Breiðdalshreppur - Ábyrgð á kostnaði vegna rotþróa í þéttbýli
Breiðdalshreppur
Rúnar Björgvinsson, sveitarstjóri
Ásvegi 32
760 Breiðdalsvík
2. ágúst 2000
Tilvísun: FEL00070053/121
Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 19. júlí sl., þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á því hvort Breiðdalshreppi sé skylt að leysa holræsamál á Breiðdalsvík þar sem holræsi eru ekki í götu eða hvort það sé á ábyrgð húseigenda. Er vitnað til þess að í einni götu á Breiðdalsvík sé ekki holræsi og væntanlega verði að leysa holræsamál í þeirri götu með rotþróm.
Í X. kafla vatnalaga nr. 15/1923 eða í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra (sjá aðallega reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999) er ekki að finna ákvæði sem leggur beina fjárhagslega ábyrgð á framangreindum verkefnum á sveitarfélögin. Heilbrigðisnefndir á hverju svæði hafa hins vegar töluvert eftirlitshlutverk og tiltekin þvingunarúrræði til að stuðla að réttri framkvæmd laganna.
Þrátt fyrir að sveitarfélögum sé ekki skylt að ráðast í lagningu rotþróa þar sem holræsalögn er ekki í götu eru þess dæmi að sveitarfélög hafi séð um þær framkvæmdir og hreinsun á rotþróm gegn greiðslu frá viðkomandi húseigendum. Hefur það verið gert fyrst og fremst í því skyni að flýta fyrir því að koma skólphreinsunarmálum í betra horf. Í því samhengi hefur viðkomandi sveitarstjórn sett sérstaka samþykkt um þessi málefni, þ.á.m. um gjaldtöku, á grundvelli 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, sbr. lög nr. 59/1999.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)