Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 18/2007

Ár 2007, 12. júní er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 18/2007

A

gegn

undanþágunefnd.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 16. apríl 2007, kærði A, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun undanþágunefndar um að synja honum um undanþágu til skipstjórnar á B.

Gerð er sú krafa af hálfu kæranda að ákvörðuninni verði hnekkt og kveðið á um það af hálfu ráðuneytisins að kærandi fái undanþágu til skipstjórnar á nefndu skipi.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1 Stjórnsýslukæra, dags. 16. apríl 2007.

Nr. 2 Bréf ráðuneytisins til kærða, dags. 25. apríl 2007.

Nr. 3 Athugasemdir kærða, dags. 15. maí 2007.

Nr. 4 Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 18. maí 2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Framangreind stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæruheimild í 26. gr. sömu laga.

III. Málsatvik

Kærandi sótti um undanþágu til að starfa sem skipstjóri á B. Undanþágunefnd hafnaði umsókn kæranda, 12. apríl 2007.

Með stjórnsýslukæru, dags. 16. apríl 2007, kærði kærandi framangreinda ákvörðun til samgönguráðuneytisins. Kærandi óskaði eftir fundi með ráðuneytinu og varð ráðuneytið við því. Fundurinn átti sér stað 25. apríl 2007, þar sem kærandi skýrði mál sitt frekar og kom sjónarmiðum sínum á framfæri og óskaði jafnframt eftir því við ráðuneytið að málið fengi flýtimeðferð.

Undanþágunefnd var með bréfi, dags. 25. apríl 2007, gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi kæruna. Ráðuneytinu bárust athugasemdir undanþágunefndar með bréfi, dags. 15. maí 2007.

Kærandi hafði samband við ráðuneytið símleiðis, þann 18. maí 2007 og óskaði eftir því að heyra athugasemdir kærða í gegnum síma. Ráðuneytið fór að óskum kæranda, en gaf honum jafnframt kost á því að koma frekari athugasemdum á framfæri við umsögn kærða í samræmi við lögbundinn andmælarétt hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi kvaðst ekki vilja koma frekari athugasemdum á framfæri og óskaði eftir því að málið yrði tekið til úrskurðar.

Með bréfi, dags. 18. maí 2007, tilkynnti ráðuneytið kæranda að málið yrði tekið til úrskurðar í ljósi þess sem kærandi hafði kosið að koma ekki frekari athugasemdum á framfæri.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun undanþágunefndar frá 12. apríl 2007 verði hnekkt, og að hann fái undanþágu til skipstjórnar á B. Kærandi óskaði jafnframt eftir því við ráðuneytið að málið fengi flýtimeðferð þar sem áhöfn B bíður eftir því að komast á veiðar.

Kærandi kveður að útgerð hans hafi gert út 65 tonna bát, C, í 5 ár og að kærandi hafi verið með undanþágu til skipstjórnar á hann. Kærandi kveður að C hafi verið lagt síðastliðið haust vegna mikils viðhalds og í kjölfarið hafi verið ákveðið að kaupa 104 tonna stálbát, B er hafi verið gerður tilbúinn til veiða. Ráðin hafi verið áhöfn en ekki hafi fengist skipstjóri til starfa. Kveður kærandi að hann hafi tvívegis auglýst í fjölmiðlum eftir skipstjóra en engin viðbrögð fengið.

Þá kveðst kærandi hafa verið til sjós í 40 ár og verið skipstjóri á C um tíma og einnig á minni bátum, en einnig á togurum og stærri bátum.

Þar sem ekki hefur fengist skipstjóri til starfa á skip kæranda, leitar kærandi til ráðuneytisins með málið og óskar eftir því að það gangi honum í hag. Kveður kærandi bátinn liggja við bryggju kláran til veiða og með áhöfn. Horfir kærandi til mikilla fjárhagslegra erfiðleika og jafnvel gjaldþrots ef fram fer sem horfir. Ætlunin hafi verið að gera bátinn út til lúðuveiða og hafi báturinn haffæri og öll tilskilin leyfi til veiðanna.

V. Málsástæður og rök kærða

Undanþágunefnd telur að heimild skorti til að veita kæranda undanþágu til starfa sem skipstjóri á B á grundvelli 3. gr. starfsreglna fyrir undanþágunefnd nr. 247/2007, en í 1. mgr. 3. gr. starfsreglnanna segir að undanþágur til skipstjórastarfa megi veita án undangenginnar auglýsingar í slysa- og veikindatilvikum eða til afleysinga í allt að einn mánuð og þá til 1. stýrimanns viðkomandi skips, enda hafi hann a.m.k. 3ja mánaða siglingatíma á viðkomandi skipi sem stýrimaður, eða til manns sem hefur skipstjórnarréttindi næsta stigs fyrir neðan þau sem krafist er. Í b-lið 2. mgr. 3. gr. segir að sé skipið 81-200 rúmlestir, þá hafi þeir að minnsta kosti 80 rúmlesta réttindi og hafi starfað sem skipstjórar í a.m.k. 12 mánuði.

Kveður undanþágunefnd að undanþágubeiðninni hafi verið hafnað á þeim forsendum að kærandi hafi ekki næsta réttindastig fyrir neðan það réttindastig sem krafist er á skipið B. Réttindi kæranda séu 30 brl. skipstjórnarréttindi (A1), en það gefur rétt til að stjórna skipi sem er 30 brl. og minna. Skipið B sé 104 brl. að stærð og til að starfa sem skipstjóri á því þarf að hafa atvinnuskírteini sem skipstjóri á 200 rúmlesta fiskiskipum og minni í innanlandssiglingum (A4). Eitt réttindastig sé þarna á milli, þ.e skipstjóri á skipum 80 brl. og minni. Jafnframt kveður undanþágunefnd að samkvæmt starfsreglum undanþágunefndar þurfi sá sem sæki um undanþágu sem skipstjóri á skipi sem er 80-200 brl. að hafa 80 brl. skipstjórnarpróf (A2).


VI. Álit og niðurstöður ráðuneytisins

Samkvæmt gögnum málsins lýtur ágreiningsefni þessa tiltekna og fyrirliggjandi máls að því hvort kærandi geti fengið undanþágu til skipstjórnar á 104 brl. skipi, B en kærandi hefur 30 brl. réttindi til skipstjórnar.

Meginreglur um atvinnuréttindi skipstjóra er að finna í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 (hér eftir nefnd atvinnuréttindalögin) og er nánar kveðið á um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna í reglugerð nr. 118/1996 með áorðnum breytingum (hér eftir nefnd reglugerðin).

Í því máli sem hér um ræðir liggur fyrir, að hið tiltekna skip sem krafist er undanþágu til skipstjórnar á, er 104 brl. Til þess að geta starfað sem skipstjóri á 104 brl. skipi þarf viðkomandi að vera 20 ára eða eldri og hafa siglingatíma og menntun í samræmi við ákveðin stig stýrimannaskóla. Í því tilviki sem hér um ræðir þarf viðkomandi að meginreglu að hafa menntun í samræmi við 1. stigs réttindi á fiskiskipum sbr. a-lið 8. gr. atvinnuréttindalaganna er myndi gefa honum skírteini (A4) sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hefur 30 rúmlesta réttindi, sbr. 1. mgr. 7. gr. atvinnuréttindalaganna er gefur honum skírteini (A1) sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Réttindin gefa kæranda rétt sem skipstjóri á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna.

Frá framangreindum meginreglum, er að finna ákveðnar undantekningar. Í 1. mgr. 21. gr. atvinnuréttindalaganna segir að sé skortur á mönnnum með nægileg réttindi til skipstjórnar sé heimilt að veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laganna, undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða tiltekinni gerð skipa um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en 6 mánuði í senn. Í 2. mgr. 21. gr. laganna segir að samgönguráðherra skipi fimm manna nefnd, undanþágunefnd, til þess að fjalla um slík mál, líkt og hér um ræðir og starfar hún samkvæmt sérstökum starfsreglum nr. 247/2007 (hér eftir nefndar starfsreglurnar).

Ákvæði 21. gr. atvinnuréttindalaganna er heimildarákvæði er felur undanþágunefnd mat á því í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi aðili geti gegnt tiltekinni stöðu, sem hann hefur ekki öðlast réttindi til að gegna lögum samkvæmt, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða. Hefur undanþágunefnd framangreindar starfsreglur til viðmiðunar við mat á hæfni tiltekinna einstaklinga.

Starfsreglurnar fela í sér ákveðnar viðmiðunarreglur í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum undanþágunefndar. Starfsreglurnar eru því ekki fast mótaðar efnisreglur er binda hendur undanþágunefndar við ákvarðanir sínar þar sem leggja verður sérstætt mat á hvert mál fyrir sig.

Í 1. mgr. 3. gr. starfsreglnanna er að finna viðmiðunarreglu er ber að hafa til hliðsjónar í því máli sem hér ræðir, þar sem segir:

Undanþágur til skipstjórastarfa má veita án undangenginnar auglýsingar í slysa- og veikindatilvikum eða til afleysinga í allt að einn mánuð og þá til 1. stýrimanns viðkomandi skips, enda hafi hann a.m.k. 3ja mánaða siglingatíma á viðkomandi skipi sem stýrimaður eða til manns sem hefur skipstjóraréttindi næsta stigs fyrir neðan þau sem krafist er.

Þá segir í 2. mgr. 3. gr. starfsreglnanna að sé skortur á mönnum með nægileg skipstjórnarréttindi sé heimilt að veita skipstjórum undanþágu í allt að 6 mánuði, enda fullnægi þeir ákveðnum skilyrðum, sbr. t.d. b-lið 2. mgr. 3. gr. þar sem segir:

Sé skipið 81 til 200 rúmlestir, þá hafi þeir að minnsta kosti 80 rúmlesta réttindi og hafi starfað sem skipstjórar í a.m.k. 12 mánuði.

Í því máli sem hér um ræðir er það skip sem óskað er undanþágu til skipstjórnarstarfa á, 104 brl. Samkvæmt þeirri viðmiðunarreglu sem undanþágunefnd starfar eftir, getur sá sem hefur að minnsta kosti 80 rúmlesta réttindi (A2) fengið undanþágu til skipstjórnar á því tiltekna skipi, þar sem slík réttindi koma næst á eftir þeim sem krafist er. Líkt og fram hefur komið hefur kærandi 30 rúmlesta réttindi (A1).

Undanþágunefnd hefur alla jafna frá því nefndin hóf störf tekið mið af framangreindum réttindum við réttindaflokkaröð sína um veitingu undanþága. Undanþágan sem hér um ræðir lýtur að b-lið framangreindrar reglu, þ.e að sé skipið stærra en 81 rúmlest, skuli einstaklingar hafa a.m.k 80 rúmlesta réttindi.

Ekki verður annað séð, en að undanþágunefnd hafi við afgreiðslu téðrar umsóknar tekið mið af fyrri úrlausnum sínum, þ.e. að veita ekki tilteknum einstaklingum undanþágu nema þeir hafi skírteini til að gegna næstu lægri stöðu sem undanþágu á að veita til skv. röðun skírteinanna. Hins vegar hefur undanþágunefnd a.m.k tvisar sinnum veitt einstaklingum með sambærileg réttindi undanþágu til skipstjórnar á skipum að svipaðri stærð og B.

Þá liggur fyrir að kærandi uppfyllir ekki áskilnað 3. gr. starfsreglnanna, þar sem hann hefur ekki 80 rúmlesta réttindi (A2).

Hins vegar ber á að líta, að ekki er hægt að verða sér út um 80 rúmlesta réttindi í dag. Einungis þeir einstaklingar er sátu námskeið á árunum 1985-1987 til skipstjórnar á fiskiskipum og öðrum skipum sem eru allt að 80 rúmlestir að stærð, hafa þessi tilteknu réttindi. Samkvæmt starfsreglum undanþágunefndar koma téðir handhafar 80 rúmlesta réttindanna engu að síður einir til greina þegar undanþágunefnd veitir undanþágu til skipstjórnar á stærri skipum en nemur 80 rúmlestum. Á það ber einnig að líta að í atvinnuréttindalögunum er ekki minnst á téð réttindi, um þau er einungis getið í reglugerðinni, sbr. ákvæði til bráðabirgða í 6. mgr. 5. gr.

Líkt og að framan er rakið þarf umsækjandi undanþágu til skipstjórnar einungis að sýna fram á að skortur sé á mönnum, sbr. ákvæði 21. gr. atvinnuréttindalaganna. Óumdeilt er að í því tilviki sem hér um ræðir var skortur á mönnum og hefur undanþágunefnd ekki mótmælt því. Undanþágunefnd hefur eingöngu, líkt og að framan er rakið, horft til réttinda kæranda og 3. gr. starfsreglnanna en ekki horft til annarra þátta er hugsanlega gætu haft áhrif á veitingu undanþágunnar. Með því að líta ekki til annarra þátta verður að telja að undanþágunefnd hafi takmarkað um of það mat, sem henni er eftirlátið sbr. ákvæði 21. gr. atvinnuréttindalaganna.

Starfsreglurnar sem undanþágunefnd eru settar eru, líkt og að framan greinir viðmiðunarreglur sem henni ber að hafa til hliðsjónar til að gæta samræmis í úrlausnum sínum. Eftir sem áður ber undanþágunefnd að meta hvert og eitt tilvik með einstaklingsbundnum hætti. Með því að takmarka mat sitt með framangreindum hætti verður jafnframt að telja, að slíkt dragi úr því markmiði löggjafans að undanþágunefnd taki ákvörðun um undanþágu sem eðlilegust þyki í hverju tilviki fyrir sig, að teknu tilliti til allra atvika og aðstæðna.

Undanþágunefnd hefur ekki talið að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði stefnt í hættu með veitingu undanþágunnar eða að kærandi sé ekki hæfur til þess að annast starfið á öruggan hátt auk þess sem dæmi eru um að einstaklingar með sambærileg réttindi og kærandi, hafi fengið undanþágu á skipi í svipuðum stærðarflokki líkt og að framan greinir.

Ráðuneytið hefur veitt undanþágu í sambærilegu máli og hér er til umfjöllunar með úrskurði sínum í máli nr. 22/2004. Í ljósi þess og að skortur var á mönnum í umrætt sinn, er það mat ráðuneytisins að uppfyllt séu skilyrði 21. gr. atvinnuréttindalaganna svo að heimilt sé að veita kæranda undanþágu sem skipstjóri á B í allt að sex mánuði.

Í ljósi framangreinds fellir ráðuneytið úr gildi ákvörðun undanþágunefndar frá 12. apríl 2007 um að synja kæranda um undanþágu til skipstjórnar á B. Ráðuneytið veitir kæranda undanþágu til skipstjórnar á B í sex mánuði.

Ráðuneytið hvetur hins vegar kæranda til þess að afla sér formlegra réttinda til starfans.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun undanþágunefndar um að hafna umsókn A, um undanþágu til skipstjórnar á B er felld úr gildi. A er veitt undanþága til skipstjórnar á B í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Karl Alvarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta