Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 14/2006

Þann 2. mars 2007 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 14/2006

A

gegn

lögreglustjóranum á Selfossi

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 5. september 2006, kærði Óskar Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður, f.h. A (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi (hér eftir nefndur kærði) að krefjast þess að kærandi gangist undir ökupróf að nýju en að öðrum kosti verði gild ökuréttindi hans afturkölluð. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Bréf kærða til kæranda, dags. 27. júlí 2006.

Nr. 2. Sektarboð, dags. 28. júlí 2006.

Nr. 3. Bréf Óskars Sigurðssonar hrl. til sýslumannsins á Selfossi, dags. 14. ágúst 2006.

Nr. 4. Bréf kæranda til Óskars Sigurðssonar hrl., dags. 30. ágúst 2006

Nr. 5. Kæra Óskars Sigurðssonar, hrl. f.h. umbjóðanda síns til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og samgönguráðuneytisins, dags. 5. september 2006.

Nr. 6. Bréf ráðuneytisins til kærða dags. 21. september 2006.

Nr. 7. Bréf kærða til ráðuneytisins dags. 5. október 2006.

Nr. 8. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 7. nóvember 2006

Nr. 9 Tölvupóstur/beiðni ráðuneytisins til kærða vegna myndbands, dags. 7. nóvember 2006

Nr. 10. Bréf kæranda til ráðuneytisins, dags. 10. nóvember 2006

Nr. 11. Bréf ráðuneytisins til kærða, dags. 28. nóvember 2006

Nr. 12. Bréf Óskars Sigurðssonar hrl. til ráðuneytisins, dags.19. desember 2006.

Nr. 13. Bréf ráðuneytisins til Óskars Sigurðssonar hrl., dags.10. janúar 2007.

Nr. 14. Bréf sýslumannsins á Selfossi, ásamt myndbandsupptöku, til ráðuneytisins, dags. 28. des. 2006

Nr. 14. Tölvubréf Óskars Sigurðssonar hrl. til ráðuneytisins, dags. 17. jan. 2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Málavextir eru þeir að laust fyrir miðnætti þann 20. júlí 2006, var lögreglumaður á Selfossi við umferðareftirlit þegar hann sá bifreiðina KF-502 aka inn á Austurveg á Selfossi til vesturs en þá virtist ökumanni, sem er kærandi í máli, þessu fipast í akstrinum og fór bifreiðin heilan hring á götunni áður en akstri var haldið áfram vestur Austurveg. Kvaðst kærandi hafa ekið með þessu háttalagi meðvitað og hafa verið búinn að athuga með umferðina áður en hann tók af stað spólandi út í hana. Kvað ákærði lítinn reyk hafa myndast en eitthvert dekkjavæl. Atvikið var tekið upp á myndband og hefur það verið lagt fram í máli þessu.

Í framhaldi af þessu atviki sendi Lögreglustjórinn á Selfossi bréf til kæranda, dagsett 27. júlí 2006, þar sem með vísan í 53. gr. umferðarlaga (umfl.) er lagt fyrir kæranda að gangast undir ökupróf að nýju hið fyrsta til að sýna fram á hæfni hans til aksturs vélknúins ökutækis. Var kæranda gefinn fjögurra vikna frestur til að sýna fram á að hann hafi staðist umrætt próf. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2006, mótmælti kærandi kröfu lögreglustjórans, en með bréfi fulltrúa lögreglustjóra dags. 30. ágúst 2006 var frestur kæranda til að taka ökupróf að nýju framlengdur til 15. september 2006. Með bréfi dags. 5. september 2006 kærði umbjóðandi kæranda hina umdeildu ákvörðun til samgönguráðuneytis til ógildingar.

Samhliða kröfu um að kærandi gangist undir ökupróf að nýju fékk hann sektarboð frá lögreglustjóraembættinu, dags. 28. júlí 2006, þar sem honum var gefinn kostur á að ljúka ofangreindu máli án dómsmeðferðar með greiðslu 35.000 króna og ef sektin greiddist fyrir 27. ágúst 2006 yrði veittur 25% afsláttur. Vísað var til 1. mgr. 115. gr. a. laga um meðferð opinberra mála sbr. 1. gr. laga nr. 31/1998. Í sektarboðinu voru brot ákærða talin varða við ?allmörg ákvæði umferðarlaga (umfl.) nr. 50/1987?, þ.m.t. 4.,17.gr., 31., 35., 36. og 1. mgr. 53. gr. Fram kom að yrði sektarboðinu ekki sinnt eða því hafnað verði tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum um meðferð opinberra mála. Ákæra var síðan gefin út 25. ágúst 2006 þar sem gerð var krafa um refsingu í samræmi við brotalýsingu í sektarboði og auk þess sviptingu ökuréttar með vísan í 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Með dómi uppkveðnum á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands þann 7. desember 2006 var kæranda gert að greiða 70.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms að telja, en sæta ella fangelsi í 6 daga. Ekki var fallist á ökuleyfissviptingu sem krafa hafði verið gerð um af hálfu ákæruvaldsins.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kærði til samgönguráðuneytisins þá ákvörðun lögreglustjórans á Selfossi að krefjast þess að hann gangist undir ökupróf að nýju vegna þeirra atvika er lýst er hér á eftir.

Ekki er um það deilt í málinu að kærandi hafi spólað á bifreiðinni KF-502 þann 20. júlí 2006 á Selfossi. Að mati kæranda var hins vegar engin hætta á ferðum og ekkert það við hegðun hans sem réttlætti að honum yrði gert að taka ökupróf að nýju. Kærandi var boðaður á fund hjá sýslumanni þ. 27. júlí 2006. Sama dag sendi Lögreglustjóri honum bréf með kröfu um að hann skyldi gangast undir ökupróf að nýju en að öðrum kosti yrðu ökuréttindi hans afturkölluð.

Kærandi telur ákvörðun lögreglustjóra brjóta gegn jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 11. og 12. gr. þeirra laga. Ákörðun um að skylda hann til að gangast undir ökupróf að nýju sé verulega íþyngjandi og auk þess mjög kostnaðarsöm. Það hvíli á lögreglustjóra að koma með haldbær rök fyrir því að skilyrði 1. mgr. 53. gr. umfl. séu uppfyllt og að kæranda beri að taka ökupróf að nýju. Ennfremur liggi ekki fyrir að öðrum sem hafi brotið umferðarlög hafi verið gert að gangast undir ökupróf að nýju og slík ákvörðun sé í engu samræmi við háttsemi kæranda.

Að mati kæranda getur afturköllunarheimild 53. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 ekki átt við í máli þessu, ef um er að ræða grun um refsiverða háttsemi og ákæra gefin út og þingfest fyrir héraðsdómi þar sem krafa er gerð um ökuréttindamissi. Þá er ekki lengur lagaleg heimild eða forsenda til að afturkalla ökuréttindi á stjórnsýslustigi á grundvelli sömu atburða og ákæran byggir á. Með ákvörðun um að gefa út ákæru með kröfu um ökuleyfissviptingu verði að túlka 53. gr. umfl. þannig að heimild til afturköllunar sé ekki lengur til staðar, enda reyni í hinu opinbera máli á sömu sjónarmið og krafa skv. 53. gr. byggir á.

Þannig voru í raun tvö mál í gangi á hendur kæranda, annars vegar sérstakt mál sem varðaði kröfu lögreglustjóra um að hann tæki ökupróf að nýju eða missti ella ökuréttindi. Hins vegar opinbert mál á hendur honum þar sem krafa var gerð um greiðslu sektar og sviptingu ökuréttinda.

V. Málsástæður og rök kærða

Með bréfi sýslumannsins á Selfossi, dags. 5. október 2006, eru þau sjónarmið sem lágu til grundvallar kröfu um að kærandi gengist undir ökupróf að nýju tilgreind.

Kærði byggir mál sitt á 53. gr. umfl. en þar segir að lögreglustjóri geti afturkallað ökuréttindi ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini, en þessi skilyrði eru talin upp í 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þar segir að hlutaðeigandi verði að sanna með prófi að hann hafi næga aksturshæfni og nauðsynlega þekkingu á ökutækinu, meðferð þess og umferðarlöggjöf og eru þessi skilyrði áréttuð í 62. gr. reglugerðar nr. 501/1997 um ökuskírteini.

Að mati kærða sýndi kærandi af sér vítavert háttalag með því að aka óvarlega og án nægilegrar aðgæslu og of hratt miðað við aðstæður, reykspólað þannig að mikill hávaði varð af akstrinum með þeim afleiðingum að hann missti stjórn á bifreiðinni þannig að hún snerist heilan hring og olli þannig hættu fyrir aðra umferð. Þetta háttalag sýni að kærandi er ekki fullfær að stjórna bifreið og þurfi því að taka ökupróf að nýju.

Í bréfi til ráðuneytisins dags. 28. desember 2006 kemur fram að kærði leggur áherslu á að þó svo að ekki hafi verið fallist á ökuleyfissviptingu í dómsmáli vegna atviks þessa, þá sé í þessu máli verið að fjalla um hegðun ákærða og að það sé hún sem leiða eigi til þess að honum verði gert að fara í ökupróf að nýju. Ekki sé rétt að bíða þess að kærandi valdi manntjóni, en háttsemi hans hafi í för með sér mikla áhættu og geti verið hættuleg.


VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Krafa kærða um að kærandi gangist undir ökupróf að nýju er byggð á 53. gr. umfl nr. 50/1987, en 1. og 2. málsliðir hljóða svo:

,,Lögreglustjóri getur afturkallað ökuréttindi, ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini. Nú neitar hlutaðeigandi að taka þátt í rannsókn eða prófi, sem nauðsynlegt er til ákvörðunar þessarar og getur lögreglustjóri þá afturkallað ökuréttindin þegar í stað."

Að stjórna ökutæki fylgir mikil ábyrgð. Löggjafinn hefur metið það svo að alls ekki sé einhlítt að hver sem er sé fær um að stjórna ökutæki, þrátt fyrir að fyrir liggi gilt ökuskírteini. Atvik og atburðir geta leitt til þess að sá sem er með fullgilt ökuskírteini teljist á ákveðnum tíma ekki fær um að stjórna ökutæki. Algengt dæmi um það er ef sjón eða önnur heilsa brestur. Þannig veitir 53. gr. umfl. lögreglustjóra heimild til að afturkalla gild ökuréttindi, ef hlutaðeigandi fullnægir ekki lengur skilyrðum til að öðlast ökuskírteini. Um er að ræða matskennda reglu sem ekki er viðurlagaákvæði í sjálfu sér. Hér á eftir verða helstu skilyrðin rakin sem slík ákvörðun lögreglustjóra getur byggst á.

Í 2. mgr. 48. gr. umfl. er talin upp þau skilyrði sem einstaklingur verður að uppfylla til að öðlast ökuskírteini. Þau eru: a) að vera fullra 17 ára, b) að sjá og heyra nægilega vel og vera að öðru leyti nægilega hæfur andlega og líkamlega, og c) að hafa hlotið kennslu löggilts ökukennara og sannað með prófi að hafa til að bera næga aksturshæfni og nauðsynlega þekkingu á ökutækinu og meðferð þess og umferðarlöggjöf. Kærði hefur ekki sýnt fram á að kærandi hafi misst neins í skilyrðum 2. mgr. 48. gr. umfl. til að öðlast ökuskírteini.

Í máli þessu liggur fyrir myndband af þeim atburði sem varð til þess að Lögreglustjóri taldi að akstur kæranda bæri vott um skort á kunnáttu til aksturs bifreiða og þar með að krefjast þess að hann gengist undir ökupróf að nýju til að sýna fram á hæfni til aksturs vélknúins ökutækis.

Við skoðun á umræddu myndbandi og með tilliti til þess að kærandi staðhæfði við yfirheyrslu hjá lögreglu að honum hefði verið ljóst hvað hann var að gera umrætt sinn verður að telja að kærandi hafi sýnt umrætt aksturslag af ásetningi til að ?reykspóla? fremur en af vankunnáttu við akstur ökutækisins. Í dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 7 desember 2006 er fjallað um hvort hegðun kæranda hafi verið með svo vítaverðum hætti að varði hann ökuleyfissviptingu samkvæmt 101 gr. umfl. Svo var ekki talið.

Ráðuneytið telur því ekki lagaskilyrði til þess að mæla fyrir um að kærandi taki ökupróf að nýju. Kærandi er lögmætur notandi ökuskírteinis síns samkvæmt dómi sem hefur fjallað um sama atvik og er hér til skoðunar. Lagaákvæðið sem stjórnsýsluákvörðun kærða byggir á er ekki viðurlagaákvæði í sjálfu sér og gengur ekki framar dómsniðurstöðu sem fjallar um refsiþáttinn.

Að framansögðu verður ekki séð, að mögulegt sé að lögum að gera annars vegar kröfu um að kærandi taki ökupróf að nýju sbr.1. mgr. 53. gr. umfl. og hins vegar að gerð sé krafa í dómsmáli um að hlutaðeigandi verði sviptur ökurétti, sbr. 1. mgr. 101. gr. umfl. vegna sama brots. Líta verður svo á að með höfðun opinbers máls á hendur kæranda hafi krafa kærða um að kærandi gangist undir ökurpróf að nýju verið vikið til hliðar.

Ekki eru lagaskilyrði til að taka afstöðu til kröfu umbjóðanda kæranda um ákvörðun um greiðslu málskostnaðar vegna þessa máls.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Felld er úr gildi krafa sýslumannsins á Selfossi um að A gangist undir ökupróf að nýju.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta