Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Ísafjarðarbær - Álagning vatnsgjalds á geymsluhús

Gunnar Sigurðsson                                               18. nóvember 1997                                           97090042

Fjarðargötu 56                                                                                                                                             1200

470 Þingeyri

            

 

             Þann 18. nóvember 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, ódagsettu, sem barst ráðuneytinu þann 16. september 1997, kærði Gunnar Sigurðsson, Fjarðargötu 56, Þingeyri, álagningu vatnsgjalds á geymsluhús að Fjarðargötu 54, Þingeyri.

 

             Erindið var sent til umsagnar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar með bréfi, dagsettu 16. september 1997. Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 13. nóvember 1997.

 

I.          Málavextir og málsástæður.

 

             Ísafjarðarbær gerir þá kröfu að eigandi geymsluhúss að Fjarðargötu 54, Þingeyri, greiði vatnsgjald í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins.

 

             Kærandi gerir þá kröfu að vatnsgjaldið verði fellt niður þar sem umrætt húsnæði sé ekki tengt við vatnsveitu sveitarfélagsins “og engin þörf á því”. Vísar kærandi þar fyrst og fremst til 1. og 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991. Um sé að ræða þjónustugjald og engin þjónusta sé veitt eða keypt og þá beri ekki að greiða gjald.

 

             Í umsögn Ísafjarðarbæjar koma fram þau sjónarmið að heimilt sé að leggja á umrætt gjald “ef eignin getur tengst vatnsveitukerfi sveitarfélagsins. Átt er við ef um minni háttar framkvæmd er að ræða s.s. að leggja lögn frá nærliggjandi götu til geymsluskúrsins.”

 

II.         Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í 1. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991, sbr. lög nr. 149/1995, segir m.a. svo: “Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu.”

 

             Samkvæmt ummælum í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/1991 er eðli þessa gjalds að vera “endurgjald fyrir þá þjónustu sveitarfélagsins að láta íbúum þess á hagkvæman hátt í té kalt vatn til heimilisþarfa.”

 

             Ráðuneytið telur orðalag framangreinds ákvæðis laganna vera skýrt, þ.e. heimilt er að leggja vatnsgjald á þær fasteignir sem vatnsins geta notið. Af orðalagi ákvæðisins verður ekki annað ráðið en að viðkomandi fasteign verði að vera tengd við vatnsveitukerfi sveitarfélagsins til að heimilt sé að innheimta vatnsgjald. Óski fasteignareigandi eftir að fá að tengjast vatnsveitukerfi sveitarfélagsins greiðir hann sérstakt heimæðargjald skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 81/1991, sbr. lög nr. 149/1995, og eftir tengingu greiðir hann auk þess fyrrgreint vatnsgjald.

 

             Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að Ísafjarðarbær hafi ekki lagaheimild til að innheimta vatnsgjald af geymsluhúsi við Fjarðargötu 54, Þingeyri, enda er umrætt húsnæði ekki tengt vatnsveitukerfi sveitarfélagsins og getur því ekki notið vatnsins.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu vatnsgjalds á geymsluhús við Fjarðargötu 54, Þingeyri, er ólögmæt.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta