Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Bessastaðahreppur - Álagning gatnagerðargjalds á lóð. Skil milli nýrra og eldri laga um gatnagerðargjöld

Lögmannsstofan                                                    21. nóvember 1997                                           97090047

Klemenz Eggertsson hdl.                                                                                                                              122

Garðatorgi 5

210 Garðabær

 

             Þann 21. nóvember 1997 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

             Með erindi, dagsettu 5. september 1997, kærði Klemenz Eggertsson hdl., fyrir hönd Sveinbjörns Hrafns Sveinbjörnssonar, Miðskógum 13, Bessastaðahreppi, álagningu gatnagerðargjalds á lóð við Sólbarð, Bessastaðahreppi.

 

             Erindið var sent til umsagnar hreppsnefndar Bessastaðahrepps með bréfi, dagsettu 16. september 1997. Umsögn Jóhanns H. Níelssonar hrl., fyrir hönd hreppsnefndarinnar, barst með bréfi, dagsettu 3. október 1997.

 

             Ráðuneytið taldi ástæðu til að gefa kæranda kost á að tjá sig um framangreinda umsögn og var það gert með bréfi, dagsettu 9. október 1997. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dagsettu 21. október 1997. Í því bréfi komu fram nokkur ný atriði og var hreppsnefnd Bessastaðahrepps gefinn kostur á að gefa umsögn um þau atriði með bréfi, dagsettu 22. október 1997. Umsögn Jóhanns Níelssonar hrl., fyrir hönd hreppsnefndarinnar, barst síðan með bréfi, dagsettu 31. október 1997.

 

I.          Málavextir.

 

             Með bréfi, dagsettu 30. september 1996, sótti Sveinbjörn Hrafn Sveinbjörnsson um leyfi hreppsnefndar Bessastaðahrepps til þess að byggja íbúðarhús á lóð Smiðjunnar við Sólbarð. Í erindinu kom fram að þar sem núverandi stærð lóðarinnar væri of lítil þyrfti hún stækkunar við.

 

             Umsóknin var tekin til umfjöllunar á fundi hreppsnefndar þann 7. október 1996 og var samþykkt einróma að vísa erindinu til skipulagsnefndar.

 

             Þann 9. október 1996 var umsóknin tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar. Í fundargerð þess fundar segir svo um afgreiðslu málsins: “Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið og felur sveitarstjóra að afla upplýsinga hjá Skipulagsstjóra ríkisins um hvernig taka skuli á málinu skipulagslega. Niðurstöður liggi fyrir á næsta fundi.”

 

             Næsti fundur skipulagsnefndar var haldinn 23. október 1996. Á þeim fundi skýrði sveitarstjóri frá því að ekki hefði tekist að ná fundi með skipulagsstjóra ríkisins þar sem hann hefði verið erlendis. Síðan segir svo í fundargerðinni: “Skipulagsnefnd samþykkir fyrir sitt leyti að heimilað verði að reisa íbúðarhús á lóðinni enda samrýmist það gildandi aðalskipulagi. Skipulagsnefnd bendir á að til þess að ákvæða skipulagsreglugerðar um lágmarks stærð íbúðarlóðar verði gætt þarf að breyta lóðarmörkum og stækka lóðina.”

 

             Tveimur dögum síðar átti sveitarstjóri fund með skipulagsstjóra ríkisins og á fundinum kom fram sú afstaða skipulagsstjóra að heimild til nýbyggingar á lóðinni kallaði ekki á formlega breytingu á deiliskipulagi hverfisins, heldur væri nóg að fram færi grenndarkynning meðal íbúa í hverfinu.

 

             Málið var nú tekið fyrir á fundi hreppsnefndar þann 4. nóvember 1996. Var þar samþykkt einróma að fela skipulagsnefnd að láta vinna lóðarblað af íbúðarlóð við hlið Sólbarðs. Jafnframt var samþykkt að stefnt skyldi að því að lóðarblaðið lægi fyrir á næsta fundi hreppsnefndar.

 

             Á fundi skipulagsnefndar þann 6. nóvember 1996 var samþykkt “að leita til skipulagsarkitekta miðsvæðis um að setja fram tillögu að lóðarblaði fyrir næsta fund.”

 

             Tillaga arkitektanna var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar þann 20. nóvember 1996 og var samþykkt að arkitektarnir myndu leggja fram endanlegt lóðarblað á næsta fundi í samræmi við umræður og athugasemdir á fundinum.

 

             Á fundi skipulagsnefndar þann 27. nóvember 1996 var síðan tillaga að lóðarblaði samþykkt og henni vísað til hreppsnefndar.

 

             Hreppsnefndin fjallaði um málið á fundi sínum þann 9. desember 1996. Var þar einróma samþykkt eftirfarandi tillaga: “Þar sem um er að ræða nýbyggingu í þegar byggðu hverfi samþykkir hreppsnefnd að íbúum í nágrenni smiðjunnar skuli gefinn kostur á að tjá sig innan mánaðar um þá breytingu á lóð og notkun húss sem hér er lögð til. Sveitarstjóra er falið að senda málið í grenndarkynningu til íbúa við Höfðabraut og Miðskóga, þ.m.t. til íbúa í Seli, Gerði, Hofi, á Sólbarði og Hlein.”

 

             Með bréfi, dagsettu 11. desember 1996 var framangreindum aðilum kynnt hin fyrirhugaða nýbygging á lóðinni og var þeim gefinn kostur á að skila inn skriflegum athugasemdum til kl. 17.00 þann 9. janúar 1997.

 

             Málið var tekið fyrir á nýjan leik í hreppsnefnd þann 20. janúar 1997. Þar kom fram að engar athugasemdir hafi borist vegna grenndarkynningarinnar. Tekin var því til afgreiðslu umsókn Sveinbjörns Hrafns Sveinbjörnssonar frá 30. september 1996 og var samþykkt einróma svofelld tillaga: “Hreppsnefnd samþykktir fyrirliggjandi mæliblað ásamt skilmálum fyrir nýja lóð milli Hleinar og Sólbarðs. Jafnframt samþykkir hreppsnefnd að veita umsækjanda leyfi til að byggja íbúðarhús á lóðinni í samræmi við mæliblað, enda hafi umsækjandi áður tryggt sér eignarhald á lóðinni allri. Sveitarstjóra er falið að reikna út gatnagerðargjöld af lóðinni og tilkynna umsækjanda um þau.”

 

             Með bréfi, dagsettu 23. janúar 1997, var Sveinbirni Hrafni tilkynnt um framangreinda afgreiðslu hreppsnefndar.

 

             Tilkynning um útreikning gatnagerðargjalds var síðan send Sveinbirni Hrafni með bréfi, dagsettu 5. júní 1997, og var þar tekið fram að gatnagerðargjald yrði lagt á lóðina við veitingu byggingarleyfis á lóðinni.

 

             Þann 16. júní 1997 sótti Sveinbjörn Hrafn um byggingarleyfi á lóðinni og samþykkti byggingarnefnd Bessastaðahrepps umsóknina á fundi þann 23. júní 1997.

 

             Með bréfi, dagsettu 27. júní 1997, mótmælti Klemenz Eggertsson hdl. fyrirhugaðri álagningu gatnagerðargjalds. Á fundi þann 30. júní 1997 staðfesti hreppsnefndin hins vegar fyrrgreinda samþykkt byggingarnefndar, en frestaði álagningu gatnagerðargjalds vegna ágreinings.

 

             Sveinbirni Hrafni var send afgreiðsla á umsókn um byggingarleyfi með bréfi, dagsettu 3. júlí 1997, og var þar tekið fram að byggingarleyfi fyrir hús á lóðinni öðlist ekki gildi og að ekki sé heimilt að hefja framkvæmdir fyrr en tilteknum skilyrðum yrði fullnægt, þar á meðal að Sveinbjörn Hrafn tryggi sér eignarhald á lóðinni allri.

 

             Í framhaldi af þessu sendi Klemenz Eggertsson hdl., fyrir hönd Sveinbjörns Hrafns Sveinbjörnssonar, kæru til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 5. september 1997.

 

II.         Málsástæður kæranda.

 

             Í kærunni frá 5. september 1997 er tekið fram að framkvæmdir á veginum sem liggi við lóðarmörkin, nú Höfðabraut, hafi verið á vegum Vegagerðar ríkisins á sínum tíma og greiddur úr sýsluvegasjóði. Ljóst sé af aðstæðum að nánast engar gatnagerðarframkvæmdir þurfi að lóðinni.

 

             Kærandi telur að álagning þessa gatnagerðargjalds standist ekki ef látið verði reyna á hana fyrir dómstólum, þrátt fyrir orðalag laga nr. 17/1996. Hér sé í raun um þjónustugjald að ræða og fjárhæð þess verði að vera í samræmi við eðlilegan kostnað við að veita hana.

 

             Sveinbjörn Hrafn hafi sótt um byggingarleyfi í tíð eldri laga eða þann 30. september 1996, en hafi ekki fengið afgreiðslu á erindi sínu fyrr en á fundi hreppsnefndar þann 20. janúar 1997. Sú afgreiðsla hafi verið byggð á öllum sömu gögnum og upplýsingum sem fylgdu umsókn hans. Þessi dráttur sé óeðlilegur og eigi hann enga sök í því.

            

             Samkvæmt bréfi sveitarstjóra frá 23. janúar 1997 hafi byggingarleyfi verið veitt þann 20. janúar 1997, en það hafi getað gerst miklu fyrr ef erindi Sveinbjörns Hrafns hefði fengið eðlilega og skjóta afgreiðslu, t.d. hafi engin þörf verið á að vísa málinu til skipulagsstjóra.

 

             Kærandi telur að beita eigi reglum eldri laga um álagningu gatnagerðargjalds á lóðina og þá einungis kostnað við að malbika Höfðabraut meðfram lóðarmörkum og leggja gangstétt eða m.ö.o. leggja á B-gatnagerðargjald skv. 3. gr. eldri laga. Telur hann að þetta eigi stoð í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 17/1996.

 

             Í athugasemdum kæranda frá 21. október 1997 er bætt við að málinu hafi verið þvælt fram og til baka milli hreppsnefndar og skipulagsnefndar. Ennfremur er því haldið fram að til 3. júní 1997, þegar hreppsnefnd hafi samþykkt gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald í Bessastaðahreppi, hafi gatnagerðargjöld verið innheimt af fjölda lóða eftir eldri lögum og gjaldskrá. Hér sé því um að ræða “vítavert brot” á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Nefnd eru dæmi um átta lóðir sem svo sé ástatt um, þ.e. Vesturtún 39, Sjávargötu 33, Vesturtún 49a, Vesturtún 49b, Vesturtún 31, Vesturtún 42, Lambhaga 5 og Vesturtún 33.

 

III.        Málsástæður kærða.

 

             Í umsögn lögmanns hreppsnefndar Bessastaðahrepps frá 3. október 1997 er fjallað um kæruna í þremur hlutum, þ.e. um að nánast engar framkvæmdir þurfi við lóðina þar sem hún standi við fyrrverandi sýsluveg, um að óhóflegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu Bessastaðahrepps á umsókn Sveinbjörns Hrafns Sveinbjörnssonar og um að álagning á grundvelli laga nr. 17/1996 standist ekki 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996.

 

             Um þá málsástæðu að óhóflegur dráttur hafi orðið á hjá Bessastaðahreppi við afgreiðslu erindisins er tekið fram að um slíkt hafi ekki verið að ræða. Erindið hafi þvert á móti hlotið venjulega og vandaða stjórnsýslulega og skipulagslega málsmeðferð. Þegar umsóknin hafi borist hreppsnefndinni hafi lóðin ekki verið til sem slík, hún hafi ekki verið á deiliskipulagi og þá hafi einnig þurft að teikna hana upp á nýtt og samþykkja sem sérstaka lóð innan deiliskipulags. Þar sem um hafi verið að ræða fyrirhugaða breytingu á nýtingu lóðar ásamt nýbyggingu í þegar byggðu hverfi, hafi hreppsnefnd þótt rétt að höfðu samráði við skipulagsstjóra ríkisins að senda málið í grenndarkynningu. Um þá málsmeðferð er vitnað til gr. 4.1. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sbr. gr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, með síðari breytingum.

 

             Þá sé einnig ljóst að eftir að málið hafði hlotið viðeigandi skipulagslega og stjórnsýslulega meðferð, hafi loks verið hægt að taka ákvörðun í því og hafi sú ákvörðun verið tekin eins fljótt og unnt var. Ákvörðunin hafi hins vegar ekki eingöngu verið tekin á grundvelli þeirra gagna sem Sveinbjörn Hrafn lagði fram með umsókn sinni þann 30. september 1996, heldur hafi ákvörðunin einnig verið byggð á niðurstöðu grenndarkynningar og á grundvelli lóðarblaðs sem teikna þurfti í kjölfar umsóknarinnar. Einnig er vísað til þess að í umsókninni hafi sérstaklega verið tekið fram að þáverandi stærð lóðarinnar hafi verið of lítil og hún þyrfti því stækkunar við.

 

             Næst er í umsögninni vikið að þeirri málsástæðu að gjaldtaka á grundvelli laga nr. 17/1996 standist ekki 1. tölul. bráðabirgðaákvæðis sömu laga. Í tilvitnuðu ákvæði komi fram reglur laganna um lagaskil. Þegar málavextir séu nánar kannaðir komi í ljós að skilyrði hreppsnefndar fyrir gildistöku byggingarleyfis, þar á meðal það skilyrði að Sveinbjörn Hrafn hafi tryggt sér eignarhald á allri lóðinni, hafi enn ekki verið uppfyllt.

 

             Í 7. gr. laga nr. 17/1996 komi fram að lögin öðlist gildi 1. janúar 1997. Þegar 2. málsliður 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum sé skoðaður komi í ljós að hin eldri lög geti einungis átt við ef lóð hefur verið úthlutað eða byggingarleyfi verið veitt fyrir gildistöku nýju laganna og gildir því einu hvort framkvæmdir hafi verið hafnar á götum og gangstígum við lóðina. Af þessu leiði að þótt umsóknin hafi verið móttekin í tíð eldri laga sé Bessastaðahreppi ekki rétt að beita reglum eldri laga um álagningu gatnagerðargjalds á lóðina. Þvert á móti beri sveitarfélaginu að fylgja reglum nýrri laganna samkvæmt beinu orðalagi þeirra. Þá leiði eðlileg lagaskýring og túlkun á ákvæðinu einnig til sömu niðurstöðu.

 

             Að lokum er í umsögninni fjallað um þá málsástæðu að nánast engar framkvæmdir þurfi við lóðina þar sem hún standi við fyrrverandi sýsluveg. Tekið er fram í umsögninni að geta verði þess í þessu sambandi að íbúi í sveitarfélagi noti ekki einungis götuna og gangstíginn við sitt hús, heldur einnig aðrar götur og aðra gangstíga í nágrenninu, nýtur götulýsingar o.s.frv. Umræddu gatnagerðargjaldi sé því ekki einungis ætlað að standa undir kostnaði við að leggja götu og gangstíg við lóð Sveinbjörns Hrafns, heldur einnig við götur gangstíga, götulýsingu og umferðareyjar annars staðar innan hreppsins. Um þetta er vitnað til athugasemda með frumvarpi til laga um gatnagerðargjald. Því verði sú þjónusta greidd með því gatnagerðargjaldi sem Bessastaðahreppur muni innheimta vegna lóðarinnar samkvæmt beinni lagaheimild.

 

             Varðandi fullyrðingu kæranda um að eðli gatnagerðargjaldsins hafi ekkert breyst við setningu nýrra laga er vitnað til athugasemda við frumvarp til laga um gatnagerðargjald. Af ummælum í athugasemdum við 1. og 2. gr. sé ljóst að tilgangur löggjafans með setningu nýrra laga um gatnagerðargjald hafi verið sá að breyta eðli gatnagerðargjaldsins, að minnsta kosti á þann veg að gjaldið verði ekki miðað við ákveðnar götur heldur mun rýmra og þá miðað almennt við gatnagerðarframkvæmdir innan sveitarfélagsins.

 

             Þegar tekið sé tillit til framangreinds sé ljóst að innheimta Bessastaðahrepps á hinu fyrirhugaða gatnagerðargjaldi hafi beina lagastoð í lögum nr. 17/1996. Sveitarfélagið hafi ekki heimild til að víkja frá orðalagi laga sem sett eru á stjórnskipulegan hátt. Telja verði því að Bessastaðahreppur hafi enga heimild til að víkja frá innheimtu á hinu fyrirhugaða gatnagerðargjaldi eins og málsatvikum hér sé háttað.

 

             Í niðurstöðum í umsögninni er síðan tekið fram að af gögnum málsins sjáist að ekkert bendi til þess að málsmeðferð og afgreiðsla erindis Sveinbjörns Hrafns hafi verið óvenjuleg eða andstæð lögum. Afgreiðsla Bessastaðahrepps á erindi hans virðist þvert á móti hafa verið framkvæmd á réttan hátt miðað við rétta og vandaða stjórnsýsluhætti. Hvað varði útreikning og tilkynningu um innheimtu á gatnagerðargjaldi, þá verði að líta til þess að ný gjaldskrá um gatnagerðargjald hafi ekki legið fyrir fyrr en þann 2. júní 1997. Útreikningur hins fyrirhugaða gatnagerðargjalds hafi því ekki getað farið fram fyrr en eftir þann tíma og með hliðsjón af því verði ekki talið að töf hafi orðið á þeirri afgreiðslu málsins hjá Bessastaðahreppi.

 

             Í viðbótarumsögn lögmanns hreppsnefndar Bessastaðahrepps frá 31. október 1997 kemur meðal annars fram að mál Sveinbjörns Hrafns hafi ekki verið sent til skipulagsstjóra ríkisins heldur hafi skipulagsnefnd samþykkt á fundi sínum þann 9. október 1996 að afla upplýsinga hjá skipulagsstjóra um það hvernig taka bæri skipulagslega á málinu. Skipulagsnefnd hafi þótt full ástæða til þess að leita álits skipulagsstjóra á því hvort nefndinni væri stætt á því að láta einungis vinna lóðarblað af hinni nýju lóð og senda það í grenndarkynningu, eða hvort endurskoða þyrfti deiliskipulag hverfisins, sem teiknað var á árinu 1980. Það væri stærri stjórnsýsluaðgerð sem tæki mun lengri tíma í meðferð skipulagsyfirvalda. Markmið skipulagsnefndar með því að leita álits skipulagsstjóra hafi því ekki verið að tefja málið heldur hafi skipulagsnefndin sýnt vandaða stjórnsýslulega meðferð á málinu með því að reyna að flýta skipulagslegri meðferð þess.

 

             Hvað varðar ummæli um að málinu hafi verið þvælt fram og tilbaka milli hreppsnefndar og skipulagsnefndar er tekið fram að skipulagsnefnd sé einungis fagnefnd sem vinni í umboði sveitarstjórnar, en hreppsnefnd Bessastaðahrepps annist framlagningu skipulagstillagna og auglýsingar í sveitarfélaginu, sbr. 2. mgr. 18. gr. skipulagslaga, og tekur formlegar ákvarðanir um skipulagningu, að fengnu faglegu áliti skipulagsnefndar. Umrætt mál hafi tvisvar verið afgreitt frá skipulagsnefnd til hreppsnefndar og hafi lokaafgreiðsla hreppsnefndar byggt á þeirri vinnu. Ekki verði því sé að þessi ummæli kæranda eigi við rök að styðjast.

 

             Í umsögninni er ennfremur fjallað um meint brot á jafnræðisreglu við álagningu gatnagerðargjalda. Fram kemur að álagning gatnagerðargjalda vegna lóðanna við Vesturtún 49a og 49b hafi farið fram með bréfi, dagsettu 9. ágúst 1996, vegna lóðarinnar Vesturtún 42 með bréfi, dagsettu 9. október 1996, vegna lóðarinnar Vesturtún 39 með bréfi, dagsettu 10. desember 1996, vegna lóðarinnar Vesturtún 31 með bréfi, dagsettu 10. desember 1996 og vegna lóðarinnar Sjávargötu 33 með bréfi, dagsettu 10. desember 1996. Frá álagningu gatnagerðargjalds á lóðina Lambhaga 5 hafi verið gengið fyrir 1990 en lóðin hafi hins vegar ekki verið byggð fyrr en á þessu ári. Lóðinni við Vesturtún 33 hafi hins vegar ekki verið úthlutað fyrr en á fundi hreppsnefndar þann 10. febrúar 1997.

 

             Jafnframt er tekið fram að um íbúðahverfið við Vesturtún hafi verið gerður ákveðinn samningur við landeigendur á árinu 1993. Í honum hafi verið kveðið á um að sveitarfélagið myndi sjá um úthlutun lóða við Vesturtún og leggja gatnagerðargjald á væntanlega lóðarhafa eftir því sem lóðir byggðust. Deiliskipulagningu Vesturtúns hafi verið lokið á árinu 1994 og í febrúar það ár hafi úthlutun lóða við Vesturtún hafist. Frá þeim tíma hafi verið innheimt gatnagerðargjald þar af hverri lóð í áföngum, sem nemi kostnaði við uppbyggingu gatnakerfis og lagna tilheyrandi hverfinu, eins og hann var áætlaður á sínum tíma. Vitnað er til 2. tölul. bráðabirgðaákvæðis í lögum nr. 17/1996 og tekið fram að samningur Bessastaðahrepps við landeigendur í Vesturhúsahverfi hafi því verið bindandi fyrir sveitarstjórnina varðandi álagningu gatnagerðargjalds á lóðir í hverfinu þangað til úthlutun lauk. Um mismunun eða brot á jafnræðisreglu hafi því ekki verið að ræða varðandi umfjöllun um lóðina við Sólbarð.

 

IV.       Niðurstöður ráðuneytisins.

 

             Í upphafi er rétt að taka fram að félagsmálaráðuneytið hefur ekki úrskurðarvald um hvort fylgt hafi verið ákvæðum laga og reglugerða um skipulags- og byggingarmál. Hins vegar gengur ráðuneytið út frá þeirri forsendu við úrlausn máls þessa að þeim reglum hafi verið fylgt, fyrst og fremst reglum í gr. 4.1. í skipulagsreglugerð nr. 318/1985, sbr. gr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992, með síðari breytingum, enda liggur ekkert annað fyrir í málinu.

 

             Þann 1. janúar 1997 öðluðust gildi lög um gatnagerðargjald nr. 17/1996. Í 1. mgr. 1. gr. þeirra laga segir svo:

             “Sveitarstjórn er heimilt að innheimta gatnagerðargjald af öllum lóðum í sveitarfélaginu og/eða mannvirkjum á þeim. Gatnagerðargjald er fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar, sem er í eigu sveitarfélagsins eða sveitarfélagið hefur ráðstöfunarrétt á, og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum. Sveitarstjórn ákveður í gjaldskrá sinni hvenær gjaldið er innheimt.”

 

             Í 2. gr. sömu laga segir síðan að gatnagerðargjaldi skv. 1. gr. skuli varið til gatnagerðar í sveitarfélaginu, svo sem til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum, m.a. vegna götulýsingar, og leggja bundið slitlag, gangstéttir, umferðareyjar og þess háttar þar sem gert er ráð fyrir því í skipulagi.

 

             Að auki segir svo í ákvæði til bráðabirgða við lögin:

“1.        Lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974 sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laga þessara. Ákvæði eldri laga um álagningu gjalda vegna slíkra framkvæmda gilda einungis um lóðir sem úthlutað hefur verið eða veitt hefur verið byggingarleyfi á fyrir gildistöku laga þessara.

2.          Samningar um gatnagerðargjöld af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við sveitarstjórnir, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjöld sem sveitarstjórn hefur sett og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur undirgengist, halda gildi sínu þrátt fyrir ákvæði laga þessara, nema aðilar séu um annað sáttir.”

 

             Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu sótti Sveinbjörn Hrafn Sveinbjörnsson þann 30. september 1996 um leyfi til að byggja íbúðarhús á lóð Smiðjunnar við Sólbarð í Bessastaðahreppi. Aðila málsins greinir ekki á um að á þeim tíma hafi verið ljóst að lóðin var of lítil og þyrfti stækkunar við. Í slíkum tilvikum ber að fylgja ákvæðum skipulagslaga og skipulagsreglugerðar. Þessu ferli lauk með því að hreppsnefnd Bessastaðahrepps samþykkti á fundi sínum þann 20. janúar 1997 stækkunina á lóðinni og að Sveinbjörn Hrafn fengi leyti til að byggja þar íbúðarhús.

 

             Þann 5. júní 1996 er Sveinbirni Hrafni ritað bréf þar sem tilkynnt var um útreikning á fyrirhuguðu gatnagerðargjaldi vegna lóðarinnar. Í bréfinu kom fram að gatnagerðargjaldið yrði lagt á lóðina við veitingu byggingarleyfis.

 

             Síðan sækir Sveinbjörn Hrafn um byggingarleyfi þann 16. júní 1997 og er byggingarleyfið veitt af hreppsnefnd þann 30. sama mánaðar, sbr. bréf dagsett 3. júlí 1997.

 

             Í áðurgreindri 1. mgr. 1. gr. laga um gatnagerðargjald kemur fram hvenær gatnagerðargjald er fyrst gjaldkræft. Í máli þessu er um að ræða lóð sem er ekki í eigu sveitarfélagsins og sveitarfélagið hefur heldur ekki ráðstöfunarrétt á henni. Samkvæmt því er gatnagerðargjald vegna lóðarinnar ekki gjaldkræft fyrr en við útgáfu byggingarleyfis.

 

             Ljóst er að hreppsnefnd Bessastaðahrepps samþykkti að byggt yrði á lóðinni þann 20. janúar 1997 og samþykkti síðan byggingarleyfi þann 30. júní 1997, sbr. bréf Bessastaðahrepps, dagsett 3. júlí 1997. Í byggingarleyfinu koma einnig fram skilyrði sem leyfishafi þarf að uppfylla áður en það öðlast gildi.

 

             Rétt er að taka fram í þessu sambandi að með gildistöku laga nr. 17/1996 varð sú breyting að gatnagerðargjald er nú ekki tengt við tiltekna framkvæmd við þá götu sem viðkomandi fasteign er. Um þetta má vitna til athugasemda við 2. gr. frumvarps til laga um gatnagerðargjald, en þar segir m.a. svo: “Samkvæmt grein þessari er ráðstöfun gatnagerðargjaldsins ekki bundin við gerð gatna við þær lóðir sem gatnagerðargjald er innheimt af. Ekki er lengur talin þörf á eða eðlilegt að binda ráðstöfun gatnagerðargjalds við tilteknar götur í sveitarfélaginu.”

 

             Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að um álagningu gatnagerðargjalds af umræddri lóð beri að fara eftir reglum laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996, enda heimila lögin ekki að reglum eldri laga verði beitt um lóðir sem úthlutað er eða veitt er byggingarleyfi á eftir gildistöku laganna, nema sérstakir samningar hafi verið í gildi um annað, sbr. 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við lögin. Slíkum samningi var ekki til að dreifa varðandi umrædda lóð og ber þar af leiðandi að fylgja reglum laga nr. 17/1996 samkvæmt skýru orðalagi þeirra.

 

             Hvað varðar meint brot á jafnræðisreglu varðandi átta lóðir sem tilgreindar eru í kafla II hér að framan um málsástæður kæranda skal eftirfarandi tekið fram:

 

             Fram kemur í gögnum frá hreppsnefnd Bessastaðahrepps að um lóðir við Vesturtún hafi verið gerður sérstakur samningur á árinu 1993 um álagningu gatnagerðargjalda. Í 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 17/1996 segir að samningar um gatnagerðargjöld af tilteknum lóðum, sem lóðarhafar eða lóðareigendur hafa gert við sveitarstjórnir, svo og skilmálar varðandi gatnagerðargjöld sem sveitarstjórn hefur sett og lóðarhafi eða lóðareigandi hefur undirgengist, haldi gildi sínu þrátt fyrir ákvæði laga nr. 17/1996, nema aðilar séu um annað sáttir. Með vísan til þess verður að telja að Bessastaðahreppur sé bundinn af framangreindum samningi um lóðir við Vesturtún, enda hafa aðilar þess samnings ekki samið um annað.

 

             Gatnagerðargjöld vegna lóðarinnar við Lambhaga 5 voru lögð á fyrir 1990 og gatnagerðargjöld vegna lóðarinnar Sjávargötu 33 voru lögð á í desember 1996, en þá giltu lög um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að álagning gjalda á þessar lóðir hafi verið í samræmi við lög nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, og reglugerð um gatnagerðargjöld í Bessastaðahreppi nr. 521/1980, sbr. reglugerð nr. 55/1983

 

             Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki hafi verið sýnt fram á að Bessastaðahreppur hafi brotið jafnræðisreglu við álagningu gatnagerðargjalds á lóðina við Sólbarð á árinu 1997.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

             Ákvörðun Bessastaðahrepps um álagningu gatnagerðargjalds á lóð við Sólbarð í Bessastaðahreppi er gild.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Ljósrit:  Hreppsnefnd Bessastaðahrepps.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta