafla laga um fasteignakaup nr. 40/2002 er fjallað um afhendingu o.fl. Í 2.mgr. 11.gr. laganna segir að þegar kaupandi hefur efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi eigi hann rétt á afsali úr hendi seljanda. Í ákvæðinu er þannig gerður greinarmunur á kaupsamningi og afsali að lögum. Í greinargerð með nefndu ákvæði segir : ? Afsal hefur víðtæk réttaráhrif í fasteignakaupum og eru reglur um ýmis þeirra í frumvarpinu. Útgáfa og afhending afsals felur í sér efndir á þeirri skyldu seljanda að yfirfæra endanlega, þ.e. óskilyrt, beinan eignarrétt að fasteign til kaupanda, sem hann hefur áður fengið með fyrirvara í kaupsamningi. Kaupandi sem þinglýst hefur kaupsamningi hefur hina formlegu eignarheimild að viðkomandi fasteign í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978. Hann getur þó ekki stofnað til víðtækari réttinda yfir fasteign en hann hefur öðlast með kaupsamningi. Eftir að hann hefur fengið afsal úr hendi seljanda fer hann með allar heimildir yfir eigninni sem ekki víkja fyrir betri rétti annarra, t.d. veðhafa. Eignarréttur seljanda fellur þá endanlega niður. Afsalið er að jafnaði einhliða yfirlýsing seljanda um að kaupandi hafi staðið að fullu við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi og sé því hinn rétti eigandi eignarinnar. Afsalið er því í eðli sínu lokakvittun frá seljanda. Enga nauðsyn ber til að kaupandi undirriti afsal nema hann axli einhverjar skuldbindingar með því, t.d. yfirtaki veðskuldir. Afhending á afsali og sú yfirlýsing sem í því felst hefur einnig þau mikilvægu réttaráhrif að seljandi getur eftir það ekki rift kaupum, nema hann áskilji sér það sérstaklega, sbr. 4. mgr. 51. gr. frumvarpsins." Af þessu verður ráðið að mikilvæg réttindi og skyldur lögum samkvæmt eru bundin útgáfu afsals.

Í 13. og 17. gr. laganna um fasteignakaup eru að finna ákvæði sem gefa vísbendingar um með hvaða hætti eigendaskipti verða að fasteign lögum samkvæmt, ef ekki er samið um þau atriði sérstaklega. Í 13. gr. þeirra laga er skýrt kveðið á um, að skipting arðs og kostnaðar við eigendaskipti að fasteign skuli vera við afhendingu og í 17. gr. laganna segir að þegar kaupandi hefur greitt kaupverðið eða hluta þess öðlast hann veðrétt í fasteign til tryggingar kröfu um endurgreiðslu þess sem hann hefur innt af hendi. Í greinargerð með 13. gr. er hnykkt á því að afhending eignar ráði því að rétturinn og skyldan færist til kaupanda. Í greinargerðinni með 17. gr. segir að tilgangurinn með ákvæðinu sé að skrá lagareglu um efni sem nokkur réttaróvissa hafi ríkt um. Tekið er fram að í greininni sé notað orðið ?veðréttur" til að árétta, að um sé að ræða tryggingarréttindi sem leggja má að jöfnu við samningsveð. Miðað er við að tryggingarrétturinn nái til kröfu kaupanda um endurgreiðslu ?þess sem hann hefur innt af hendi ". Undir þetta sjónarmið tekur Þorgeir Örlygsson í bók sinni ÞINGLÝSINGAR, útg. í Reykjavík 1993 á bls. 102 ? 103 þar sem fjallað er um dóm Hæstaréttar frá 1988 á bls. 1475 en þar segir ; ?Af dómi þessum verður á hinn bóginn ekki dregin sú ályktun, að kaupandi geti á sama tímabili, þ.e. frá þinglýsingu kaupsamnings og fram að útgáfu afsals, selt eða veðsett umrædda eign án samþykkis seljanda.", þ.e. kaupandi hefur ekki ótakmarkaða eignarheimild yfir hinni keyptu eign þrátt fyrir að fyrir liggi kaupsamningur sem hefur verið þinglýst.

Af því sem að framan er rakið má sjá, að ekki er að finna bein fyrirmæli í íslenskum rétti um það hvenær nákvæmlega eignarréttindi/eignarheimild að skipi færast frá seljanda til kaupanda.

Verður því að líta til allra sjónarmiða sem til greina koma í þessu sambandi þegar skorið er úr um hvað muni vera gild eignarheimild í skilningi 12. gr. laga 115/1985. Af settum rétti er það fyrst og fremst 40. gr. laga nr. 39/1978 um þinglýsingar sem kveður á um, að um stofnun og vernd eignarréttar skipa 5 rúmlestir og stærri, skuli gilda reglur um fasteignir, eftir því sem við verður komið.

Við rannsókn á viðfangsefninu er rétt að líta til þess hvaða hagsmuna er verið að gæta með opinberri skipaskrá og hver er tilgangur hennar. Í því sambandi er rétt að rifja upp umfjöllun í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 53/1970 sem eru fyrirrennari laga nr. 115/1985. Þar segir að nauðsynlegt sé að halda opinbera skrá yfir skip af tvenns konar aðalástæðum. Þær eru :

I. Til gæslu opinberra hagsmuna. Þar er fyrst og fremst vísað til þess að ákveðið sé með öruggri vissu hvaða skip skuli teljast íslensk og hafi rétt og skyldu til að sigla undir íslenskum fána.

II. Til gæslu einstaklingsréttinda. Er þar átt við nauðsyn þess fyrir viðskiptalífið og til verndar eignarréttarins að enginn vafi leiki á því hver sé eigandi skips.

Skip er farartæki sem siglir um heimsins höf. Mjög mikilvægt er að ekki leiki vafi á um þjóðerni skips. Skip skráð á íslenska skipaskrá bera ekki einungis skyldur og njóta réttinda samkvæmt íslenskum landsrétti heldur bera þau skyldur og njóta réttinda samkvæmt ýmsum alþjóðasamningum um lög, reglur og réttindi á höfunum.

Um gæslu einstaklingsréttinda í viðskiptum á milli manna gilda nokkuð önnur sjónarmið. Telja verður að lög um þinglýsingar verndi rétt kaupanda og seljanda nægilega vel í þeim efnum. Ávallt má þinglýsa samningum og veðréttindum. Þar með eru hinir viðskiptalegu hagsmunir tryggðir. Á það m.a. við óuppgerða skatta sem voru tilefni kæru þessarar. Í íslenskum rétti eru fjöldamörg úrræði fyrir kaupendur og seljendur, fasteigna og lausafjár, til að knýja fram efndir í viðskiptum án afskipta opinberra aðila.

Það er skoðun ráðuneytisins að önnur og fleiri sjónarmið komi til þegar um ákvörðun þjóðernis skips sé að ræða. Má í því sambandi líta til þess að ákveðnar reglur eru um það hvernig erlendir ríkisborgarar öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Sömu sjónarmið gilda um þjóðerni skipa. Það er mat ráðuneytisins að um mikla hagsmuni sé að ræða, bæði innanlands og utan, og að ekki megi leika minnsti vafi á því hver sé eigandi og umráðamaður skips sem skráð er á íslenska aðalskipaskrá. Eins og rakið er fyrr í úrskurðinum öðlast kaupandi eignar skilyrðislausan og fortakslausan eigna- og umráðarétt við útgáfu afsals en ekki við undirritun kaupsamnings. Þegar litið er til þess að gerður er greinarmunur á kaupsamningi og afsali, þykir rétt, þegar litið er til þeirra opinberu hagsmuna sem verndaðir eru með opinberri skipaskrá, að staðfesta þá túlkun kærðu að miða skuli við útgáfu afsals fyrir skipi, til að umskráning fari fram.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að skilningur kærðu á orðinu eignarheimild í skilningi 12. gr. laga 115/1985, sé réttur.

ú r s k u r ð a r o r ð:

Ákvörðun Siglingastofnunar Íslands frá 26. febrúar 2004 um synjun á umskráningu skipsins B er staðfest.

Ragnhildur Hjaltadóttir,

Sigurbergur Björnsson.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta