Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 7/2005

Árið 2005, 5. ágúst er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 7/2005

A gegn Umferðarstofu

  1. Aðild kærumáls og kröfur
  2. Með stjórnsýslukæru, 3. júní 2005, A (hér eftir nefnd kærandi) endurskoðunar á þeirri ákvörðun Umferðarstofu (hér eftir nefnd kærði) að bifreið hennar skuli flokkuð sem innflutt notuð

    Krafa kæranda er að ákvörðun Umferðarstofu verði breytt og bifreiðin verði skráð sem innflutt ný.

    Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

    Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags 3. júní 2005

    Nr. 2. Endurrit af skráningarskírteini bifreiðar kæranda, útgefið af Umferðarstofu.

    Nr. 3. Endurrit af bandarísku skráningarskírteini, ,,Certificate of Title" bifreiðar kæranda.

    Nr. 4. Afrit frá Eimskip um að bifreið kæranda, hafi verið flutt með Eimskip frá Bandaríkjunum til Íslands.

    Nr. 5. Vottorð um kaup kæranda á bifreið.

    Nr. 6. Bréf kærða til samgönguráðuneytisins dags. 9. júní 2005 um framkomna stjórnsýslukæru kæranda.

    Nr. 7. Umsögn kærða dags. 27. júní 2005

    Nr. 8. Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda með leiðbeiningu um andmælarétt um framkomna umsögn kærða dags 27.júní 2005

  3. Málsmeðferð
  4. Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  5. Málsatvik
  6. Kærandi kveðst hafa keypt nýja bifreið hjá Greenway, 9051 East Colonial Drive, Orlando, Florida 32817 þann 5.apríl 2005. Sá fyrirtækið um að senda bifreiðina með Eimskip til Íslands.

    Bifreiðin var skráð almennri skráningu í Bandaríkjunum þann 11. apríl 2005 en forskráð á Íslandi þann 17. maí 2005 og hlaut fastanúmerið B. Við forskráningu á Íslandi fylgdi skráningarvottorð frá Bandaríkjunum eða ,,Certificate of Title". Við skráningu á Íslandi var hún flokkuð sem ,,notuð".

    Með stjórnsýslukæru dags. 3. júní 2005 kærði kærandi þá ákvörðun kærða að flokka bifreiðina sem notaða við skráningu á Íslandi. Krafðist kærandi að ákvörðun Umferðarstofu yrði breytt og bifreiðin skráð sem innflutt ný.

    Samgönguráðuneytið leitaði eftir umsögn kærða um framkomna kæru. Umsögn kærða barst með bréfi, dags. 27. júní 2005. Í kjölfarið sendi ráðuneytið umsögnina til kæranda og bauð honum að nýta andmælarétt sinn með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga og koma á framfæri frekari upplýsingum og sjónarmiðum sem að baki erindinu lægju. Kærandi kom ekki á framfæri frekari upplýsingum um málið.

  7. Málsástæður og rök kæranda
  8. Kærandi byggir kröfur sínar í meginatriðum á því að hvorki hún né nokkur henni tengdur hafi ekið umræddri bifreið í Bandaríkjunum. Fer kærandi því fram á að ákvörðun Umferðarstofu verði breytt og bifreiðin verði skráð sem innflutt ný.

  9. Málsástæður og rök kærða
  10. Kærði byggir á því að skv. 3. gr. reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja, telst ökutæki vera ,,nýtt" hafi það ekki verið skráð almennri skráningu. Af því leiði að hafi ökutæki verið skráð almennri skráningu teljist það vera ,,notað" , óháð því hversu mikið ökutækinu hafi verið ekið.

    Bendir kærði á það að bifreiðin hafi verið flutt inn á grundvelli erlendra skráningargagna, þ.e.a.s að bifreiðin hafi verið skráð í Bandaríkjunum og henni fylgt erlent skráningarskírteini gefið út af skráningaryfirvöldum í Florida í Bandaríkjunum.

    Bendir kærði jafnframt á það að þegar bifreið er flutt til landsins er hún forskráð hjá Umferðarstofu. Til þess að hægt sé að forskrá bifreið þarf að skila inn umsókn um forskráningu ásamt fylgigögnum. Samhliða umsókn um skráningu á fólksbifreið þarf að skila inn upprunavottorði eða skráningarskírteini, ásamt farmbréfi. Þá bendir kærði á að ef bifreiðar koma frá Bandaríkjunum heita þessi gögn ,,Certificate of Title" sem væri skráningarskírteini eða ,,Certificate of Origin" sem væri upprunavottorð og eru gefin út af þarlendum skráningaryfirvöldum.

    Kærði bendir ennfremur á að skráningarskírteini eða ,,Certificate of Title" eru einungis gefin út fyrir bifreiðar sem hafa verið skráðar almennri skráningu í Bandaríkjunum. Hafi bifreið ekki verið skráð almennri skráningu fylgir henni upprunavottorð eða ,,Certificate of Origin". Hafi því ,,Certificate of Title" verið gefið út fyrir bifreið er það sönnum þess að viðkomandi bifreið hafi verið skráð almennri skráningu í Bandaríkjunum.

    Bendir kærði á það að við forskráningu hafi bifreiðinni fylgt ,,Certificate of Title" gefið út af skráningaryfirvöldum í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. Þannig liggi fyrir að bifreiðin hafi verið skráð almennri skráningu þegar hún var flutt hingað til lands. Telst því bifreiðin ekki vera ný skv. 3. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 og þar af leiðandi verið skráð í ökutækjaskrá með innflutningsástandið ,,notað".

  11. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningsefnið varðar fyrst og fremst það hvort bifreið kæranda skuli skráð ,,ný" eða ,,notuð". Kærandi hefur munnlega tjáð sig við ráðuneytið um að hann telji óréttlátt að bifreið sem ekkert hafi verið ekið sé skráð sem notuð. Ekki er ágreiningur um hversu mikið bifreiðinni hefur verið ekið og ekkert hefur komið fram um það annað en að á "Certificate of Title" kemur fram að henni hafi verið ekið 164 mílur.

Eins og fram hefur komið byggir ákvörðun Umferðarstofu um skráninguna á skilgreiningu í 3. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 en hún var skráð ,,notuð" við forskráningu þann 17. maí 2005.

Afgreiðsla ráðuneytisins snýr því einungis að því álitaefni.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja er skilgreint hvað teljist vera nýtt ökutæki. Nýtt ökutæki telst vera: Ökutæki sem er 5000 kg að leyfðri heildarþyngd eða minna telst vera nýtt hafi það ekki verið skráð almennri skráningu og ekið minna en 1000 km. Ökutæki sem er meira en 5000 kg að leyfðri heildarþyngd telst vera nýtt hafi það ekki verið skráð almennri skráningu og ekið minna en 2500 km. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins telst ökutæki einungis vera nýtt hafi það ekki verið skráð almennri skráningu. Þetta er hlutlæg regla sem byggir á því að hvert ökutæki geti einungis einu sinni verið skráð fyrstu skráningu.

Af gögnum málsins er ljóst að bifreiðin var skráð í Bandaríkjunum þann 5. apríl 2005 eins og fram kemur í bandarísku skráningarskírteini bifreiðarinnar ,,Certificate of Title". Því var bifreiðin skráð almennri skráningu í Bandaríkjunum áður en hún var flutt til landsins.

Kærandi bendir á að bifreiðinni hafi ekki verið ekið í Bandaríkjunum og byggir kröfur sínar á því. Í ljósi skýrs orðalags 3. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 er lítur að skilgreiningu á hugtakinu nýtt ökutæki er tekið fram að ökutæki geti ekki talist nýtt hafi það verið skráð almennri skráningu. Það hvort bifreiðinni hafi verið ekið skiptir því ekki máli í þessu sambandi.

Að framangreindu virtu er óhjákvæmilegt að staðfesta ákvörðun Umferðarstofu um að skrá bifreiðina B sem notaða.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Umferðarstofu um að skrá bifreið A, sem notaða er staðfest.

Unnur Gunnarsdóttir

Karl Alvarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta