Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. IRR12110447


Ár 2013, 29. júlí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 ú r s k u r ð u r

 í stjórnsýslumáli nr. IRR12110447

 Kæra [A]
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar

I.       Kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Þann 28. nóvember 2012 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [B] dags. sama dag. fyrir hönd [A] þar sem kærð er sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna því að endurupptaka mál [A] og endurráða hana ekki í starf […].

 Í kæru tiltekur [B] auk framangreindra ákvarðana fleiri atriði sem kærð eru. Er þar ekki um að ræða stjórnvaldsákvarðanir, heldur atriði er lúta að málsmeðferð og stjórnsýslu borgarinnar og verður vikið að þeim í lið III þar sem gerð er grein fyrir málsástæðum [B].

 Eftirtaldar kröfur eru settar fram í kæru:

  1. Að innanríkisráðuneytið úrskurði hvort höfnun borgarráðs á endurupptöku máls [A] þann 30. ágúst 2012 hafi verið lögleg og í samræmi við vandaða stjórnsýslu.
  2. Að innanríkisráðuneytið krefji formann borgarráðs svara við erindi [B] þann 30. mars. 2012 og styðjist við þau svör við úrskurð í málinu.
  3. Að innanríkisráðuneytið úrskurði hvort formaður borgarráðs og aðrir kjörnir fulltrúar, sem ekki hafa svarað skriflegum erindum undirritaðs, hafi brotið siðareglur kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar og 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
  4. Að rannsakað verði hvort málefnaleg rök liggi fyrir mismunun á starfsskyldum […] á haustmisseri 2009 sem lýst hefur verið í greinargerðum með málinu.
  5. Að meðferð Reykjavíkurborgar á málinu frá upphafi þegar [A] var neitað um endurráðningu verði rannsökuð og úrskurðað um gæði stjórnsýsluhátta Reykjavíkurborgar því viðkomandi. Að sérstaklega verði aðgætt hvort Reykjavíkurborg hafi haft skrifleg gögn ,,annarra málsaðila“ sem ekki kærðu sig um endurupptöku þegar borgarráð hafnaði endurupptökubeiðni [B] í ágúst 2012.
  6. Að ráðuneytið beiti 114. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og ógildi þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að endurráða ekki [A] í starf […] á vormisseri 2010.
  7. Að ráðuneytið áminni Reykjavíkurborg vegna ítrekaðrar vanrækslu á leiðbeiningarskyldu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, allt frá upphafi málsins, sem valdið hefur málsaðila skaða, m.a. þegar hann uppfyllti ekki skilyrði um kærufrest í upphafi málsins.
  8. Að ráðuneytið rannsaki grun [B] um þöggun í máli [A] gegn Reykjavíkurborg.
  9. Að ráðuneytið hefji frumkvæðismál vegna meðferðar Reykjavíkurborgar á máli [A], sbr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
  10. Að ráðuneytið hraði úrskurði sínum í máli [A] gegn Reykjavíkurborg.

 Reykjavíkurborg krefst þess aðalega að kröfulið nr. 1 verði vísað frá en til vara að ráðuneytið staðfesti með úrskurði sínum lögmæti fyrrgreindrar ákvörðunar borgarráðs. Jafnframt að vísað verði frá þeim hluta kröfuliðs 3 er byggist á skorti á svörum annarra kjörinna fulltrúa en formanns borgarráðs en ráðuneytið staðfesti að formaður borgarráðs hafi í störfum sínum virt skyldur sínar samkvæmt siðareglum kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar og 29. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá krefst Reykjavíkurborg þess aðallega að kröfuliðum nr. 4, 5, 6 og 9 verði vísað frá, en til vara að fyrrgreindum kröfuliðum verði hafnað auk þess sem kröfuliðum nr. 2, 7 og 8 verði hafnað.

 Kæran er fram borin á grundvelli 111. gr. laga nr. 153/2006 og barst fyrir lok kærufrests.

 II.          Málsatvik og  málsmeðferð

Forsaga þessa máls er nokkur og er rétt að mati ráðuneytisins að rekja hana í stuttu máli. Árin 2008 og 2009 starfaði [A] sem […]. Haustið 2009 mun henni hafa verið tilkynnt að hún yrði ekki endurráðin þegar samningur hennar rynni út þann 31. desember 2009. Munu hafa verið þó nokkur samskipti á milli [A] og Reykjavíkurborgar allt árið 2010 og árið 2011 í framhald af þessari ákvörðun.

 Þann 19. apríl 2010 óskaði [B] með bréfi til framkvæmdastjóra Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og starfsmannastjóra ÍTR eftir rökstuðningi ÍTR á því að fjöldi annarra starfsmanna aðrir en [A] hefðu verið endurráðnir á árinu 2010. Með tölvupósti sama dag óskaði [B] eftir afriti af öllum gögnum málsins og þá sérstaklega gögnum frá starfsmannaviðtali við [A] sem fram fór í maí 2009. Þann 3. maí var því bréfi svarað af hálfu Reykjavíkurborgar og afrit af gögnum málsins afhent. Af hálfu [A] var hins vegar talið að það bréf veitti ekki fullnægjandi svör auk þess sem engin gögn höfðu borist henni varðandi umrætt starfsmannaviðtal í maí 2009. Þann 22. nóvember 2010 var aftur óskað eftir afriti af umræddum gögnum. Mun því erindi hafa verið svarað með tölvupósti af hálfu starfsmannastjóra ÍTR þann 6. desember 2010 þar sem fram kom að þann 3. maí 2010 hefðu öll gögn sem til væru varðandi mál [A] verið send í ábyrgðarpósti til [B].

 Með stjórnsýslukæru, dags. 15. apríl 2011, kærði [A] ákvörðun ÍTR um að endurráða hana ekki í starf […] til ráðuneytisins. Ráðuneytið vísaði þeirri kæru frá með úrskurði sínum, dags. 2. maí 2011, (mál nr. IRR11040180) þar sem kæra barst að liðnum ársfresti þeim sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í úrskurði ráðuneytisins var jafnframt tekið fram að kærufrestir 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga hvað varðar aðgang að gögnum væru jafnframt liðnir. [B] kvartaði vegna úrskurðar ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, sem taldi ekki tilefni til að gera athugasemd við niðurstöðu ráðuneytisins, en benti þó á að [A] gæti óskað eftir því á ný við ÍTR að fá aðgang að gögnum málsins og væri hún þá enn ósátt við afgreiðslu ÍTR gæti hún borið þá niðurstöðu undir innanríkisráðuneytið innan kærufrests.

 [B] ritaði starfsmannastjóra ÍTR bréf, dags. 3. október 2011 þar sem hann ítrekaði ósk sína um að fá að kynna sér öll gögn um fyrsta starfsmannaviðtalið, sem tekið hefði verið við [A] í lok vormisseris 2009, og [A] fengi jafnframt að sjá úrskurð trúnaðarlæknis um vinnufærni hennar eftir tímabundin veikindi hennar haustið 2009. Erindi [B] til starfsmannastjóra ÍTR var svarað með bréfi, dags. 18. október 2011. Sagði þar að enn og aftur væri ítrekað að málinu væri lokið af hálfu ÍTR. Málið væri nú í höndum mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar. Taldi [A] að henni hefði með ólögmætum hætti verið synjað um aðgang að gögnum. Þann 21. október 2011 lagði [A] fram kæru til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir fullum aðgangi að gögnum ÍTR um [A], […]. Í úrskurði ráðuneytisins dags. 25. apríl 2012 (mál nr. IRR11040180) var vísað til þess að af hálfu Reykjavíkurborgar væri því haldið fram að þegar hefðu verið afhent öll gögn sem unnt væri og að önnur gögn sem [B] og [A] krefjist aðgangs að væru ekki til. Segir í úrskurði ráðuneytisins að ráðuneytið hafi engar forsendur til þess að draga þá fullyrðingu í efa né væri nokkuð sem benti til þess að sveitarfélagið héldi eftir gögnum eða hefði fargað gögnum á ólögmætan hátt.  Verði því ekki séð að [B] eða [A] hafi verið synjað um aðgang að þeim gögnum sem tiltekin eru í kröfugerð eða öðrum gögnum er hana varðar eða aðgangur takmarkaður að slíkum gögnum og því sé óhjákvæmilegt að vísa málinu frá ráðuneytinu.

Í bréfi dags. 11. júní 2012 til borgarstjóra Reykjavíkurborgar fór [B] þess á leit að mál [A] yrði endurupptekið og að fyrri ákvörðun borgaryfirvalda, um að endurráða ekki [A] í starf […] á vormisseri 2010, afturkölluð. Bréfi [B] fylgdu gögn og rökstuðningur fyrir endurupptökunni.

Með bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 25. júlí  2012 til [B], var honum tilkynnt að búið væri að fara yfir erindið og gögn málsins. Væri talið að skilyrðum 24. gr. stjórnsýslulaga um endurupptöku máls væri ekki fullnægt. Stefnt væri að því að leggja fram tillögu um að endurupptökubeiðni [B] yrði hafnað á fundi borgarráðs þann 23. ágúst 2012. Var [B] boðið að koma á framfæri athugasemdum við þá fyrirætlan.

Með bréfi [B] til skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. ágúst 2012 var óskað eftir upplýsingum um það hvernig málið yrði kynnt fyrir borgarráði. Kom fram í bréfinu að [B] taldi að ástæður þær sem skrifstofustjórinn taldi fyrir því að hafna endurupptökunni væru svo knappar að borgarráð myndi ekki geta tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu málsins nema lögð yrði fram ítarlegri greinargerð af hálfu skrifstofu borgarstjóra. Óskaði [B] eftir því að fá afrit af slíkri greinargerð yrði hún lögð fyrir borgarráð. Jafnframt var þess óskað að allir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar, sem kæmu til með að taka ákvörðun um málið, fengju afrit af endurupptökubeiðninni sem beint var til borgarstjóra með bréfi dags. 11. júní 2012.

Á fundi borgarráðs þann 30. ágúst 2012 var beiðni [B] um endurupptöku á máli [A] hafnað. Var honum tilkynnt það með bréfi dags. 31. ágúst 2012.

Stjórnsýslukæra [B] barst ráðuneytinu þann 28. nóvember 2012.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 7. desember 2012, var Reykjavíkurborg gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 14. janúar 2013.

 Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. janúar 2013, var [B] gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 31. janúar 2013.

 Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök [B]

[B] bendir á að í endurupptökubeiðni til borgarstjóra hafi verið tilgreindar þrjár meginástæður fyrir endurupptöku málsins. Í fyrsta lagi meint mannréttindabrot borgarinnar gegn [A], í öðru lagi óvönduð stjórnsýsla Reykjavíkurborgar þegar [B] og [A] leituðu eftir skýringum og gögnum um málið og í þriðja lagi fordæmisgildi málsins. Bendir [B] á að í beiðninni hafi í raun falist sú bón til borgarstjóra að hann tæki afstöðu í málinu á breiðum grundvelli, m.a. á grundvelli góðs siðferðis og mannréttindastefnu borgarinnar.  

 Í endurupptökubeiðninni var þess einnig krafist, að borgarstjóri afturkallaði fyrri ákvörðun um að endurráða ekki [A] í starf […] á vormisseri 2010. Með því yrði viðurkennt það misrétti sem [A] hefði verið beitt og hún fengi sanngjarnar bætur vegna starfsmissisins. Þá hafi [A] verið tilbúin að falla frá fjárkröfu ef borgarstjóri gæfi út yfirlýsingu um að hann harmaði það misræmi sem verið hafi milli orða og verka hjá borginni í málinu og borgarstjórinn myndi einnig sjá til þess að endurskoðun á verklagi við afgreiðslu sambærilegra mála yrði hafin á kjörtímabilinu.

 Bendir [B] á að með bréfinu til borgarstjóra dags. 11. júní 2012 og fylgigögnum þess hafi málið í fyrsta skipti í heild sinni verið lagt fyrir æðsta embættismann borgarinnar. Málið hafi verið rakið ítarlega og rök með tilvísunum í gögn málsins sett fram um meint lögbrot borgarinnar. Í kæru kemur fram að [B] hafi áður gert tilraun til þess að kynna málið í heild fyrir borgaryfirvöldum, þ.e. mannauðsstjóra borgarinnar og formanni borgarráðs, en án árangurs. Að leggja málið fram í heild fyrir æðsta embættismann borgarinnar sé í raun gild ástæða fyrir endurupptöku að mati [B].

 [B] bendir á að ný gögn hafi komið fram og vísar hann þar til vottorðs trúnaðarlæknis Reykjavíkurborgar um vinnufærni [A], dags. 19. nóvember 2009, og skrifleg yfirlýsing samstarfskonu [A] um ágæti [A] sem […]. Ummæli samstarfskonunnar styðja einmitt þá mynd sem dregin hafi verið upp í fyrri greinargerðum af [A], þ.e. sem góðum og samviskusömum starfsmanni. Þá var borgarstjóra í bréfinu frá 11. júní 2012 boðið að fá frekari gögn um málið en hann hafi ekki þegið það.

 Þá kemur einnig fram í kæru [B] að heimilt sé að taka upp mál að nýju, þótt ár sé liðið frá stjórnvaldsákvörðun ef veigamiklar ástæður mæla með því. Telur hann að mál þetta einmitt vera þannig að skilyrðið um veigamiklar ástæður sé uppfyllt. Um meint mannréttindabrot Reykjavíkurborgar hafi verið að ræða gegn [A], fyrrum starfsmanni borgarinnar. Brot borgarinnar stríði þannig gegn stjórnskipun Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt bendir [B] á að það hafi einnig áhrif í máli þessu að jafn fjölmennt stjórnvald og Reykjavíkurborg hafi ekki reynt að leiðrétta þá óvönduðu stjórnsýslu sem [A] hafi mátti þola. Þá telur [B] að það hafi varðað [A] miklu að borgarráð yrði við beiðni hennar um endurupptöku. Um ómálefnalega mismunun af hálfu borgarinnar hafi verið að ræða vegna veikinda [A] auk þess sem öll stjórnsýsla borgarinnar í málinu hafi verið forkastanleg.

 [B] bendir einnig á að Reykjavíkurborg hafi ekki orðið við beiðni hans og rökstuddri ákvörðun sinni en það staðfesti einmitt þá óvönduðu stjórnsýslu sem fram fari í borginni. Þá hafi ekki verið gætt meðalhófs í því að sýna einstaklingi sem stóð höllum fæti þá virðingu að taka mál hans til skoðunar og fjalla um hvaða jákvæðu lærdóma borgaryfirvöld hefðu getað dregið af máli hans. Þá vísar [B] einnig til bæklings umboðsmanns Evrópusambandsins, The European Code og Good Administrative Behauior, en hann telur að Reykjavíkurborg hafi á engan hátt virt þau tilmæli sem þar koma fram. Telur [B] að gæði stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í samskiptum við [A] í málinu hafi verið forkastanleg og í engu samræmi við lög og reglur.

 [B] hafnar þeirri staðhæfingu Reykjavíkurborgar að samþykki ,,annarra málsaðila“ hafi skort og því hafi skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga ekki verið uppfyllt. Telur [B] óljóst hvað Reykjavíkurborg eigi við með orðunum ,,öðrum aðilum málsins“ í þessu sambandi. Vísar hann til álits umboðsmanns Alþingis í máli 3852/2002, þar sem komi fram að almennt hafi verið talið að aðili máls á lægra stjórnsýslustigi eigi jafnframt kæruaðild að sama máli. Þegar um stjórnsýslukæru sé að ræða teljist hins vegar lægra sett stjórnvald sem tók hina kærðu ákvörðun yfirleitt ekki aðili að kærumálinu.

 [B] bendir á að [A] hafi verið meðal hæfustu umsækjenda um starf […] þegar tímabundin ráðning hennar hafi runnið út 31. desember 2009. Vísar hann til þess að í kjarasamningi Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar komi fram að við starfsráðningar hjá borginni skuli hæfasti umsækjandinn ganga fyrir. Þrátt fyrir þetta hafi [A] ekki verið ráðin til starfsins heldur reynsluminni og vanhæfari starfsmenn teknir fram yfir hana. Telur [B] þetta hafa verið ólögmætt af hálfu borgarinnar.

 Þá bendir [B] á að hann hafi í greinargerð sinni til borgarinnar, dags. 11. júní 2012, bent á að mismunun hafi verið á starfskyldum […] sem hafi hugsanlega átt rót sína að rekja til þjóðernis, ættar- eða vinatengsla starfsmannsins við yfirmenn. Kemur fram hjá [B] að hefði Reykjavíkurborg orðið við beiðni hans um endurupptöku þá hefði hann, í trúnaði, upplýst um nafn viðkomandi starfsmanns.

 Einnig bendir [B] á að hann hafi ítrekað óskað eftir því við formann borgarráðs að fá afrit af verklagsreglum Reykjavíkurborgar þegar upp koma mál um meint mannréttindabrot, og telur [B] ámælisvert að formaður borgarráðs hafi ekki svarað ítrekuðum erindum hans. Tilgangur beiðninnar hafi verið að leiða í ljós hvort [A] hafi verið mismunað í málsmeðferð eftir að hún og [B] lýstu því yfir að þau teldu að borgin hefði brotið mannréttindi þegar borgin hafnaði því að endurráða [A] á vormisseri 2010.  Það að fá svar u.þ.b. einu ári eftir að erindið var formlega borið upp og eftir að málsmeðferð formanns borgarráðs hafði verið kærð telur [B] ekki uppfylla 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða né 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar.

 Í kæru mótmælir [B] þeim röksemdum sem koma fram í bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar þar sem segir að ekki verði séð að ákvarðanir við meðferð máls [A] hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og/eða að atvik að baki ákvörðuninni hafi breyst verulega frá því að hún var tekin. Vísar [B] til þess að með endurupptökubeiðni hans hafi fylgt átta blaðsíðna greinargerð og þriggja blaðsíðna yfirlit um tímaröð helstu atburða.

 [B] telur að röksemdir borgarráðs uppfylli ekki skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem leiðbeiningarskyldu borgarinnar hafi verið ábótavant en borgin hafi hvorki leiðbeint þeim um að höfnun á endurupptökubeiðninni væri kæranleg til ráðuneytisins né að unnt væri að óska eftir frekari rökstuðningi borgarráðs.

 [B] vísar til þess að verkefnastjóri og samstarfskona [A] hafi ekki viljað að hann vitnaði til ummæla hennar um [A] og telur hann það skýrt dæmi um þöggun í máli þessu sem sennilega sé til komin vegna þrýstings frá öðrum. Telur hann að það að stjórnvöld eða starfsmenn þaggi niður jákvæð ummæli um [A] geti hugsanlega talist einelti. Fer [B] fram á að það við ráðuneytið að það kanni þennan grun um þöggun.

IV.       Málsástæður og rök Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg telur ljóst að lagaskilyrði til endurupptöku hafi ekki verið uppfyllt. [B] byggi á því að röksemdafærsla Reykjavíkurborgar fyrir höfnuninni hafi ekki uppfyllt skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga auk þess sem Reykjavíkurborg hafi ekki leiðbeint um rétt til rökstuðnings og kæruleiðir. Í þessu sambandi bendir Reykjavíkurborg á að gildissvið stjórnsýslulaga taki eingöngu til stjórnvaldsákvarðana í merkingu 2. mgr. 1. gr. laganna. Tímabundnir ráðningarsamningar falli sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma og ákvörðun stjórnvalds um að láta tímabundinn ráðningarsamning renna sitt skeið sé því ekki stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. laganna og því verði slík ákvörðun ekki endurupptekin. Þegar af þessari ástæðu beri að vísa kröfulið nr. 1 frá ráðuneytinu.

Verði ekki fallist á framangreinda frávísunarkröfu bendir Reykjavíkurborg á að lagaskilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku máls hafi ekki verið fyrir hendi og í bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar til [B], dags. 31. ágúst 2012, er það rakið með rökstuddum hætti. Bendir borgin jafnframt á að hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti sem og nægilega rökstudd. Þá sé ljóst að kæran hafi verið tekin til meðferðar þrátt fyrir að farist hafi fyrir að leiðbeina [B] um kæruleiðir og kærufresti.

Varðandi þá kröfu [B] að ráðuneytið úrskurði um að það hvort formaður borgarráðs og aðrir kjörnir fulltrúar sem ekki hafi svarað skriflegum erindum hans hafi brotið siðareglur kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar sem og 29. gr. sveitarstjórnarlaga tekur Reykjavíkurborg fram að með bréfi dags. 9. janúar 2013 hafi formaður borgarráðs svarað áður fram komnu erindi [B] dags. 30. mars 2012 á þá leið að umbeðnar verklagsreglur væru ekki til. Þá telur Reykjavíkurborg engan vafa á því að formaður borgarráðs hafi í störfum sínum virt fyrrgreindar siðareglur og 29. gr. sveitarstjórnarlaga. Málflutningi [B] um annað er mótmælt sem órökstuddum. Þá telur borgin að tilvísun [B] til skorts á svörum frá öðrum fulltrúum Reykjavíkurborgar heldur en formanni borgarráðs sé svo óljós að ekki sé unnt að bregðast við því. Reykjavíkurborg telur því að hafna beri kröfuliðum nr.  2 og 3.

Varðandi kröfulið nr. 4, þ.e. að fram fari rannsókn á meintri mismunun er varðar starfsskyldur […] á haustmisseri 2009 telur Reykjavíkurborg að vísa eigi kröfunni frá þar sem kærufrestur sé liðinn en burtséð frá því þá standi engin efni til fyrrgreindrar rannsóknar.

Varðandi efni kröfuliða nr. 5, 6 og 9 bendir Reykjavíkurborg á að efni þeirra sé hið sama og ráðuneytið hafi úrskurðað um í málum nr. IRR11040180 og IRR11100274. Í fyrri úrskurðum komi fram að kæru skuli bera fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög kveði á um annað, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Í úrskurðinum hafi jafnframt verið vísað til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að kæru skuli ekki sinna ef liðið er meira en ár síðan tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun. Var það niðurstaða ráðuneytisins að meira en ár væri liðið síðan ákvörðunin var tilkynnt [A] og því væri óhjákvæmilegt að vísa málinu frá. Umboðsmaður Alþingis gerði ekki athugasemd við þessa niðurstöðu ráðuneytisins. Í síðari úrskurðinum vísaði ráðuneytið umræddum kærulið frá á nýjan leik, enda laut hann að sama máli og þegar hafði verið fjallað um í fyrri úrskurðinum. Burtséð frá því að kærufrestur sé löngu liðinn vegna kröfuliða 5, 6 og 9 þá telur Reykjavíkurborg heldur ekkert tilefni til þess að verða við þessum kröfum.

Reykjavíkurborg bendir á að upphaf málsins megi rekja til þeirrar ákvörðunar borgarinnar að láta tímabundinn ráðningarsamning [A] renna sitt skeið. Ítrekar borgin það sem áður hefur komið fram að sú ákvörðun hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Því hafi Reykjavíkurborg verið óskylt að leiðbeina [A]/[B] um kærufresti vegna umræddrar ákvörðunar. Hins vegar fórst fyrir hjá borginni að leiðbeina [A]/[B] um kærufrest og kæruleiðir vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar, dags. 30. ágúst 2012, þess efnis að hafna endurupptöku máls varðandi endurráðningu frístundarráðgjafa hjá ÍTR. Bendir borgin á að mistökin hafi hins vegar ekki komið að sök þar enda hafi kæran, þ.á.m. kröfuliður nr. 1, hlotið meðferð.

 Reykjavíkurborg telur að engin efni standi til að hefja rannsókn á meintri þöggun.

 Þá tekur Reykjavíkurborg fram að þann 9. janúar 2013 hafi formaður borgarráðs svarað erindi [B] frá 30. mars 2012 á þá leið að umræddar verklagsreglur væru ekki til. Því beri að hafna kröfulið nr. 2

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Kæra [B] lýtur að synjun borgarráðs á beiðni hans um endurupptöku á máli [A] og að málsmeðferð og stjórnsýslu borgarinnar í því sambandi og frá upphafi málsins 2009.


Þann 1. janúar 2012 tóku gildi ný sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011 er leystu af hólmi eldri sveitarstjórnarlög. Beiðni [B] um endurupptöku á máli [A] var beint til borgarráðs með bréfi dags. 11. júní 2012. Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 höfðu því tekið gildi þegar endurupptökubeiðni [B] var sett fram.

 

Við gildistöku laga nr. 138/2011 varð sú breyting, að ráðherra hefur ekki lengur eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaga í starfsmannamálum, sbr. 2. mgr. 109. gr. laganna. Þrátt fyrir 2. mgr. 109. gr. er þó hægt að bera undir ráðherra ákvörðun sveitarfélags um uppsögn starfsmanns, enda eigi hún rætur að rekja til brota hans í starfi, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, til athafna í starfi eða utan þess sem þykja ósamrýmanlegar starfinu eða til annarra sambærilegra ástæðna, sbr. 3. mgr. 111. gr. laganna. 

Endurupptökubeiðni [B] var beiðni um endurupptöku á starfsmannamáli er varðaði [A] þ.e. að taka upp þá ákvörðun borgarinnar að ráða [A] ekki í starf frístundaráðgjafa. Beiðni [B] um endurupptöku var borin fram eftir gildistöku hina nýju sveitarstjórnarlaga og sama á við um ákvörðun Reykjavíkurborgar um að hafna beiðninni. Af þeirri ástæðu telur ráðuneytið ljóst að um ákvörðun sé að ræða sem ekki verði borin undir ráðuneyti enda hefur ráðuneytið ekki lengur eftirlit með starfsmannamálum sveitarfélaga. Undantekningarákvæði 2. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga getur ekki komið til álita í málinu enda fól synjun Reykjavíkurborgar á endurupptöku ekki í sér uppsögn [A].

 Með sömu rökum standa valdheimildir ráðuneytisins ekki til þess að fjalla um málsmeðferð Reykjavíkurborgar í máli [A]  eftir 1. janúar 2012 svo sem krafist er í síðari kröfulið nr. 5. Kröfuliðum nr. 1 og síðari kröfulið nr. 5 ber því að vísa frá ráðuneytinu.

 Hluti af kröfugerð [B] verður þó ekki skilinn á annan veg en þann að hann taki til málsmeðferðar Reykjavíkurborgar fyrir gildistöku hinna nýju sveitarstjórnarlaga. Er ráðuneytið þar að vísa til kröfuliðar nr. 4, fyrri hluta kröfuliðar nr. 5 og kröfuliðar nr. 8. Auk þess sem kröfuliður nr. 6 er skýr þess efnis að sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að endurráða ekki [A] í starf […] verði ógilt. Þá lýtur kröfugerð [B] í kröfulið nr. 7 m.a. að því að Reykjavíkurborg hafi vænrækt leiðbeiningarskyldu varðandi þá ákvörðun að endurráða ekki [A] í starf […]. Eins og áður hefur verið rakið er grundvöllur deilumála [B] og borgarinnar sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna því að endurráða [A] í starf […]. Í úrskurði ráðuneytisins, uppkveðnum þann 2. maí 2011, í máli [A] gegn Reykjavíkurborg kemur eftirfarandi fram í niðurstöðu ráðuneytisins:

,,...[A] hafi verið tilkynnt um hina kærðu ákvörðun þann 23. október 2009, eða í síðasta lagi í lok nóvember 2009. Var ákvörðunin svo kærð til ráðuneytisins með bréfi, dags. 15. apríl 2011. Við hvort tímamarkið sem miðað er við, 23. október 2009 eða lok nóvember 2009, er ljóst að liðið er mun meira en ár síðan tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun en skv. 2. mgr. 28. gr. skal ekki sinna kærum sem berast svo seint. Ekki er gert ráð fyrir að afsakanlegar ástæður geti réttlætt frávik frá ákvæði 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga (sjá álit umboðsmanns Alþingis frá 26. október 2000 í máli nr. 2770/1999). Rétt er að taka fram í því sambandi að í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar aðili fer fram á rökstuðning fyrir ákvörðun skv. 21. gr. laganna hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga skal bera fram beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun og verður að telja að það sé frumskilyrði þess að kærufrestur hefjist ekki fyrr en að rökstuðningi fengnum, að slík beiðni berist innan tilskilina tímamarka. Það að stjórnvald vanræki að veita rökstuðning, eða leiðbeina aðila um rétt hans til að fá ákvörðun rökstudda kann að teljast afsakanleg ástæða í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimilar að kæra verði tekin til meðferðar þó að hún berist að loknum hinum almenna þriggja mánaða kærufresti (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 272), en getur hins vegar ekki haggað fortakslausu ákvæði 2. mgr. 28. gr. um að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að tilkynnt var um ákvörðun. Telur ráðuneytið óhjákvæmilegt af þeim sökum að vísa málinu frá.“ 

Ráðuneytið vísar til þess rökstuðnings sem fram kemur í fyrrgreindum úrskurði og ítrekar það sem þar segir, þ.e. að lagaskilyrði standi ekki til þess að ráðuneytið geti fjallað um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar sem tekin var síðla árs 2009 þess efnis að ráða ekki [A] í starfs frístundaráðgjafa hvort sem um er að ræða málsmeðferð eða kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar. Kröfulið nr. 4, fyrri hluta kröfuliðar nr. 5 auk kröfuliðar nr. 6 og 8  og þess hluta kröfuliðar nr. 7 er varðar leiðbeiningarskyldu við upphaf málsins, skal vísað frá ráðuneytinu. Þá verður ekki betur séð en að fyrrgreindar kröfur lúti að meira og minna að sama máli og ráðuneytið fjallaði um í fyrrgreindum úrskurði og er ekkert fram komið sem getur breytt niðurstöðu hans.

 Varðandi þann hluta kröfulið nr. 7 er lýtur að því að ráðuneytið áminni Reykjavíkurborg vegna vanrækslu á leiðbeiningarskyldu varðandi endurupptökubeiðnina skal ítrekað það sem áður er komið fram að eftirlitsskylda ráðuneytisins tekur ekki til stjórnsýslu sveitarfélaga í starfsmannamálum. Því er ljóst að Reykjavíkurborg vanrækti ekki leiðbeiningarskyldu sína þegar [B] var tilkynnt um synjun borgarráðs á endurupptökubeiðni hans enda ekki um kæranlega ákvörðun að ræða. Skal fyrgreindum hluta kröfuliðar nr. 7 þegar af fyrrgreindum ástæðum vísað frá ráðuneytinu.

 Varðandi kröfulið nr. 2 tekur ráðuneytið fram að formaður borgarráðs hefur með bréfi dags. 9. janúar 2013 svarað erindi [B] og þegar af þeirri ástæðu er ekki tilefni til að verða við þeirri kröfu [B]. Vegna þess langa tíma sem leið frá því að erindi [B] var sent og þar til því var svarað vill ráðuneytið árétta þá grundvallarreglu að stjórnvöldum ber að svara þeim erindum sem þeim berast svo fljótt sem unnt er.

 Loks tekur ráðuneytið fram að valdsvið þess nær ekki til þess að úrskurða um hvort kjörnir sveitarstjórnarmenn hafi brotið siðareglur sem settar hafa verið á grundvelli 29. gr. sveitarstjórnarlaga en í 1. málsl. 4. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að Samband íslenskra sveitarfélaga skipi nefnd sem veitt geti álit um siðareglur og um ætluð brot á þeim. Kröfulið nr. 3 skal því vísað frá ráðuneytinu

 Varðandi kröfulið nr. 9 um að ráðuneytið hefji frumkvæðisathugun á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í máli [A], telur ráðuneytið ekkert fram komið í málinu sem gefi tilefni til slíks. Kröfu [B] þess efnis er því hafnað.

 Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Eftirtöldum kröfum [B], f.h. [A] er vísað frá ráðuneytinu:

Að innanríkisráðuneytið úrskurði hvort höfnun borgarráðs á endurupptöku máls [A] þann 30. ágúst 2012 hafi verið lögleg og í samræmi við vandaða stjórnsýslu.

 Að innanríkisráðuneytið úrskurði hvort formaður borgarráðs og aðrir kjörnir fulltrúar, sem ekki hafa svarað skriflegum erindum undirritaðs, hafi brotið siðareglur kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar og 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 Að rannsakað verði hvort málefnaleg rök liggi fyrir mismunum á […]á haustmisseri 2009 sem lýst hefur verið í greinargerðum með málinu.

 Að meðferð Reykjavíkurborgar á málinu frá upphafi þegar [A] var neitað um endurráðningu verði rannsökuð og úrskurðað um gæði stjórnsýsluhátta Reykjavíkurborgar því viðkomandi. Að sérstaklega verði aðgætt hvort Reykjavíkurborg hafi haft skrifleg gögn ,,annarra málsaðila“ sem ekki kærðu sig um endurupptöku þegar borgarráð hafnaði endurupptökubeiðni [B] í ágúst 2012.

 Að ráðuneytið beiti 114. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og ógildi ákvörðun Reykjavíkurborgar að endurráða ekki [A] í starf […] á vormisseri 2010.

 Að ráðuneytið áminni Reykjavíkurborg vegna ítrekaðrar vanrækslu á leiðbeiningarskyldu, (sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga) allt frá upphafi málsins, sem valdið hefur málsaðila skaða, m.a. þegar hann uppfyllti ekki skilyrði um kærufrest í upphafi málsins.

 Að ráðuneytið rannsaki grun [B] um þöggun í máli [A] gegn Reykjavíkurborg.

 Eftirtöldum kröfum [B],  f.h. [A], er hafnað:

Að innanríkisráðuneytið krefji formann borgarráðs svara við erindi [B] þann 30. mars. 2012 og styðjist við þau svör við úrskurð í málinu. 

Að ráðuneytið hefji frumkvæðismál vegna meðferðar Reykjavíkurborgar á máli [A], sbr. 112. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta