Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Hveragerðisbær - Viðhald kaldavatnsheimæðar

Gunnar Magnússon                                             28. september 1998                                          98090025

Þelamörk 59                                                                                                                                                  1200

810 Hveragerði

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 26. ágúst 1998, þar sem óskað er eftir áliti ráðuneytisins á afgreiðslu Hveragerðisbæjar á erindi yðar varðandi viðhald á kaldavatnsheimæð að húsi yðar.

 

             Bæjarráð Hveragerðisbæjar ákvað á fundi sínum þann 6. ágúst 1998 að hafna erindinu á grundvelli 4. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991, með síðari breytingum, þar sem kveðið sé á um að eigandi heimæðar sjái um viðhald hennar.

 

             Framangreind 4. gr. laga nr. 81/1991, sbr. lög nr. 149/1995, hljóðar svo:

             “Sveitarfélag er eigandi vatnsveitu þess og sér um lagningu allra vatnsæða hennar, þ.e. aðalæða, dreifiæða og heimæða. Sveitarfélag annast og kostar viðhald vatnsæðanna.

             Heimæðar, sem lagðar hafa verið fyrir 1. janúar 1992 og liggja yfir einkalóðir, verða eign vatnsveitu sveitarfélags í framhaldi af endurnýjun vatnsveitunnar á þeim. Eignarhald á öðrum heimæðum skal vera óbreytt nema um annað náist samkomulag milli sveitarstjórnar og eiganda heimæðarinnar. Eigandi heimæðar kostar viðhald hennar.“

 

             Samkvæmt þessari grein er ljóst að eigandi heimæðar kostar viðhald hennar, en eigandinn er ýmist viðkomandi sveitarfélag eða húseigandi eftir því meðal annars hvenær heimæðin hefur verið lögð. Sveitarfélag sem ekki er eigandi tiltekinnar heimæðar hefur því lagalegan rétt til að hafna beiðni um að annast viðhald heimæðarinnar. Í slíkum tilvikum verður að ætla að sveitarfélagið telji ekki hagkvæmt fyrir það að taka yfir eignarhald heimæðarinnar á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laganna.

 

             Í þessu sambandi skal þó nefnt að fjölmörg sveitarfélög sem reka vatnsveitur, þar á meðal Reykjavíkurborg, hafa litið svo á að það þjóni hagsmunum vatnsveitunnar og gjaldenda (notenda vatnsveitunnar) að eignarhald allra vatnsæða (aðalæða, dreifiæða og heimæða) og þar með umsjón með viðhaldi þeirra sé í höndum sveitarfélagsins (vatnsveitunnar). Hefur meðal annars verið talið að með því móti sé yfirsýn sveitarfélagsins/vatnsveitunnar yfir vatnsþörf betri, traustari grundvöllur sé fyrir áætlanagerð og framkvæmdum varðandi vatnsöflun og að fyrr sé hægt að bregðast við lekavandamálum.

 

             Ekki var unnt að svara erindi yðar fyrr vegna sumarleyfa í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta