Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Eyrarsveit - Álagning b-gatnagerðargjalds á viðbyggingu

Magnús Helgi Árnason hdl.                                10. nóvember 1997                                           97080060

Pósthólf 1568                                                                                                                                                  122

121 Reykjavík

 

 

             Þann 10. nóvember 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 20. ágúst 1997, kærði Magnús Helgi Árnason hdl., fyrir hönd Magnúsar Soffaníassonar, Hlíðarvegi 8, Grundarfirði, til félagsmálaráðuneytisins ákvörðun Eyrarsveitar um álagningu B-gatnagerðargjalda á viðbyggingu við Hlíðarveg 8, Grundarfirði.

 

             Erindið var sent til umsagnar hreppsnefndar Eyrarsveitar með bréfi, dagsettu 27. ágúst 1997. Eftir nokkrar ítrekanir barst umsögn hreppsnefndarinnar með bréfi, dagsettu 29. október 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Í nóvember 1996 barst Magnúsi Soffaníssyni reikningur frá Eyrarsveit þar sem krafist var greiðslu á A- og B-gatnagerðargjaldi vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við hús hans að Hlíðarvegi 8, Grundarfirði. Í desember 1996 greiddi hann álagt A-gatnagerðargjald en hafði áður óskað eftir skýringum vegna álagningar B-gatnagerðargjalds. Þær skýringar bárust honum aldrei frá Eyrarsveit. B-gatnagerðargjaldið greiddi hann ekki þar sem hann taldi þá álagningu ólögmæta. Í júlí 1997 barst honum hins vegar nýr reikningur frá Eyrarsveit þar sem krafist er greiðslu á B-gatnagerðargjaldinu. Í framhaldi af því sendi lögmaður hans bréf til Eyrarsveitar, dagsett 31. júlí 1997, þar sem beiðni um skýringar er ítrekuð. Þar sem svar barst ekki var málinu skotið til félagsmálaráðuneytisins með bréfi, dagsettu 20. ágúst 1997.

 

II.         Málsástæður.

 

             Kærandi heldur því fram að álagning B-gatnagerðargjalds í þessu tilviki sé andstæð ákvæðum 4. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975. Þar komi fram að heimilt sé að leggja á sérstakt gjald til að setja bundið slitlag á götur og til lagningar gangstétta “enda sé eigi lengri tími en fimm ár liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð”. Bundið slitlag og gangstétt hafi hins vegar verið sett á Hlíðarveg “fyrir í það minnsta 15 árum”.

 

             Í umsögn hreppsnefndar Eyrarsveitar segir m.a. svo:

             “Umrætt B-gatnagerðargjald er lagt á í þeirri trú að álagningin sé heimil og er hún reyndar í samræmi við það sem tíðkast hjá fjölmörgum sveitarfélögum landsins.

             Álagning B-gatnagerðargjalds í tilvikum sem þeim er hér um ræðir byggir m.a. á því sjónarmiði að jafnræði skuli ríkja milli húseigenda. Þannig hafi það ekki verið tilgangur laganna um gatnagerðargjöld að mismuna svo húseigendum við sömu götu að annar þeirra sleppi við að greiða B-gatnagerðargjöld af húsi sínu eða hluta húss síns af því að hann byggir eftir að 5 ár eru liðin frá því að bundið slitlag var lagt á götuna en sá húseigandi sem byggði hús sitt allt áður en bundið slitlag var lagt á götuna eða innan 5 ára frá lagningu slitlagsins verði hins vegar að greiða gatnagerðargjaldið. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að gatnagerðargjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við framkvæmdina sem báðir njóta til jafns.”

 

             Í áliti lögmanns Eyrarsveitar sem fylgdi með sem hluti umsagnarinnar segir síðan m.a. svo:

             “Í 4. gr. laga nr. 51/1974, um gatnagerðargjöld, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1975, er sú takmörkun m.a. sett á innheimtu svonefnds B-gatnagerðargjalds samkvæmt 3. gr. laganna, að ekki sé lengri tími en fimm ár liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð. Ákvæðið er í sjálfu sér afdráttarlaust um það, samkvæmt orðanna hljóðan, að heimild til innheimtu falli niður fimm árum frá því að framkvæmdum lauk. Þrátt fyrir þetta tel ég margt benda til þess að ekki beri að túlka lögin samkvæmt orðanna hljóðan, heldur miða við að um eiginlegt gildistökuákvæði laganna sé að ræða, sett að gefnu tilefni. Þannig hafi löggjafinn í reynd verið að setja hömlur á “afturvirkni álagningarheimildar” eins og hún var sett með lögum. Í þessu felst að efnisatriði ákvæðisins um fimm ár eiga einungis við um þær framkvæmdir, sem lokið var við gildistöku laganna.”

 

III.        Niðurstaða ráðuneytisins.

 

             Í 1. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 51/1974 er svohljóðandi ákvæði:

             “Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt, sem ráðherra staðfestir, að innheimta sérstakt gjald, sem varið skal til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur í sveitarfélaginu og til lagningar gangstétta.”

 

             Jafnframt segir svo í 4. gr. laganna, sbr. lög nr. 31/1975:

             “Gjald skv. 3. gr. má innheimta af öllum fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag hefur verið sett á og þar sem gangstéttir hafa verið lagðar, enda sé eigi lengri tími en fimm ár liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð. Má gjaldið nema allt að meðalkostnaði við þessar framkvæmdir.”

 

             Um álagningu B-gatnagerðargjalda í Eyrarsveit gildir ennfremur samþykkt um gatnagerðargjöld í Grundarfirði nr. 399/1975, sbr. aðallega 6., 7. og 9. gr. samþykktarinnar.

 

             Ráðuneytið telur ljóst að skýra beri ákvæði samþykktarinnar til samræmis við 4. gr. laganna, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 31/1975. Í 4. gr. laganna segir að innheimta megi gjaldið af öllum fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag hefur verið sett á og þar sem gangstéttir hafa verið lagðar, enda sé eigi lengri tími en fimm ár liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð. Við túlkun á ákvæði þessu ber fyrst og fremst að miða við orðalag þess sem er skýrt. Ráðuneytið getur ekki fallist á það sjónarmið í umsögn hreppsnefndar Eyrarsveitar að túlka beri lögskýringargögn á þann hátt að innheimtu gatnagerðargjalda skv. 4. gr. laganna megi miða við ártalið 1970. Ljóst er af orðalagi ákvæðisins að fimm ára tímamörkin eru miðuð við lok framkvæmdanna sjálfra en ekki við ártalið 1970, þ.e. fimm árum áður en lög nr. 31/1975 tóku gildi.

 

             Af gögnum málsins verður ráðið að bundið slitlag hafi verið lagt á Hlíðarveg “fyrir í það minnsta 15 árum” og á þeim tíma hafi verið innheimt gatnagerðargjöld vegna framkvæmdanna. Með hliðsjón af því að meira en fimm ár eru liðin frá lokum framkvæmdanna telur ráðuneytið að Eyrarsveit sé ekki heimilt að innheimta B-gatnagerðargjald vegna viðbyggingar Magnúsar Soffaníssonar á lóðinni nr. 8 við Hlíðarveg, Grundarfirði.

 

             Hvað varðar málsmeðferð Eyrarsveitar í máli þessu að öðru leyti vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

 

             Í 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni. Beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun skal bera fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt ákvörðunin og skal stjórnvald svara henni innan 14 daga frá því að hún barst.

 

             Í bréfi Magnúsar Soffaníassonar til Eyrarsveitar, dagsettu 15. nóvember 1996, er óskað eftir skýringum eða rökstuðningi vegna álagningar fyrrgreinds B-gatnagerðargjalds og í bréfinu kemur fram að reikningur vegna gjaldanna hafi borist honum “fyrir rúmri viku”. Er þessu ekki mótmælt af hálfu Eyrarsveitar og verður það því lagt til grundvallar í máli þessu.

 

             Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að Eyrarsveit hafi brotið 21. gr. stjórnsýslulaga við meðferð máls þessa, enda sendi sveitarfélagið kæranda aldrei skýringar eða rökstuðning vegna álagningar gjaldanna, þrátt fyrir sérstaka beiðni þar um.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Felld er úr gildi ákvörðun Eyrarsveitar um að innheimta B-gatnagerðargjald vegna viðbyggingar Magnúsar Soffaníssonar að Hlíðarvegi 8, Grundarfirði.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Eyrarsveitar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta