Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Árborg - lögmæti málsmeðferðar við sölu lands og krafa um að gengið verði til samninga um kaup á landi: Mál nr. 49/2008

Ár 2008, 20. nóvember er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 49/2008

A

gegn

Sveitarfélaginu Árborg.

I. Aðild og kröfugerð

Með stjórnsýslukæru, dags 12. júní 2008, kærði Sigríður Vilhjálmsdóttir lögfr. f.h. A (hér eftir nefndur kærandi) afgreiðslu sveitarstjórnar Árborgar á erindi hans um kaup á leigulandi.

Er krafist úrskurðar ráðuneytisins um lögmæti málsmeðferðar Árborgar sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og þess krafist að ráðuneytið leggi fyrir Árborg að ganga til samninga við kæranda um að selja honum tiltekið leiguland á sömu kjörum og aðrar landspildur voru seldar á þegar kærandi óskað eftir kaupunum árið 1998.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu og telst gagnaöflun lokið:

nr. 1. Stjórnsýslukæra dags. 12. júní 2008, ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
a. Beiðni um kaup dags. 2.2.1998.
b. Tilkynning Eyrarbakkahrepps dags. 12.2.1998.
c. Ítrekuð beiðni dags. 24.10.2007.
d. Ákvörðun Árborgar dags. 10.4.2008.
e. Rökstuðningur Árborgar dags. 23.4.2008.

nr. 2. Bréf ráðun. til lögm. kæranda dags. 16. júní 2008.
nr. 3. Bréf ráðun. til Árborgar með beiðni um umsögn, dags. 16. júní 2008.
nr. 4. Umsögn Árborgar dags. 11. júlí 2008 ásamt eftirfarandi fylgigögnum:
a. Minnisblað um fund með kæranda 29.11.2007.
b. Beiðni til BP héraðsskjalavarðar um gögn, ásamt svari, í mars 2008.
c. Ljósrit úr fundargerðabók Eyrarbakkahrepps frá 22. 12. 1997.
d. Ljósrit afsals fyrir jörðinni B, dags. 29.12.1997.
e. Ljósrit makaskipaafsals dags. 8.6.1997.
f. Tölvupóstar milli MKH fv. sveitarstj. Eyrarbakkahrepps og ÁS, í mars 2008.
g. Bréf umboðsmanns Alþingis til Árborgar dags. 25.3.2008.
h. Svar Árborgar til umboðsmanns Alþingis dags. 1.4.2008.
i. Minnisblað bæjarritara Árborgar til bæjarráðs dags. 1.4.2008.
j. Leigusamn. um C 2, dags. 1.1.2005, ásamt uppdrætti.
k. Leigusamn. um C 1, dags. 1.1.2005, ásamt uppdrætti.
l. Afgreiðsla bæjarráðs Árborgar dags. 8.11.2007.
m. Afgreiðsla bæjarráðs Árborgar dags. 10.4.2007.

nr. 5. Bréf ráðun. til lögm. kæranda v. andmælaréttar dags. 16. júlí 2008.
nr. 6. Bréf lögm. kæranda til ráðun. dags. 24. júlí 2008.
nr. 7. Bréf ráðun. til lögm. kæranda dags. 28. júlí 2008.
nr. 8. Andmæli kæranda dags. 11. ágúst 2008.

II. Kærufrestur og kæruheimild

Framangreind kæra barst ráðuneytinu þann 12. júní 2008. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda 10. apríl 2008 og rökstudd í bréfi dags. 23. apríl 2008. Kæra er því innan kærufrests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæruheimild er í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.


III. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins eru málsatvik með eftirfarandi hætti.

Upphaf málsins er að rekja til þess að þann 8. júní 1997 var gengið frá sölu á ræktunarlöndunum D og E í makaskiptum við tilteknar eignir á Eyrarbakka. Með afsali dags. 29. desember 1997 var gengið frá sölu á jörðinni B í Eyrarbakkahreppi. Í báðum tilvikum var um að ræða land sem kaupendur höfðu haft á leigu hjá hreppnum.

Í kjölfarið óskaði kærandi eftir því við Eyrarbakkahrepp þann 2. febrúar 1998 að fá keypt tiltekin ræktunarlönd í eigu hreppsins sem hann hafði á leigu fyrir rófnarækt.

Hreppsnefnd Eyrarbakkahrepps ákvað á fundi þann 3. febrúar 1998 að fresta afgreiðslu erindisins um óákveðinn tíma og var það tilkynnt kæranda með bréfi þann 12. febrúar s.á.

Þann 7. febrúar 1998 var gengið til kosninga um sameiningu hreppsins við önnur sveitarfélög á svæðinu. Sú sameining var samþykkt og tók Árborg við réttindum og skyldum Eyrarbakkahrepps í júní 1998.

Gengið var frá endurnýjun leigusamninga um landspildurnar við kæranda þann 1. janúar 2005 til 31. desember 2025 að telja.

Kærandi óskaði eftir því við Árborg, með bréfi dags. 24. október 2007, að erindi hans frá 2. febrúar 1998 yrði tekið til afgreiðslu.

Á fundi bæjarráðs Árborgar þann 8. nóvember 2007 var ákveðið að fela bæjarritara og bæjarstjóra að ræða við kæranda. Sá fundur var haldinn þann 29. nóvember 2007 og þá m.a. bókað að gagna yrði aflað um sölu landa og erindinu yrði svarað að fenginni afstöðu bæjarráðs. Ýmis gagnaöflun fór síðan fram í kjölfarið.

Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir seinagangi við afgreiðslu erindis hans. Bréf umboðsmanns til Árborgar er dags. 25. mars 2008 og svar Árborgar 1. apríl 2008. Ekki liggja fyrir gögn um afgreiðslu umboðsmanns.

Bæjarritari Árborgar sendi bæjarráði Árborgar greinargerð um málið þann 1. apríl 2008.

Erindi kæranda um kaup á ræktunarlöndunum var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Árborgar þann 10. apríl 2008 þar sem lagt var til að því yrði hafnað og var tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum en einn sat hjá. Þá var bókað að vonandi væri slíkur dráttur á afgreiðslu einsdæmi og mikilvægt að öllum málum sé svarað svo fljótt sem verða má.

Kæranda var tilkynnt um ákvörðun bæjarráðs Árborgar með bréfi dags. 10. apríl 2008 og bent á rétt til að fá rökstuðning. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi sem barst með bréfi Árborgar 23. apríl 2008.

Kæra dags. 12. júní 2008 barst ráðuneytinu þann 16. júní 2008. Sama dag var móttaka kærunnar staðfest við kæranda og óskað umsagnar Árborgar um málið.

Umsögn Árborgar dags. 11. júlí 2008 barst ráðuneytinu þann 15. júlí 2008. Kæranda var með bréfi dags. 16. júlí 2008 gefinn kostur á að gæta andmælaréttar við umsögn Árborgar. Óskað var frekari frests til að skila andmælum með bréfi dags. 24. júlí 2008 og var frestur veittur með bréfi ráðuneytisins 28. júlí s.l. til 25. ágúst. Andmæli kæranda bárust síðan ráðuneytinu þann 13. ágúst 2008.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð og er hér með tekin til úrskurðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst úrskurðar um lögmæti málsmeðferðar Árborgar á erindi hans og að lagt verði fyrir Árborg að ganga til samninga við hann um sölu á landi á sömu kjörum og við sölu landspilda á þeim tíma þegar kærandi óskaði eftir kaupunum árið 1998.

Kærandi færir þau rök fyrir máli sínu að afgreiðsla á erindi hans sé í andstöðu við bæði stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlög. Megi leiða það af m.a. 1. mgr. 7. gr., 28. gr. og 2. og 3. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að sveitarstjórn skuli afgreiða þau erindi sem henni berast með eðlilegum hætti og innan eðlilegra tímamarka. Telur kærandi að sú óeðlilega frestun á afgreiðslu erindisins sé í andstöðu við sveitarstjórnarlög og einnig brot gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá telur kærandi endanlega synjun á sölu landsins vera ólögmæta samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Það beri að ljúka afgreiðslu sambærilegra mála með sambærilegum hætti og liggi fyrir að í tveimur sambærilegum málum er varða sölu á leigulöndum hafi löndin verið seld á afar hagstæðu verði. Verði ekki séð að rök Árborgar fyrir þeim sölum eigi við rök að styðjast eða sala landanna nauðsynleg, hvorki vegna skipulags né vegna mjólkurkvóta.

Fullljóst sé að einu rökin fyrir synjun á sölu til kæranda séu að ákvörðun hafi verið tekin um sameiningu sveitarfélaganna. Málið hafi hins vegar verið tekið fyrir áður en kosningin um sameiningu fór fram og því ekki hægt að fallast á að önnur sjónarmið eigi við um ákvörðun um sölu lands til kæranda en um sölu annarra landa á svæðinu.

Kærandi telur atvik með fullkomlega sambærilegum hætti við sölu allra eignanna. Því hafi verið um brot á jafnræðisreglunni að ræða þegar Árborg neitaði að afgreiða beiðni hans um kaup á leigulandinu með sama hætti og sambærileg mál höfðu áður verið afgreidd og telur auk þess synjunina ómálefnalega með öllu.

Þá tekur kærandi fram í andmælum sínum að ekki sé hægt að fallast á að sala á landinu til hans geti talist brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna eða að slík sala hafi slíkt fordæmisgildi að allir leigutakar lands í eigu Árborgar geti krafist þess að fá landið keypt. Til að svo sé þurfi tilvikin að vera sambærileg, þ.e. að erindi hafi verið sett fram á sama tíma og erindi kæranda kom fram, þ.e. í febrúar 1998.

Kærandi telur að sömu reglur eigi að gilda um meðferð erindis hans og giltu á Eyrarbakka á þeim tíma en ekki reglur Árborgar í dag. Þá hafi engar reglur gilt um að auglýsa þyrfti lönd, hvort sem var til leigu eða sölu og því ekki brot á jafnræði að selja land til kæranda nú án auglýsingar.

Þá fellst kærandi ekki á að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga hafi þau áhrif að ekki sé hægt að skylda sveitarfélög til að virða jafnræðisreglur í verki. Það sé því eðlilegt, verði niðurstaða ráðuneytisins að um sambærileg mál sé að ræða, að Árborg verði gert að selja landið til kæranda.

Kærandi kveðst ekki hafa vitað um umræddar sölur þegar hann gekk til endurnýjunar á leigusamningum og þess vegna ekki haft neinar ástæður til að gera athugasemdir. Hann hafi ekki fengið þá vitneskju fyrr en á árinu 2007. Því hafi hann ekki talið á sér brotið fyrr en þá, nema að því leyti að erindi hans hafði ekki verið svarað.

Kærandi telur rétt að benda á varðandi makaskiptin að umrædd hús hafi enn ekki verið rifin og því ekki séð að raunveruleg þörf hafi verið fyrir þau viðskipti. Þá telur kærandi að tryggja hefði mátt ábúendum mjólkurkvótann með öðrum hætti en selja þeim landið, í það minnsta hafi verið óþarft að selja þeim hluta þess.

Kærandi bendir á að hann hafi verið meðal þeirra fyrstu sem fengu land á leigu eða á árinu 1965 og því haft það á leigu í rösk 40 ár og nytjað allan þann tíma. Standi því enn sterkari rök til þess en ella að hann fái notið sömu stöðu og aðrir leigjendur sem fengu sín lönd keypt.

V. Málsástæður og rök Árborgar

Í umsögn Árborgar kemur fram að sveitarfélagið hafi tekið við réttindum og skyldum Eyrarbakkahrepps við sameiningu sveitarfélaga á svæðinu í júní 1998. Hafi verið kosið um sameininguna 7. febrúar það ár en ákvörðun um að ganga til sameiningarkosninga hafi verið tekin af hreppsnefndinni nokkru fyrr.

Árborg kveðst vera eigandi ríflega 1900 hektara lands sem um áraraðir hafi verið leigt út einkum til ræktunar og beitar. Mest allt landið liggi nærri þéttbýliskjörnum á Eyrarbakka og Stokkseyri en einnig í nágrenni Selfoss.

Það verklag sé viðhaft þegar leigulönd eru laus til úthlutunar að birta auglýsingu þess efnis og gefist áhugasömum kostur á að sækja um. Leitast sé við að fylgja sömu reglum þegar ákveðið hefur verið að selja land í eigu sveitarfélagsins, þ.e. auglýsa og leita tilboða. Telur Árborg þessar aðferðir tryggja jafnræði og taki mið af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 993/1994.

Árborg telur líklegt að það myndi brjóta í bága við jafnræðisreglur stjórnsýsluréttar ef landspildur væru seldar leigutökum án þess að öðrum gæfist kostur á að gera tilboð. Þá bendir Árborg á að hluta þess lands sem nú er leigt út sé ætlað annað hlutverk í framtíðarskipulagi sveitarfélagsins. Verði sveitarfélaginu gert að selja einum leigutaka landið sem hann hefur á leigu myndi það hafa fordæmisgildi gagnvart öðrum. Slík niðurstaða væri ótæk fyrir sveitarfélagið sem þá væri bundið við að ráðstafa landi í sinni eigu með tilteknum hætti. Myndi það hafa veruleg áhrif á uppbyggingu og skipulag í sveitarfélaginu til langrar framtíðar.

Telur Árborg ákvörðun um ráðstöfun lands í sinni eigu falla undir rétt sveitarfélags til að ráða málefnum sínum sjálft, þ.e. sjálfsstjórnarréttinn sem sé stjórnarskrárvarinn sbr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994. Hvergi sé í lögum kveðið á um skyldu sveitarfélags til að selja land með þeim hætti sem kærandi fer fram á og ekki sé kveðið á um forkaupsrétt eða kauprétt leigutaka í leigusamningnum. Þá bendir Árborg á að eignarréttur sveitarfélagsins á umræddu landi sé verndaður af stjórnarskránni og niðurstaða um skyldu til að selja landið myndi ganga gegn stjórnarskrárvarinni friðhelgi eignarréttarins.

Hvað varðar skýringar á töfum á afgreiðslu kveður Árborg ástæðu þess að málinu var frestað í upphafi hafi verið að búið var að taka ákvörðun um að ganga til kosninga um sameiningu sveitarfélaga og því hafi ekki þótt rétt að selja land í eigu hreppsins á þeim tímapunkti. Engar skýringar séu hins vegar á því af hverju erindið var ekki afgreitt eftir að sameiningu var lokið og megi væntanlega kenna því um að gögn hafi ekki skilað sér af skrifstofu hreppsins á nýja skrifstofu hins sameinaða sveitarfélags og sé það miður.

Árborg kveður ekki rétt með farið hjá kæranda að erindinu hafi ekki verið sinnt eftir að hann ítrekaði það í október 2007. Það komi skýrlega fram í gögnum málsins að erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs og í framhaldinu fundað með kæranda til að uppýsa málið betur. Þá hafi farið fram gagnaöflun í því skyni að upplýsa málið enn frekar og sinna rannsóknarskyldu en það hafi óhjákvæmilega tafið afgreiðslu málsins.

Þá bendir Árborg á að við endurnýjun leigusamninga við kæranda þann 1. janúar 2005 hafi hann ritað undir samningana án athugasemda um að erindi hans um kaup væri ósvarað en leiga var framlengd til ársins 2025.

Hvað varðar umbeðnar upplýsingar um sambærilegar sölur sé um að ræða sölu á tveimur landspildum, D og E, til aðila sem var leigutaki þeirra og jarðarinnar B til ábúanda hennar.

Hvað fyrri tvær spildurnar varðar hafi verið um makaskipti að ræða og hafi Árborg fengið ýmsar fasteignir til niðurrifs. Það hafi verið nauðsynlegt þar sem eignirnar voru inn á milli húsa á Eyrarbakka og niðurrifið nauðsynlegt vegna skipulags. Þá hafi B verið seld ábúanda í tengslum við að hann var að bregða búi og hafi verið litið svo á að óeðlilegt væri að hreppurinn ætti mjólkurkvóta jarðarinnar sem ábúandinn hafði byggt upp. Hafi honum því verið seld jörðin til að hann gæti ráðstafað mjólkurkvótanum án afskipta hreppsins.

Telur Árborg að aðstæður við þessar sölur hafi verið nokkuð sérstakar og að verði þeim ekki jafnað við beiðni kæranda í málinu og málin ekki sambærileg.

Árborg bendir á að þótt niðurstaðan verði sú að ekki hafi verið fylgt ítrustu reglum stjórnsýsluréttarins við sölu þessara landspilda, þ.e. án undanfarandi auglýsingar, þá réttlæti slík mistök ekki að Árborg selji lönd nú án slíkrar auglýsingar.

Vísar Árborg til þess að kærandi hafi einungis fært þau rök fyrir kröfu sinni að jafnræðisreglan hafi verið brotin með synjun á beiðni hans. Sú regla gildi í íslenskum rétti að hafi efni ákvörðunar sem lögð er til grundvallar við samanburð verið ólögmætt er ekki unnt að krefjast sambærilegrar úrlausnar með vísan til þeirrar ákvörðunar.

Árborg telur því ótæka þá kröfu kæranda að ráðuneytið leggi fyrir Árborg að ganga til samninga um sölu landsins á sömu kjörum og gert var árið 1998.

VI. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1. Álitaefni máls þessa varðar sölu á landi í eigu Árborgar til kæranda. Er annars vegar sett fram sú krafa af hálfu kæranda að ráðuneytið kanni lögmæti málsmeðferðar Árborgar á erindi hans þar sem farið er fram á að fá tiltekið land keypt og hins vegar að lagt verði fyrir Árborg að ganga til samninga við hann um sölu á landinu á sömu kjörum og við sölu tiltekinna landspilda á þeim tíma sem kærandi setti fram í upphaflegu erindi sínu.

2. Vegna kröfugerðar kæranda um að Árborg verði gert að ganga til samninga við hann um sölu á landinu telur ráðuneytið rétt að fjalla í upphafi um úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaganna.

Í 103. gr. sveitarstjórnarlaga segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Ákvæði þetta verður að skoða í ljósi 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaganna sem segir að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Þá kveður 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar á um að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Þessi ákvæði kveða á um svokallaðan sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og nær úrskurðarvald ráðuneytisins samkvæmt 103. gr. ekki til þess að breyta ákvörðunum sveitarstjórnar sem grundvallast á þeim rétti heldur einungis til að staðfesta þær eða ógilda.

Úrskurðarvald ráðuneytisins nær þannig aðeins yfir hina formlegu hlið máls, þ.e. hvort lögfestar eða ólögfestar reglur stjórnsýsluréttar hafi verið virtar við afgreiðslu þess en ekki efnisinnihaldið, þ.e. atriði sem byggja á hinu frjálsa mati. Skilyrði þess að ákvörðun verði ógilt er að á henni séu verulegir formgallar.

Ráðuneytið telur ótvírætt að ákvarðanir sveitarfélaga um ráðstöfun eigna sinna falli undir hinn stjórnarskrárvarða sjálfsstjórnarrétt þeirra, þ.á.m. ákvarðanir um hvort og þá hvaða lönd eigi að bjóða til sölu. Árborg hafi því átt fullnaðarákvörðun um hvort selja skyldi land í eigu sveitarfélagsins.

Af framangreindu leiðir að hafna verður kröfu kæranda um að lagt verði fyrir Árborg að ganga til sölu á landinu þar sem slík krafa á ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins.

3. Það sem kemur til skoðunar í máli þessu er málsmeðferð Árborgar við afgreiðslu á erindi kæranda dags. 2. febrúar 2008. Í því sambandi kemur til skoðunar hvort það hafi verið málefnalegt að fresta afgreiðslu þess á þeim tíma. Einnig hvort afgreiðsla erindisins, þ.e. synjun þess að selja kæranda landið, hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og hvort jafnræðis hafi verið gætt.

Ráðuneytið telur rétt í upphafi að fjalla um hvernig formlegri afgreiðslu bæjarráðs Árborgar á erindinu var háttað. Samkvæmt gögnum málsins var erindi kæranda tekið fyrir í bæjarráði Árborgar 10. apríl 2008. Í fundargerð er bókað eftirfarandi:

„3.0710121 – Erindi (..) A um kaup á landi við Eyrarbakka
Áður á dagskrá á 67. fundi bæjarráðs

Lagt var til að bæjarráð hafni erindi (..) A um kaup á (..) C I og II.
Tillagan var borin undir atkvæði og samþykkt með tveimur atkvæðum, Eyþór Arnalds, D-lista, sat hjá og gerði grein fyrir atkvæði sínu:
Vonandi er þessi dráttur á afgreiðslu einsdæmi. Mikilvægt er að öllum málum sé svarað svo fljótt sem verða má.

Kæranda var síðan tilkynnt um synjun bæjarráðs á erindi hans með bréfi þann sama dag.

Af bókuninni er ljóst að ekki var ágreiningur í byggðaráði um afgreiðslu erindisins enda engin atkvæði greidd á móti tillögunni. Bæjarráði var því heimil fullnaðarafgreiðsla erindisins sbr. 3. mgr. 39. gr. sveitarstjórnarlaga.

4. Eins og fram hefur komið lagði kærandi fram erindi til Eyrarbakkahrepps þann 2. febrúar 1998 þar sem hann óskað eftir því að fá keypt tiltekið land í eigu hreppsins sem hann hafði á leigu. Þá liggur fyrir að það sjónarmið lá til grundvallar þeirri ákvörðun um að fresta afgreiðslu erindisins að ákveðið hafði verið að ganga til kosninga um sameiningu sveitarfélaga á svæðinu. Við þær aðstæður hafi ekki þótt rétt að taka ákvörðun um sölu á eignum hreppsins.

Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa ákvörðun Eyrarbakkahrepps á sínum tíma og telur það sjónarmið sem lá að baki henni, að bíða með ákvarðanir um sölu eigna þar til sameiningarmál höfðu verið til lykta leidd, hafi verið málefnalegt í þessu tilviki.

Eins og fram kemur í gögnum málsins var sameining samþykkt og tók hið nýja sveitarfélag við réttindum og skyldum Eyrarbakkahrepps í júní 1998. Erindi kæranda var hins vegar ekki tekið til afgreiðslu eftir sameiningu og af gögnum málsins er ljóst að erindið týndist eða gleymdist í sameiningarferlinu þar sem nýtt sveitarfélag hafði engin gögn eða vitneskju um að það lægi fyrir. Ráðuneytið telur slík vinnubrögð verulega aðfinnsluverð enda mikilvægt að erindi séu afgreidd eins fljótt og auðið er.

Rétt þykir hins vegar að benda á að hvergi í gögnum málsins er að finna nokkuð um að kærandi hafi fylgt málinu eftir eða spurst fyrir um afgreiðslu þess hjá Árborg fyrr en á árinu 2007. Þá má benda á að leigusamningar við kæranda voru endurnýjaðir árið 2005 án þess að kærandi gerði reka að því að leita eftir afstöðu Árborgar til sölu á landspildunum eða fara fram á ákvæði um kauprétt í samningnum. Megi því líta svo á að kærandi eigi sjálfur að hluta til sök á því að svo langur tími leið þar til erindið var tekið til afgreiðslu hjá Árborg.

5. Þau álitaefni sem koma til skoðunar ráðuneytisins eru hvort synjun erindis kæranda þann 10. apríl 2008 hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum og jafnræðis verið gætt.

Kröfugerð kæranda byggist á því að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar leiði til þess að hann eigi rétt á að fá umrætt land keypt eins og aðrir sem fengu leigulönd sín keypt árið 1997. Þá telur hann að sömu reglur eigi að gilda um söluna til sín og giltu um slíkar sölur á þeim tíma, þ.e. á árinu 1997.

Upplýst er í málinu að tveir aðilar fengu leigulönd sín keypt á árinu 1997. Þá er upplýst að þau lönd voru ekki auglýst og að ákveðin sjónarmið hafi legið að baki því að selja leigutökum þessi tilteknu lönd.

Eins og að framan er rakið er það alfarið ákvörðun sveitarfélags hvort það selur land í sinni eigu og sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun ráðuneytisins. Úrskurðarvald ráðuneytisins nær til hinnar formlegu hliðar, s.s. hvort ákvæða stjórnsýslulaga hafi verið gætt og ákvörðun byggð á málefnalegum sjónarmiðum.

Í málinu liggur fyrir að lönd þau sem voru seld árið 1997 voru ekki auglýst til sölu áður en gengið var frá sölunni. Ekki er fyrir að fara lagareglum um útboðs- eða auglýsingaskyldu sveitarfélaga vegna sölu á löndum í þeirra eigu. Þrátt fyrir það og með vísan til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 993/1994, 3699/2003 og 4478/2005, telur ráðuneytið að þegar um úthlutun takmarkaðra gæða er að ræða, eins og sölu á landi, sé eðlilegt að þeirri meginreglu sé fylgt að þau séu auglýst til að öllum sem áhuga hafa sé gefið jafnt tækifæri til að gera tilboð. Slík regla sé enda best til þess fallin að tryggja jafnræði og gegnsæi í stjórnsýslu og uppfylli þannig grundvallarreglur stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti.

Ljóst er að þessarar málsmeðferðar var ekki beitt við sölu landanna árið 1997 og grundvallast kröfugerð kæranda m.a. á því að hann eigi þar með rétt á að fá landið keypt án þess að það sé auglýst. Ráðuneytið fellst ekki á þessa kröfu kæranda og telur að aðili geti aldrei byggt rétt sér til handa á ólögmætri málsmeðferð.

6. Þá byggir kærandi málatilbúnað sinn, um að jafnræðis hafi ekki verið gætt, á því að erindi hans um kaup á landi hafi ekki verið afgreitt með sambærilegum hætti og þær tvær sölur sem fram fóru árið 1997. Um sé að ræða fullkomlega sambærileg atvik og neitun á sölu til hans því ólögmæt og ómálefnaleg þar sem afgreiða beri sambærileg mál með sama hætti. Verður málatilbúnaður hans ekki skilinn á annan veg en svo, að af því að gengið var til sölu á leigulandi til tveggja leigutaka árið 1997 eigi hann sem leigutaki rétt á að sér verði selt sitt leiguland.

Eins og að framan er rakið telur ráðuneytið það alfarið ákvörðun sveitarfélagsins hvort það ákveður að selja land í sinni eigu, nema lög mæli fyrir um á annan hátt. Engum slíkum lagaákvæðum er fyrir að fara og í málatilbúnaði Árborgar kemur fram að landið sem kærandi fer fram á fá keypt er ekki til sölu. Leiðir af því, eðli málsins samkvæmt, að sé landið ekki til sölu er eðlilegt að beiðni um kaup á því sé synjað.

Þá liggur fyrir að sérstakar ástæður voru fyrir því að talið var nauðsynlegt að selja þessi tilteknu leigulönd árið 1997. Þótt hér sé um sölu á landi að ræða í öllum tilvikum telur ráðuneytið ekki að um sambærileg atvik sé að ræða. Þær sölur sem fram fóru 1997 voru af ákveðnum nánar tilgreindum ástæðum og var þar horft til bæði hagsmuna viðsemjenda og sveitarfélagsins að ganga til þessara samninga. Ráðuneytið telur ekkert hafa komið fram í málinu um að mál kæranda sé sambærilegt við þessi tvö tilvik, annað hvort eða bæði. Þá telur ráðuneytið ekkert hafa komið fram í málinu um að þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar þessum sölum, og lýst er í málatilbúnaði Árborgar, hafi verið ómálefnaleg eða ólögmæt.


Úrskurðarorð


Kröfu Sigríðar Vilhjálmsdóttur lögfr. f.h. A, um að sveitarfélaginu Árborg verði gert að selja honum löndin C I og C II er hafnað.

Málsmeðferð sveitarfélagsins Árborgar á erindi A er lögmæt.

Unnur Gunnarsdóttir

Svanhvít Axelsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta