Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vegagerðin - synjun útgáfu atvinnuleyfis til leigubifreiðaaksturs: Mál nr. 51/2008


Ár 2008, 6. október 2008 er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 51/2008

A

gegn

Vegagerðinni


I. Kæruaðild, kröfugerð og kærufrestur

Með erindi dags. 4. maí 2008 fór A (hér eftir nefndur kærandi) fram á að samgönguráðherra beiti sér fyrir því að hann fái á ný útgefið atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar en Vegagerðin hafði hafnað þeirri beiðni.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu og telst gagnaöflun lokið:

nr. 1. Erindi dags. 4. maí 2008.
nr. 2. Akstursmat dags. 6. maí 2008.
nr. 3. Læknisvottorð dags. 5. maí 2008.
nr. 4. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 15. maí 2008.
nr. 5. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 27. júní 2008.
nr. 6. Bréf ráðuneytisins til Vegagerðarinnar dags. 27. júní 2008.
nr. 7. Umsögn Vegagerðarinnar dags. 17. júlí 2008.
nr. 8. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 21. júlí 2008.
nr. 9. Bréf kæranda til ráðuneytisins dags. 5. ágúst 2008.
nr. 10. Bréf ráðuneytisins til Vegagerðarinnar dags. 11. ágúst 2008.
nr. 11. Bréf Vegagerðarinnar til ráðuneytisins dags. 29. ágúst 2008.
nr. 12. Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 10. september 2008.

Engin gögn fylgdu erindi kæranda til ráðuneytisins um höfnun Vegagerðarinnar á því að veita honum atvinnuleyfi á ný eða um samskipti kæranda við stofnunina að öðru leyti. Ráðuneytið lítur því svo á að Vegagerðin haft tekið munnlega stjórnvaldsákvörðun um höfnun á útgáfu atvinnuleyfis til handa kæranda enda gera stjórnsýslulög nr. 37/1993 (ssl.) ekki kröfu um að slíkar ákvarðanir séu í sérstöku formi svo sem skriflegar. Því beri að líta á erindi kæranda sem stjórnsýslukæru.

Þar sem hin kærða stjórnvaldsákvörðun var munnleg liggur ekki fyrir í gögnum málsins hvenær hún var tekin og þar með ekki upphaf kærufrests samkvæmt ssl. Ráðuneytið telur að vafa um þetta beri að skýra kæranda í hag enda hefur hann mikla hagsmuni af því að niðurstaða fáist í málinu. Ráðuneytið lítur því svo á að kæran hafi borist innan kærufrests samkvæmt 27. gr. ssl. enda hefur því ekki verið mótmælt af hálfu Vegagerðarinnar.

II. Málavextir

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru málavextir með þeim hætti að kærandi stundaði leigubifreiðaakstur allt frá árinu 1974. Liggur fyrir í málinu atvinnuleyfi til hans útgefið 3. desember 1984. Á það er árituð innlögn leyfis frá 1. júlí 1998 til 1. febrúar 2002 en á þeim tíma var kærandi bílstjóri forseta Íslands. Kærandi tók leyfi sitt út á ný þann 1. febrúar 2002 sbr. áritun á leyfið.

Þann 30. september 2007 er leyfi kæranda áritað um að hann sé hættur rekstri. Er upplýst í málinu að frá þeim tíma hafi hann hætt leiguakstri.

Kærandi óskaði eftir því við Vegagerðina, fyrrihluta árs 2008, að fá aftur atvinnuleyfi sitt útgefið auk þess sem hann var í símasambandi við ráðuneytið vegna málsins. Var kæranda bent á að hann uppfyllti ekki aldursskilyrði laganna og því ekki unnt að verða við beiðni hans.

Með kæru dags. 4. maí 2008 kærði kærandi höfnun Vegagerðarinnar á því að fá aftur útgefið það atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar sem hann hafði haft en gerði þau mistök að leggja inn og hætta akstri leigubifreiðar. Í kjölfarið áttu sér stað samskipti milli kæranda og ráðuneytisins símleiðis vegna málsins og skýrir það af hverju ekki var leitað umsagnar Vegagerðarinnar þegar eftir að kæran barst.

Óskað var umsagnar Vegagerðarinnar með bréfi dags. 21. júní s.l. og barst umsögnin þann 17. júlí. Kæranda var þann 21. júlí 2008 gefinn kostur á að gæta andmælaréttar og bárust andmæli hans þann 5. ágúst.

Vegna nýrrar kröfugerðar í andmælum kæranda taldi ráðuneytið rétt að leita eftir frekari umsögn Vegagerðarinnar og var það gert með bréfi dags. 11. ágúst 2008. Umsögnin barst ráðuneytinu 29. ágúst s.l. og var kæranda með bréf dags. 10. september s.l. gefinn kostur á að gæta andmælaréttar á ný en hann kaus að nýta ekki þann rétt.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda er að honum verði veitt á ný atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Kærandi kveðst hafa byrjað að aka leigubifreið árið 1974. Hann hafi starfað sem ráðherra- og forsetabílstjóri og samhliða ekið leigubifreið í frístundum án þess að gerðar væru athugasemdir við það.

Eftir að hann hætti sem forsetabílstjóri hafi hann haft leiguakstur að aðalatvinnu allt þar til hann lagði inn atvinnuleyfið og hætti leigubifreiðaakstri í september 2007.

Telur kærandi sig eiga rétt á að aka leigubifreið til loka 76 ára aldurs og vísar til reglugerðar um leiguakstur því til staðfestingar. Vísar kærandi til læknisvottorðs sem staðfestir heilsu og getu til að stunda starfið, auk yfirlýsingar löggilts ökukennara um hæfni.

Í andmælum kæranda kemur fram að hann sé ekki að fara fram á að fá atvinnuleyfið útgefið á ný heldur einungis leyfi til aksturs í forföllum, þ.e. til að leysa atvinnuleyfishafa af í fríi, veikindum eða um helgar. Ítrekar kærandi að ökuréttindi hans séu í besta lagi, heilsan frábær og vilji til að halda áfram að stunda það starf sem hann kann og hefur allan sinn starfsaldur unnið við.


IV. Málsástæður og rök Vegagerðarinnar

Af hálfu Vegagerðarinnar er vísað til þess að atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar falli úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 397/2003 um leigubifreiðar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar. Heimilt sé að framlengja leyfið til eins árs í senn þar til leyfishafi nái 76 ára aldri, að uppfylltum tilteknum skilyrðum og skuli sækja um slíka framlengingu til Vegagerðarinnar og skulu fylgja með nánar tilgreind gögn.

Vegagerðin kveður kæranda hafa hætt akstri leigubifreiðar þann 30. september 2007 og undirritað yfirlýsingu þess efnis og hafi ekki síðan nýtt leyfið. Vegagerðin kveður því hafa verið rétt að líta svo á að leyfið væri fallið úr gildi.

Í samræmi við framkvæmd í sambærilegum málum hafi kæranda verið tilkynnt um það þegar hann síðar hafði samband við Vegagerðina um möguleika á að framlengja leyfið, að ekki væri heimilt að framlengja leyfi sem hafði verið fellt niður. Afstaða Vegagerðarinnar er því að atvinnuleyfi kæranda hafi fallið úr gildi 30. september 2007.

Þá telur Vegagerðin að ef litið verði svo á að leyfið hafi ekki fallið úr gildi þann 30. september 2007 þá beri kæranda að sækja um framlengingu í samræmi við reglur sem um það gilda. Ekki hafi reynt á það álitaefni hvort beri að framlengja leyfið þar sem kærandi hafi ekki sótt um slíkt.

Í síðari umsögn sinni um þá kröfu kæranda að fá leyfi til aksturs leigubifreiðar í forföllum annarra atvinnuleyfishafa vísar Vegagerðin til þess að í 1., 4. og 6. tölul. 1. mgr. sbr. 2. mgr. 5. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001 séu tilgreind skilyrði sem uppfyllt skulu vera til að heimilt sé að veita leyfi til aksturs í forföllum. Segir þar m.a. að gerð sé sú krafa að viðkomandi sé 70 ára eða yngri sbr. þó undantekningu í 7. mgr. 9. gr. laganna um að heimilt sé að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri. Telur Vegagerðin að í ljósi þess að kæran barst til umsagnar stofnunarinnar nú þegar innan við 3 mánuðir eru til afmælisdags kæranda og læknisvottorð og staðfesting Umferðarstofu fylgja kærunni að rétt sé að líta svo á að af hálfu kæranda sé jafnframt sótt um framlengingu fyrra atvinnuleyfis og því varði umsögnin einnig það hvort skilyrði til framlengingar leyfisins kunni að vera fyrir hendi.

Í því sambandi bendir Vegagerðin á að kærandi hætti akstri leigubifreiðar sinnar þann 30. september 2007 og undirritaði yfirlýsingu þess efnis hjá stofnuninni. Síðan hafi hann ekki nýtt leyfið í samræmi við lagaákvæði þar um. Lögin um leigubifreiðar geri ekki ráð fyrir að heimilt sé að framlengja atvinnuleyfi sem áður hefur fallið niður. Með vísan til framangreinds og þess að leyfi kæranda var fellt niður 30. september 2007 og hafi þar af leiðandi ekki verið virkt um 7 mánaða skeið verði að telja að skilyrði framlengingar séu ekki lengur fyrir hendi og því ljóst að eitt hinna þriggja skilyrða sem tilgreind eru í 1., 4. og 6. tölul. 1. mgr., sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna er ekki uppfyllt. Álit Vegagerðarinnar er því, með hliðsjón af framangreindu, að ekki sé unnt að fallast á beiðni kæranda. Ekki sé því ástæða til að taka önnur skilyrði 5. gr. til umfjöllunar sérstaklega.


V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Eins og málið var lagt fyrir í upphafi var það um heimild til að fá á ný gefið út atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Við rekstur málsins varð hins vegar ljóst að álitaefnið varðar það hvort kærandi eigi rétt á að fá útgefið leyfi til aksturs leigubifreiðar í forföllum atvinnuleyfishafa en ekki að fá atvinnuleyfi sitt útgefið á ný. Umfjöllun ráðuneytisins mun því afmarkast við þá kröfugerð.

Leiguakstur er atvinnugrein sem bundin er atvinnuleyfum. Til að fá slíkt leyfi þarf að uppfylla tiltekin skilyrði og eru þau talin í 5. gr. laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar. Þar á meðal er skilyrði um að umsækjandi sé 70 ára eða yngri, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. Sú undanþága er þó veitt frá þessu í 7. mgr. 9. gr. að heimilt sé að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 76 ára aldurs teljist leyfishafi hæfur til að stunda leiguakstur, sbr. frekari ákvæði þar um í reglugerð nr. 397/2003.

Forfallaakstur er það þegar leyfishafa er heimilt að hafa leigubifreið sína í leiguakstri án þess að sinna akstri hennar sjálfur, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Slíkur akstur getur t.d. verið vegna orlofs og vaktaskipta á álagstímum. Gefnar eru út sérstakar undanþáguheimildir til handa atvinnuleyfishafa vegna slíks aksturs og ræður hann forfallabílstjóra til að sinna akstrinum.

Í 2. mgr. 5. gr. laganna segir að forfallabílstjóri skuli uppfylla skilyrði 1., 4. og 6. tölul. 1. mgr. Aldursskilyrðið gildir því um slíka bílstjóra sem og undanþágan sem þar er vísað til, þ.e. 76 ára aldur. Forfallabílstjórar þurfa því að mestu að uppfylla sömu skilyrði og atvinnuleyfishafar og fá leyfi útgefið af hálfu Vegagerðarinnar til staðfestingar á því.

Eins og að framan er rakið er það skýrt samkvæmt lögum nr. 134/2001 að meginreglan er að umsækjandi um leyfi til forfallaaksturs skal vera 70 ára eða yngri. Kærandi er fæddur í nóvember 1933 og uppfyllti því ekki aldursskilyrði þegar hann leitaði eftir slíku leyfi hjá Vegagerðinni.

Álitaefni máls þessa snýr að því hvort heimilt er að veita kæranda forfallaleyfi á grundvelli undanþágu 7. mgr. 9. gr. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til atvinnuleyfishafi nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leigubifreiðaakstur. Nánar má kveða á um þessi atriði í reglugerð.“

Um þetta atriði er nánar fjallað í 8. gr. reglugerðar nr. 397/2003 og er þar m.a. kveðið á um nánari útfærslu umsóknar og gögn sem fylgja þurfa umsókn. Nánar segir í 1. mgr. 8. gr. eftirfarandi:

„Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa, þ.e. daginn áður en hann nær 71 árs aldri. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til hann nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar trúnaðarlæknis Vegagerðarinnar.“

Í nefndu lagaákvæði sem og reglugerðarákvæðinu segir að heimilt sé að framlengja atvinnuleyfi. Ráðuneytið telur að orðalag þetta verði ekki skýrt á annan veg en að hér sé átt við atvinnuleyfi sem þegar er fyrir hendi og í gildi þegar sótt er um undanþáguna frá aldri. Viðkomandi verði því að hafa gilt atvinnuleyfi þegar hann sækir um framlengingu á grundvelli ákvæðisins. Telur ráðuneytið skýrt með vísan til 2. mgr. sbr. 6. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna að þetta eigi einnig við um forfallabílstjóra og verða þeir að hafa gilt leyfi sem slíkir til að geta sótt um undanþágu vegna aldurs samkvæmt 7. mgr. 9. gr. laganna.

Í tilviki kæranda er ljóst að hann hætti rekstri leigubifreiðar og skilaði inn leyfi sínu í september 2007 og er ekki deilt um það í málinu. Kærandi var því ekki með atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar né var hann með leyfi til aksturs sem forfallaökumaður þegar hann sótti um leyfi sem forfallaökumaður.

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga nr. 134/2001 um leigubifreiðar til að fá útgefið leyfi til aksturs sem forfallaökumaður.

Ú r s k u r ð a r o r ð


Kröfu A um að fá gefið út atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar í forföllum atvinnuleyfishafa, er hafnað.


Unnur Gunnarsdóttir

Svanhvít Axelsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta