Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 23/2004

Þann 6. janúar 2005 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 23/2004

A gegn sýslumanninum í Keflavík

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 18. nóvember 2004, A, (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun sýslumannsins í Keflavík, (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.

Umferðamál voru flutt til samgönguráðuneytisins frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti með lögum nr. 132/2003 um breytingu á umferðarlögum 59/1987 sbr. og reglugerð nr. 3/2004 um Stjórnarráð Íslands.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu og komu til skoðunar við úrlausn þess:

Nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 18. nóvember 2004.

Nr. 2. Ákvörðun kærða dags. 27. október 2004.

Nr. 3. Umsókn kæranda um endurveitingu ökuréttar dags. 14. október 2004.

Nr. 4. Meðmælalisti dags. 6. október 2004.

Nr. 5. Umsókn til ríkislögreglustjóra 6. október 2004.

Nr. 6. Læknisvottorð B læknis dags. 1. september 2004.

Nr. 7. Endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjaness dags. 27. nóvember 2001.

Nr. 8. Endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness dags. 9. júní 2004.

Nr. 9. Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 25. nóvember 2004.

Nr.10. Bréf samgönguráðuneytisins til kærða dags. 25. nóvember 2004.

Nr.11. Umsögn kærða um kæru dags. 7. desember 2004.

Nr.12. Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda dags. 13. desember 2004.

Nr.13. Andmæli kæranda dags. 22. desember 2004.

Kærandi óskar eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði endurveittur ökuréttur. Kærði krefst staðfestingar á fyrri úrskurði.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er að finna í 1. mgr. 26. gr. sömu laga sbr. og 3. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50 /1987 eins og þeim var breytt með lögum nr. 84/2004. Með síðasttöldu breytingunni á umferðarlögum var ákvörðun um endurveitingu ökuréttar færð frá samgönguráðuneyti til Ríkislögreglustjóra en sú ákvörðun er kæranleg til ráðuneytisins. Um skilyrði til endurveitingar fer að öðru leyti skv. 106. gr. umferðarlaga og skv. reglugerð nr. 706/2004 um endurveitingu ökuréttar. Samkvæmt reglugerðinni annast lögreglustjórar endurveitingar í umboði ríkislögreglustjóra.

Áður hefur verið gerð grein fyrir helstu gögnum málsins. Leitað var til sýslumannsins í Keflavík um frekari rökstuðning fyrir ákvörðuninni sem barst ráðuneytinu 7. desember s.l. Kæranda var gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við svari sýslumannsins. Þær athugasemdir bárust 22. desember s.l.

III. Málsatvik

Þann 18. apríl 2004 var kærandi staðin að því að aka bifreið undir áhrifum áfengis. Atvikið leiddi til ákæru og var málinu lokið á grundvelli 124. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála (játningamál) 9. júní 2004. Í málinu lá fyrir skýlaus viðurkenning á brotinu og telst það varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga með síðari breytingum. En skilyrði afgreiðslu slíkra mála er þingsókn, skýlaus játning og samþykki ákærða. Sektargerð í samræmi við 124. gr. laganna um meðferð opinberra mála hefur sama gildi og dómur. Niðurstaða málsins var m.a. svipting ökuréttar kæranda í þrjú ár auk sekta. Sækjandi málsins var fulltrúi sýslumannsins í Keflavík.

Í erindi til kærða dags. 14. október 2004 sækir kærandi um endurveitingu ökuréttar. Með bréfi kærða dags. 27. október 2004 var ósk kæranda um endurveitingu hafnað. Niðurstaðan var rökstudd með vísan til 106.gr. umfl. sem kveður á um að endurveiting komi aðeins til greina að um sviptingu til lengri tíma en til þriggja ára sé að ræða.

Kærandi kærði úrskurðinn til samgönguráðuneytisins þann 18. nóvember 2004.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til sjúkdóms síns, þess að A sé hætt áfengisneyslu og breyttra aðstæðna að öðru leyti.

V. Málsástæður og rök kærðu

Sjónarmið kærða koma fram í bréfi til ráðuneytisins dags. 7. desember s.l. Varðandi málsmeðferðina að öðru leyti kveður hann að lögreglurannsókn og ákærumeðferð málsins sem leiddi til sektargerðar Héraðsdóms Reykjaness og þ.m.t. ökuleyfissviptingarinnar leiði ekki til vanhæfis sýslumanns til ákvarðanatöku varðandi endurveitingu ökuréttar. Að öðru leyti hafi starfsmenn embættisins komið að málinu með leiðbeiningum til kærðu um málsmeðferð.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Í málinu liggur fyrir sektargerð vegna ölvunaraksturs kæranda sem m.a. byggir á skýlausri játningu A. Sektargerðin er jafngild dómi og verður ekki endurskoðuð nema með málskoti til æðra dóms í samræmi við lög um meðferð opinberra mála. Það er ekki á valdsviði stjórnvalda að endurskoða eða breyta niðurstöðum dómstóla sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar.

Til skoðunar kom hæfi fulltrúa sýslumanns til að taka ákvörðun um synjun endurveitingar þar sem hann var fulltrúi ákæruvaldsins í sáttamálinu fyrir Héraðsdómi Reykjaness sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið telur ekki að um slíkt stjórnsýslusamband sé milli starfa sýslufulltrúans að umfjöllun og meðferð í öðru hlutverkinu verði talin til eftirlits eða endurskoðunar í þágu réttaröryggis í hinu. Þá ber að líta til þess að ákvörðun fulltrúa sýslumanns byggði ekki á huglægu mati heldur á þeirri hlutlægu reglu að ekki verði sótt um endurveitingu ökuréttar þegar svipting hefur verið ákveðin í þrjú ár eða skemur. Því telur ráðuneytið ótvírætt að sami maður geti fjallað um bæði málin án þess að það varði við ákvæði 3. gr. stjórnsýslulaganna.

Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, eins og þeim var breytt með 30. gr. laga nr. 44/1993, og síðar 9. gr. laga nr. 84/2004 getur ríkislögreglustjóri, í þeim tilfellum er maður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár, heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju að þeim tíma liðnum.

Samkvæmt skýru ákvæði 106. gr. laganna kemur endurveitingarheimild ríkislögreglustjóra, áður ráðherra, aðeins til greina að um sé að ræða lengri dóm en til þriggja ára og að sviptingin hafi staðið í þrjú ár, að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að sýslumanninum í Keflavík hafi borið að synja kæranda um endurveitingu ökuréttar þar sem lagaskilyrði til hennar voru ekki til staðar.

ú r s k u r ð a r o r ð

Úrskurður sýslumannsins í Keflavík er staðfestur.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta