Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. IRR16010163


Ár 2016, þann 8. júlí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR16010163

 

Kæra [X]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 6. janúar 2016 barst ráðuneytinu kæra [X] (hér eftir nefnd [X]) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli hennar og [Y]nr. 62/2015 frá 30. desember 2015. Með ákvörðun Samgöngustofu var hafnað kröfum [X] um bætur úr hendi Easyjet (hér eftir EJ) vegna seinkunar á flugi EZY8508 frá Keflavík til London Gatwick þann 2. maí 2015. Krefst [X] þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfu hennar um skaðabætur samkvæmt 7. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð 1048/2012.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

EJ annaðist flug EZY8508 sem fór frá Keflavík til London Gatwick þann 2. maí 2015. Var nokkur seinkun á fluginu og snýst ágreiningur [X] og EJ um það hvort seinkun hafi verið umfram þrjár klukkustundir þannig að til bótaábyrgðar EJ kunni að hafa stofnast. Var það niðurstaða SGS að seinkun hafi verið undir þremur klukkustundum og því var kröfu [X] um bætur hafnað.

Hinn kærði úrskurður er svohljóðandi:

I.                    Erindi

Þann 19. september sl. barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá [X] og [Y], hér eftir kvartendur. Kvartendur áttu bókað flug með Easyjet (EJ) WZY8508 þann 2. maí sl. frá Keflavík til London Gatwick og fara fram á skaðabætur skv. 7. gr. reglugerðar 261/2004 sbr. 1048/2012 þar sem meira en 3. klst. seinkun varð á fluginu.

 

II.                  Málavextir og bréfaskipti

Samgöngustofa sendi EJ kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 1. október sl. Svar EJ barst þann 29. október þar sem EJ heldur því fram að seinkunin hafi einungis verið 2. klst. og 59 mínútur o.þ.a.l. hafi bótaréttur ekki stofnast. SGS sendi kvartendum umsögn EJ til að fá álit þeirra sama dag. Þann 2. nóvember barst svar frá kvartendum þar sem sá tími sem EJ gefur upp er ekki dreginn í efa heldur er bent á að skv. nýlegum dómi Evrópudómstólsins þá eigi að miða við þann tíma sem dyr flugvélarinnar er opnuð og farþegar geti yfirgefið hana en ekki sjálfan lendingartímann.

SGS sendi beiðni á Gatwick flugvöll þar sem farið var fram á að fá komutíma staðfestan. Í svari frá flugvellinum kom í ljós að umbeðin gögn væru eingöngu geymd í þrjá mánuði o.þ.a.l. væri búið að eyða þeim.

 

III.               Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Samgöngustofa sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita í slíkum tilvikum er fjallað um í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram með skýrum hætti að flugrekandi skuli greiða bætur skv. 7. gr. reglugerðarinnar vegna tafa eða seinkunar eins og átt getur við þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009, í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerð EB nr. 261/2004 með þeim hætti að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi sínu sbr. 6. gr. reglugerðarinnar, eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Af þessu leiðir að allir farþegar sem verða fyrir þriggja tíma seinkun á flugi sínu eða meira, og koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunalega áætlun flugrekandans kvað á um, eiga rétt á bótum skv. 7. gr., nema flugrekandi geti sýnt fram á að töfin hafi verið vegna óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þetta dómafordæmi var staðfest með dómi Evrópudómstólsins í máli C-11/11 og hefur nú einnig verið lögfest með 6. gr. reglugerðar nr. 1048/2012.

Loftferðalögum nr. 60/1998 og reglugerð EB nr. 261/2004 er ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 er réttur farþega til skaðabóta skv. 7. gr. reglugerðarinnar sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs og ber að skýra undantekningarreglu 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar þröngt, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 22. desember 2008, í máli C-549/07 Friederike Wallentin-Hermann v Alitalia og almennar meginreglur um túlkun lagaákvæða.

Álitamálið í þessu máli er lengd seinkunarinnar. EJ leggur fram gögn sem sýna seinkun sem nemur tveimur klukkustundum og 59 mínútum. Kvartendur vísa hins vegar í dóm Evrópudómstólsins C-452/13 þar sem kemur fram að það eigi að miða komutíma við þann tíma sem dyr flugvélar eru opnaðar. EJ miðar við ATA (actual-time-arrival) sem er sá tími þegar vél stoppar endanlega við flugstöð eða á stæði. Kvartendur benda á að þeir hafi þurft að bíða nokkrar mínútur í flugvélinni áður en dyr hafi verið opnaðar og eigi því rétt á bótum, sbr. tilvitnaðan dóm. SGS leitaði eftir upplýsingum frá flugvellinum í Gatwick í viðleitni til þess að fá upplýsingar um tíma á því hvenær dyrnar höfðu verið opnaðar á vélinni en þeim gögnum hafði verið eytt og því ekki hægt að fá þær upplýsingar.

Þar sem SGS hefur hvorki viðmið né staðfestan tíma á tímanum sem leið frá því að vélin stöðvaðist við flugstöð þangað til dyr hennar voru opnaðar verður að taka mið af þeim tíma sem EJ staðhæfir að hafa verið fyrir hendi og er á þeim forsendum er kröfu um bætur af hálfu félagsins hafnað.   

 

Ákvörðunarorð:

Kröfum kvartenda um bætur úr hendi Easyjet er hafnað.

 

III.      Málsástæður [X], umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra [X] barst ráðuneytinu með tölvubréfi dags. 6. janúar 2016.

Í kæru tekur [X] fram að vélin hafi lent 2 klukkustundum og 59 mínútum eftir áætlaðan komutíma. Hins vegar hafi dyr vélarinnar ekki verið opnaðar fyrr en eftir að þrjár klukkustundir voru liðnar frá áætluðum komutíma. Vísar [X] til dómafordæma Evrópudómstólsins þar sem fram komi að miða beri við hvenær dyr vélarinnar eru opnaðar. Því krefjist hún bóta.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 21. janúar 2016.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með tölvubréfi dags. 3. mars 2016. Í umsögninni kemur fram að SGS hafi hvorki haft viðmið né staðfestingu á þeim tíma sem liðið hafi frá því vélin stöðvaðist við flugstöð þangað til dyr hennar voru opnaðar. Þannig hafi ekki verið ljóst að dyr flugvélarinnar hefðu opnast meira en þremur klukkustundum eftir áætlaðan komutíma. Áréttar SGS að álitamálið sé tímalengd seinkunarinnar. Í málinu hafi EJ sent upplýsingar um Actual Time Arrival (ATA) sem sé sá tími þegar vél stöðvar endanlega við flugstöð eða stæði. Sá tími hafi verið 2 klukkustundir og 59 mínútur eftir áætlaðan komutíma. Tekur SGS fram að flugrekendur skrái flugtíma og noti mismundandi kerfi til að halda utan um þær upplýsingar. Hins vegar fari um skilgreiningu á flugtíma eftir reglugerð ESB nr. 965/2012, subpart FTL, 1. hluta. Komi þar fram að flugtími sé sá tími sem líður frá því flugvélin fer af stað úr stæði sínu og þar til hún stöðvast við lok ferðar í stæði. Þannig sé flugtími ekki sá sami og tíminn þegar flugvél lendir. Eins og sjá megi af gögnum sem EJ sendi SGS hafi flugtími verið skráður kl. 01.19 en lendingartími kl. 01.13. Hafi kvartendur bent á að þeir hafi þurft að bíða í nokkrar mínútur í flugvélinni áður en dyr hennar voru opnaðar. Hafi SGS leitað eftir upplýsingum frá flugvellinum í Gatwick í viðleitni til að fá upplýsingar um tímasetningu á því hvenær dyrnar hafi í raun verið opnaðar. Ekki hafi verið hægt að fá þær upplýsingar þar sem þeim hefði verið eytt. Bendir SGS á að [X] hafi ekki lagt fram gögn sem styðji að dyr flugvélarinnar hafi í raun opnast meira en þremur klukkustundum eftir áætlaðan komutíma. Einungis sé um fullyrðingar [X] að ræða. Telur SGS að þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að seinkun á komu [X] í umræddu flugi hafi numið meira en þremur klukkustundum eigi hún ekki rétt á bótum á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 14. mars 2016 var EJ gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.


IV.      Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa [X] lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfu hennar um skaðabætur úr hendi EJ. EJ hefur ekki látið málið til sín taka við meðferð þess hjá ráðuneytinu.

Líkt og fram kemur í umsögn og ákvörðun SGS fjallar reglugerð EB nr. 261/2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Var reglugerð þessi innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar er SGS sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Um seinkun á flugi og þá aðstoð sem flugrekandi skal veita er fjallað í 6. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004. Þar kemur hins vegar ekki fram að flugrekandi skuli greiða bætur samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar með sama hætti og þegar flugi er aflýst sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Með dómi Evrópudómstólsins frá 19. nóvember 2009 í sameinuðum málum C-402/07 og C-432/07 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að túlka bæri reglugerðina þannig að farþegar sem verða fyrir seinkun á flugi samkvæmt 6. gr. eigi að fá sömu meðferð og farþegar flugs sem er aflýst sbr. 5. gr. Liggur þannig fyrir að verði farþegar fyrir þriggja tíma seinkun á flugi eða meira sem gerir það að verkum að þeir koma á ákvörðunarstað þremur tímum síðar eða meira en upprunaleg áætlun flugrekandans kvað á um geta þeir átt rétt á bótum samkvæmt 7. gr. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. ber þó flugrekanda ekki skylda til að greiða skaðabætur í samræmi við 7. gr. ef hann getur fært sönnur á að flugi hafi verið aflýst eða því seinkað af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hefði verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. hvílir sönnunarbyrðin á flugrekandanum.

Líkt og fram kemur í ákvörðun SGS liggur fyrir að vélin stöðvaði endanlega við flugstöðina eða stæði rétt innan þriggja klukkustunda frá áætluðum komutíma. Leitaði SGS eftir upplýsingum frá flugvellinum í Gatwick um það hvenær dyr flugvélarinnar voru opnaðar en ekki var unnt að fá þær upplýsingar þar sem þeim hafði verið eytt. Í því ljósi telur ráðuneytið að ekki sé tilefni til annars en að fallast á ákvörðun SGS þess efnis að ekki liggi fyrir að seinkun á umræddu flugi hafi verið meira en þrjár klukkustundir. Með þessum athugasemdumverður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta