Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu - synjun endurveitingu ökuréttinda: Mál nr. 49/2007

Þann 19. mars 2008 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður

í stjórnsýslumáli nr. 49/2007

A

gegn Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, sem barst þann 22. nóvember sl., kærði Ágúst Stefánsson, hdl., f. h. A (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur kærði), að synja beiðni kæranda um endurveitingu ökuréttar, en í bréfi lögmanns kæranda kemur fram að sú synjun sé dagsett 15. febrúar 2007.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1. Bréf kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 22. nóvember 2007.

Nr. 2 Bréf samgönguráðuneytis til lögmanns kæranda, dags. 7. desember 2007.

Nr. 3. Bréf samgönguráðuneytis til kærða, dags. 1. febúar 2008.

Nr. 4 Bréf lögmanns kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 20. febrúar 2008.

Nr. 5 . Bréf kærða til samgönguráðuneytis, dags. 21. febrúar 2008.

Nr. 6 Bréf samgönguráðuneytis til lögmanns kæranda, dags. 28. febrúar 2008.

Nr. 7 Bréf lögmanns kæranda til samgönguráðuneytis, dags. 10. mars 2008.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sér verði veittur ökuréttur að nýju. Kærði krefst þess að ákvörðun sín verði staðfest.

II. Málsmeðferð

Ofangreind kæra barst samgönguráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III. Málsatvik

Kærandi var fyrst sviptur ökurétti í tólf mánuði frá 4. febrúar 2004, í níu mánuði frá 4. febrúar 2005 og síðan í þrjú ár frá 4. nóvember 2005. Samanlagt hefur hann því verið sviptur ökurétti í fjögur ár og níu mánuði samfleytt.

Með bréfi dags. 22. nóvember 2007 fór lögmaður kæranda þess á leit við samgönguráðuneytið að það hlutaðist til um að synjun kærða á endurveitingu ökuréttar verði felld úr gildi og að honum yrði veittur ökuréttur að nýju.

Með bréfi dags. 7. desember 2007 er kæranda tilkynnt að málið hafi verið tekið til stjórnsýslulegrar meðferðar.

Með bréfi dags. 1. febrúar 2008 fór ráðuneytið þess á leit við kærða að hann tjái sig um framkomna beiðni um endurveitingu ökuréttar.

Með bréfi dags. 25. febrúar 2008 ítrekar lögmaður kæranda erindi sitt til samgönguráðuneytis.

Með bréfi dags. 26. febúar 2008 barst ráðuneytinu umsögn kærða vegna framkominnar kæru.

Þann 28. febrúar 2008 sendi ráðuneytið bréf til lögmanns kæranda, þar sem þess var farið á leit að hann tjái sig um framkomna umsögn kærða.

Þann 10. mars 2008 barst ráðuneytinu bréf lögmanns kæranda, þar sem hann tjáir sig um umsögn kærða.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi lítur svo á að þar sem hann hafi verið sviptur ökurétti í þrjú ár þegar hann sótti um endurveitingu ökuréttar í febrúar 2007 hafi kærða borið að veita sér ökurétt að nýju. Í máli hans eigi við ákvæði 1. mgr. 106. gr. umfl. þess efnis að hægt sé að sækja um endurveitingu ökuréttar, þegar svipting hafi staðið í lengri tíma en þrjú ár. Í hans tilfelli hafi sviptingin staðið í fjögur ár og því fari hann fram á að sér verði veittur ökuréttur að nýju.

Vegna aðstæðna sinna leggur kærandi áherslu á mikilvægi þess að hann öðlist ökurétt að nýju. Hann sé sjúklingur og háður því að geta komist á milli staða í bifreið.

Í mars 2007 gekkst kærandi undir aðgerð þar sem hryggur hans var spengdur. Á hann því mjög erfitt um hreyfingu og það að vera án ökuréttar geri honum lífið erfitt. Í byrjun apríl nk. mun hann gangast undir frekari aðgerð, og má búast við að hún verði honum til enn frekari hindrana við að komast á milli staða. Hann hafi ennfremur gengist undir áfengismeðferð.

V. Málsástæður og rök kærða

Í bréfi sínu dags. 4. júlí 2007 vísar kærði til túlkunarvenju sem myndast hafi í sambærilegum málum, en samkvæmt þeim verði ekki litið svo á að sá sem er ítrekað sviptur ökurétti geti lagt saman tímalengd ökuleyfissviptinganna og þannig nýtt sér ákvæði í 1. mgr. 106. gr. umfl. þess efnis að fara megi fram á að tímalengd ökuleyfissviptingar í lengri tíma en þrjú ár verði stytt í þrjú ár. Í þessu sambandi bendir kærði á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1896/1996, en þar kom fram það álit umboðsmanns að samanlagður tími tveggja eða fleiri ökuréttarsviptinga skapi ekki rétt til endurveitingar ökuréttar á grundvelli 1. mgr. 106. gr. umfl.

Kærði líti því svo að að rétt hafi verið að synja kæranda um endurveitingu ökuréttar.

Í ljósi ofangreinds telur kærði að ákvörðun sín skuli standa.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda skv. 106. gr. umfl.

Í áliti Umboðsmanns Alþingis nr. 1896/1996, dags. 16. maí 1997 reyndi á svipað álitaefni eins og áður greinir. Þar kemur fram það sjónarmið að ákvæði 106. gr. umfl. um að hægt sé að sækja um endurveitingu ökuréttar að þremur árum liðnum hafi svipting staðið í meira en þrjú ár sé undantekning frá þeirri meginreglu að menn taki að fullu út þau viðurlög sem þeim eru gerð fyrir brot á umferðarlögum. Þar af leiðir að umrædd undantekning í 106. gr. umfl. verði að skýra þröngt. Ráðuneytið tekur undir þetta sjónarmið umboðsmanns Alþingis, en að mati ráðuneytisins verður 106. gr. umfl. ekki túlkuð svo að leggja megi saman sviptingartíma ökuréttar og veita þannig kæranda möguleika á að sviptingartímabilið verði stytt.

Að stjórna ökutæki fylgir mikil ábyrgð, en kærandi hefur ítrekað ekið undir áhrifum áfengis og þannig sýnt að skilyrði fyrir endurveitingu ökuréttar sem 2. mgr. 106. gr. umfl. tekur til kemur ekki til skoðunar, en þar segir að endurveitingu skuli því aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Í ljósi þess sem að ofan greinir verður ekki fallist á að skilyrði 106. gr. umfl. um endurveitingu ökuréttar eigi við í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er kröfu A um endurveitingu ökuréttar.

Unnur Gunnarsdóttir

Birna Hreiðarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta