Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. IRR14080078

 Ár 2015, 2. júní er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR14080078
Kæra Ágústs Sævars Guðmundssonar
á stjórnsýslu
sveitarfélagsins Vogum


I.                   Kröfur og kæruheimild

 Þann 12. ágúst 2014, barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra Ágústs Sævars Guðmundssonar […]. (hér eftir nefndur ÁSG), vegna álagningar og innheimtu sveitarfélagsins Voga, á fasteignagjaldi ársins 2014 vegna fasteignar hans Sunnuhvols á Vatnsleysuströnd.

 Í kæru er þess krafist að sveitarfélagið Vogar hætti að gefa út ranga reikninga á ÁSG og að það gefi út réttan álagningarseðil vegna fasteignagjalda ársins 2014 auk þess að sveitarfélagið hætti að krefjast þess að ÁSG ofgreiði fasteignagjöld.

 Kæran er fram borin á grundvelli 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 II.                Málstvik, rök og málsmeðferð

Í kæru kemur fram að ÁSG og bróðir hans Krisján Guðmundsson hafi frá 1. mars 1997 verið sameigendur fasteignarinnar Sunnuhvols á Vatnsleysuströnd. Kristján hafi látist árið 2012 og hafi þá hluti fasteignarinnar komið í hlut ÁSG, þannig að eignin sé nú að öllu leyti í eigu hans.

 Mál þetta snýst um álagningu fasteignagjalds og innheimtuaðferðir sveitarfélagsins í því sambandi. Í fyrsta lagi er ÁSG ósáttur við að sveitarfélagið leggi sorphirðugjald á eign hans, Sunnuhvol fast nr. 209-6694, en ÁSG telur þá álagningu ekki heimila. Í öðru lagið er ÁSG ósáttur við að sveitarfélagið beini innheimtu fasteignagjaldanna að dánarbúi bróður hans, en ekki að honum, þar sem hann hafi við dánarbússkiptin fengið fasteignina Sunnuhvol í sinn hlut. Í þriðja lagi bendir ÁSG á að hann hafi ofgreitt sveitarfélaginu vegna þessara gjalda en sveitarfélagið neiti að taka það til greina og gefa út nýja reikninga með réttri fjárhæð.

 Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. september 2014, var sveitarfélaginu Vogum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 8. október 2014.  Þar kom fram að álagning sorphirðugjalds vegna ársins 2014 hafi verið felld niður og fasteignagjöldin lækkuð sem því hafi numið. Hafi ÁSG verið tilkynnt um lækkunina og þeir greiðsluseðlar sem þá hafi verið ógreiddir leiðréttir til samræmis við það. Þá bendir sveitarfélagið á að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands, séu tveir eigendur að Sunnuhvoli, þ.e. annars vegar dánarbú Kristjáns Guðmundssonar og hins vegar ÁSG. Við álagningu fasteignagjalda ársins 2014 hafi álagningin skráðst á þann eiganda sem fyrstur sé talin í eigendaskránni, þ.e. í þessu tilfelli dánarbú Kristjáns Guðmundssonar og það sé ástæða þess að ÁSG hafi ekki fengið álagningarseðilinn sendan. Af sömu ástæðu sé álagningarseðill sá sem birtist á vefsvæði ÁSG hjá www.island.is einungis tilgreindur án greiðsludreifingar.

 Með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. október 2014, var ÁSG gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 12. nóvember 2014, en þar ítrekar ÁSG fyrri málsástæður sínar og kröfur.              

III.               Niðurstaða ráðuneytisins

 Kæra ÁSG lýtur í fyrsta lagi að álagningu sorphirðugjalds vegna ársins 2014 á fasteign hans Sunnuhvol á Vatnsleysuströnd. Við meðferð málsins hefur sveitarfélagið Vogar upplýst að það hafi í byrjun sumars 2014 fellt niður fyrrgreinda álagningu sorphirðugjaldsins. Ágreiningur er varðar álagningu sorpgjalds á undir úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamál, sbr. lög nr. 130/2011. Valdheimild innanríkisráðuneytisins nær þar af leiðandi ekki til þess að úrskurða í ágreiningi er lýtur að álagningu sorphirðugjalds. Ráðuneytið telur hins vegar ekki tilefni til þess að framsenda kæru ÁSG til úrskurðarnefndar umhverfis- og aulindamála, sbr.  2. mgr. 7. gr. stjornsýslulaga nr. 37/1993,  þar sem það liggur fyrir í málinu að sveitarfélagið Vogar hefur fellt niður álagningu sorpgjalds vegna ársins 2014 á fasteignina Sunnuhvol, eign ÁSG.

 Að öðru leyti vill ráðuneytið taka fram að í 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir að aðila máls sé heimilt að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti þess skv. 109. gr. laganna. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögunum er ljóst að einungis svonefndar stjórnvaldsákvarðanir verða bornar undir ráðuneytið með stjórnsýslukæru. Með stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvörðun stjórnvalds í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og er beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli  (sjá t.a.m. Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2003, bls. 169). Eru það því einvörðungu slíkar ákvarðanir sem sæta stjórnsýslukæru.

 Ljóst er að ágreiningsefni það sem ÁSG hefur borið undir ráðuneytið varðar fyrirkomulag og framkvæmd á innheimtu fasteignagjalds sveitarfélagsins Voga vegna fasteignar ÁSG, Sunnuhvols og uppfyllir þaf af leiðandi ekki skilyrði þess að vera stjórnvaldsákvörðun og á því ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins.

 Með vísun til framangreinds er óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá ráðuneytinu.

Í 2. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Á grundvelli framangreindrar niðurstöður er ekki tilefni til þess að fjalla um hvort kæra hafi borist innan kærufrests.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur málsmeðferðin dregist og er beðist velvirðinga á því.

 Úrskurðarorð

 Stjórnsýslukæru Ágústs Sævars Guðmundssonar, […]., vegna álagningar og innheimtu sveitarfélagasins Voga, á fasteignagjalda ársins 2014 vegna fasteignar hans Sunnuhvols á Vatnsleysuströnd er vísað frá.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta