Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Kópavogsbær - Leiðbeiningarskylda, rökstuðningur f.h. fjölskipaðs stjórnvalds

Árni J. Valsson og Halldóra Harðardóttir
29. júní 2007
FEL 05110005

Fjallalind 16

201 Kópavogi

Hinn 29. júní 2006 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

úrskurður:

Með erindi, dags. 31. nóvember 2005 (á að vera 31. október), sem móttekið var í

félagsmálaráðuneytinu þann 2. nóvember sama ár, kærðu Árni J. Valsson og Halldóra

Harðardóttir úthlutun Kópavogsbæjar á byggingarlóðum sem fram fór í bæjarráði 28. júlí 2005

og var staðfest af bæjarstjórn Kópavogsbæjar þann 30. ágúst 2005.

Erindi kærenda var sent kærða, Kópavogsbæ, til umsagnar með bréfi, dags. 16. nóvember 2005.

Umsögn kærða er dagsett 2. desember 2005. Með bréfi, dags. 5. desember 2005, var kærendum

gefinn kostur á að gera athugasemdir vegna umsagnar kærða. Með bréfi, dags. 21. desember

2005, senda kærendur athugasemdir. Með bréfi, dags. 28. desember 2005, voru athugasemdir

kærenda sendar kærða til skoðunar. Frekari athugasemdir bárust frá kærða með bréfi, dags. 16.

janúar 2006. Með bréfi, dags. 8. mars 2006, óskaði ráðuneytið eftir afriti af auglýsingu um

lóðaúthlutun og jafnframt var óskað eftir eintaki af þeim gögnum og leiðbeiningum sem

umsækjendur um byggingarlóðir fengu í hendur frá Kópavogsbæ. Umbeðin gögn bárust þann 28.

mars 2006.

I. Málavextir.

 

Kærendur hafa fimm sinnum sótt um byggingarrétt fyrir íbúðarhús hjá Kópavogsbæ og ætíð

verið synjað, sbr. bréf Kópavogsbæjar, dags. 31. október 2003, 26. nóvember 2003, 11. mars

2004, 31. ágúst 2004 og 5. ágúst 2005, þar sem tilkynnt var um synjun.

Umsókn kærenda, sem dagsett var 28. júní 2005, var útfyllt á þar til gert eyðublað

Kópavogsbæjar, þar sem fram komu upplýsingar um umsækjendur. Kærendur sóttu sem fyrsta

val um lóðina Fróðaþing 37 og til vara lóðirnar Fróðaþing 38 og Frostaþing 7. Á fundi bæjarráðs

Kópavogsbæjar þann 28. júlí 2005 fór lóðaúthlutun fram. Gerð var tillaga um úthlutun lóða sem

staðfest var af bæjarstjórn Kópavogsbæjar á fundi þann 30. ágúst sama ár og voru kærendur ekki

á meðal þeirra sem fengu lóð. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, óskuðu kærendur eftir

rökstuðningi vegna synjunar um lóðarúthlutun sem þeim var tilkynnt með bréfi, dags. 5. ágúst

2005. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2005, fengu kærendur rökstuðning bæjarins.

Rökstuðningur Kópavogsbæjar fyrir synjuninni, sem kærendur óskuðu eftir, barst með bréfi,

dags. 30. ágúst 2005. Þar segir meðal annars: „Með umsókn yðar fylgdi bráðabirgðagreiðslumat

frá SPRON og fram kom að staðfesting á því væri án ábyrgðar. Ekki fylgdi yfirlýsingu banka eða

lánastofnunar um lánafyrirgreiðslu. Yfirlýsing þessi uppfyllti þannig ekki skilyrði um mat á

greiðsluhæfi og yfirlýsingu um fjármögnun framkvæmda. Því miður var því ekki unnt að verða

við umsókn yðar að þessu sinni, en rétt er að benda á að á næstu mánuðum verða auglýstar til

úthlutunar fleiri lóðir í Kópavogi.“

 

Í gögnum málsins kemur fram að 52 aðilar hafi sótt um lóðina Fróðaþing 37, 6 sóttu um lóðina

Fróðaþing 38 og 2 sóttu um lóðina Frostaþing 7.

II. Málsástæður aðila.

 

Í kæru kemur fram að kærendur telja bæjarráð Kópavogsbæjar hafa mismunað umsækjendum á

grundvelli þess frá hvaða bankastofnun mat á greiðsluhæfi hafi verið fengið og að bæjarráð hafi

tekið geðþóttaákvarðanir við úthlutun lóða. Jafnræðis milli umsækjenda hafi ekki verið gætt og

ákvörðun bæjarráðs hafi verið byggð á ómálefnalegum grundvelli þar sem réttaröryggis

borgaranna hafi ekki verið gætt.

Kærendur greina frá því að engar leiðbeiningar hafi verið gefnar við lóðaúthlutunina um hvernig

mat á greiðsluhæfi skuli líta út frá bönkum. Með bréfi, dags. 31. október 2003, var kærendum

synjað í fyrsta skiptið og þar segir orðrétt: „Bent skal á að leggja þarf fram nýja umsókn um

byggingarrétt á þeim lóðum. Aftur á móti er ekki nauðsynlegt að þeim fylgi staðfesting banka eða

lánastofnana um greiðsluhæfi yðar að því tilskildu að slík gögn hafi fylgt fyrri umsókn yðar.“

 

Í fyrstu tvö skipin sem kærendum var synjað um lóð var þeim hvorki leiðbeint um kæruleið né

um rétt þeirra til að biðja um rökstuðning vegna synjunarinnar. Í þeim fimm synjunarbréfum sem

kærendur hafa fengið frá Kópavogsbæ vegna lóðarumsókna hefur verið vísað til þess að þeim

hafi verið synjað á grundvelli þess að fjöldi umsókna hafi verið svo mikill og að ekki hafi verið

hægt að verða við umsókn þeirra að sinni.

Það er síðan með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, að kærendur óska eftir rökstuðningi vegna synjunar

um lóðarúthlutun sem þeim barst með bréfi, dags. 5. ágúst 2005. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2005,

fá kærendur rökstuðning fyrir synjun Kópavogsbæjar fyrir lóðarúthlutuninni. Þá fyrst kemur í

ljós að kærendum hafði verið synjað á grundvelli ófullnægjandi greiðslumats frá Sparisjóði

Reykjavíkur og nágrennis (SPRON).

Kærði vísar til þess að með umsókn kærenda um lóð hjá Kópavogsbæ hafi fylgt

bráðabirgðagreiðslumat frá SPRON. Í greiðslumatinu hafi komið fram að staðfesting um

greiðslugetu væri án ábyrðar frá SPRON. Kærði telur það skjóta skökku við miðað við langa

viðskiptasögu kærenda við SPRON að greiðslumat skuli ekki hafa verið án skilyrða og vandaðra.

Kærði greinir frá því að slíkar yfirlýsingar séu á ábyrgð þeirra viðskiptastofnana sem þær gefi út.

Það sé ekki hlutverk Kópavogsbæjar að leggja fyrir bankastofnanir forskrift að því hvernig þær

staðfesti greiðslumat viðskiptavina sinna og ætti bönkunum að vera ljóst að fyrirvari á umsögn

um greiðslumat kunni að daga úr vægi þeirra.

Við móttöku umsókna um lóðir veittu starfsmenn bæjarskipulags nánari upplýsingar varðandi

umsóknir og leituðu margir ráða og fengu upplýsingar. Hins vegar hafi fjöldi umsækjenda verið

mikill. Því er mótmælt að leiðbeiningarskylda hafi ekki verið fullnægjandi. Verklagsreglur taki

hins vegar ekki til þess að samband sé haft við þá aðila sem ekki fengu fullnægjandi greiðslumat

hjá sinni viðskiptastofnun og óskað eftir því að þeir komi með nýtt greiðslumat. Kærði byggir á

því að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið við afgreiðslu umsóknar kærenda.

III. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Erindi kærenda er tekið til úrskurðar skv. 103 gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari

breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal kæra berast innan

þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Fari aðili fram á

rökstuðning skv. 21. gr. hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur

honum, sbr. 3. mgr. sömu greinar.

Kröfur kærenda beinast að því að kannað verði hvort farið hafi verið eftir þeim reglum sem gilda

um málsmeðferð við ákvarðanatöku um úthlutun byggingarlóða hjá Kópavogsbæ. Kærendur

höfðu sótt um úthlutun á byggingarrétti hjá Kópavogsbæ í fimm skipti og verið synjað jafn oft.

Eftir að kærendur höfðu fengið tilkynningu um synjun með bréfi, dags. 5. ágúst 2005, óskuðu

þeir eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, en það höfðu þeir ekki

gert vegna fyrri synjana. Í bréfi sem dagsett er 11. mars 2004 var kærendum bent á mögulega

kæruleið vegna synjunar um úthlutun byggingarréttar, sem þeir nýttu sér ekki. Með hliðsjón af

því verður ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í úrskurði þessum verður því einungis tekið til athugunar hvort málsmeðferð og ákvörðun

Kópavogsbæjar við lóðarúthlutun sem fram fór í bæjarráði 28. júlí 2005 og tilkynnt var

kærendum með bréfi, dags. 5. ágúst 2005, ásamt rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun, sbr. bréf

dags. 30. ágúst 2005, hafi verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og góða stjórnsýsluhætti.

Hlutverk sveitarfélaga er skv. 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga að annast þau verkefni sem þeim eru

falin í lögum og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eins og fært þykir á hverjum

tíma, sbr. og 5. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, nr.

262/1990, með síðari breytingum. Í sveitarstjórnarlögum er ekki kveðið á um hvernig standa

skuli að framkvæmd lóðaúthlutunar en samkvæmt venju og eðli máls verður þó að telja að eitt af

hlutverkum sveitarfélaga sé úthlutun byggingarlóða.

Við málsmeðferð og ákvörðun um úthlutun byggingarlóða verða sveitarfélög að fara eftir þeim

lögum og reglum sem almennt gilda um afgreiðslu stjórnsýslumála. Ákvörðun um úthlutun

byggingarlóða er stjórnsýsluákvörðun og eru sveitarstjórnir því bundnar af málsmeðferðarreglum

stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, við beitingu þess valds sem þeim er falið samkvæmt

sveitarstjórnarlögum.

Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar

gerir bæjarráð tillögur til bæjarstjórnar um afgreiðslu einstakra mála sem það fær til meðferðar.

Bæjarráði er þó heimil fullnaðarafgreiðsla mála sem ekki varða verulega fjárhag bæjarsjóðs eða

stofnana hans, enda sé ekki ágreiningur um afgreiðslu málsins í bæjarráði eða við bæjarstjóra.

Fram kemur í 1. mgr. 12. gr. samþykktar um stjórn Kópavogsbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar

að bæjarstjórn haldi fundi annan og fjórða þriðjudag hvers mánaðar nema í júlí, ágúst og

desember, en þá skal aðeins halda einn fund og þá þriðja þriðjudag hvers mánaðar. Á fundi

bæjarstjórnar Kópavogsbæjar þann 30. ágúst 2005 voru tillögur bæjarráðs frá 28. júlí 2005 um

úthlutun byggingarréttar samþykktar samhljóða. Þegar ákvörðun bæjarráðs var tekin 28. júlí

2005 má ætla að bæjarstjórn hafi verið í sumarleyfi. Því gat bæjarráð lögum samkvæmt tekið

ákvarðanir um úthlutun byggingarréttar án frekara samþykkis bæjarstjórnar skv. 3. mgr. 39. gr.

sveitarstjórnarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 69/2004 um breytingu á þeim lögum.

Þegar eftir að bæjarráð gerði tillögur um úthlutun byggingarréttar var umsækjendum sent bréf

þar sem upplýst var um afgreiðslu umsókna, sbr. bréf sem sent var kærendum dags. 5. ágúst

2005. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er ákvörðunin bindandi eftir að hún er komin til

aðila. Þegar litið er til þess telur ráðuneytið óljóst hvaða tilgangi það þjónaði að leggja málið

fyrir bæjarstjórn til samþykktar. Það er mat ráðuneytisins að framangreind málsmeðferð sé til

þess fallin að gera stjórnsýsluna óskýra og villandi í augum íbúanna, sem er andstætt tilgangi

stjórnsýslulaga.

Í staðlaðri umsókn um byggingarrétt fyrir íbúðarhús hjá Kópavogsbæ er gert ráð fyrir því að sótt

sé um eina lóð sem aðalval og tvær til vara. Með umsókn um byggingarrétt fyrir íbúðarhús, dags.

28. júní 2005, sóttu kærendur sem aðalval um lóðina Fróðaþing 37 og til vara Fróðaþing 38 og

Frostaþing 7. Í fjórða lið í reglum Kópavogsbæjar um úthlutun á byggingarrétti fyrir

íbúðarhúsnæði sem staðfest var í bæjarráði Kópavogs 28. nóvember 2002 er gerður áskilnaður

um mat á greiðsluhæfi og mögulega lánafyrirgreiðslu frá banka. Greinin er svohljóðandi:

„Einstaklingar, sem sækja um byggingarrétt, skulu leggja fram skriflega staðfestingu frá banka

eða lánastofnun um greiðsluhæfi og mögulega lánafyrirgreiðslu umsækjanda vegna

fyrirhugaðrar húsbyggingar. Í auglýsingum um úthlutun á byggingarrétti skal tilgreina

lágmarksviðmið eins og það er á hverjum tíma skv. ákvörðun bæjarráðs.“ Reglum

Kópavogsbæjar var breytt hinn 8. september 2005 og nú kemur þar fram að yfirlýsing banka

skuli vera án fyrirvara.

Með umsókn kærenda um byggingarlóð í Kópavogi fylgdi yfirlýsing þar sem staðfest var að

kærendur hefðu staðist bráðabirgðagreiðslumat hjá SPRON allt að upphæð 25.000.000 kr. Fram

kemur að staðfestingin er án ábyrgðar frá SPRON.

Kópavogsbær synjaði kærendum um úthlutun byggingarréttar með bréfi, dags. 5. ágúst 2005, þar

sem þeim er tilkynnt að á grundvelli úthlutunarreglna hafi ekki verið hægt að verða við

umsókninni að þessu sinni, enda hafi umsóknir verið margfalt fleiri en lóðir til úthlutunar.

Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að stjórnvald skuli veita þeim sem

til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í

ritinu Stjórnsýslulögin, eftir dr. Pál Hreinsson segir orðrétt á bls. 92–93: „Í leiðbeiningarskyldu

stjórnvalda felst ekki eingöngu skylda til að svara fyrirspurnum frá málsaðilum. Í þeim tilvikum

þar sem stjórnvaldi má ljóst vera að aðili hefur misskilið réttarreglur, ekki skilað inn

nauðsynlegum gögnum, ekki veitt nægjanlega ítarlegar upplýsingar eða hefur að öðru leyti

bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar, ber stjórnvaldi að gera aðila viðvart og veita honum

viðeigandi leiðbeiningar.“

 

Af umsögn kærða verður ekki annað skilið en að bæjarráð Kópavogsbæjar hafi ekki talið sig

þurfa að greina kærendum frá því að bráðabirgðagreiðslumat þeirra væri ekki fullnægjandi þar

sem umsóknir um úthlutun lóða hafi verið mjög margar. Auk þess hafi Kópavogsbær ekki talið

leiðbeiningarskyldu sína ná til þess að leiðbeina bankastofnunum um það hvernig útbúa eigi

greiðslumat fyrir viðskiptaaðila. Við móttöku umsókna hafi starfsfólk veitt upplýsingar ef spurst

var fyrir um einhver atriði sem vörðuðu umsóknir en ekki hafi verið tök á að yfirfara umsóknir

enda hafi þær verið á þriðja þúsund. Að mati ráðuneytisins má fallast á að vegna mikils álags á

starfsfólk Kópavogsbæjar hafi verið illmögulegt að gæta leiðbeiningarskyldu gagnvart hverjum

og einum umsækjanda við móttöku umsókna. Ekki verður hins vegar fallist á að

leiðbeiningarskylda hafi ekki verið fyrir hendi af þeim sökum og hefði til dæmis átt að vera

mögulegt við yfirferð bæjarráðs eða starfsmanna bæjarins á umsóknum að hafa samband við

umsækjendur og benda þeim á að bæta úr sýnilegum ágöllum. Þessa var ekki gætt af hálfu

Kópavogsbæjar.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2005, óskuðu kærendur eftir rökstuðningi fyrir synjun á umsókn þeirra

um byggingarlóð. Kærendum barst rökstuðningur með bréfi undirrituðu af bæjarritara, dags. 30.

ágúst 2005, en það segir meðal annars: „Með umsókn yðar fylgdi bráðabirgðagreiðslumat frá

SPRON og fram kom að staðfesting á því væri án ábyrgðar. Ekki fylgdi yfirlýsing banka eða

lánastofnunar um lánafyrirgreiðslu. Yfirlýsing þessi uppfyllti þannig ekki skilyrði um mat á

greiðsluhæfi og yfirlýsingu um fjármögnun framkvæmda. Því miður var því ekki unnt að verða

við umsókn yðar að þessu sinni.“

Samkvæmt framangreindu var það mat bæjarráðs Kópavogsbæjar að kærendur kæmu ekki til

greina við val á umsækjendum við úthlutun byggingarlóða þar sem ófullnægjandi greiðslumat

hafi fylgt umsókn þeirra. Kærendum var þó ekki greint frá þessu fyrr en með bréfi bæjarritara,

dags. 30. ágúst 2005, þar sem veittur var rökstuðningur fyrir synjun umsóknar þeirra. Þar af

leiðandi höfðu þeir ekki tækifæri til að bæta úr ágallanum eins og lög gera ráð fyrir, sbr. 10. og

13. gr. stjórnsýslulaga, en ljóst var að um var að ræða atriði sem gat haft verulega þýðingu við

afgreiðslu á umsókn kærenda.

Þegar litið er til þess að galli á yfirlýsingu um greiðslugetu kærenda var ákvörðunarástæða hjá

bæjarráði Kópavogsbæjar fyrir því að synja kærendum um úthlutun byggingarlóðar telur

ráðuneytið ljóst að með bréfi, dags. 5. ágúst 2005, hafi þeim verið veittar rangar upplýsingar um

ástæður synjunarinnar. Jafnframt telur ráðuneytið rétt að benda á að sömu mistök virðast hafa

verið gerð í fyrri bréfum Kópavogsbæjar til kærenda.

Samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp

kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Í þessu ákvæði felst heimild fyrir

ráðuneytið til að staðfesta eða ógilda stjórnsýsluákvarðanir sveitarfélaga sem undir það eru

bornar. Skilyrði þess að ákvörðun verði ógilt er að á henni séu verulegir formgallar. Með

hliðsjón af því sem að framan er rakið telur ráðuneytið málsmeðferð Kópavogsbæjar við úthlutun

byggingarlóða þann 28. júní 2005, sem staðfest var af bæjarstjórn Kópavogs þann 30. ágúst sama

ár, ekki hafa verið í samræmi við 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og góða stjórnsýsluhætti.

Um sjónarmið varðandi mögulega ógildingu úthlutunar byggingarréttar hefur verið fjallað í

nokkrum úrskurðum ráðuneytisins. Má nefna úrskurði, dags. 22. maí 2003, í þremur málum sem

varða Kópavogsbæ og úrskurði, dags. 14. apríl 2001, í tveimur málum er varða Mosfellsbæ. Í

þeim úrskurðum taldi ráðuneytið að þeir einstaklingar sem fengu úthlutað lóðum hefðu af því

mikla og skýra hagsmuni að ákvörðunin stæði óhögguð. Líkt og í þeim málum hefur ekki verið

sýnt fram á annað en að lóðarhafar hafi verið í góðri trú um rétt sinn. Ráðuneytið hefur komist að

þeirri niðurstöðu í nokkrum úrskurðum að kæruheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga feli ekki í sér

heimild til að ógilda einkaréttarlega samninga. Kærendur gerðu ekki kröfu um að ákvarðanir

Kópavogsbæjar um úthlutun byggingarréttar yrðu felldar úr gildi. Þrátt fyrir það þykir rétt að

taka fram að annmarkar á málsmeðferð bæjarins í þessu máli geta ekki leitt til ógildingar hinnar

kærðu ákvörðunar.

Líkt og í úrskurði frá 26. maí 2006 varðandi lóðaúthlutun í Kópavogi telur ráðuneytið rétt að

minna á að í 4. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga segir að hafi stjórnsýslunefnd ekki fært rök fyrir

ákvörðun skuli formaður færa rök fyrir henni. Rökstuðningur Kópavogsbæjar ber það ekki með

sér að hann komi frá formanni bæjarráðs, en ráðið gegndi meginhlutverki við úthlutun

byggingarréttar í samræmi við úthlutunarreglur Kópavogsbæjar. Í ljósi þess gerir ráðuneytið

athugasemd við að rökstuðningurinn kemur ekki frá formanni bæjarráðs heldur frá

bæjarlögmanni.

Meðferð málsins hefur tekið lengri tíma en kveðið er á um í 103. gr. sveitarstjórnarlaga. Skýrist

það bæði af annríki í ráðuneytinu og frestum sem veittir voru málsaðilum.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Málsmeðferð bæjarráðs Kópavogsbæjar þann 28. júlí 2005 við úthlutun byggingarréttar við

Fróðaþing 37 og 38 og Frostaþing 7, sem staðfest var af bæjarstjórn Kópavogsbæjar þann 30.

ágúst 2005, fór í bága við 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og góða stjórnsýsluhætti.

F.h.r.

Guðjón Bragason (sign.)

Guðrún A Þorsteinsdóttir (sign.)

29. júní 2006 - Kópavogsbær - Leiðbeiningarskylda, rökstuðningur f.h. fjölskipaðs stjórnvalds (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta