Mál nr. IRR14070119
Ár 2015, þann 29. júní, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. IRR14070119
Kæra Eimskipafélags Íslands
á ákvörðun
Samgöngustofu
I. Kröfur og kæruheimild
Þann 14. júlí 2014 barst ráðuneytinu kæra Eimskipafélags Íslands hf. (hér eftir Eimskipafélagið) á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) um að skrá einkarétt félagsins Searanger ehf. til skipsnafnsins Gullfoss. Krefst Eimskipafélagið þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi bæði hvað varðar skráningu skipsins og einkaréttar til nafnsins í skipaskrá. Þá er þess krafist að ráðuneytið leggi það fyrir SGS að afmá skráningu skipsheitisins Gullfoss og einkaréttarins úr skipaskrá. Sé ekki á það fallist er gerð sú krafa að einkaréttur Searanger ehf. á skipsheitinu Gullfoss verði afnuminn.
Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.
II. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins
Með umsókn móttekinni 7. maí 2014 lagði Searanger ehf. fram beiðni um einkarétt á skipsnafninu Gullfoss til SGS. Með bréfi SGS dagsettu 15. maí 2014 var Searanger ehf. veittur einkaréttur á skipsnafninu Gullfoss með vísan til 2. mgr. 5. gr. laga um skráningu skipa nr. 115/1985.
Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi Eimskipafélagsins mótteknu þann 14. júlí 2014.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. ágúst 2014 var óskað eftir umsögn SGS um kæruna og stofnuninni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Bárust athugasemdir SGS ráðuneytinu með bréfi dags. 28. ágúst 2014.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 2. september 2014 var Eimskipafélaginu gefinn kostur á að gæta andmælaréttar. Engar athugasemdir bárust.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 6. nóvember 2014 var Eimskipafélaginu tilkynnt að gagnaöflun væri lokið og málið hefði verið tekið til úrskurðar.
Með bréfi ráðuneytisins dags. 19. maí 2015 var Searanger ehf. gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Engar athugasemdir bárust.
III. Málsástæður og rök Eimskipafélagsins
Eimskipafélagið vísar til þess að félagið hafi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og geti því átt kæruaðild þrátt fyrir að hafa ekki látið málið til sín taka fyrir SGS. Hafi Eimskipafélagið ekki átt þess kost að láta málið til sín taka á fyrri stigum þar sem félagið hafi ekki vitað af skráningu skipsheitisins Gullfoss fyrr en eftir að það var skráð. Brjóti skráningin á rétti Eimskipafélagsins og geti félagið ekki skráð skip undir því nafni á meðan Searanger hafi skráðan einkarétti á nafninu, sbr. 5. gr. laga um skráningu skipa. Samkvæmt ákvæðinu sé öðrum en þeim sem hafa einkarétt að skráðu skipsnafni óheimilt að nota skipsnöfn eða einkenni sem einkaréttur hefur verið veittur á ef nöfn eða einkenni geta valdið villu.
Eimskipafélagið byggir á því að veiting einkaréttar til nafnsins Gullfoss brjóti gegn rétti félagsins sem verndaður sé af lögum um vörumerki nr. 45/1997 og lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005. Eimskipafélagið hafi öðlast rétt til skipsheitisins Gullfoss með áratuga notkun, sbr. 2. mgr. 3. gr. vörumerkjalaga. Stjórn Eimskipafélagsins hafi ákveðið árið 1914 að skipum félagsins yrðu gefin nöfn fossa og hafið útgerð á skipunum Gullfoss og Goðafoss árið 1915. Þeirri meginreglu að nefna skip félagsins eftir fossum hafi síðan verið haldið. Skipið Gullfoss sem kom hingað til lands árið 1915, og sigldi undir merkjum Eimskipafélagsins, hafi verið selt árið 1947. Árið 1950 hafi Eimskipafélaginu verið afhent nýtt skip sem tók við nafninu Gullfoss en áætlunarferðum þess hafi lokið árið 1973 eftir að það skemmdist við björgunarstörf í Vestmannaeyjagosinu. Í vöruhóteli Eimskipafélagsins sé safn með munum sem tengist Gullfossi. Sérstakt fundarherbergi, Gullfossstofa, sé tileinkað Gullfossi og á göngum vöruhótelsins sé að finna margar stækkaðar ljósmyndir sem tengist Gullfossi.
Auk framangreindrar notkunar á heitinu Gullfoss, sem í 100 ár hafi verið samofið sögu Eimskipafélagsins í hugum Íslendinga, njóti réttur félagsins til að nota skipsheiti með endinguna „-foss“ verndar á grundvelli reglna vörumerkjaréttar um fjölskyldumerki. Skip Eimskipafélagsins hafi í 100 ár siglt undir nöfnum með þeirri endingu og í dag sigli tólf skip á vegum félagsins undir nafni sem endar á „-foss“.
Þá vísar Eimskipafélagið til þess að saga íslenskrar þjóðar, Eimskipafélagsins og Gullfoss sé samofin í hugum almennings. Skipið hafi verið lífæð landsmanna á síðustu öld og Gullfoss tengist mörgum helstu atburðum íslensks þjóðlífs síðustu 100 ár. Nægi þar að nefna að höfuðskáldið, Halldór Kiljan Laxness, hafi siglt heim með Gullfossi eftir að hafa fengið bókmenntaverðalun Nóbels afhent. Einnig hafi Sigfús Halldórsson samið dægurlag til heiðurs skipinu, „Gullfoss með glæstum brag“, sem Ellý Vilhjálms hafi sungið og gert frægt. Þá telur Eimskipafélagið tvö nýleg dæmi sýna að almenningur tengi enn í dag skip undir nafninu Gullfoss við Eimskipafélagið. Þann 7. maí 2014 hafi birst frétt, „sönghöllin sem tengir Pollapönk og Gullfoss“, á fréttavefnum visir.is. Í fréttinni komi fram að Eurovision söngvakeppnin sé það ár haldin í gamalli skipasmíðastöð þar sem Gullfoss II hafi verið smíðaður. Fréttin sýni hve vel heitið Gullfoss sé samofið sögu Eimskipafélagsins í huga fréttamannsins. Þann 10. júní 2014 hafi þátttakendur síðdegisútvarps RÚV rætt um að skemmtiskipið Gullfoss sé væntanlegt til Akraness. Af útskrift þess hluta þáttarins, sem fylgi kærunni, megi glöggt sjá að báðir þáttastjórnendurnir tengi heitið Gullfoss við Eimskipafélagið, með tilvísun til sögufræga skipsins gamli Gullfoss og lagsins Gullfoss með glæstum brag.
Samkvæmt 4. gr. vörumerkjalaga megi ekki aðrir en eigandi vörumerkis heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans, ef notkunin tekur til eins eða svipaðrar vöru og þjónustu og vörumerkjarétturinn nær til og hætt er við ruglingi, þar með talið að tengsl séu með merkjunum. Skemmtiskipsútgerð sú sem Searanger hyggi á sé lík starfsemi Eimskipafélagsins og þeirri starfsemi sem skipið Gullfoss hafi sinnt fyrir félagið. Sé veruleg ruglingshætta til staðar við notkun heitisins þar sem það sé nátengt Eimskipafélaginu í hugum landsmanna.
Auk vörumerkjalaga telur Eimskipafélagið að notkun á heitinu Gullfoss brjóti gegn 15. gr. a laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, þar sem kveðið sé á um að óheimilt sé að nota vörumerki eða auðkenni sem aðrir eigi rétt til.
IV. Umsögn SGS
Í umsögn SGS kemur fram að um skráningu skipa gildi lög nr. 115/1985 og á grundvelli þeirra laga beri að skrá sérhvert skip sem er sex metrar á lengd eða stærra, mælt milli stafna. Eigendum skipa beri að senda SGS beiðni um skráningu sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Eins og fram komi í 4. gr. laganna haldi SGS aðalskipaskrá yfir öll skip sem eru skráð samkvæmt lögunum og beri að tilgreina þau atriði sem talin eru upp í tólf liðum í ákvæðinu, þ.á m. nafn, einkennisbókstafi, umdæmisbókstafi, heimilisfang, gerð, aðalmál og gerð og stærð aðalvélar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um skráningu skipa geti forstjóri SGS veitt eiganda skips einkarétt til nafns á skipi. Sama gildi um einkarétt til reykháfsmerkja og annarra einkenna á skipinu, þar á meðal sérfána. Bannað sé öðrum að nota skipanöfn eða einkenni sem einkaréttur hafi verið veittur á eða svo lík nöfn eða einkenni að villu geti valdið. Þó megi haldast óbreytt nafn og einkenni skips sem skráð hafi verið fyrir veitingu á einkaleyfi meðan það helst í eigu sama aðila. Einkaréttur til nafns eða einkennis falli úr gildi þremur árum eftir að skip hefur verið afmáð af skipaskrá ef eigandi heitisins eða einkennisins hefur ekki endurnýjað það á öðru skipi. SGS haldi skrá yfir nöfn og einkenni skipa sem einkaréttur hefur verið veittur á og birti jafnóðum í Lögbirtingablaðinu allar einkaleyfisveitingar svo og í árlegri skipaskrá.
Í ljósi framangreinds sé það verkefni SGS áður en skráning á einkarétti til nafns á skipi fer fram að athuga hvort í gildi sé einkaréttur til nafnsins á öðru skipi. Þetta sé gert með því að athuga hvort umrætt nafn sé skráð í skipaskrá eða hvort innan við þrjú ár séu frá afskráningu skips með einkarétt á nafninu. Sé um hvorugt þessara atriða að ræða geti SGS heimilað eiganda skips einkarétt til nafns. Framkvæmd þessi hafi um margra ára skeið verið hjá Siglingastofnun, nú SGS.
SGS telur að ákvæði laga um skráningu skipa, sem heimila að eiganda skips sé veittur einkaréttur til skipsnafns, séu sérlög þar sem einkarétturinn taki eingöngu til skipsnafna. Að mati SGS séu þau atriði sem afla þarf upplýsinga um áður en skráning á einkarétti getur farið fram talin upp í 5. gr. laganna. Ekki sé tekið fram í lögunum um skyldu til samráðs við aðra aðila innan stjórnsýslunnar, s.s. Einkaleyfastofuna, áður en einkaréttur til skipsnafns er veittur. Það sé þannig ekki lögð skylda á SGS að rannsaka hvort skráning á nafni skips brjóti hugsanlega gegn lögum um vörumerki.
Í málinu hafi beiðni félagsins Searanger um skráningu á einkarétti til nafnsins Gullfoss í skipaskrá verið heimiluð með vísan til 5. gr. laga um skráningu skipa. Þrátt fyrir það sem rakið hafi verið mætti hugsa sér einhvers konar rannsókn af hendi SGS um hvort vörumerki sé skráð hjá Einkaleyfastofunni áður en af skráningu á einkarétti til skipsnafns getur orðið. Lagaumhverfið sé hins vegar þannig í dag að slík lögbundin skylda sé ekki fyrir hendi enda um sérlög að ræða. Í því tilfelli sem hér um ræðir hafi vörumerkið Gullfoss hins vegar ekki verið skráð vörumerki heldur byggi Eimskipafélagið á því að hafa öðlast rétt til nafnsins með áratuga notkun, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997. Þá komi fram í gögnum málsins að áætlunarferðasiglingum skips Eimskipafélagsins með nafninu Gullfoss hafi lokið árið 1973. Er það mat SGS að ekki hafi verið sýnt fram á að Eimskipafélagið hafi öðlast einkarétt á vörumerkinu Gullfoss á skipum.
V. Niðurstaða ráðuneytisins
Hvað varðar aðild Eimskipafélagsins liggur fyrir að félagið átti ekki beina aðild að hinni kærðu ákvörðun þar sem SGS var þar að verða við umsókn félagsins Searanger ehf. um skráningu einkaréttar á skipsnafninu Gullfoss. Hins vegar telur ráðuneytið að Eimskipafélagið kunni að hafa hagsmuni af ákvörðun SGS og því sé rétt að játa félaginu kæruaðild.
Um skráningu skipa gilda lög með sama nafni nr. 115/1985. Samkvæmt 1. gr. laganna eru öll skip sem eru sex metrar eða stærri, mæld milli stafna, skráningarskyld samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna senda eigendur skipa SGS beiðni um skráningu. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna heldur SGS aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögunum.
Í 5. gr. laga um skráningu skipa kemur fram að forstjóri SGS geti veitt eiganda skips einkarétt til nafns á skipi. Sama gildir um einkarétt til reykháfsmerkja og annarra einkenna á skipinu, þar á meðal sérfána. Bannað er öðrum að nota skipanöfn eða einkenni sem einkaréttur hefur verið veittur á eða svo lík nöfn eða einkenni að villu geti valdið. Þó má haldast óbreytt nafn og einkenni skips sem skráð hefur verið fyrir veitingu á einkaleyfi meðan það helst í eigu sama aðila. Einkaréttur til nafns eða einkennis fellur úr gildi þremur árum eftir að skip hefur verið afmáð af skipaskrá ef eigandi heitisins eða einkennisins hefur ekki endurnýjað það á öðru skipi. SGS heldur skrá yfir einkenni skipa sem einkaréttur hefur verið veittur á og birtir jafnóðum í Lögbirtingablaðinu allar einkaleyfisveitingar svo og í árlegri skipaskrá.
Ráðuneytið tekur fram að það lítur svo á sem lög um skráningu skipa nr. 115/1985 séu sérlög sem fjalli m.a. um þær reglur sem gildi um einkarétt til skipsnafna, sbr. 5. gr. laganna. Í því ákvæði séu upp talin þau atriði sem SGS þurfi að afla upplýsinga um áður en skráning á einkarétti getur farið fram. Berist SGS umsókn um skráningu á einkarétti á tilteknu skipsnafni beri stofnuninni að kanna hvort í gildi sé einkaréttur til nafnsins á öðru skipi með því að athuga hvort umrætt nafn sé skráð í skipaskrá eða hvort innan við þrjú ár eru frá afskráningu skips með einkarétt á nafninu. Eigi hvorugt þessara atriða við geti SGS heimilað skráningu einkaréttar á skipsnafni í samræmi við umsókn. Beri SGS þannig ekki að líta til annarrar skráningar en í skipaskrá við slíka rannsókn.
Af hálfu Eimskipafélagsins er því haldið fram að félagið hafi öðlast rétt til notkunar skipsheitisins Gullfoss með áratuga notkun, sbr. 2. mgr. 3. gr. vörumerkjalaga. Þá vísar Eimskipafélagið einnig til 4. gr. vörumerkjalaga sem og 15. gr. a laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 5772005. Um framangreind sjónarmið sem og önnur sjónarmið sem haldið er fram af hálfu Eimskipafélagsins vísast til umfjöllunar hér að framan um málsástæður og rök félagsins.
Ráðuneytið telur að þær málsástæður og sjónarmið sem vísað er til af hálfu Eimskipafélagsins breyti í engu þeim reglum sem SGS beri að fara eftir varðandi veitingu heimildar á einkarétti til skipsnafns og raktar haf verið, sbr. 5. gr. laga um skráningu skipa nr. 115/1985. Í samræmi við þær reglur hafi SGS verið rétt að verða við umsókn félagsins Searanger ehf. um skráningu einkaréttar til skipsnafnsins Gullfoss. Verður ákvörðun SGS þess efnis því staðfest.
Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu um að skrá einkarétt félagsins Searanger ehf. til skipsnafnsins Gullfoss.