Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Flugmálastjórn Íslands - veiting undanþágu frá flug- og vinnutímamörkum og hvíldartíma flugáhafna, á tilteknum flugleiðum: Mál nr. 42/2007

Ár 2008, 4. janúar er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 42/2007

Félag íslenskra atvinnuflugmanna

f. h. flugmanna hjá Air Atlanta Icelandic

Flugmálastjórn Íslands

 

I.  Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags 12. október 2007, kærði Félag íslenskra atvinnuflugmanna, f. h. flugmanna Air Atlanta Icelandic, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands, (hér eftir nefndur kærði), ákvörðun kærða frá 1. ágúst 2007, þar sem kærði veitti Air Atlanta Icelandic undanþágu frá ákvæðum reglugerðar 782/2001, um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna varðandi flugleiðirnar Luxembourg - Singapore og Singapore - Kuala Lumpur - Baku. 

Er þess krafist af kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og ennfremur að samgönguráðuneytið mæli fyrir án tafar um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar þar til efnisleg niðurstaða liggur fyrir samkvæmt heimild í 2. mgr., sbr. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 37/1993.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra, dags. 12. október 2007 auk fylgiskjala.

2. Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 18. október 2007.

3. Bréf ráðuneytisins til Flugmálastjórnar Íslands, dags. 16. og 18. október 2007.

4. Bréf ráðuneytisins til Air Atlanta Icelandic, dags. 18. október 2007.

5. Umsögn kærða, dags. 22. október 2007.

6. Umsögn Air Atlanta Icelandic, dags. 23. október 2007.

7. Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 30. október 2007 auk fylgiskjala.

8. Athugasemdir kæranda, dags. 13. nóvember 2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.  Málsmeðferð

Framangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Þann 18. júlí 2007 óskaði Air Atlanta Icelandic (hér eftir AAI) eftir tímabundinni undanþágu til 1. febrúar 2008 frá 2. tl. a-liðar JAR-OPS 1.1085 (tafla 1) í reglugerð nr. 782/2001 um flug- og vakttíma og hvíldartíma flugáhafna á tveimur flugleiðum:

1. Lúxemborg - Singapore. Eitt flug í viku.

2. Singapore - Kuala Lumpur - Baku. Eitt flug í viku.

 Um var að ræða beiðni um undanþágu frá ákvæðum um lengsta heimilaða órofna fartíma þegar tveir menn eru í flugáhöfn. Samkvæmt 2. tl. a-liðar JAR-OPS 1.085 (tafla 1) er lengsti heimilaði órofni fartími þegar mætingartími er milli 07:00-13:59 11 klst. Áætlaður órofni fartími samkvæmt beiðni AAI á fyrri flugleiðinni var 12 klst. og á síðari flugleiðinni 11 klst. og fimm mínútur. M. ö. o. var um að ræða lengingu á órofnum fartíma um eina klukkustund varðandi fyrri flugleiðina og fimm mínútur varðandi síðari flugleiðina.

Með bréfi, dags. 1. ágúst 2007, veitti kærði umbeðna undanþágu frá ákvæðum reglugerðar nr. 782/2001 um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna samkvæmt beiðni AAI. Í bréfi kærða til AAI kom ennfremur fram að fyrirvari væri sleginn við að áætlanir félagsins væru raunhæfar, sér í lagi mætingartími. 

Með tölvupósti þann 5. september 2007 óskaði formaður félags kæranda eftir rökstuðningi kærða fyrir þeirri ákvörðun að veita AAI undanþágu frá ákvæðum reglugerðar nr. 782/2001 um flug- og vakttíma og hvíldartíma flugáhafna.

Þann 18. september 2007 svaraði kærði beiðni kæranda um rökstuðning með tölvupósti og vísaði til nýrrar reglugerðar Evrópusambandsins nr. 3922/91 með síðari breytingum [Regulation (EC) No 1899/2006 of the European Parliament and of the Council of 12 December 2006 amending Council Regulation (EEC) No 3922/91 on the harmonisation of technical requirements and administrative procedures in the field of civil aviation] (innskot ráðun.) þar sem engar takmarkanir væru settar á órofnum fartíma og því hægt að fljúga framangreind flug miðað við þau ákvæði.  Jafnframt kom fram í rökstuðningi kærða að það væri stefna kærða að hvetja flugrekendur til og heimila þeim að taka upp nýjar reglur sem innleiða á hér á landi sem fyrst.

Í rökstuðningi kærða kom ennfremur fram að umrædd flug hefði einnig verið hægt að fljúga í samræmi við kröfur reglugerðar um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna með því að bæta við millilendingu, en slíkt leiðir af sér aukna áhættu og lengri flugvaktir.

Með stjórnsýslukæru, dags. 12. október 2007, kærði kærandi framangreinda ákvörðun til samgönguráðuneytisins. Kærða var með bréfi dags. 16. og 18. október, gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi kæruna. AAI var með bréfi, dags. 18. október 2007, veittur andmælaréttur. Umsögn kærða barst með bréfi, dags. 22. október 2007, og umsögn AAI þann 23. október 2007.

Þann 29. október 2007 kom fram í  símtali við flugrekstrarstjóra félagsins að flugið Singapore ? Kuala Lumpur - Baku væri hætt, þar sem áætlun þess félags sem verið væri að þjónusta hefði tekið breytingum. 

Kærendum var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi, dags. 30. október 2007, auk þess sem sérstaklega var vakin athygli kærenda á þeim upplýsingum sem borist höfðu frá AAI varðandi flug félagsins á flugleiðinni Singapore ? Kuala Lumpur ? Baku sem væri hætt. Ennfremur var upplýst um afstöðu ráðuneytisins þess efnis að ekki væru efni til að úrskurða sérstaklega um frestun réttaráhrifa í ljósi nýfenginna upplýsinga og þess tíma sem þegar væri liðinn frá því að ákvörðun var tekin og málið kært. Bárust athugasemdir kæranda þann 13. nóvember 2007.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV.  Málsástæður og rök kærenda

Kærandi krefst þess að ákvörðun kærða dags. 1. ágúst 2007, um veitingu undanþágu frá ákvæðum 2. tl. a-liðar JAR-OPS 1.1085 (tafla 1) í reglugerð nr. 782/2001 um flug- og vakttíma og hvíldartíma flugáhafna á tveimur flugleiðum, verði felld úr gildi. Ennfremur er þess krafist að samgönguráðuneytið mæli án tafar fyrir um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan kæran er til efnislegrar meðferðar, samkvæmt heimild í 2. mgr., sbr. 4. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum.

Af hálfu kæranda er byggt á eftirfarandi sjónarmiðum:

Í umsögn kæranda kom fram að ákvörðunin ætti sér ekki lagastoð og ekki sé grundvöllur fyrir veitingu undanþágunnar. Ákvörðunin um veitingu undanþágunnar sé rökstudd með vísan til réttarheimilda sem ekki hafi öðlast lagagildi hér á landi og alls óvíst sé hvenær verði innleiddar. Undanþágur verði ekki réttlættar með vísan til þess hvaða reglur eða lög kunni að vera í vændum.  Lægra sett stjórnvald getur ekki tekið sér vald til reglusetningar sem löggjafarvald og eftir atvikum samgönguráðherra eru eitt bært til lögum samkvæmt. Með undanþágunni hafi kærði í raun tekið sér slíkt vald. Því sé röksemdafærsla kærða röng að mati kæranda.

Að mati kæranda er sá rökstuðningur kærða að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1899/2006 taki senn gildi hér á landi verulega áfátt, þrátt fyrir ábendingar í þá átt að óvíst sé hvenær reglugerðin verði innleidd hérlendis. 

Í umsögn kæranda kom ennfremur fram að reglugerðin kveði á um þann möguleika að unnt sé að veita undanþágu frá ákvæðum hennar að tveimur skilyrðum fullnægðum. Annars vegar að til sé að dreifa sérstökum ástæðum sem réttlæti slíka undanþágu og hinsvegar að flugöryggi sé ekki stefnt í hættu.

Að mati kæranda sé fyrra skilyrðinu ekki fullnægt, enda hafi kærði ekki leitast við að rökstyðja þær sérstöku ástæður. Undanþágur að mati kæranda verði að byggja á málefnalegum rökum og verða eðli máls samkvæmt ekki veittar nema óviðráðanlegar og ófyrirséðar aðstæður kalli á veitingu undanþágu. Ekkert slíkt liggur fyrir í málinu að mati kæranda heldur er veitt almenn heimild fyrir rýmkun fartíma á tilteknum flugleiðum sem AAI hafi fram til þessa verið að fljúga með þriggja manna áhöfn í samræmi við efni reglugerðar nr. 782/2001. 

Þá byggir kærandi á því að sú fullyrðing kærða að hægt sé að fara á svig við ákvæði gildandi reglugerðar um flug- og vakttíma með millilendingu sé röng, sbr. rökstuðning kærða vegna veitingar undanþágu. Sé órofni fartíminn rofinn með millilendingu til að fara á svig við ákvæði um órofinn fartíma væri flugrekandinn kominn mjög nálægt því að fara yfir hámarksflugvakt skv. ákvæðum gildandi reglugerðar. Mætti mjög lítið út af bera til þess að farið væri út fyrir leyfileg mörk. Þá sé það mat kæranda að flugtæknilegar ástæður komi í veg fyrir að unnt sé að lenda og taka á loft á svo skömmum tíma að fartími rúmist innan flugvaktar. Þetta eigi við þrátt fyrir að miðað sé við ákvæði reglugerðar Evrópubandalagsins nr. 1899/2006.

Sú ákvörðun að veita undanþáguna leiðir til þess að tveggja manna áhöfn er í skipulagðri áætlun endurtekið og ítrekað ætlað að vera lengur við stjórn flugvéla heldur en ystu mörk núgildandi reglna gera ráð fyrir. Slíkt sé fallið til þess að auka á þreytu flugmannanna og þar með er flugöryggi teflt í frekari hættu en ella að mati kæranda. Þá telur kærandi að það að fella niður veitta undanþágu verði ekki þess valdandi ,,að ekki sé unnt að framkvæma flugin heldur leiðir hún til þess að AAI, eins og aðrir flugrekendur, verða að hafa á að skipa hér eftir, líkt og fyrir veitingu undanþágunnar, auka áhafnameðlim til þess að létta álagi af flugmönnum flugöryggis vegna.?

V.  Málsástæður og rök kærða

Af hálfu kærða er byggt á eftirfarandi sjónarmiðum:

Í umsögn kærða kom fram að þegar ákvörðun um veitingu undanþágunnar var tekin hafi verið haft í huga að hægt væri að fara á svig við ákvæði reglugerðarinnar um órofinn fartíma með því að bæta við millilendingu og með því rjúfa fartímann. Þá var það mat kærða að við slíkar aðstæður væri flugrekstraraðili að skapa meiri áhættu en þá að fljúga skv. undanþágu. Skv. kærða er ,,það [er] kunnara en frá þurfi að skýra, að millilending og flugtak hefur í för með sér aukna hættu hvað varðar flugöryggi.?

Þá taldi kærði að stofnunin væri á réttri leið með veitingu undanþágunnar, þar sem Evrópusambandið hefur þegar gert breytingar á flug- og vakttímareglum sem taka munu gildi í júlí 2008 innan bandalagsins, þar sem ákvæði er lúta að órofnum fartíma eru rýmkuð til samræmis við veitingu undanþágunnar. 

Sérstaklega mælti kærði gegn frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða, þar eð það kynni að valda óvissu um hvaða reglur væru í gildi á hvaða tíma.

VI.  Andmæli Air Atlanta Icelandic

Af hálfu AAI er byggt á eftirfarandi sjónarmiðum:

Að nýjar reglur um flug- og vakttíma taki gildi innan Evrópubandalagsins í júlí 2008, en þar verði engin mörk sett á lengsta órofna fartíma. Þessar tvær flugleiðir sem undanþágan lýtur að verði leyfilegar samkvæmt nýjum kröfum Evrópubandalagsins, sér í lagi með tilliti til krafna um leyfilegar flugvaktir. 

Það sé álit AAI að með undanþágunni sé mögulegt að komast hjá millilendingu sem skapar aukna áhættu og lengri flugvakt.

Að það sé hagkvæmara fyrir AAI að færa sér í nyt undanþáguna á þessum tveimur flugleiðum en ella, þar sem að þær koma í veg fyrir millilendingar eða tvöfalda áhafnaskipun um borð. 

Undanþágan bæti rekstrarstöðu félagsins þar sem kærði hvetur og heimilar félaginu að taka upp nýjar reglur í sínu vinnuumhverfi.

Það sé álit félagsins að ákvörðun kærða hafi verið tekin á faglegum og vönduðum forsendum og það sé ósk og trú félagsins að ákvörðuninni verði ekki hnekkt vegna verkalýðsfélags sem stendur í kjaraviðræðum við félagið.

VII.  Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Aðild

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með síðari breytingum, segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju.

Kærandi í máli þessu er Félag íslenskra atvinnuflugmanna, f. h. flugmanna hjá Air Atlanta Icelandic. Ekki liggur fyrir í málinu hve margir þeir eru né hve margir hafa með beinum hætti hagsmuni af úrlausn málsins. 

Umboðsmaður Alþingis hefur áður fjallað um sambærilegt álitaefni og hér er uppi er varðar heimild stéttarfélags til að kæra ákvörðun lægra setts stjórnvalds er varðar hagsmuni einstakra eða tiltekins hóps félaga í stéttarfélagi. Í áliti Umboðsmanns Alþingis (Mál 4902/2007) er tekið fram að:

,,Í stjórnsýslulögum er ekki tekin afstaða til þess hverjir teljast eiga kæruaðild með öðrum hætti en að hana eigi sá sem sé aðili málsins. Við mat á því hver geti talist aðili kærumáls verður að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Meta verður heildstætt hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn málsins. Aðilar máls á lægra stjórnsýslustigi teljast almennt eiga kæruaðild að sama máli en kæruaðild er ekki bundin við þá eina. Í öðrum tilvikum þarf við afmörkun á kæruaðildinni sérstaklega að horfa til þess hver er tilgangurinn með kæruheimildinni og efnis þeirrar ákvörðunar sem um er að ræða. ...

Þegar litið er til þessa og áðurnefndra sjónarmiða um réttaröryggi verður ekki séð að tilefni sé til þess að setja kæruaðild þröngar skorður enda séu uppfyllt áðurnefnd skilyrði um tengsl aðila við efni hlutaðeigandi ákvörðunar.? 

Jafnframt tekur Umboðsmaður fram eftirfarandi:

,,Það er sjálfstætt athugunarefni hverju sinni hvort játa eigi félögum eða samtökum manna kæruaðild á stjórnsýslustigi rétt eins og fyrir dómstólum. Félag getur eðlilega komið fram fyrir hönd aðila í stjórnsýslumáli samkvæmt sérstöku umboði frá aðila málsins en auk þess er viðurkennt á sviði stjórnsýsluréttar að félag geti sjálft átt kæruaðild vegna félagsmanna sinna ef umtalsverður hluti félagsmanna telst eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og gæsla þessara hagsmuna telst til yfirlýsts tilgangs og markmiða félagsins.? 

Í umsögn kærða og AAI var ekki gerð athugasemd við aðild kæranda að stjórnsýslukærunni fyrir hönd félagsmanna hjá AAI. Í ljósi þessa og með vísan til þeirra sjónarmiða sem reifuð eru að framan er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé ástæða til að vísa málinu frá á grundvelli aðildarskorts.

Efni undanþágu

Stjórnsýslukæra þessi lýtur að veitingu undanþágu frá lengsta órofna fartíma samkvæmt reglugerð um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna nr. 782/2001. Reglugerðin byggist á völdum ákvæðum úr drögum að Q-kafla JAR-OPS 1 og 3 um flutningaflug með flugvélum og þyrlum sem unnin voru á vettvangi Flugöryggissamtaka Evrópu, JAA og tilskipunar ráðsins 2000/79/EB frá 27. nóvember 2000 um Evrópusamning um skipulag vinnutíma farstarfsmanna í almenningsflugi sem gerður var milli Evrópusambands flugfélaga (AEA), Sambands félaga flutningaverkamanna í Evrópu (ETF), Evrópska flugliðasambandsins (ECA), Samtaka evrópskra svæðisflugfélaga (ERA) og Alþjóðasamtaka flutningaflugfélaga (IACA) sem innleidd var í EES-samninginn, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2001. Tilskipunin tilgreinir m.a. hámarks vakt og fartíma á hverju samfelldu 12 mánaða tímabili.

Reglugerð um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna nr. 782/2001 er sett með vísan til 4. mgr. 37. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, með síðari breytingum. Þar segir að samgönguráðherra sé heimilt að setja í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma með það að markmiði að tryggja fyllsta flugöryggi. Í 3. gr. reglugerðarinnar er Flugmálastjórn Íslands veitt heimild til frávika frá ákvæðum reglugerðarinnar, enda sé sérstökum ástæðum til að dreifa sem réttlæti slíkt og flugöryggi ekki stefnt í hættu að mati stofnunarinnar.

Efni undanþágu lýtur að framlengingu á lengsta órofna fartíma á tveimur flugleiðum:

1. Lúxemborg - Singapore.

Undanþága tekur til framlengingar órofins fartíma um 1 klst. úr 11:00 klst. í 12:00 klst, sbr. 2. tl. a-liðar JAR-OPS 1.1085 (tafla 1) í viðauka I. við reglugerð nr. 782/2001. Miðað er við mætingu á vakt kl. 12:10 að staðartíma. Leyfileg flugvakt er 13:30 klst. miðað við mætingartíma, sbr. 1. tl. c-liðar JAR-OPS 1.1085 (tafla 2). Sé tekið tillit til lágmarks mætingartíma er samtala nýs fartíma og mætingartíma alls 13 klst.

Lúxemborg ? Singapore flugið er á áætlun einu sinni í viku hjá AAI.

2. Singapore - Kuala Lumpur - Baku. 

Undanþága tekur til fimm mínútna framlengingar órofins fartíma þ.e. frá 11:00 til 11:05, sbr. 2. tl. a-liðar JAR-OPS 1.1085 (tafla 1) í viðauka I. við reglugerð nr. 782/2001. Miðað er við mætingu á vakt kl. 07:40 að staðartíma. Leyfileg flugvakt er 14:00 klst. miðað við mætingartíma, sbr. 1. tl. c-liðar JAR-OPS 1.1085 (tafla 2). Sé tekið tillit til lágmarks mætingartíma er samtala nýs fartíma og mætingartíma alls 12 klst. og fimm mínútur.

Fram hafa komið upplýsingar frá flugrekstrarstjóra AAI að fluginu Singapore ? Kuala Lumpur - Baku hafi verið hætt vegna breytinga.

Samkvæmt orðskýringum í JAR-OPS 1.080 í viðauka I við reglugerð nr. 782/2001 er:

Vakt tímabil sem hefst þegar flugverja ber að mæta til vinnu samkvæmt fyrirmælum flugrekanda og lýkur þegar flugverjinn er laus við alla vinnuskyldu. 

Flugvakt er tímabil sem hefst þegar starfandi flugverja ber að mæta til vinnu sem felur í sér flug og endar í lok fartíma í lokafluginu þar sem flugverjinn er starfandi flugverji. 

Fartími sá tími frá því að flugvél hreyfist af flugvélastæði sínu til að hefja flug og þar til hún stöðvast að því loknu á flugvélastæði sem henni hefur verið úthlutað eða þar til allir hreyflar hafa verið stöðvaðir.

Mætingatími sá tími þegar flugverja er skylt að mæta til vinnu samkvæmt fyrirmælum flugrekanda. Skv. JAR-1100 í viðauka I við reglugerðina skal flugrekandi tilgreina mætingatíma sem eru raunhæfir miðað við þann tíma sem þarf til undirbúnings fyrir flugið, þó eigi síðar en 60 mínútum fyrir upphaf áætlaðs fartíma, nema flugmálayfirvöld hafi samþykkt annað.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. gr. reglugerðar um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna getur Flugmálastjórn Íslands veitt heimildir til frávika frá ákvæðum reglugerðarinnar, enda sé sérstökum ástæðum til að dreifa sem réttlæti slíkt og flugöryggi er ekki stefnt í hættu. 

Af hálfu kæranda er byggt á því að rökstuðningi kærða sé verulega áfátt og hann sé rangur. Sú réttarheimild sem kærði byggir á í rökstuðningi sínum til kærða hafi ekki tekið gildi og enn sé óvíst hvenær svo verði. Undanþágur verði ekki réttlættar með vísan til þess hvaða reglur og lög kunni að vera í vændum.

Af hálfu AAI er á því byggt að veiting undanþágunnar bæti rekstrarstöðu félagsins þar sem kærði hvetur og heimilar félaginu að taka upp nýjar reglur í sínu vinnuumhverfi. 

Reglugerð (EB) Evrópuþingsins og ráðsins EB nr. 1899/2006 frá 12. desember 2006 um breytingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3922/91 um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 120/2007 frá 28. september 2007. Af hálfu ráðuneytisins hefur ekki verið tekin afstaða til þess hvernig staðið verður að innleiðingu Q-kafla í viðauka við reglugerðina um flug- og vakttíma með vísan til 10. liðar 1. gr. reglugerðarinnar. Þegar hefur verið settur á stofn starfshópur ráðuneytisins, Flugmálastjórnar Íslands og hagsmunaaðila til að fara yfir málið. 

Tilvísun til reglugerðar sem er óinnleidd og hefur ekki tekið gildi verður ekki talin grundvöllur veitingar undanþágu á grundvelli sérstakara aðstæðna.

Af hálfu kærða var við veitingu undanþágunnar haft í huga að hægt væri að fara á svig við ákvæði reglugerðarinnar um órofinn fartíma með því að bæta við millilendingu og með því rjúfa fartímann. Í umsögn kærða er ekki gerður greinarmunur á flugleiðunum tveimur hvað þetta varðar. Þá var það mat kærða að við slíkar aðstæður væri flugrekstraraðili að skapa meiri áhættu en þá að fljúga skv. undanþágu. Ekki er frekar gerð grein fyrir áhrifum veitingu undanþágunnar á flugöryggi í umsögn eða rökstuðningi kærða. Þá er heldur ekki gerð grein fyrir áhrifum undanþágu á flugtíma, hvíldartíma eða vaktafyrirkomulag þeirra flugmanna sem ákvörðunin lýtur að né annarra atriða sem til skoðunar gætu komið svo sem tímamismunar við byrjun og lok vaktar.

Ef litið er til flugleiðarinnar Luxembourg ? Singapore er ljóst að um mjög skamman tíma (30 mín.) er að ræða til mögulegrar millilendingar og flugtaks, ef flugið á að vera innan leyfilegrar flugvaktar. Er ekki séð að slíkt myndi þjóna hagsmunum flugrekandans. Hvað flugleiðina Singapore ? Kuala Lumpur ? Baku er mun rýmri tími fyrir hendi. Þar sem flugi á þeirri flugleið hefur þegar verið hætt kemur hún ekki til frekari skoðunar.

Margvíslegar rannsóknir hafa verið gerðar á flug- og vinnutímamörkum flugmanna, m.t.t. mannlegrar frammistöðu (human performance), hvíldar, svefns, tímamismunar frá brottfararstað á áfangastað (flugi í gegnum mörg tímabelti) auk annarra þátta. Almennt virðast niðurstöður rannsókna benda til þess að þreyta hafi áhrif á mannlega frammistöðu og árvekni manna í mjög löngum flugum. Því sé lenging fartíma og vakttíma í mjög löngum flugum eins og hér um ræðir vafasöm með tilliti til öryggis. 

Að mati ráðuneytisins ber að túlka heimildir til frávika frá ákvæðum reglugerðar um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma flugáhafna, nr. 782/2001 þröngt. Sérstakar ástæður verða að liggja til grundvallar sem réttlæti slík frávik og mat á flugöryggi þarf að leiða til þeirrar niðurstöðu að því sé ekki stefnt í hættu. Ekki verður sýnt fram á í máli þessu að slíkum ástæðum sé til að dreifa. 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands, dags. 1. ágúst 2007, um veitingu undanþágu til Air Atlanta Icelandic á flugleiðunum Luxembourg - Singapore og Singapore - Kuala Lumpur - Baku frá ákvæðum reglugerðar nr. 782/2001 um flug- og vinnutímamörk og hvíldartíma áhafna, er felld úr gildi.

 

Ragnhildur Hjaltadóttir

  

Unnur Gunnarsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta