Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Mál nr. 37/2007

Ár 2007, 12. nóvember er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 37/2007

A

gegn

undanþágunefnd.

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. júlí 2007, kærði A, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun undanþágunefndar um synjun um undanþágu til að gegna stöðu stýrimanns á skipinu B

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun undanþágunefndar verði felld úr gildi og að sér verði veitt undanþága til starfa stýrimanns á skipinu, í einn mánuð í senn, í ljósi þess að fyrir liggur staðfesting Fjöltækniskólans að hann stefni á 1. stig skipstjórnar.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1 Stjórnsýslukæra, dags. 23. júlí 2007.

Nr. 2 Bréf ráðuneytisins til undanþágunefndar, dags. 1. ágúst 2007.

Nr. 3 Bréf undanþágunefndar til ráðuneytisins, ódags en barst ráðuneytinu 15. ágúst 2007.

- umsóknareyðublað kæranda, dags. 30. maí 2007.

- Staðfesting Fjöltækniskóla Íslands, dags. 30. maí 2007.

Nr. 4 Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 15. ágúst 2007.

Nr. 5 Tölvupóstur ráðuneytisins, dags. 12. september 2007.

Nr. 6 Bréf ráðuneytisins til undanþágunefndar, dags. 18. september 2007.

Nr. 7 Bréf ráðuneytisins til undanþágunefndar, dags. 4. október 2007.

Nr. 8 Bréf undanþágunefndar til ráðuneytisins, dags. 8. október 2007.

Nr. 9 Útprentun úr lögskráningarkerfi varðandi lögskráningu á B

Nr. 10 Útprentun úr lögskráningarkerfi varðandi undanþáguveitingar á B

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.


II. Málsmeðferð

Framangreind stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæruheimild í 26. gr. sömu laga.

III. Málsatvik

Kærandi sótti um undanþágu til starfa sem stýrimaður á B með umsókn til undanþágunefndar, dags. 30. maí 2007. Undanþágunefnd hafnaði umsókn kæranda á fundi 31. maí 2007, á þeim forsendum að kærandi hefði ekki nægileg réttindi til þess að öruggt geti talist að veita honum undanþágu til starfa sem stýrimaður á skipi af þeirri stærð sem hér um ræðir.

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. júlí 2007, kærði kærandi framangreinda ákvörðun til samgönguráðuneytisins.

Ráðuneytið sendi stjórnsýslukæruna til umsagnar undanþágunefndar með bréfi, dags. 1. ágúst 2007. Ráðuneytinu barst umsögn undanþágunefndar með ódagsettu bréfi, 15. ágúst 2007.

Með bréfi, dags. 15. ágúst 2007, gaf ráðuneytið kæranda kost á því að koma á framfæri athugasemdum sínum við umsögn undanþágunefndar. Óskaði ráðuneytið eftir því að umsögnin myndi berast fyrir 5. september 2007 að öðrum kosti liti ráðuneyti svo á að kærandi hyggðist ekki koma á framfæri athugasemdum við umsögn undanþágunefndar og taka málið til úrskurðar.

Ráðuneytinu barst ekki umsögn kæranda en ítrekaði við kæranda með tölvupósti, dags. 12. september 2007, ef að kærandi hygðist koma athugasemdum á framfæri ætti hann að gera ráðuneytinu viðvart. Ráðuneytinu barst ekki umsögn kæranda.

Með tölvupósti, dags. 18. september 2007, óskaði ráðuneytið eftir því við undanþágunefnd að ráðuneytinu yrði send ákvörðun undanþágunefndar í málinu. Ráðuneytið ítrekaði beiðni sína með tölvupósti til undanþágunefndar, dags. 4. október 2007. Ráðuneytinu barst tölvupóstur dags. 8. október 2007 þar sem ráðuneytið var upplýst að ákvörðunin hefði verið tekin á fundi nefndarinnar 31. maí 2007 og hefði verið færð í fundargerð.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda.

Kærandi óskaði eftir því að sér yrði veitt undanþága til stýrimanns á B, einn mánuð í senn í ljósi þess að fyrir liggur staðfesting þess efnis að hann stefni á 1. stig skipstjórnar í Fjöltækniskólanum. Eftir hvern og einn mánuð væri kannað hvort kærandi stundaði námið er væri forsenda áframhaldandi undanþáguveitingar.

Hann hefur 30 brl. réttindi en B er 134,5 brl. Þá eru engir aðrir starfandi á undanþágu á skipinu.

V. Málsástæður og rök kærða.

Undanþágunefnd hafnaði umsókninni á þeim forsendum að kærandi hefði ekki nægjanleg réttindi til þess að öruggt gæti talist að veita honum undanþágu til starfa sem stýrimaður á skipi af þeirri stærð sem hér um ræðir en málið var afgreitt með sambærilegum hætti og hliðstæð mál fram að þessum tíma.

Undanþágunefnd bendir jafnframt á að samkvæmt lögskráningarkerfinu er skipið mannað skipstjórnarmönnum með nægjanleg atvinnuréttindi og hefur verið svo síðan ákvörðun nefndarinnar var tekin.

VI. Álit og niðurstöður ráðuneytisins.

Samkvæmt gögnum málsins lítur ágreiningsefni þessa máls að því hvort kærandi geti fengið undanþágu til starfa sem stýrimaður á skipi sem er 134,5 brl. en kærandi hefur 30 brl. réttindi til skipstjórnar.

Meginreglur um atvinnuréttindi skipstjóra er að finna í lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum nr. 112/1984 (hér eftir atvinnuréttindalaganna) og er nánar kveðið á um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna í reglugerð nr. 118/1996 með áorðnum breytingum (hér eftir reglugerðarinnar).

Í málinu liggur fyrir að skipið sem krafist er undanþágu til skipstjórnar á, er 134,5 brl. Til þess að geta starfað sem skipstjóri á 134,5 brl. skipi þarf viðkomandi að vera 20 ára eða eldri og hafa siglingatíma og menntun í samræmi við ákveðin stig stýrimannaskóla. Í því tilviki sem hér um ræðir þarf viðkomandi að meginreglu, að hafa a.m.k 200 rúmlesta réttindi (A3) sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hefur 30 rúmlesta réttindi, sbr. 1. mgr. 7. gr. atvinnuréttindalaganna er gefur honum skírteini (A1) sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Réttindin veita kæranda með öðrum orðum rétt til að starfa sem skipstjóri á skipi sem er 30 rúmlestir eða minna.

Frá framangreindum meginreglum er að finna ákveðnar undantekningar. Í 1. mgr. 21. gr. atvinnuréttindalaganna segir að sé skortur á mönnum með nægileg réttindi til skipstjórnar sé heimilt að veita manni, sem ekki fullnægir skilyrðum laganna, undanþágu til starfa á tilteknu skipi eða tiltekinni gerð skipa um takmarkaðan tíma, þó eigi lengur en 6 mánuði í senn. Í 2. mgr. 21. gr. laganna segir að samgönguráðherra skipi fimm manna nefnd, undanþágunefnd, til þess að fjalla um slík mál, líkt og hér um ræðir og starfar hún samkvæmt sérstökum starfsreglum nr. 247/2007 (hér eftir nefndar starfsreglurnar).

Ákvæði 21. gr. atvinnuréttindalaganna er heimildarákvæði er felur undanþágunefnd mat á því í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi aðili geti gegnt tiltekinni stöðu, sem hann hefur ekki öðlast réttindi til að gegna lögum samkvæmt, að teknu tilliti til öryggissjónarmiða. Hefur undanþágunefnd framangreindar starfsreglur til viðmiðunar við mat á hæfni tiltekinna einstaklinga.

Starfsreglurnar fela í sér ákveðnar viðmiðunarreglur í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum undanþágunefndar. Starfsreglurnar eru því ekki fast mótaðar efnisreglur er binda hendur undanþágunefndar við ákvarðanir sínar þar sem leggja verður sjálfstætt mat á hvert mál fyrir sig.

Eina lögmælta skilyrðið sem uppfylla þarf skv. 21. gr. atvinnuréttindalaganna er skortur á mönnum. Þarf sá er sækir um undanþágu að sýna fram á þennan skort. Sé sýnt fram á að um skort sé að ræða, tekur undanþágunefnd viðkomandi mál til skoðunar og metur hvort viðkomandi aðili geti gegnt þeirri stöðu sem sótt er um.

Kærandi auglýsti stöðuna lausa til umsóknar sbr. 2. gr. starfsreglnanna en fékk engin viðbrögð eða umsóknir til starfans og er það mat ráðuneytisins að á þeim tíma hafi verið sýnt fram á að skortur væri á mönnum til starfans. Var því undanþágunefnd rétt að taka efnislega afstöðu til málsins.

Undanþágunefnd komst að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki nægjanleg réttindi til þess að öruggt gæti talist að honum yrði veitt undanþága til starfans. Auk þess hafi nefndin litið til afgreiðslu nefndarinnar í sambærilegum málum.

Ráðuneytið hefur áréttað í fyrri úrskurðum sínum t.d í stjórnsýslumáli nr. 26/2007 að nefndinni beri við afgreiðslu umsókna er henni berast að líta til þátta á borð við reynslu, starfstíma í sambærilegum störfum, menntun og annara atriða er kynnu að varpa ljósi á hæfni og getu þegar til skoðunar kemur að veita undanþágu að teknu tilliti til öryggissjónarmiða. Svo virðist, miðað við fyrirliggjandi gögn, sem undanþágunefnd hafi eingöngu litið til menntunar kæranda en ekki til annarra atriða er varpað gæti ljósi á hæfni og getu kæranda að teknu tilliti til öryggisjónarmiða. Ráðuneytið tók því til skoðunar reynslu kæranda og starfstíma í sambærilegum störfum er kynnu að varpa frekara ljósi á hæfni og getu hans.

Það er þó niðurstaða ráðuneytisins eftir að hafa skoðað öll þau fyrirliggjandi gögn að synja beri kæranda um undanþágu til starfans. Þess ber einnig að geta að í umsögn sinni taldi undanþágunefnd að með veitingu undanþágunnar yrði öryggi stefnt í hættu og horfði ráðuneytið til umsagnarinnar þegar vegnir voru allir þættir og metnir við ákvörðunartökuna. Í ljósi framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun undanþágunefndar frá 31. maí 2007.

Fyrir liggur staðfesting Fjöltækniskólans að kærandi sé skráður í 1. stigs skipstjórnarnám. Í ljósi þess hefur kærandi gert þá kröfu að sér verði veitt undanþága í einn mánuð í senn og að áframhaldandi undanþáguveiting sé háð því að staðfesting liggi fyrir að kærandi stundi námið. Ráðuneytið fellst ekki á að unnt sé að skilyrðisbinda ákvörðunina með þeim hætti sem kærandi óskar þannig að um eina undanþágu væri að ræða, með ákveðnu skilyrði uppfylltu á eins mánaða fresti. Ráðuneytið metur það svo að um nokkrar undanþáguveitngar væri að ræða. Kæranda bæri því að sækja um að nýju til undanþágunefndar um leið og gildistími hverrar undanþágu fyrir sig væri útrúnninn og bæri nefndinni að taka sjálfstæða og efnislega afstöðu til umsóknanna.

Þá ber einnig að hafa í huga að eftir að umsókn kæranda um undanþágu barst undanþágunefnd var lögskráð í starf stýrimanns á skipinu júní, júlí, ágúst og september. Í ljósi þess er það mat ráðuneytisins að frá því að undanþágunefnd barst umsóknin um undanþágu í lok maí og eftir að ráðuneytinu barst kæran hafi skilyrði um skort á mönnum ekki lengur verið uppfyllt þar sem lögskráðir voru einstaklingar í sama starf og kærandi sótti um.

Ráðuneytið hvetur kæranda til þess að afla sér þeirra réttinda, sem lögum samkvæmt þarf til þess að stjórna nefndum skipum.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Ákvörðun undanþágunefndar, frá 31. maí 2007, um að synja A, um undaþágu til starfa sem stýrimaður á B er staðfest.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Unnur Gunnarssdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta