Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. IRR14100299


Ár 2015, 23. september er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR14100299

 

Kæra Íslenska Gámafélagsins ehf.

á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss  um að taka tilboði Gámaþjónustunnar hf.

í útboði vegna sorphirðu í Ölfusi 2014-2019

 

  

I.         Kæra, kröfur og kæruheimild

Þann 29. október 2014, barst ráðuneytinu kæra Ólafs Karls Eyjólfssonar hdl. f.h. Íslenska Gámafélagsins ehf., […] (hér eftir nefnt ÍG) vegna ákvörðunar Sveitarfélagsins Ölfuss, dags. 30. janúar 2014, um að taka tilboði Gámaþjónustunnar hf. í útboði sorphirðu í Ölfusi 2014-2019.

Þess er krafist að ákvörðunin verði lýst ólögmæt.

Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Þann 16. ágúst 2012 sagði Sveitarfélagið Ölfus upp samningi sínum við A.K flutninga, dótturfélag ÍG,  um sorphirðu í sveitarfélaginu og kom fram í uppsögninni að til stæði að bjóða sorphirðu sveitarfélagsins út að nýju að loknum samningstímanum. Þann 10. október 2013 fól bæjarráð bæjarstjóra Ölfuss að bjóða verkið út svo fljótt sem auðið væri í samræmi við samþykkta útboðslýsingu.

Þann 23. desember 2013 voru tilboð opnuð og voru viðstaddir fulltrúar allra bjóðenda ásamt fulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss og Verkfræðistofu Suðurlands er annaðist gerð útboðsgagna. Engar athugasemdir voru gerðar við útboðið eða ferlið á þessum tímapunkti. […]. Kostnaðaráætlun útbúin af Verkfræðistofu Suðurlands sem opnuð var á staðnum gerði ráð fyrir að verkið kostaði 74.836.200 kr. í framkvæmd.

Þann 30. janúar 2014 voru tilboðin kynnt á fundi bæjarstjórnar og þar ákveðið að taka tilboði Gámaþjónustunnar hf.  og bæjarstjóra falið að tilkynna það. Þann 31. janúar var bjóðendum kynnt þessi ákvörðun. Jafnframt var þeim tilkynnt að endanlegur samningur yrði ekki gerður fyrr en að 10 dögum liðnum frá dagsetningu bréfsins í samræmi við 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup. Engar athugasemdir bárust innan þess frests. Samningur var undirritaður 14. febrúar 2014.

Kæra barst ráðuneytinu eins og fram kemur að framan þann 29. okt 2014. Ráðuneytið sendi kæruna á Sveitarfélagið Ölfus og óskaði eftir gögnum málsins og sjónarmiðum hinn 23. febrúar 2015. Sjónarmið bárust í bréfi dags. 18. mars 2015.

Ráðuneytið taldi ekki ástæðu, með tilliti til þess eðlis málsins,  að gefa ÍG kost á að gæta andmæla við sjónarmið Borgarbyggðar.

 

III.      Sjónarmið ÍG

ÍG byggir á því að þar sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, foreldrar hans og bróðir séu í eigendahópi Gámaþjónustunnar hf. þá hafi hann verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð málsins fyrir bæjarstjórn. Þar sem bæjarstjórinn hafi verið vanhæfur til að taka þátt í mati á hæfi bjóðenda þann 30. janúar 2014 sé ákvörðunin um að taka tilboðinu jafnframt ólögmæt.

ÍG gerir sér grein fyrir að kærufrestur er liðinn en bendir á að bæjarstjórinn hafi ekki greint frá eigendatengslum sínum við meðferð málsins. Þar sem ÍG hafi einungis nýlega komist á snoðir um eignarhaldið sé tilefni til að taka kæruna fyrir utan fresta.

 

IV. Sjónarmið Borgarbyggðar

Sveitarfélagið Ölfus telur að bæjarstjóri sveitarfélagsins hafi á engu stigi málsins komið með slíkum hætti að hinni kærðu ákvörðun að valdið geti ólögmæti hennar. Hafi málefnaleg sjónarmið ráðið för við meðferð málsins í hvívetna.

Sveitarfélagið Ölfus bendir á að um útboð gildi lög nr. 65/1993 um framkvæmd útboða og lög nr. 84/2007 sem fjalla um opinber innakaup. Í XIV. kafla þeirra laga sé fjallað um kærunefnd útboðsmála en nefndinni beri að fjalla um kærur vegna útboðsmála. Þá segi í 1. mgr. 93. gr. laga um opinber innkaup að þau fyrirtæki sem njóti réttinda skv. lögunum og hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls hafi heimild til að skjóta málum til kærunefndarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 91. gr. laga um opinber innkaup eigi mál um lögmæti innkaupa sveitarfélaga einungis undir nefndina að því leyti er þau falla undir 3. þátt laganna. Þar sem útboðið hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæðinni sem vísað er til þar þá eigi málið undir kærunefnd útboðsmála. Það sé því ekki á valdi innanríkisráðuneytisins að fjalla um málið. Af þessari ástæðu verði ráðuneytið að vísa málinu frá

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins

Í upphafi telur ráðuneytið rétt að víkja að því að lög nr. 84/2007 um opinber innkaup taka til innkaupa opinberra aðila, þar með talið sveitarfélaga, sbr. 3. gr., en fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með framkvæmd laganna. Samkvæmt XIV. kafla laga um opinber innkaup verða meint brot gegn lögunum og reglum settum samkvæmt þeim borin undir sérstaka kærunefnd útboðsmála, sbr. 91. gr. Meint brot sveitarfélaga á ákvæðum laganna verða hins vegar ekki borin undir kærunefnd útboðsmála nema þau falli undir 3. þátt laganna, það er varði fjárhæðir sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. nú 5. mgr. 91. gr. laganna. Fyrirtæki sem telja á sér brotið við innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum EES eiga þá það úrræði að leita til almennra dómstóla með kröfur sínar, eins og segir í greinargerð með lögunum. Þá hefur kærunefndin almennt litið svo á að það falli utan lögsögu hennar að fjalla um brot á ýmsum reglum stjórnsýsluréttar, t.d. brot á hæfisreglum II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það útboð sem hér er til umfjöllunar hljóðaði skv. kostnaðarmati upp á 74.836.200 kr en samkvæmt reglugerð nr. 583/2014 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup heyra undir skyldu laganna þjónustukaup sveitarfélaga fari þau yfir 33.322.856 kr. Að því sögðu er það mat ráðuneytisisins að málið heyri með réttu undir kærunefnd útboðsmála.

Eins og að framan greinir fellur eftirlit með framkvæmd útboða og annarra opinberra innkaupa sveitarfélaga almennt utan stjórnsýslueftirlits innanríkisráðuneytisins. Verður málinu því vísað frá ráðuneytinu.

Ráðuneytið getur þó ákveðið að taka til skoðunar hvort gætt sé að almennum reglum stjórnsýsluréttarins við ákvarðanatöku varðandi hæfi sveitarstjórnarmanna og fyrirsvarsmenn sveitarfélag. Slík athugun ráðuneytisins grundvallast á 112. gr., sbr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga, en styðst ekki við kæruheimild 1.mgr. 111. gr. laganna.  Ráðuneytið mun að því sögðu taka til athugunar hvort mat  bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss á hæfi bæjarstjóra gefi tilefni til formlegrar umfjöllunar um stjórnsýslu sveitarfélagsins á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga, en ÍG á ekki aðild að því máli.

 

Úrskurðarorð

Kærunni er vísað frá ráðuneytinu.

 

____________________________

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta