Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 34/2007

Þann 30. ágúst 2007 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 34/2007

A

gegn lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, sem barst þann 5. júlí 2007, A (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar, sbr. bréf kærða dags. 4. júlí 2007.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Bréf kærða til kæranda, dags. 4. júlí 2007.

Nr. 2 Bréf kæranda til samgönguráðherra, dags. 5. júlí 2007.

Nr. 3. Endurrit úr dómabók Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 31. maí 2003.

Nr. 4 Tölvupóstur kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 6. júlí 2007.

Nr. 5 Staðfesting ráðuneytis á móttöku tölvupósts, dags. 9. júlí 2007.

Nr. 6 Bréf ráðuneytis til kærða, dags. 13. júlí 2007.

Nr. 7 Umsögn kærða til ráðuneytis um framkomna stjórnsýslukæru kæranda, dags. 25. júlí 2007.

Nr. 8 Bréf ráðuneytis til kæranda, dags. 31. júlí 2007.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði veittur ökuréttur að nýju. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Kærandi var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum þann 26. maí 2003 sviptur ökurétti ævilangt vegna ölvunaraksturs.

Með bréfi kærða dags. 4. júlí 2007 var ósk kæranda um endurveitingu ökuréttar hafnað. Niðurstaðan var rökstudd með vísan til 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 (hér eftir nefnd umfl.) með síðari breytingum, en þar er kveðið svo á að hafi maður verið sviptur ökurétti ævilangt megi eigi veita ökurétt að nýju fyrr en svipting hefur staðið í fimm ár. Endurveiting komi því fyrst til álita í maí 2008 að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Með vísan í 3. mgr. 106. gr. umfl. kærði kærandi úrskurðinn til samgönguráðuneytisins með bréfi sem barst þann 5. júlí 2007 og krafðist þess að synjun kærða yrði úr gildi felld og fallist yrði á kröfu um endurveitingu ökuréttar.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Vegna aðstæðna sinna leggur kærandi áherslu á mikilvægi þess að henni verði veittur ökuréttur að nýju. Hún sé einstæð móðir með tvö börn en vegna ökuréttindamissis eigi hún í miklum erfiðleikum að komast á milli staða og stunda atvinnu til að sjá börnum sínum farborða.

Svipting ökuréttar árið 2003 hafi haft tilfinnanleg áhrif á líf sitt og afkomumöguleika sína. Í bréfi kæranda, dags. 5. júlí 2007 kemur fram að hún hafi verið svipt ökuréttindum í fjögur ár og nú séu þær sérstöku aðstæður fyrir hendi sem réttlæta að niðurstöðu kærða verði hrundið og að henni verði veittur ökuréttur að nýju.

V. Málsástæður og rök kærða

Í bréfi sínu dags. 4. júlí 2007 vísar kærði til 1. mgr. 106. gr. umfl. ákvörðun sinni til stuðnings, en þar er kveðið svo á að þegar um ævilanga ökuleyfissvipting sé að ræða geti endurveiting ekki komið til greina fyrr en í fyrsta lagi að fimm árum liðnum frá sviptingu, sbr. 1. mg. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og lög nr. 84/2004 um breytingu á þeim lögum.

Kærði líti því svo að að ekki hafi verið heimilt að verða við beiðni kæranda og að endurveiting ökuréttar komi því fyrst til álita í maí 2008 að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur í máli þessu lýtur fyrst og fremst að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda skv. 106. gr. umfl.

Eins og fram hefur komið er kveðið svo á í síðari málslið 1. gr. 106. gr. umfl. að veita megi þeim ökurétt að nýju sem sviptur hefur verið ökurétti ævilangt, hafi svipting hafi staðið í fimm ár. Ekki sé að finna undanþáguheimild frá þessum tímamörkum í lögunum né í reglugerð nr. 706/2004 um endurveitingu ökuréttar

Einungis ef þetta hlutlæga skilyrði fyrir endurveitingu er uppfyllt kemur til skoðunar hvort atvik skv. 2. mgr. 106. gr. umfl. eigi við, en þar segir að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Þar sem svipting ökuréttar kæranda hefur einungis staðið í rúmlega fjögur ár, þ.e. frá 26. maí 2003 kemur ekki til álita að taka afstöðu til þess hvort skilyrði 2. mgr. 106. gr. umfl. um heimild til endurveitingar ökuréttar þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, eigi við í máli þessu.

Í ljósi þess sem að ofan greinir verður ekki fallist á að skilyrði 106. gr. umfl. um endurveitingu ökuréttar eigi við í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu A um endurveitingu ökuréttar.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta