Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Selfosskaupstaður - Heimild til að verktaki vinni sjálfur gatnagerð og greiði þá ekki gatnagerðargjald

Finnbogi Guðmundsson                                      7. júlí 1997                                                         97040029

Árvegi 4                                                                                                                                                           122

800 Selfoss

 

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 9. apríl 1997, varðandi ágreining um álagningu gatnagerðargjalda Selfossbæjar vegna gatnagerðar á Jaðarstúni í Selfossbæ miðað við samþykkt deiluskipulag.

 

             Samkvæmt erindinu fóruð þér sem eigandi lóðarinnar Jaðars í Selfossbæ fram á við bæjaryfirvöld að þér stæðuð sjálfur fyrir gatnaframkvæmdum á lóðinni. Tölduð þér þetta vera grundvöll þess að þér stæðuð jafnt að vígi við bæinn og aðra byggingameistara á staðnum í sambandi við þann kostnað sem lagt hafi verið í, þ.e. lóðarkaup og skipulagsvinnu.

 

             Bæjarráð Selfossbæjar hafnaði þessu og kvað bæinn ætla að standa fyrir gatnagerðinni gegn fullri álagningu gatnagerðargjalda, sem þér teljið vera mun hærri en sem nemur kostnaði við gatnagerðina. Jafnframt teljið þér að framkvæmdir verði í samræmi við sölu lóða en ekki með þeim hætti sem hafður er á er bærinn stendur fyrir eigin framkvæmdum.

 

             Félagsmálaráðuneytið óskaði eftir umsögn bæjarstjórnar Selfossbæjar um erindið með bréfi, dagsettu 10. apríl 1997. Í bréfi frá bæjarstjóranum á Selfossi kemur fram athugasemd embættismanna á kostnaði við gatnagerð á Jaðarstúni miðað við það deiluskipulag sem samþykkt var á túninu. Þar kemur m.a. fram “að heildarkostnaður bæjarins við gatnagerðina er áætlaður um kr. 8,7 millj. en áætlaðar tekjur vegna A-gatnagerðargjalda kr. 5,5 millj. og B-gatnagerðargjalda kr. 1,4 millj. eða samtals kr. 6,9 millj. Nettóútgjöld bæjarins eru því um 1,8 millj. vegna þessara framkvæmda. Kostnaður Selfosskaupstaðar við tengigötur að svæðinu eru ekki teknar með í þennan útreikning.”

 

             Jafnframt kemur fram í svarbréfi frá bæjarstjóranum að “reynt er að tryggja það af hálfu bæjaryfirvalda í samvinnu við Selfossveitur að fjárfesting í holræsum, lagnakerfi veitna og gatnagerð nýtist sem allra fyrst þannig að fjárfesting þessi liggi ekki arðlaus í jörðu of lengi. Þannig er framboði byggingarhæfra lóða hagað í samræmi við eftirspurn.” Hins vegar er tekið fram að “deiliskipulag Jaðartúns er með þeim hætti að ekki virðist hagkvæmt að skipta gatnagerðinni í marga hluta. Af þeim sökum virðist Finnbogi ekki þurfa að óttast að hann muni sitja uppi með kaupendur að lóðum á svæðinu án þess að þær verði byggingarhæfar vegna skorts á götum á túninu.”

 

             Í 10. gr. byggingarlaga 54/1978 er svohljóðandi ákvæði: “Þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli, er sveitarstjórn skylt að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi, eftir því sem þörf er á, nema sérstakur fyrirvari hafi verið gerður á.” Samkvæmt núgildandi lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996 er sveitarstjórn heimilt að innheimta gatnagerðargjald af öllum lóðum í sveitarfélaginu og/eða mannvirkjum á þeim, sem varið skal til gatnagerðar í sveitarfélaginu. Í 3. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald nr. 543/1996 kemur fram að viðkomandi sveitarstjórn ákveður í gjaldskrá sinni, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar, upphæð gjaldsins.

            

             Mikilvægt er að stjórnvöld gæti þess að ekki verði heimt gjald fyrir aðra þjónustu en þá sem rúmast innan þeirra marka sem lagaheimildin leyfir. Sökum þessa verður gatnagerðargjaldið að nema þeirri fjárhæð sem almennt kostar að veita umrædda þjónustu. Í ljósi þess hefur það grundvallarþýðingu að afmarka þá kostnaðarliði sem felldir verða undir gjaldið þegar metið er hversu hátt það megi vera. Fram kemur í 4. gr. reglugerðar nr. 543/1996, sbr. lög 17/1996, að “við ákvörðun gatnagerðargjalds skal miða við rúmmál byggingar, flatarmál hennar og/eða flatarmál lóðar. Heimilt er að hafa hverja þessara viðmiðana sem er, eina af þeim, tvær saman eða allar þrjár.” Jafnframt er leyfilegt hámark gatnagerðargjalds tilgreint sem nemur 15% af heildarbyggingarkostnaði rúmmetra eða fermetra í vísitöluhúsi fjölbýlis eins og hann er á hverjum tíma, eftir því hvor viðmiðunin á við, eða vegið meðaltal þessar stærða ef við á, sbr. 5. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald. Gatnagerðargjald er fyrst gjaldkræft við útgáfu byggingarleyfis.

 

             Af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að Selfossbæ sé heimilt að standa fyrir gatnagerðarframkvæmdum á umræddu svæði og jafnframt heimilt að innheimta gatnagerðargjald af því svæði samkvæmt gjaldskrá sinni, en lóðarhafi ber ábyrgð á greiðslu þeirra. Verður að ætla að Selfossbær hagi framkvæmdum við gatnagerð á umræddu svæði á sem hagkvæmastan hátt fyrir alla aðila og sem venja er við lagningu gatnakerfis í nýjum hverfum bæjarins, enda telur ráðuneytið annað ekki hafa komið fram í gögnum málsins.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Selfossbæjar.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta