Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Hveragerði -ákvörðun skólanefndar: Mál nr. 14/2008

Ár 2008, 12. september er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


ú r s k u r ð u r


í stjórnsýslumáli nr. 14/2008


A og B


gegn


Hveragerðisbæ.

I. Kröfur, aðild kærumáls og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru, til menntamálaráðuneytisins, dags. 3. janúar 2007, kærðu A og B, hér eftir nefnd kærendur þá ákvörðun skólanefndar Hveragerðisbæjar, hér eftir nefndur kærði, að aðhafast ekkert frekar í máli þeirra, er varðar framkomu kennara við grunnskóla kærða við barn kærenda. Afstaða nefndarinnar kemur fram í bréfi til kærenda, dags. 12. desember 2006.

Ekki er vísað til kæruheimildar í kæru, en ráðuneytið telur ljóst að kært sé á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Krafa kærða er að viðurkennt verði að málsmeðferð skólanefndar grunnskóla kærða varðandi þau atriði sem í kærunni eru tilgreind hafi í einu og öllu verið lögum samkvæmt.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

Nr. 1 Stjórnsýslukæra, dags. 3. janúar 2007.
Nr. 2. Bréf annars kærenda til skólanefndar, ódags.
Nr. 3. Bréf skólanefndar Hveragerðis til kærenda, dags. 12. desember 2006.
Nr. 4. Niðurstöður úr samræmdum prófum 4. bekkjar 2006, vegna dóttur kærenda.
Nr. 5. “Tomatis Aðferðin”, grein úr tímaritinu Skólavarðan, 8. tbl. 6. árg. des. 2006.
Nr. 6. Bréf kærenda til menntamálaráðuneytisins, dags. 11. maí 2007.
Nr. 7. Bréf menntamálaráðuneytisins til annars kæranda, dags. 11. desember 2007.
Nr. 8. Bréf menntamálaráðuneytisins til samgönguráðuneytisins, dags. 6. febrúar 2008.
Nr. 9. Bréf menntamálaráðuneytisins, dags. 6. febrúar 2008 til kærenda.
Nr. 10. Bréf samgönguráðuneytisins, dags. 8. febrúar 2008 til kærenda.
Nr. 11. Bréf samgönguráðuneytisins, dags. 8. febrúar 2008 til kærða.
Nr. 12. Tölvubréf kærða til samgönguráðuneytisins, dags. 28. febrúar 2008.
Nr. 13. Tölvubréf samgönguráðuneytisins til kærða, dags. 28. febrúar 2008.
Nr. 14. Tölvubréf kærenda til samgönguráðuneytisins, dags. 3. mars 2008.
Nr. 15. Tölvubréf ráðuneytisins til kærenda, dags. 3. mars 2008
Nr. 14. Tölvubréf samgönguráðuneytisins til kærða, dags. 7. apríl 2008.
Nr. 15. Greinargerð kærða, dags. 1. apríl 2008.
Nr. 16. Greinargerð Leif David Halvorson sálfræðings, dags. 30. október 2006.
Nr. 17 Bréf skólastjóra Grunnskólans í Hveragerði til launafulltrúa Hveragerðisbæjar, dags. 20.
apríl 2007.
Nr. 18 Bréf Guðjóns Sigurðssonar til launafulltrúa Hveragerðisbæjar, dags. 21. maí 2007.
Nr. 19 Umsókn um námsvist utan lögheimilis sveitarfélags vegna dóttur kærenda.
Nr. 20 Ljósrit úr trúnaðarmálabók Félagsmálanefndar Hveragerðisbæjar, dags. 9. janúar 2007.
Nr. 21 Bréf Sveitarfélagsins Árborgar til Hveragerðisbæjar, dags. 24. janúar 2007.
Nr. 22 Bréf samgönguráðuneytisins til kærenda, dags. 8. apríl 2008.
Nr. 23 Tölvubréf kærenda til samgönguráðuneytisins, dags. 13. apríl 2008.
Nr. 24 Tölvubréf ráðuneytisins til kærenda, dags. 13. apríl 2008.
Nr. 25 Tölvubréf kærenda til ráðuneytisins, dags. 14. apríl 2008.
Nr. 26 Tölvubréf ráðuneytisins til kærenda, dags. 15. apríl 2008.
Nr. 27. Tölvusamskipti kærenda og samgönguráðuneytisins, dags. 28. apríl 2008.
Nr. 28. Tölvusamskipti kærenda og samgönguráðuneytisins, dags. 26. og 27. maí 2008.
Nr. 29. Greinargerð kærenda, dags. 22. maí 2008.
Nr. 30. Bréf kærenda til bæjarstjórnar Hveragerðis, dags. 31. júlí 2007.
Nr. 31. Kvörtun annars kæranda til umboðsmanns Alþingis, dags. 7. janúar 2001.
Nr. 32. Opið bréf annars kærenda til foreldra í x-bekk sem hafa áhyggjur af skólagöngu barna sinna.
Nr. 33 Bréf/greinargerð annars kæranda, ódags. og viðtakandi ekki tilgreindur.
Nr. 34 Bréf annars kæranda til Leifs Halvorsen sálfræðings, ódags.
Nr. 35 Bréf kærða til kærenda, dags. 17. ágúst 2007.
Nr. 36 Bréf til skólanefndar Hveragerðisbæjar, dags. 3. nóvember 2006.
Nr. 37 Bréf menntamálaráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 6. febrúar 2008.
Nr. 38 Bréf umboðsmanns Alþingis til menntamálaráðuneytisins, dags. 28. janúar 2008.
Nr. 39 Bréf umboðsmanns Alþingis til kærenda, dags. 11. febrúar 2008.
Nr. 40 Bréf kærenda til umboðsmanns Alþingis, dags. 22. febrúar 2008.
Nr. 41 Tölvusamskipti kærenda við bæjarstjóra kærða, 5.-9. janúar 2007.
Nr. 42 Tölvubréf frá starfsmönnum grunnskóla kærða til foreldra, dags. 5. janúar 2007.
Nr. 43 Tölvusamskipti kærenda og aðstoðarskólastjóra, dags. 9.-13. janúar 2006.
Nr. 44 Tölvubréf annars kæranda til [email protected], dags. 20. nóvember 2006.
Nr. 45 Tölvubréf aðstoðarskólastjóra til annars kæranda, dags. 7. febrúar 2006.
Nr. 46 Tölvusamskipti kærenda og samgönguráðuneytisins, 28. og 29. júní og 2. og 7. júlí 2008.

Hin kærða ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi dags. 12. desember 2006, þar sem kærendum var leiðbeint um að þeir gætu kært ákvörðun nefndarinnar til menntamálaráðuneytisins. Framangreind kæra barst því ráðuneyti þann 4. janúar 2007, sem framsendi erindið til samgönguráðneytisins þann 6. febrúar 2008 með vísan til 2. mgr. 7.gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, á þeim grundvelli að það félli utan valdsviðs menntamálaráðuneytisins að hafa eftirlit með störfum starfsmanna sveitarfélaga eða hvernig fjallað væri um slík mál af hálfu skólanefndar eða sveitarstjórnar. Kæran barst menntamálaráðuneytinu innan kærufrests skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


II. Málsatvik og málsmeðferð

Ágreiningur aðila lýtur fyrst og fremst að afgreiðslu skólanefndar kærða á erindi kærenda, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málavextir í stuttu máli á þá leið að með ódagsettu bréfi, merktu trúnaðarmál til skólanefndar lýsti annar kærenda samskiptum barns síns og kennara þess og kvartaði undan samskiptunum og framkomu kennarans við barnið og foreldrana.

Málið var tekið fyrir á fundi skólanefndar kærða þann 6. nóvember 2006 þar sem samþykkt var að fela formanni skólanefndar að leita til sérfróðra aðila vegna bréfsins. Leitað var til Skólaskrifstofu Suðurlands og félagsmálastjóra kærða. Málið var síðan tekið fyrir á fundi skólanefndar kærða þann 11. desember og með bréfi dags. 12. desember 2006 var kærendum tilkynnt að skólanefnd hefði borist niðurstaða sálfræðings skólaskrifstofunnar og félagsmálastjórans og í ljósi þess myndi skólanefndin ekkert aðhafast frekar í málinu.
Á fundi bæjarstjórnar kærða þann 14. desember 2006 var fundargerð skólanefndar lögð fram og samþykkt samhljóða.
Kærendur kærðu niðurstöðu skólanefndar til menntamálaráðuneytisins þann 3. janúar 2007, sem framsendi kæruna til samgönguráðuneytisins þann 6. febrúar 2008.

Með bréfi dags. 8. febrúar 2008, tilkynnti samgönguráðuneytið kæranda að það hefði móttekið erindi hans.
Með bréfi dags. 8. febrúar 2008, var kærða gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau þann 8. apríl 2008.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 8. apríl 2008 og bárust athugasemdir þann 26. maí 2008.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kærenda

Í stjórnsýslukæru kærenda kemur fram beiðni um að ráðuneytið taki mál þeirra og grunnskóla kærða til efnismeðferðar en kærendur kvörtuðu undan samskiptum og framkomu kennara dóttur þeirra við hana og kærendur. Töldu þau að skólayfirvöld myndu taka málið til athugunar og leiðbeina þeim kennara sem málið varðaði.

Kærendur telja að skólanefnd byggi niðurstöður sínar nær eingöngu á áliti Leifs Halvorsen, sálfræðings hjá Skólaskrifstofu Suðurlands, en hann tók viðtal við barnið 20. október 2006. Hvorugur kærenda var viðstaddur viðtalið þrátt fyrir að hafa óskað þess og telja þeir að þeir hafi ekki verið upplýstir um rétt þeirra til þess að vera viðstaddir slíkt viðtal. Sálfræðingurinn hafi einungis kynnt þeim lauslega hvað hafi komið út úr viðtalinu, en þeir hafi ekki fengið neina niðurstöðu skriflega né hafi þeim verið formlega kynnt niðurstaða samtals sálfræðingsins og barnsins.

Kærendur telja að með því að byggja á áliti sálfræðingsins þá sé sálfræðiálitið orðið grundvöllur stjórnsýsluúrskurðar og þar með orðið að stjórnsýslumáli er heyri þar af leiðandi undir stjórnsýslulög. Telja kærendur að bæði skólanefnd og skólasálfræðingur hafi brotið 13., 14., 15. og e.t.v. 21. gr. stjórnsýslulaga.

Þá telja kærendur fyrrgreindan sálfræðing hafa verið vanhæfan til þess að fjalla um málið sem stjórnsýslumál vegna fyrri afskipta hans af málefnum barnsins og náins samstarfs við kærða.

Kærendur benda á að lögmanni kennarans hafi verið afhent trúnaðargögn um barnið án vitneskju þeirra og kennaranum gefinn kostur á að gæta andmæla, en þeir hafi ekki fengið aðgang að umræddum andmælum. Kærendur telja að aðkoma lögmanns kennarans hafi haft afgerandi áhrif á niðurstöðu skólanefndarinnar og mótmæla þeim rökstuðningi kærða að ástæða þess að andmæli kennarans hafi ekki verið send þeim, hafi verið sú að slíkt hafi ekki verið talið breyta nokkru um niðurstöðu málsins. Kærendur telja það brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýslunnar að hafa hvorki fengið upplýsingar um andmælin, né fengið að tjá sig um þau áður en ákvörðun var tekin.

Þá gera kærendur athugsemd við það að leynd hafi hvílt yfir umræðum og atkvæðagreiðslu um málið hjá skólanefnd og þau hafi ekki þrátt fyrir beiðni þar um fengið slíkar upplýsingar.

IV. Málsástæður og rök kærða

Kærði telur að meðferð skólanefndar á beiðni kærenda hafi verið í fullu samræmi við stjórnsýslulög og leitað hafi verið allra leiða til þess að barn kærenda ætti ánægjulega skólagöngu.

Kærði segir að skólaefndin hafi samþykkt að fela sérfróðum aðilum að kanna málsástæður og í framhaldi af því hafi verið leitað til félagsmálastjóra kærða og sálfræðings á Skólaskrifstofu Suðurlands. Komið hafi í ljós að sálfræðingurinn hefði nýlega rætt við barnið að frumkvæði kærenda vegna áhyggna þeirra um slæma líðan þess í skólanum og ekki hafi þótt ástæða til þess að endurtaka viðtalið.

Kærði segir að andmæli kennarans hafi ekki verið send kærendum þar sem það hafi ekki þótt breyta neinu um efnisatriði málsins. Það hafi síðan verið orðið ljóst að áður en skólanefnd tók endanlega ákvörðun í málinu að kennarinn hafi verið farinn í veikindaleyfi. Kærendum hafi verið gert það ljóst og þau innt eftir því hvort þau vildu ekki að barnið sækti skólann þar sem umræddur kennari væri ekki lengur til staðar. Kærendur kusu að gera það ekki heldur sóttu um námsvist fyrir barnið utan lögheimilis sveitarfélags til bæjarráðs kærða.

Félagsmálanefnd kærða var falin afgreiðsla erindisins þar sem félagslegar aðstæður voru tilgreindar sem ástæða umsóknarinnar. Félagsmálanefndin samþykkti síðan umsóknina og bæjarráð staðfesti fundargerð félagsmálanefndar.
Kærði hafnar því að sálfræðingur sá sem kom að málinu hafi verið vanhæfur vegna fyrri afskipta að málefnum barnsins og náins samstarfs við grunnskóla kærða um árabil. Það sé hlutverk skólasálfræðings að leggja faglegt mat á það hvort barn eigi að byrja fyrr í skóla en venjulegt sé. Langsótt sé að sú vinna hafi á einhvern hátt litað afstöðu sálfræðingsins í þessu máli.

Kærði tekur fram vegna þeirra staðhæfingar kærenda að við málsmeðferð hafi ekki verið gætt 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga hvað tilkynningarskyldu og upplýsingarrétt varðar, þá hafi kærendur verið kallaðir á fund sálfræðingsins þar sem farið hafi verið yfir viðtal hans við barnið, mat hans á barninu og hvernig það upplifði kennara sinn. Kærendur fóru ekki fram á að fá greinargerð sálfræðingsins í hendur, en hefðu þau óskað þess hefðu þau að sjálfsögðu fengið hana afhenta.

Kærði tekur fram að sú gagnrýni kærenda að þeir hafi ekki fengið neinar upplýsingar um málsmeðferðina eigi ekki við rök að styðjast. Engin beiðni hafi borist frá þeim til skólanefndar þar sem óskað hafi verið eftir greinargerð vegna afgreiðslu nefndarinnar. Kærendum var send afgreiðsla skólanefndarinnar með bréfi dags. 12. desember 2006. Í fundargerð skólanefndar kemur fram að afgreiðslan hafi verið samhljóða og enginn fundarmaður lét bóka sérálit.

Kærði segir að afgreiðsla skólanefndar á erindi kærenda hafi byggst á afdráttarlausu áliti skólasálfræðingsins. Ákvörðun skólanefndar var að fengnu áliti fyrrnefnds skólasálfræðings og félagsmálastjóra kærða sú að ekki væri frekari aðgerða þörf að hálfu nefndarinnar.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Krafa kæranda er orðuð svo að ,,ráðherra ógildi úrskurð skólanefndar”. Ekki er um að ræða að skólanefnd hafi kveðið upp úrskurð í þessu máli. Aftur á móti ákvað nefndin eftir að hafa aflað sérfræðiálits og annarra gagna að aðhafast ekkert frekar í málinu. Ráðuneytið telur sýnt að það sé hin kærða ákvörðun.

Með sérstökum lagaheimildum hefur verið komið á fót eftirliti ráðherra eða annarra stjórnvalda ríkisins með sveitarfélögum landsins. Slíkar eftirlitsheimildir eru m.a. í 102. og 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Samkvæmt 103. gr. skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna og hefur ákvæðið verið túlkað á þann veg að ráðuneytið fjalli einkum um mál er varði stjórnvaldsákvarðanir, en stjórnvaldsákvörðun er ákvörðun stjórnvalds sem kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds. Almennt nær úrskurðarvald ráðuneytisins í slíkum málum yfir hina formlegu hlið, þ.e. hvort lögfestar sem ólögfestar reglur hafi verið virtar við afgreiðslu mála, en heimild þess nær ekki til þess að fjalla um efnisinnihald ákvarðana sveitarstjórna eða nefnda þeirra. Ráðuneytið lítur svo að skilyrðum þess að mál þetta sé tekið til meðferðar á grundvelli 103. gr. sé fullnægt og því beri skylda til að kveða upp úrskurð í málinu, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ljóst er að í máli þessu er það skólanefnd kærða sem er það stjórnsýsluvald sem tók þá ákvörðun sem um er deilt. Skv. 12. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995, skal í hverju skólahverfi vera starfandi skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða. Skal skólanefnd kosin af hlutaðeigandi sveitarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum og samþykktum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 13. gr. grunnskólalaga.

Við meðferð stjórnsýsluvalds er stjórnvald bundið af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar. Ber því að fara vel með það vald sem það hefur í krafti lögmætrar stöðu sinnar, en það er grundvallaratriði að athafnir stjórnvalds séu ávallt lögmætar og málefnalegar. Stjórnvaldi ber þannig skylda til að gæta þess að ákvarðanir þess séu ávallt byggðar á málefnalegum sjónarmiðum, jafnræðis sé gætt og að rétt sé staðið að undirbúningi og rannsókn þeirra mála sem það hefur til meðferðar. Gefa þarf aðilum máls kost á að gæta andmælaréttar auk þess sem stjórnvald þarf að vera meðvitað um leiðbeiningarskyldu sína og upplýsingarrétt aðila.

Beiðni kærenda til skólanefndar um aðgerðir vegna framkomu og samskipta kennara við barn þeirra kallaði á rannsókn nefndarinnar til þess að unnt væri að taka málefnalega ákvörðun í málinu, en í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Ljóst er að skólanefnd leitaði til fagaðila, þ.e. skólasálfræðings og félagsmálastjóra kærða áður en hún tók ákvörðun sína, en í bréfi skólanefndar kærða til kærenda kemur fram að afstaða nefndarinnar byggist á þessum álitum. Þá liggur fyrir að skólanefnd gaf þeim kennara sem vísað var til í bréfi kærenda kost á að koma að sjónarmiðum sínum vegna málsins, en þau voru ekki talin breyta neinu varðandi efnisatriði málsins og voru því ekki send kærendum. Ráðuneytið telur að það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að kærendur hefðu verið upplýstir um athugasemdir kennarans og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum teldu þeir tilefni til slíks, þó að vanræksla þess valdi því ekki að ákvörðunin sé ólögmæt, enda upplýst að skólanefndin byggði ákvörðun sína ekki á framkomnum andmælum kennarans heldur á áliti fagaðila.

Ráðuneytið telur að skólanefnd kærða hafi leitast við að afla upplýsinga áður en ákvörðun var tekin og hafi þannig uppfyllt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, þáttur í því var að óska sjónarmiða viðkomandi kennara og afhending ganga til lögmanns hans þáttur í því ferli. Ráðuneytið gerir þar af leiðandi ekki athugasemd við þá málsmeðferð.

Ljóst er að stjórnvald getur ekki farið með það vald sem það hefur í krafti lögmætrar stöðu sinnar að eigin geðþótta heldur er það bundið af kröfum stjórnsýsluréttarins um vandaða stjórnsýsluhætti, því að stjórnsýslan gæti kurteisi og tillitssemi í störfum sínum. Í fyrrgreindu bréfi skólanefndar kærða til kærenda kemur fram að afrit bréfsins var sent til fjögurra aðila, þ.e. félagsmálastjóra kærða, héraðsdómslögmanns, Skólaskrifstofu Suðurlands og grunnskóla kærða. Af gögnum málsins má sjá að lögmaðurinn., var lögmaður þess kennara sem málið snerti en honum var gefinn kostur á að koma að andmælum sínum vegna málsins. Ráðuneytið gerir þar af leiðandi ekki athugasemd við það að honum hafi verið sent afrit af ákvörðun skólanefndar. Ráðuneytið tekur hins vegar fram að þó svo að óskað hafi verið eftir áliti sérfræðinga til þess að skólanefnd gæti tekið ákvörðun í málinu, þá leiði slíkt ekki til þess að sérfræðingarnir verði aðilar máls sem veita beri á sérstakan hátt upplýsingar um málalok, enda ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til slíks.

Í 3. mgr. 46. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram sú meginregla að fundir nefnda skuli að jafnaði vera fyrir luktum dyrum og er ákvæði þetta áréttað í 52. gr. samþykkta um stjórn kærða og fundarsköp. Af ákvæðinu verður sú ályktun dregin að einungis kjörnir nefndarmenn hafi heimild til að sitja fundina ásamt framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, sbr. 55. gr. sveitarstjórnarlaga auk þeirra sem áheyrnarrétt eiga á grundvelli laga eða samþykkta sveitarstjórnar. Ráðuneytið telur að það sé í samræmi við ofangreinda meginreglu um að nefndarfundir séu að jafnaði haldnir fyrir luktum dyrum að ekki séu veittar upplýsingar um umræður eða atkvæðagreiðslu á slíkum fundum.

Það er mat ráðuneytisins með hliðsjón af aðstæðum öllum, atvikum málsins og gögnum þess, að ekkert það sé fram komið í málinu sem bendi til þess að skólasálfræðingurinn hafi haft einhverra einstaklegra og eða verulegra hagsmuna að gæta eða að fyrir hendi hafi verið einhver þau atvik eða aðstæður sem veitt geta vísbendingu að um vanhæfi skv. 3. gr. stjórnsýslulaga hafi verið um að ræða.

Ráðuneytið telur að það álit skólasálfræðingsins sem skólanefnd kærða kaus að byggja ákvörðun sína á sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2.mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, þar sem álitið er einungis liður í tiltekinni málsmeðferð en bindi ekki enda á viðkomandi stjórnsýslumál og fellst því ekki á rökstuðning kærenda að með því að byggja á áliti sálfræðingsins þá sé sálfræðiálitið orðið grundvöllur stjórnsýsluúrskurðar og þar með orðið að stjórnsýslumáli er heyri undir stjórnsýslulög.

Í greinargerð kærenda dags. 22. maí 2008, koma fram ýmsar spurningar og ný álitaefni þar sem óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins. Ráðuneytið telur ekki unnt að fjalla um þau álitaefni í úrskurði þessum enda snerta þau ekki kærumálefnið með beinum hætti og er ekki að sjá að þau hafi áhrif á niðurstöðu málsins.

Úrskurðarorð

Ákvörðun skólanefndar Hveragerðisbæjar dags. 11. desember 2006 um að aðhafast ekkert frekar í máli A og B er staðfest.


Unnur Gunnarsdóttir

Hjördís Stefánsdóttir





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta