Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 22/2004,

Ár 2005, 22. febrúar er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 22/2004,

A ehf. gegn Flugmálastjórn Íslands.

I. Aðild kærumáls og kröfur.

Með stjórnsýslukæru, 28. október 2004, kærði A ehf. (hér eftir nefndur kærandi) höfnum Flugmálastjórnar Íslands (hér eftir nefnd kærði), á því að umskrá fjórar nánar tilgreindar flugvélar nema gegn greiðslu ógreiddra gjalda.

Kröfur kæranda eru að afsöl fyrir tilgreindum flugvélum verði tafarlaust skráð og þar með þinglýst hjá sýslumanni í Reykjavík og að kærða verði gert að endurgreiða þegar greidd gjöld kr. 227.834 ásamt dráttarvöxtum frá 12. ágúst 2004 til greiðsludags þar sem heimild stofnunarinnar til að krefja kæranda um greiðslu hafi skort.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 28. október 2004.

Nr. 2. Fjögur afsöl fyrir flugvélum dags. 2. júlí 2004.

Nr. 3. Kvittun dags. 12. ágúst 2004 ásamt skuldalista dags. 5. ágúst 2004.

Nr. 4. Bréf kærða til B ehf. dags. 11. ágúst 2004.

Nr. 5. Bréf kæranda til kærða dags. 18. ágúst 2004.

Nr. 6. Bréf kæranda til kærða dags. 21. september 2004.

Nr. 7. Bréf kærða til B ehf. dags. 1. október 2004.

Nr. 8. Bréf kærða til B ehf. dags. 8. september 2004.

Nr. 9. Umsögn kærða dags. 8. desember 2004.

Nr. 10. Bréf kærða til B ehf. dags. 19. ágúst 2004.

Nr. 11. Yfirlit úr fyrirtækjaskrá, yfirlit frá Intrum dags. 29. nóv. 2004, afrit af 17. reikningum.

Nr. 12. Bréf lögmanns kæranda til samgönguráðuneytisins dags. 3. janúar 2005.

Nr. 13. Bréf kærða til samgönguráðuneytisins dags. 27. janúar 2005.

Nr. 14. Bréf kæranda til samgönguráðuneytisins dags. 11. febrúar 2005.

II. Málsmeðferð.

Ofangreind kæra er dagsett 28. október 2004 og barst samgönguráðuneytinu þann 2. nóvember 2004. Með bréfi dagsettu 11. ágúst 2004 tilkynnti kærði til B ehf. að endanleg afstaða yrði ekki tekin til umskráningarbeiðna fyrr en nánar tilgreindum skuldum hafi verið komið í skil en það er hin kærða stjórnsýsluákvörðun. Ofangreind kæra barst því samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik:

Með 4 afsölum, dagsettum 2. júlí 2004, var flugvélunum TF-TOD nr. 203, TF-TOH nr. 233, TF-TOE nr. 140 og TF-TOB nr. 313, öllum af gerðinni Piper Cherokee, afsalað frá B ehf. kt. 530400-2460 til kæranda. Samkvæmt afsölum er kærandi lýstur réttur og löglegur eigandi flugvélanna og umsamið kaupverð þeirra að fullu greitt.

Í kæru kemur fram að send var beiðni til kærða 30. júlí 2004 um umskráningu flugvélanna. Svar kærða var sent B ehf. 11. ágúst 2004 og tilkynnt að eftirlitsgjöld allra þessara flugvéla væru í alvarlegum vanskilum við stofnunina og þess að vænta með vísan til 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 að loftförin fái ekki heimild til flugs. Jafnframt var tilkynnt að endanleg afstaða yrði ekki tekin til umskráningarbeiðna fyrr en skil hefðu verið gerð. Frestur var veittur til 31. ágúst 2004 til að standa skil á greiðslum.

Eftirlitsgjöld vegna flugvélanna, alls kr. 227.034,- voru greidd af kæranda 12. ágúst 2004, samkvæmt lista kærða, með fyrirvara um greiðsluskyldu.

18. ágúst 2004 sendi kærandi bréf til kærða með fyrirspurn um hvaða önnur gjöld sé verið að krefja um greiðslu á og hvernig greiðsla gjaldanna sé skilyrði umskráningar. Kærði svaraði þeirri fyrirspurn með bréfi 19. ágúst 2004 til B ehf. um að ógreiddar væru kröfur að fjárhæð kr. 95.246.

8. september 2004 sendi kærði bréf til B ehf. um að frestur til að gera skil á skuldinni sé framlengdur til 30. september 2004. Hafi skil ekki verið gerð fyrir þann tíma verði litið svo á að umskráningarbeiðnir séu afturkallaðar.

Kærandi ítrekaði fyrirspurn sína í bréfi til kærða 21. september 2004 um stöðu málanna og hvenær væri að vænta að umskráning færi fram. Er þar vísað til að umkrafin gjöld hafi verið greidd samkvæmt sundurliðun frá kærða, engin viðbrögð hafi borist frá kærða og umskráningu sé enn ólokið. Svar kærða er dagsett 1. október 2004 og stílað á B ehf. Þar er frestur til að standa skil á umkröfðum gjöldum framlengdur til 20. október 2004 og ítrekað að verði ekki gerð skil fyrir þann tíma verði litið svo á að umskráningarbeiðnir séu afturkallaðar.

Með stjórnsýslukæru dags. 28. október 2004 kærði kærandi þá afstöðu kærða að krefjast greiðslu gjalda fyrri eiganda, áður en umskráning geti farið fram. Jafnframt er krafist úrskurðar um endurgreiðslu á þeim gjöldum sem kærandi greiddi auk dráttarvaxta.

Með bréfi dags. 24. nóvember 2004 var kærða gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og barst umsögn 8. desember 2004. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við sjónarmið kæranda með bréfi dags. 13. desember 2004 og bárust athugasemdir lögmanns hans 3. janúar 2005. Ráðuneytið taldi rétt, til að upplýsa málið enn frekar, að leita nánari upplýsinga og skýringa frá kærða og var það gert með bréfi dags. 12. janúar s.l. Skýringar kærða bárust ráðuneytinu 4. febrúar s.l. og voru sendar lögmanni kæranda 9. febrúar s.l. og honum gefinn kostur á að gera frekari athugasemdir. Þær athugasemdir bárust 11. febrúar 2005.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kæranda.

Kærandi byggir kröfur sínar í meginatriðum á því að kærði hafi enga lagaheimild til að krefjast greiðslu gjaldanna sem skilyrði umskráningar. Tilvísun kærða til 136. gr. loftferðalaganna eigi ekki við í þessu tilviki heldur veiti ákvæðið einungis heimild til að koma í veg fyrir að loftfar fari frá flugvelli, án þess að greiða gjöld. Grein þessi veiti engan rétt til að stöðva umskráningu loftfara enda sé reginmunur á því að skrá réttindi og að aftra för loftfars skv. 136. gr. Um misskilning kærða sé að ræða um möguleika á því að beita 136. gr. sem innheimtuúrræði í þessu tilviki, greinin heimili ekki drátt á umskráningu vegna ógreiddra gjalda.

Kærandi bendir á að þrátt fyrir þetta hafi hann greitt umkrafin gjöld en umskráning flugvélanna hafi samt ekki farið fram og engar skýringar gefnar á því af hálfu kærða, heldur hafi verið settar fram nýjar kröfur um ógreidd gjöld. Kærandi kveður hins vegar kærða ekki hafa upplýst um hvaða gjöld var að ræða, fyrr en eftir að kært var. Aðallega sé um að ræða eftirlitsgjöld vegna FT-TOX og reikningar fyrir ICAO bækur. Skuld þessi hafi fyrst verið sett í innheimtu 24. september 2004, eftir að beiðnir um umskráningu komu fram. Engin gögn hafi verið lögð fram um frekari aðgerðir kærða til innheimtu skuldanna.

Kærandi telur með ólíkindum að kærði skuli aldrei rita bréf beint til sín heldur stíla öll bréf á seljanda vélanna sem sé annar lögaðili. Þessi framkoma sé bæði ámælisverð og andstæð grundvallarreglum um bein samskipti aðila. Þar skipti engu máli að sami stjórnarmaður fari fyrir báðum félögunum, þau séu í eigu mismunandi aðila og hver lögpersóna hljóti að vera sjálfstæð í samskiptum við kærða.

Kærandi tekur fram að hann færist alls ekki undan því að greiða réttmæt skráningargjöld og muni gera það um leið og þeirra er krafist.

Kærandi hafnar með öllu aðdróttunum kærða um kennitöluflakk til að komast undan greiðslu gjaldanna. Upplýsir kærandi að ástæða sölu flugvélanna hafi verið að komið var að lokum nauðungaruppboðs á þeim. Stærsti kröfuhafinn sem átti veð umfram verðmæti, hafi boðið kæranda niðurfærslu og uppgjör skuldanna sem var samþykkt. Fjármögnum hafi tekist með aðstoð banka og kaupverðið sé að fullu greitt. Kærandi bendir á að það hafi vakið athygli sína að kærði gerði engar kröfur í uppboðsandvirði vélanna í uppboðsferlinum.

Kærandi bendir á að vélin TF-FFC (áður TF-TOX) virðist hafa verið umskráð án athugasemda á síðasta ári þrátt fyrir ógreidd gjöld. Með því telur kærandi stjórnsýslulög brotin þar sem aðilar sitja ekki að sömu afgreiðslu í sama málaflokki.

IV. Málsástæður og rök kærða.

Kærði byggir á því að 136. gr. loftferðalaga feli stofnuninni það innheimtuúrræði að aftra för loftfara skuldugs umráðanda þeirra, hvort sem skuldir hans varða hlutaðeigandi loftför eða aðrar skuldir hans við stofnuna. Það sé berum orðum tekið fram í greininni.

Í umsögn kærða kemur fram að skráður eigandi loftfaranna sem umskráningarbeiðnir varða sé B ehf. en kærandi sé afsalshafi. Við athugun á framkomnum beiðnum hafi komið í ljós verulegar vanskilaskuldir skráðs eiganda við stofnunina. Forsvarsmaður beggja félaganna sé sá sami og hafi honum verið gerð grein fyrir því að vanskilaskuldir kæmu í veg fyrir umskráningu vélanna og bent á að snúa sér til fjármáladeildar varðandi uppgjör. Þar hafi hann einungis beðið um yfirlit yfir skoðunar- og eftirlitsgjöld loftfaranna sem umskráningin varðar en ekki heildarvanskil.

Skuldir þær sem eftir standi eru annars vegar úttektir skulda á efni útgefnu af Alþjóðaflugmálastofnuninni og hins vegar eftirlitsgjöld af öðrum loftförum en umskráningarbeiðnir varða.

Kærði bendir á að þessi sérstaka innheimtuheimild sem sér sé búin í 136. gr. loftferðalaganna, taki til allra skulda hlutaðeigandi umráðanda hvort sem þær varða viðkomandi loftfar eða ekki. Skuldurum eigi ekki að líðast að vanvirða þessi innheimtuúrræði með kennitöluflakki.

Bendir kærði á að ef innheimtuúrræði 136. gr. er ekki nýtt, verði að telja kröfuna glataða og verði þá að afskrifa hana, þar sem margoft hafi verið bókað árangurslaust fjárnám hjá skuldara. Kærði telur innheimtuúrræði loftferðalaganna lítils virði ef skuldurum á að líðast að koma sér undan þeim með því að færa loftför á nöfn annarra lögaðila þegar til stendur að beita þeim.

Kærði beindir jafnframt á að kröfum um greiðslur sé beint að viðsemjanda kæranda en ekki kæranda sjálfum. Hins vegar sé kæranda gerð grein fyrir því skilyrði umskráningar að uppgjör skulda fari fram. 136. gr. loftferðalaganna leiði til að unnt er að aftra því að loftför skuldugs eiganda hefji flug. Gildi þar einu hvort skuldin varði tiltekið loftfar eða ekki. Ótækt sé að unnt sé að koma sér undan þessu ákvæði með eignaafsölum. Kærði telur heimild 136. gr. ótvíræða og bann samkvæmt henni upphefjist ekki við eigendaskipti. Nýr eigandi geti þannig goldið fyrir skuldir fyrri eiganda en kæranda sé bent á þetta til að meðalhófs sé gætt.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins.

1. Af gögnum málsins má ráða að ágreiningsefnið varði fyrst og fremst það hvort kærða sé heimilt, með vísan til 1. mgr. 136. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, að leggja að jöfnu skráningu nýs eiganda loftfars og því að aftra för loftfars af flugvelli. Í því sambandi þarf jafnframt að skoða hvort kærða er heimilt að hafna umskráningu loftfars, vegna hvers kyns ógreiddra gjalda skráðs eiganda við stofnunina, hvort sem þau varða viðkomandi loftfar eða ekki.

Afgreiðsla ráðuneytisins snýr því einungis að þessum álitaefnum, ekki verður fjallað um ágreining er varðar meint kennitöluflakk kæranda og annað er því tengist.

2. 1. mgr. 136. gr. hljóðar svo: "Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins". Samkvæmt orðalagi ákvæðisins verður því ekki séð að heimildin til að aftra för loftfars sé bundin við eftirlitsgjöld eingöngu eða gjöld vegna þeirrar vélar sem er kyrrsett, heldur megi beita þessu úrræði ef einhver önnur gjöld eiganda við kærða eru ógreidd.

Í ljósi framangreinds er það mati ráðuneytisins að orðalag 1. mgr. 136. gr. sé skýrt um að það takmarkist ekki við eftirlitsgjöld eingöngu eða gjöld vegna ákveðins loftfars, heldur eigi úrræðið einnig við um aðrar skuldir eiganda eða umráðanda loftfarsins við kærða, er varða starfsemi viðkomandi.

3. Af gögnum málsins má ráða að kærði telji greiðsluþvingunarúrræði 1. mgr. 136. gr. einnig taka til þess að neita umskráningu flugvéla, þ.e. að skrá nýjan eiganda að flugvél, ef seljandi (fyrri eigandi) vélarinnar er í skuld með einhver gjöld við kærða. Að hægt sé að leggja að jöfnu umskráningu loftfars og að aftra för loftfars frá flugvelli sem greiðsluþvingunarúrræði.

Eins og að framan er rakið er úrræði það sem mælt er fyrir um í 136. gr. skýrt um að aftra megi för loftfars frá flugvelli í ákveðnu tilviki. Má segja að um innheimtuúrræði sé að ræða sem hlýtur að takmarkast við heimild ákvæðisins. Hin þvingandi heimild er að aftra för loftfars en engar aðrar heimildir eru í ákvæðinu, um aðrar þvingandi aðgerða, til að krefja skuldara um greiðslu vanskila við kærða. Þannig mælir ákvæðið ekki fyrir um að hafna megi skráningu nýs eiganda að loftfarinu, til að þvinga fram efndir, þótt um skuld fyrri eiganda við stofnunina sé að ræða.

Í eldri loftferðalögum nr. 34/1964 var samsvarandi ákvæði í 149. gr. um að umráðanda flugvallar væri rétt að aftra för loftfars uns eftirgjald eftir síðustu lendingu var greitt. Ákvæðið í núverandi mynd kom í lögum nr. 60/1998 en heimildin var takmörkuð við flugrekanda. Með 18. gr. laga nr. 74/2000 voru gerðar breytingar á 136. gr. þannig að heimildin til að beita þessari greiðsluþvingun var víkkuð út til allra eigenda og umráðenda loftfara. Ljóst er af þessu að greiðsluþvingunarúrræði greinarinnar hefur ávallt einungs verið að aftra för loftfarsins, ekki hefur verið um önnur þvingunarúrræði að ræða.

Það að neita skráningu eigendaskipta, ef um vanskil er að ræða er verulega íþyngjandi úrræði í garð nýs eiganda. Verður því að telja að kveða verði skýrt á um það í lögum, eigi slíkt að vera heimilt. 1. mgr. 136. gr. hefur ekki að geyma slíka heimild, einungis heimild til að aftra för loftfars og verður, í samræmi við almenn lögskýringarsjónarmið, að skýra slíkt íþyngjandi ákvæði þröngt. Af öllu framangreindu telur ráðuneytið kærða ekki hafa vera heimilt að hafna því að fjalla um umskráningarbeiðnir kæranda og skrá hann sem nýja eiganda flugvélanna sem mál þetta fjallar varðar, að því tilskildu að öll skilyrði umskráningar séu uppfyllt.

4. Ráðuneytið bendir á að með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort skuldir fyrrum eiganda við kærða geti leitt til þess að för flugvélanna frá flugvelli verði bönnuð á grundvelli 1. mgr. 136. gr. loftferðalaganna. Það er sérstakt úrlausnarefni og ákvörðun kærða sem getur, eftir atvikum, sætt kæru til ráðuneytisins.

5. Kærandi bendir á að kröfum um greiðslur var beint að fyrri eiganda og viðsemjanda kæranda, B ehf. en ekki kæranda sjálfum. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi sjálfur verið sérstaklega krafinn um greiðslu þessara gjalda, heldur hafi kröfur einungis beinst að B ehf. Ráðuneytið telur að greiðsla skuldarinnar sem kærði krefst endurgreiðslu á, sé uppgjörsatriði milli kaupanda og seljanda flugvélanna en ekki mál er varðar kærða og því ekki á sviði ráðuneytisins að mæla fyrir um rétt kæranda til endurgreiðslu úr hendi kærða.

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu A ehf. til að fá umsóknir um umskráningu flugvélanna TF-TOD nr. 203, TF-TOH nr. 233, TF-TOE nr. 140 og TF-TOB nr. 313, öllum af gerðinni Piper Cherokee, teknar til umfjöllunar og afgreiðslu af Flugmálastjórn Íslands.

Ragnhildur Hjaltadóttir Sigurbergur Björnsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta