Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN18010025

Ár 2019, þann 6. febrúar, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN18010025

 

Kæra X

á ákvörðun

lögreglustjórans á Suðurnesjum

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru  móttekinni 9. janúar 2018 kærði X, kt. 0000, ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum (hér eftir nefndur lögreglustjóri) frá 18. desember 2017 um að afturkalla jákvæða umsögn vegna bakgrunnsathugunar. Krefst X þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt verði fyrir lögreglustjóra að gefa út jákvæða umsögn. Kæruheimild er í 3. mgr. 70. gr. c loftferðalaga nr. 60/1998.

 

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sendi lögreglustjóri X bréf dags. 27. nóvember 2017 þar sem tilkynnt var um fyrirhugaða afturköllun jákvæðrar umsagnar vegna bakgrunnsathugunar. Var X gefinn fjórtán daga frestur til andmæla. Þar sem engar athugasemdir bárust lögreglustjóra tók embættið þann 18. desember 2017 ákvörðun um að afturkalla jákvæða umsögn X vegna bakgrunnsathugunar. 

Ákvörðun lögreglustjóra var kærð til ráðuneytisins með bréfi X mótteknu 9. janúar 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. janúar 2018 var lögreglustjóra gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi embættisins mótteknu 30. janúar 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 7. febrúar 2018 var X kynnt umsögn lögreglustjóra og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi dags. 28. mars 2018 tilkynnti ráðuneytið X að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.    Málsástæður og rök X

Í kæru kemur fram að X hafi verið tekinn fyrir vörslu á 0,46 gr. af kókaíni. Sé annars vegar um að ræða mjög smávægilegt brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og hins vegar fyrsta og eina brot X. Hafi sektargerð lögreglustjóra verið gerð upp. Kveðst X eiga að baki langt og strangt nám í flugvirkjun með miklum kostnaði. Sé það mjög íþyngjandi ákvörðun fyrir hann að vera neitað um aðgang að haftasvæði flugverndar. Sé þetta mjög bagalegt fyrir X þar sem honum hafi verið boðið starf hjá WOW. Sé brot X þess eðlis og það smávægilegt að óhætt sé að fullyrða að engar vísbendingar séu um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af því að X hafi aðgang að haftasvæði flugverndar. Þvert á móti sé mælt með því af flugverndarstjóra WOW að X fái aftur aðgang að haftasvæði. Kveðst X reiðubúinn að gangast undir fíkniefnapróf, þar á meðal blóð- og þvagrannssókn, til að sýna fram á að hann neyti ekki ólöglegra efna.

 

IV.    Ákvörðun og umsögn lögreglustjóra

Í ákvörðun lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt 26. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 750/2016, sbr. loftferðalög nr. 60/1998, framkvæmi lögregla bakgrunnsathuganir á einstaklingum sem þurfi starfa sinna vegna aðgang að haftasvæði flugverndar. Ríkislögreglustjóri hafi falið embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum að framkvæma þessar bakgrunnsathuganir. Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar skuli við ákvörðun um hvort veita beri umsækjanda heimild til að sækja námskeið í flugverndarþjálfun og aðgangsheimild að haftasvæði flugverndar eða aðgang að trúnaðarupplýsingum um flugvernd sérstaklega athuga brotaferil einstaklings sem sótt er um heimild fyrir. Í ákvörðuninni kemur fram að hún byggist á því að þann 28. september 2017 hafi X sæst á greiðslu 85.000 kr. sektar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu fyrir brot gegn 1. mgr. 19. gr. sbr. 1. mgr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og 2. sbr. 5. og 6. gr. l. um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Teljist X þannig ekki lengur uppfylla hæfisskilyrði til starfa innan haftasvæðis flugverndar og því sé jákvæð umsögn afturkölluð.

Í umsögn lögreglustjóra kemur fram að jákvæð umsögn X hafi verið afturkölluð á grundvelli 26. gr. reglugerðar um flugvernd þar sem hann hafi undirgengist sektargerð og greiðslu að fjárhæð kr. 85.000 fyrir að hafa neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu við handtöku, sbr. 19. gr. lögreglulaga, og vörslu á 0,46 gr. af kókaíni, sbr. 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. l. um ávana- og fíkniefni. Þar af leiðandi uppfylli X ekki lengur skilyrði til að njóta aðgangs að haftasvæði flugverndar. Sé bakgrunnsathugun lögreglu liður í því að ákvarða hvort óhætt þyki að veita einstaklingi aðgangsheimild að haftasvæði flugverndar og viðkvæmum trúnaðarupplýsingum um flugvernd eða hvort viðkomandi skuli synjað um slíkan aðgang. Með bakgrunnsathugun sé átt við athugun á því hver einstaklingur er og upplýsingum lögreglu um sakaferil hans, þ.m.t. hvort hann eigi brotaferil að baki, sbr. 70. gr. loftferðalaga og 3. gr. reglugerðar um flugvernd.

Í 1. mgr. 26. gr. reglugerðar um flugvernd sé tiltekið að í athuguninni skuli kanna bakgrunn einstaklings a.m.k. fimm ár aftur í tímann og í henni felist m.a. skoðun í málaskrá lögreglu, skoðun á sakavottorði, upplýsingakerfi Interpol, SIS-upplýsingakerfinu o.fl. Bakgrunnsathuganir skuli framkvæmdar af ríkislögreglustjóra sem geti jafnframt falið þær öðrum lögregluembættum, sbr. 26. gr. reglugerðar um flugvernd. Í tilviki X hafi ríkislögreglustjóri falið lögreglustjóra að annast þær. Í 26. gr. reglugerðar um flugvernd segi enn fremur að lögreglu sé heimilt, að eigin frumkvæði, að gera úrtaksathugun á þeim aðilum sem staðist hafa bakgrunnsathugun eins lengi og aðgangsheimildir þeirra eru í gildi. Jafnframt sé lögreglu heimilt að hafa eftirlit með skráningum bakgrunnsathugaðra einstaklinga í málaskrá lögreglu eins lengi og aðgangsheimildir þeirra eru í gildi. Þá segi í 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar að komi í ljós að einstaklingur, sem hlotið hefur bakgrunnsathugun, brjóti af sér eftir að athugun átti sér stað skuli lögregla eftir atvikum afturkalla jákvæða umsögn sem veitt hefur verið. Þá komi fram í d-lið 2. mgr. 26. gr. að með bakgrunnsathugun skuli m.a. kanna og staðfesta þá hættu sem kunni að stafa af viðkomandi innan haftasvæðis flugverndar.

Í 27. gr. reglugerðar um flugvernd sé fjallað um mat á afbrotaferli. Í 1. mgr. 27. gr. komi m.a. fram að sérstaklega skuli athuga brotaferil einstaklings sem sótt er um heimild fyrir. Skuli leggja til grundvallar upplýsingar úr sakaskrá til yfirvalda og eftir atvikum málaskrá og öðrum skrám löggæsluaðila um viðkomandi einstakling. Í 2. mgr. 27. gr., sbr. a-lið breytingareglugerðar nr. 287/2017, komi fram þau viðmið sem nota skuli til grundvallar við mat á því hvort brotaferill einstaklings geti leitt til þess að honum verði synjað um aðgang að haftasvæði, í þessu tilviki með afturköllun jákvæðrar umsagnar. Ákvæði 3. mgr. 27. gr., sbr. b-lið breytingareglugerðar nr. 287/2017, geri ráð fyrir því að hafi einstaklingi verið ákvörðuð sekt fyrir brot á lögum sem tilgreind eru í 2. mgr. 27. gr. sé heimilt að synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, enda gefi brotin vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar séu brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni tiltekin og einnig vísað til A-liðar viðauka II, en þar sé skrá yfir ýmis afbrot sem hafi áhrif á aðgang að haftasvæði flugverndar. Sé þar m.a. vísað til brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá segi í 5. mgr. 27. gr. reglugerðar um flugvernd að við mat á brotaferli einstaklings í þeim tilvikum þar sem ekki sé skylt að synja um aðgang skuli leggja heildstætt mat á það hvort öryggi flugsamgangna eða almannahagsmunum geti stafað hætta af einstaklingi. Tekið sé fram að sérstaklega skuli meta hugsanlega hættu sem af viðkomandi kunni að stafa gagnvart íslenska ríkinu og erlendum ríkjum, öryggi þeirra, flugstarfsemi og öðrum almannahagsmunum. Í 6. mgr. 27. gr. segi enn fremur að komi í ljós við bakgrunnsathugun samkvæmt kaflanum að einstaklingur hafi ítrekað gengist undir sektargreiðslur vegna fíkniefnalagabrota eða hafi lögregla rökstuddan grun um að viðkomandi neyti ólöglegra ávana- og fíkniefna geti lögregla ákveðið að skilyrða umsögn bakgrunnsathugunar því að hann gangist undir fíkniefnapróf, þ.á.m. blóð- og þvagrannsókn, en heimild sé til þess að óska eftir að einstaklingur gangist undir fíkniefnapróf telji lögregla niðurstöður slíkrar rannsóknar geta haft áhrif á niðurstöður athugunar lögreglu, sbr. einnig 2. mgr. 70. gr. loftferðalaga.

Fyrir liggi að X hafi undirgengist sektargerð fyrir að hafa neitað að hlýða fyrirmælum lögreglu við handtöku, sbr. 19. gr. lögreglulaga, og fyrir vörslu á 0,46 gr. af kókaíni sbr. 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíknefni. Var X gert að greiða 85.000 kr. í sekt. Telur lögreglustjóri að ákvæði 2. mgr. og 3. gr. reglugerðar um flugvernd eigi við mál X að því er varðar vörslu fíkniefna og þar með brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Að þessu skilyrði sé heimilt að synja um aðgang enda gefi brotin vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi og almannahagsmunum kunni að stafa hætta af og sama gildi ef brotið er stórfellt. Felist matið í því hvort brotið gefi áður nefndar vísbendingar eða teljist stórfellt. Telur lögreglustjóri að þau brot sem tiltekin eru í A-lið viðauka II og B-lið viðauka II verði að teljast stórfelld, sbr. 9. gr. breytingareglugerðar nr. 287/2017. Þá verði að telja vörslu kókaíns vera vísbendingu um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi og almannahagsmunum kunni almennt að stafa hætta af. Telur lögreglustjóri ótvírætt, með vísan til b-liðar 28. gr. reglugerðar um flugvernd, að þrjú ár þurfi að vera liðin frá því aðili gekkst undir sektargreiðslu, í tilviki X þann 28. september 2017, eða skv. c-lið þegar þrjú ár eru liðin frá síðustu færslu í málaskrá eða aðra skrá lögreglu varðandi málefni sem gefa vísbendingu um að öryggi flugsamgangna eða almannahagsmunum stafi hætta af, enda hafi viðkomandi ekki gerst sekur um ítrekuð brot og sýnt þyki að af honum stafi ekki lengur hætta fyrir íslenska ríkið eða erlend ríki, öryggi þeirra, flugstarfsemi eða almannahagsmunum. Hvorki ákvæði 28. gr. reglugerðar um flugvernd né önnur ákvæði reglugerðarinnar geri ráð fyrir undantekningum, hvorki vegna refsiþyngdar né vegna sérstakra aðstæðna viðkomandi einstaklings, séu skilyrði 27. gr. reglugerðarinnar á annað borð uppfyllt. Með hliðsjón af framangreindu telji lögreglustjóri að X uppfylli ekki skilyrði reglugerðar um flugvernd til að fá jákvæða umsögn vegna bakgrunnsathugunar. Því hafi embættinu borið að afturkalla jákvæða umsögn.

 

V.     Niðurstaða ráðuneytisins

Í 1. mgr. 70. gr. c loftferðalaga nr. 60/1998 segir að áður en Samgöngustofu, rekstraraðila flugvallar, rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu eða flugrekanda er heimilt að veita einstaklingi aðgang að haftasvæði flugverndar og viðkvæmum upplýsingum um flugvernd eða heimila honum að sækja námskeið í flugverndarþjálfun skuli óska eftir bakgrunnsathugun og öryggisvottun lögreglu sem aflar upplýsinga um viðkomandi, svo sem úr skrám lögreglu, sakaskrá eða öðrum opinberum skrám, að fengnu samþykki viðkomandi einstaklings. Er bakgrunnsathugun lögreglu liður í því að ákvarða hvort óhætt þyki að veita einstaklingi aðgangsheimild samkvæmt framangreindu eða hvort honum skuli synjað um hana. Annast ríkislögreglustjóri bakgrunnsathugun vegna aðgangsheimilda að haftasvæði flugverndar á Keflavíkurflugvelli. Hefur embættið falið lögreglustjóranum á Suðurnesjum að annast umræddar bakgrunnsathuganir. Þá segir í 3. mgr. 70. gr. c að áður en lögreglustjóri lýkur athugun sinni skuli þeim sem athugun beinist að gert kleift að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þá á viðkomandi jafnframt rétt á rökstuðningi ákveði lögreglustjóri að synja honum um öryggisvottun. Sætir ákvörðun lögreglustjóra um synjun öryggisvottunar á grundvelli neikvæðrar bakgrunnsathugunar kæru til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, sbr. 3. ml. 3. mgr. 70. gr. c. loftferðalaga.

Í  reglugerð um flugvernd nr. 750/2016 er fjallað um bakgrunnsathuganir í 26. gr. Kemur þar m.a. fram í 1. mgr. að athuga skuli fimm ár aftur í tímann frá dagsetningu umsóknar bakgrunn hvers einstaklings sem þurfi starfa sinna vegna að hafa aðgang að haftasvæði flugverndar til að unnt sé að leggja mat á hvort heimila eigi aðgang án fylgdar. Skal athugunin framkvæmd af lögreglu og m.a. felast í skoðun á viðkomandi í skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu, skoðun á sakavottorði, upplýsingakerfi Interpol, upplýsingum úr Þjóðskrá, eftir atvikum fyrirspurnum til erlendra yfirvalda, skoðun hjá tollyfirvöldum, héraðsdómi og í öðrum opinberum skrám. Er bakgrunnsathugun lögreglu liður í því að ákvarða hvort óhætt þyki að veita einstaklingi aðgangsheimild að m.a. haftasvæði flugverndar eða hvort honum skuli synjað um hana, sbr. ákvæði 1. mgr. 70. gr. c loftferðalaga. Í 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar segir að komi í ljós að einstaklingur sem hefur staðist bakgrunnsathugun brjóti af sér eftir að athugun átti sér stað skuli lögregla þegar í stað upplýsa rekstraraðila flugvallar eða flugrekanda ef um alvarlegt brot er að ræða sem getur haft áhrif á flugöryggi og eftir atvikum afturkalla jákvæða umsögn sem veitt hefur verið vegna bakgrunnsathugunar. Þá segir í 3. mgr. 26. gr. reglugerðar um flugvernd að með bakgrunnsathugun skuli m.a. kanna og staðfesta þau atriði sem þar eru talin upp. Samkvæmt d-lið ákvæðisins skal m.a. með bakgrunnsathugun kanna þá hættu sem kann að stafa af viðkomandi innan haftasvæðis flugverndar.

Í 27. gr. reglugerðar um flugvernd er fjallað um mat á afbrotaferli. Kemur þar fram í 1. mgr. ákvæðisins að við ákvörðun um hvort veita beri umsækjanda heimild til að sækja námskeið í flugverndarþjálfun og aðgangsheimild að haftasvæði flugverndar eða aðgang að trúnaðarupplýsingum um flugvernd skuli sérstaklega athuga brotaferil einstaklings sem sótt er um heimild fyrir. Við það mat skuli leggja til grundvallar upplýsingar úr sakaskrá og eftir atvikum málaskrá og öðrum skrám löggæsluaðila um viðkomandi einstakling. Skuli leitast við að afla upplýsinga úr skrám lögreglu einungis að því marki sem talið er að geti haft vægi við mat á hæfi viðkomandi einstaklings til að njóta aðgangs að haftasvæði flugverndar og fá aðgang að upplýsingum um framkvæmd og eftirlit flugverndar, sbr. 2.-4. mgr. ákvæðisins.

Í 2. mgr. 27. gr., sbr. 9. gr. breytingareglugerðar nr. 287/2017, segir að hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga, sbr. A-lið viðauka II við reglugerðina, eða lögum um ávana- og fíknefni, skuli synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 28. gr., enda gefi brotið vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi og almannahagsmunum kunni að stafa hætta af.

Í 3. mgr. 27. gr., sbr. 9. gr. breytingareglugerðar nr. 287/2017, segir að hafi einstaklingi, hérlendis eða erlendis, verið ákvörðuð sekt fyrir brot á þeim lögum sem tilgreind eru í 2. mgr., hvort sem er fyrir dómstólum eða stjórnvaldi eða hann eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi er lýtur að brotum á þeim lögum sem tilgreind eru í 2. mgr., er heimilt að synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, sbr. þó ákvæði 28. gr., enda gefi brotin vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af. Sama gildir ef einstaklingur hefur ítrekað gerst brotlegur gegn öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga en þeirra sem getið er í A-lið viðauka II eða öðrum lögum sem getið er í B-lið viðauka II við reglugerðina eða brotið sé stórfellt.

Í 4. mgr. 27. gr., sbr. 9. gr. breytingareglugerðar nr. 287/2017, segir að sama gildi hafi einstaklingur, hérlendis eða erlendis, verið dæmdur í fangelsi, dæmdur til greiðslu sektar eða gert að greiða sekt af hálfu stjórnvalds, fyrir tilraun eða hlutdeild til brota samkvæmt 2. og 3. mgr., eða verið sýknaður af brotum og gert að vistast á viðeigandi stofnun með vísan til 62. gr. almennra hegningarlaga.

Í 5. mgr. 27. gr. kemur síðan fram að við mat á brotaferli einstaklings í þeim tilvikum þar sem ekki er skylt að synja um aðgang að haftasvæði flugverndar, trúnaðarupplýsingum um flugvernd og að sækja námskeið í flugverndarþjálfun, skuli leggja heildstætt mat á það hvort öryggi flugsamgangna eða almannahagsmunum geti stafað hætta af einstaklingi. Sérstaklega skuli meta hugsanlega hættu sem af viðkomandi kann að stafa gagnvart íslenska ríkinu og erlendum ríkjum, öryggi þeirra, flugstarfsemi og öðrum almannahagsmunum.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að X var gert að greiða sekt vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni sem og lögreglulögum líkt og rakið hefur verið. Var það niðurstaða lögreglustjóra að X uppfyllti þar með ekki lengur hæfisskilyrði til að starfa innan haftasvæðis flugverndar og því bæri að afturkalla jákvæða umsögn vegna bakgrunnsathugunar.

Í A-lið viðauka II við reglugerð nr. 287/2017 um breytingu á reglugerð um flugvernd nr. 750/2016 er að finna skrá yfir afbrot sem hafa áhrif á aðgang að haftasvæði flugverndar. Eru brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni þar á meðal.

Líkt og rakið hefur verið skal synja einstaklingi um aðgang að haftasvæði flugverndar hafi hann verið dæmdur í fangelsi fyrir brot gegn þeim lögum og lagaákvæðum sem talin eru upp í A-lið viðauka II, sbr. 2. mgr. 27. gr. reglugerðar um flugvernd. Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. er hins vegar heimilt að synja einstaklingi um aðgang að haftasvæði hafi honum verið ákvörðuð sekt vegna brota sem talin eru upp í 2. mgr. 27. gr., enda gefi brotin vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af. Samkvæmt tilgreindum ákvæðum er þannig gerður greinarmunur á því hvort viðkomandi hafi verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn þeim lögum sem talin eru upp í A-lið viðauka II eða verið gerð sektargreiðsla vegna slíkra brota. Hafi viðkomandi verið dæmdur til refsingar skal synja honum um aðgang að haftasvæði flugverndar en sé um sektargerð að ræða er aðeins um heimild að ræða og þá einungis ef sýnt er fram á að brotin gefi vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af. Liggur fyrir að þar sem X var gert að greiða sekt vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni fellur það undir 3. mgr. 27. gr., þ.e. aðeins er um að ræða heimild til að synja um aðgang að haftasvæði en ekki skyldu.

Ráðuneytið telur rétt að árétta ákvæði 5. mgr. 27. gr. reglugerðar um flugvernd þar sem segir að við mat á brotaferli einstaklings í þeim tilvikum þar sem ekki er um að ræða skyldu til að synja um aðgang að haftasvæði skuli leggja heildstætt mat á það hvort öryggi flugsamgangna eða almannahagsmunum geti stafað hætta af einstaklingi, sbr. einnig það sem fram kemur í 3. mgr. 27. gr. þess efnis að þegar um heimild er að ræða verði brotin að gefa vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af viðkomandi. Þá áréttar ráðuneytið einnig að samkvæmt 5. mgr. 27. gr. skal sérstaklega meta hugsanlega hættu sem af viðkomandi kann að stafa gagnvart íslenka ríkinu og erlendum ríkjum, öryggi þeirra, flugstarfsemi og öðrum almannahagsmunum. Er það mat ráðuneytisins að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki á nokkurn hátt leitast við að leggja heildstætt mat á brotaferil X þannig að tilgreind skilyrði tilvitnaðra lagaákvæða teljist uppfyllt. Er þannig af hálfu lögreglustjóra á engan hátt leitast við að rökstyðja nánar á hvern hátt brot X teljist þess eðlis að það gefi vísbendingar um að öryggi ríkisins, flugstarfsemi eða almannahagsmunum kunni að stafa hætta af honum. Þá telur ráðuneytið að á engan hátt sé unnt að fallast á það með lögreglustjóra að brot X teljist stórfellt í skilningi 3. mgr. 27. gr. reglugerðar um flugvernd. Þvert á móti er það mat ráðuneytisins að brot X sé smávægilegt þar sem sekt sú honum var gerð hafi verið lág og í samræmi við brot hans.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að brot X gegn lögum um ávana- og fíkniefni geti ekki leitt til þess að afturkölluð verði jákvæð umsögn sem honum var veitt vegna bakgrunnsathugunar. Telur ráðuneytið því óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 18. desember 2017 um afturköllun jákvæðrar umsagnar til handa X vegna bakgrunnsathugunar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta