Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Akraneskaupstaður - Niðurfelling vatnsgjalds

Akranesveita                                                          6. júlí 1998                                                         98040046

Magnús Oddsson                                                                                                                                          121

Dalbraut 8

300 Akranes

            

 

 

             Vísað er til erindis yðar, dagsett 15. apríl 1998, til félagsmálaráðuneytisins þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á niðurfellingu holræsagjalds og/eða vatnsgjalds vegna fasteigna að Esjubraut 49, Smiðjuvöllum 9 og Höfðaseli 1 á Akranesi.

 

Esjubraut 49:

 

             Um holræsi og holræsagjald í Akraneskaupstað gilda vatnalög nr. 15/1923 með síðari breytingum, reglugerð um holræsi á Akranesi nr. 2/1965 og reglugerð um holræsagjöld á Akranesi nr. 100/1976.

 

             Í 87. gr. vatnalaga segir svo: “Bæjarstjórn er rétt að leggja gjald á hús og lóðir í kaupstaðnum til þess að standa straum af holræsakostnaði. Gjald má miða við virðingarverð fasteigna eða við stærð lóða eða við hvorugtveggja.“ Samkvæmt 88. gr. laganna verður eigandi fasteignar ekki krafinn um holræsagjald fyrr en bæjarstjórn hefur lagt holræsi þannig að lóðareigandi nái til þeirra. Hins vegar er lóðareigendum eða húseigendum skylt að standa sjálfir straum af kostnaði við gerð holræsis er flytji frá húsum og lóðum allt skólp út í aðalræsi, sbr. 2. mgr. 88. gr. laganna.

 

             Í 3. mgr. 88. gr. laganna segir síðan: “Nú stendur svo á, að sérstaklega kostnaðarsamt er að leggja holræsi frá aðalræsi yfir lóð manns, og getur hann þá krafið sig undanþeginn holræsagjaldi, ef hann getur komið skólpi frá sér með öðrum hætti, er heilbrigðisnefnd telur fulltryggan, enda verði ekki metið, að það baki nágrönnum óþægindi eða tjón.“ Jafnframt er tekið fram í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um holræsi á Akranesi að hverjum þeim sem á húseign, sem hægt er að tengja við holræsakerfi bæjarins, sé skylt að tengja þá húseign við holræsakerfi bæjarins.

 

             Af gögnum þeim er liggja fyrir í máli þessu er ekki ljóst að fyrir hendi séu einhverjir teljanlegir erfiðleikar við lagningu tengingar við holræsakerfið sem liggur að Esjubraut 49, né álit heilbrigðisnefndar eða bæjarverkfræðings um að tengingar sé ekki þörf.

 

             Vatnsgjald innheimta sveitarfélögin á grundvelli laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991, sbr. lög nr. 149/1995, og reglugerðar fyrir vatnsveitur sveitarfélaga nr. 421/1992, með síðari breytingum.

 

             Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir m.a.: “Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteginum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnveitu.“

 

             Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að einungis er heimilt að heimta vatnsgjald af notendum vatnsins, þ.e. þeim “er vatnsins geta notið“. Í 6. gr. laganna kemur fram að eigandi fasteignar þarf sérstaklega að sækja um lagningu heimæðar til þess að geta nýtt sér vatnið.

            

             Ljóst er af gögnum málsins að engin heimæð liggur að fasteigninni að Esjubraut 49 og telst því eigandi hennar ekki til notenda vatnsins sem rennur um vatnsæðar vatnsveitunnar.

 

             Með vísan til framangreinds er það álit ráðuneytisins að eiganda fasteignarinnar Esjubrautar 49 beri að greiða holræsagjald sem lagt er á eign hans, nema þar til bær yfirvöld (heilbrigðisnefnd og bæjarverkfræðingur) telji óþarft að leggja það að fasteigninni. Hins vegar ber að fella niður vatnsgjald þar sem fasteignin getur ekki notið vatnsins, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna.

 

Smiðjuvellir 9:

 

             Heimild er í 3. mgr. 88. gr. vatnalaga til að undanþiggja eiganda lóðar eða húseignar greiðslu holræsagjalds ef sérstaklega kostnaðarsamt er að leggja holræsi frá aðalræsi yfir lóð manns og hann getur komið skólpi frá sér á annan viðurkenndan hátt. Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um holræsi á Akranesi segir svo: “Ef eigi er unnt eða ekki talið ráðlegt að dómi bæjarverkfræðings að tengja hús við holræsakerfið, ber að haga frágangi frárennslislagna svo sem fyrir er mælt í 32. gr.“ Í þeim tilvikum getur bæjarverkfræðingur leyft að gerð sé rotþró fyrir frárennsli hússins en sú leið virðist hafa verið farin í tilviki Smiðjuvalla.

 

             Ekki er nánar fjallað um hvernig standa skuli að hreinsun rotþróarinnar né hver eigi að standa straum af kostnaði við hreinsunina á henni.

 

             Af orðalagi 3. mgr. 88. gr. vatnalaga má ráða að rotþróin sé á ábyrgð hús- eða lóðareiganda. Verður því talið að ef Akranesveita sér um hreinsun hennar geti hún innheimt gjald sem svarar kostnaði við hreinsunaraðgerðir.

 

             Með vísan til þessa er það álit ráðuneytisins að fella beri niður álagningu almenns holræsagjalds vegna fasteignarinnar að Smiðjuvöllum 9.

 

Höfðasel 1:

 

             Fasteignagjöld hjá sveitarfélögum eru samsett úr nokkrum liðum, þar á meðal fasteignaskatti, vatnsgjaldi, holræsagjaldi og sorphirðugjaldi. Ólíkar forsendur eru fyrir álagningu hvers þessara liða og verður að skoða hvern þeirra þegar meta á hvort fella eigi fasteignagjöld vegna tiltekinnar fasteignar niður.

 

             Fasteignaskattur er þáttur í tekjuöflun sveitarfélaga til almenns reksturs þeirra og er ekki skilgreint í lögum að nota skuli þær tekjur til tiltekinna verkefna hjá sveitarfélaginu. Slík skattlagning verður ekki lögð á þegnana nema skýr lagaheimild sé fyrir hendi. Lagaheimild til álagningar fasteignaskatts er í 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum, en þar segir að leggja skuli árlega skatt til sveitarfélags þar sem fasteign er, eftir nánar greindum aðferðum. Gefið er síðan upp hámark þess skatts sem unnt er að leggja á viðkomandi fasteignareiganda á árinu.

 

             Í lögunum er átt við allar fasteignir sem metnar eru af Fasteignamati ríkisins, sbr. orðalag 3. gr. laganna, en í 5. gr. laganna eru tilteknar fasteignir undanþegnar fasteignaskatti. Verður ekki ráðið að umrædd fasteign að Höfðaseli 1 falli undir umrætt undantekningarákvæði. Auk þess er ekki að finna heimild í lögunum til að fella niður fasteignaskatt vegna þeirra annmarka sem eigandi fasteignarinnar hefur tilgreint og sem hann telur að leiða eigi til niðurfellingar fasteignaskatts. Þar á meðal hefur hann í máli þessu vísað til þess að mikið moldrok sé á svæðinu og að lóðin hafi verið óklár. Jafnframt að bilun hafi verið í vatnslögn lóðarhafa að rotþró sem var lögð í stað holræsalagna.

 

             Hins vegar er vert að benda á að skv. 3. mgr. 4. gr. laganna skal vísa ágreiningi um gjaldstofn skv. 3. gr. laganna til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Jafnframt að ef ágreiningur verður um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr.

 

             Aðrir liðir fasteignagjalda eru þjónustugjöld sem eru greiðslur sem ætlað er að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við þá þjónustu sem sveitarfélagið lætur í té. Vísað er til þess sem fyrr segir um niðurfellingu holræsagjalds vegna fasteignarinnar að Smiðjuvöllum 9, þar sem sama leið hefur verið farin vegna Höfðasels 1 við lausn á frárennsli frá fasteigninni. Jafnframt er vísað til þess sem fyrr segir um niðurfellingu vatnsgjalds vegna Esjubrautar 49 ef eigandi fasteignar getur ekki notið þess vatns sem rennur um vatnsæðar Akranesveitu.

 

F. h. r.

 

Sturlaugur Tómasson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta