Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 30/2007

Þann 22. maí 2007 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 30/2007

A

gegn lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. mars 2007, kærði A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Bréf kæranda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 5. mars 2007.

Nr. 2 Bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til kæranda, dags. 15. mars 2007.

Nr. 3 Bréf kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 20. mars 2007.

Nr. 2. Bréf samgönguráðuneytis til kæranda, dags. 22. mars 2007.

Nr. 3. Bréf samgönguráðuneytis til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. mars 2007.

Nr. 4 Bréf Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til samgönguráðuneytis, dags. 28. mars 2007 ásamt sakavottorði.

Nr. 4. Bréf samgönguráðuneytisins til kæranda, dags. 14. maí 2007.

Kærandi óskar eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði endurveittur ökuréttur. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Kærandi var með viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur sviptur ökurétti vegna ölvunaraksturs ævilangt frá og með 28. september 2005. Í sakavottorði kæranda kemur fram að áður hafi kæranda verið gert að greiða sekt vegna aksturs án ökuréttinda (árið 2005) og þrívegis hlotið dóma vegna ölvunaraksturs, þe. árið 2004 (tvívegis) og árið 2000.

Kærandi sótti um endurveitingu ökuréttar til kærða með bréfi dags. 5. mars 2007. Með bréfi kærða dags. 15. mars 2007 var ósk kæranda um endurveitingu hafnað. Niðurstaðan var rökstudd með vísan til 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari með síðari breytingum, en þar segir að þegar um er að ræða ævilanga sviptingu ökuréttar komi endurveiting aðeins til greina að svipting hafi staðið í fimm ár.

Kærandi kærði úrskurðinn til samgönguráðuneytisins þann 20. mars 2007. Með bréfi, dags. 22. mars 2007 var kæranda tilkynnt að málið hefði verið tekið til stjórnsýslulegrar meðferðar í ráðuneytinu í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Sama dag óskaði ráðuneytið eftir umsögn kærða um stjórnsýslukæruna. Með bréfi dags. 28. mars 2007 komu frekari athugasemdir af hálfu kærða fram. Með bréfi dags. 14. maí 2007 gaf ráðuneytið kæranda kost á að koma á framfæri athugasemdum við umsögn kærða frá 28. mars 2006. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í bréfi kæranda dags. 20. mars 2007 er þess farið á leit að samgönguráðherra beiti sér fyrir því að honum verði veittur ökuréttur að nýju, þó svo að ekki sé nægilega langur tími liðinn til þess að hægt væri að sækja um slíkt lögum samkvæmt. Í símtölum við starfsmenn ráðuneytisins hefur komið fram að hann sé að gera breytingar á lífi sínu, m.a. með því að sækja um starf en það krefjist þess að hann hafi bifreið til umráða. Auk þess fylgi mikil óþægindi ökuleyfissviptingunni.

V. Málsástæður og rök kærða

Í bréfi sínu dags. 28. mars 2007 vísar kærði til 1. mgr. 106. gr. umfl. ákvörðun sinni til stuðnings, en þar er kveðið svo á að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti ríkislögreglustjóri heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Þegar um sé að ræða ævilanga sviptingu ökuréttar megi þó aðeins veita ökurétt að nýju þegar svipting hefur staðið í fimm ár, sbr. síðari málslið 1. mgr. 106. gr. umfl. Ekki sé að finna undanþáguheimild frá þessum tímamörkum í lögunum. Það sé því niðurstaða embættis lögreglustjóra að ekki hafi verið heimilt að verða við ofangreindri beiðni um endurveitingu ökuréttar.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu reynir á hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda skv. 106. gr. umfl. Annar málsliður 1. gr. lagaákvæðisins er svo hljóðandi:

,,Hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt má þó eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár?.

Ævilöng svipting ökuréttar kæranda miðast við 28. september 2005. Kærandi hefur því verið sviptur ökurétti í 1 ár og 8 mánuði. Engin lagaskilyrði eru til þess að gera undantekningu frá ákvæði 1. mgr. 106. gr. umfl. um lágmarkstímalengd sviptingar.

Í ljósi þess sem að ofan greinir verður ekki fallist á að skilyrði 1. mgr. 106. gr. umfl.um endurveitingu ökuréttar sé fyrir hendi.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kröfu A um endurveitingu ökuréttar er synjað.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta